Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna?

Þorgerður Þorvaldsdóttir (1968-2020)

Hugmyndir um mannlegt eðli, og þá hugsanlega ólík og jafnvel ósættanleg eðli karla og kvenna, eru ævagamlar. Þær gengu jafnvel svo langt að fela í sér að nánast væri um tvær aðgreindar tegundir fólks að ræða. Tvíhyggjuhugmyndir af þessu tagi hafa einkennt vestræna hugsun allt frá Grikklandi hinu forna og fram á þessa öld. Körlum var þannig eignaður stærri og öflugri heili, enda voru rökhugsun og skynsemi taldar séreign karla. Konur stjórnuðust hinsvegar af tilfinningum frekar en skynsemi, heili þeirra var álitinn vanþroska og lítils megnugur og þær því tengdar líkama (móðurlífi) frekar en anda og sál. Talið var að barnastúss og heimilishald væru sniðin að eðlislægri umhyggjuhvöt kvenna en rökvíst karleðlið gerði stjórnun og valdabrölt í bland við óhefta veiðihvöt að “eðlilegum” hluta karlmennskunar. Höfuðandstæðurnar, karl og kona, urðu því að koma saman og fullkomna hvort annað í heilögu hjónabandi.

Það var hinsvegar ekki fyrr en á sjötta og sjöunda áratug liðinnar aldar að femínistar höfnuðu á róttækan hátt öllum hugmyndum um “eðli” kynjanna, og beindu sjónum sínum þess í stað að menningar- og félagsbundinni kynjamótun. Talsmenn mótunarhyggju halda því fram að kynjamunur sé fyrst og síðast félagslegt sköpunarverk, eitthvað sem hefur orðið til og er viðhaldið í samfélagi við annað fólk, en ekki eðlislægt fyrirbæri. Þú fæðist kvenkyns (eða karlkyns) en það er samfélagið sem gerir þig að konu (eða karli).

Slík samfélagsmótun á sér stað allt í kringum okkur, innan fjölskyldunnar, vinahópsins, í fjölmiðlum, skólakerfinu, á vinnumarkaði og svo framvegis. Kynjamótunin er sívirk og ein fyrsta birtingarmynd hennar er þegar kornabörn fá bleik eða blá armbönd á fæðingardeildinni. Upp frá því mótar vitundin um kyn alla framkomu og viðhorf til barnsins. Strákum er þannig hrósað fyrir hvað þeir eru stórir og sterkir en stelpur eru hvattar til að vera sætar og fínar.

Andstæðupörin kyn og kyngervi ("sex" og "gender") eru hér lykilhugtök. Kyn vísar til líffræðilegs kyns en kyngervi er notað um þá menningarbundnu merkingu sem samfélagið leggur í hið líffræðilega kyn, það er væntingar um karlmennsku og kvenleika. Þannig hefur hvert samfélag ákveðnar væntingar um hvað það þýði að vera karl eða kona, um verksvið og skyldur kynjanna og það hvernig konur og karlar eigi að líta út og hegða sér.

Það voru einmitt mannfræðingar sem ruddu mótunarhyggjunni braut á sínum tíma með því að benda á að kynhlutverk og það sem kallað hafði verið “eðli kynjanna” var ákaflega breytilegt frá einu samfélagi til annars. Hugmyndir um kynjabundinn mun og æskilega hlutverkaskiptingu milli karla og kvenna finnast alls staðar en þær eru breytilegar frá einu samfélagi til annars. Niðurstaðan var því sú að karl- eða kven-”eðli” væri menningarleg afurð en ekki óbreytanlegt náttúrufyrirbæri sem hægt væri að ganga að, óháð samfélagsgerð.

Þrátt fyrir röksemdir mótunarsinna eru hverskyns hugmyndir um eðlislægan kynjamun ótrúlega lífseigar í dægurmenningu. Má þar nefna metsölubækur sem ganga út á það að kynin tvö komi hvort frá sinni plánetu og eigi fátt sameiginlegt. Þá fjallaði leikritið Hellisbúinn, sem sýnt var við metaðsókn hér á landi, á klisjukenndan hátt um þá árekstra sem óhjákvæmilega myndast þegar “karl- og kveneðlið” rekast á.

Það sem er hinsvegar horft fram hjá í öllu tali um karl- og kveneðli er margbreytileiki mannfólksins. Þvert ofan á allan kynjamun kemur breitt litróf einstaklinga sem falla engan veginn inn í svarthvítt tveggja flokka kerfi. Það að dæma stöðu, hlutverk, hegðun eða útlit einstaklinga, rétt eða rangt, viðeigandi eða óviðeigandi, eftir því hvort manneskjan sem um ræðir er karl eða kona er bæði heftandi og niðurnjörvandi fyrir einstaklingana og fyrir samfélagið þýðir það sóun á mannauði. Þess vegna er nauðsynlegt að tryggja félagslegt svigrúm svo að fólk geti fundið sér réttan bás í litrófi samfélagsins, óháð stöðluðum hugmyndum um “eðli kynjanna.”


Þetta svar er samið frá sjónarhóli kynjafræðings. Heimspekingur hefur einnig fjallað um sömu spurningu á Vísindavefnum, sjá svar Ástu Kristjönu Sveinsdóttur. -- Ritstjórn.

Höfundur

Útgáfudagur

3.11.2000

Síðast uppfært

22.5.2019

Spyrjandi

Ólafía Svansdóttir

Tilvísun

Þorgerður Þorvaldsdóttir (1968-2020). „Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna?“ Vísindavefurinn, 3. nóvember 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1084.

Þorgerður Þorvaldsdóttir (1968-2020). (2000, 3. nóvember). Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1084

Þorgerður Þorvaldsdóttir (1968-2020). „Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna?“ Vísindavefurinn. 3. nóv. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1084>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna?
Hugmyndir um mannlegt eðli, og þá hugsanlega ólík og jafnvel ósættanleg eðli karla og kvenna, eru ævagamlar. Þær gengu jafnvel svo langt að fela í sér að nánast væri um tvær aðgreindar tegundir fólks að ræða. Tvíhyggjuhugmyndir af þessu tagi hafa einkennt vestræna hugsun allt frá Grikklandi hinu forna og fram á þessa öld. Körlum var þannig eignaður stærri og öflugri heili, enda voru rökhugsun og skynsemi taldar séreign karla. Konur stjórnuðust hinsvegar af tilfinningum frekar en skynsemi, heili þeirra var álitinn vanþroska og lítils megnugur og þær því tengdar líkama (móðurlífi) frekar en anda og sál. Talið var að barnastúss og heimilishald væru sniðin að eðlislægri umhyggjuhvöt kvenna en rökvíst karleðlið gerði stjórnun og valdabrölt í bland við óhefta veiðihvöt að “eðlilegum” hluta karlmennskunar. Höfuðandstæðurnar, karl og kona, urðu því að koma saman og fullkomna hvort annað í heilögu hjónabandi.

Það var hinsvegar ekki fyrr en á sjötta og sjöunda áratug liðinnar aldar að femínistar höfnuðu á róttækan hátt öllum hugmyndum um “eðli” kynjanna, og beindu sjónum sínum þess í stað að menningar- og félagsbundinni kynjamótun. Talsmenn mótunarhyggju halda því fram að kynjamunur sé fyrst og síðast félagslegt sköpunarverk, eitthvað sem hefur orðið til og er viðhaldið í samfélagi við annað fólk, en ekki eðlislægt fyrirbæri. Þú fæðist kvenkyns (eða karlkyns) en það er samfélagið sem gerir þig að konu (eða karli).

Slík samfélagsmótun á sér stað allt í kringum okkur, innan fjölskyldunnar, vinahópsins, í fjölmiðlum, skólakerfinu, á vinnumarkaði og svo framvegis. Kynjamótunin er sívirk og ein fyrsta birtingarmynd hennar er þegar kornabörn fá bleik eða blá armbönd á fæðingardeildinni. Upp frá því mótar vitundin um kyn alla framkomu og viðhorf til barnsins. Strákum er þannig hrósað fyrir hvað þeir eru stórir og sterkir en stelpur eru hvattar til að vera sætar og fínar.

Andstæðupörin kyn og kyngervi ("sex" og "gender") eru hér lykilhugtök. Kyn vísar til líffræðilegs kyns en kyngervi er notað um þá menningarbundnu merkingu sem samfélagið leggur í hið líffræðilega kyn, það er væntingar um karlmennsku og kvenleika. Þannig hefur hvert samfélag ákveðnar væntingar um hvað það þýði að vera karl eða kona, um verksvið og skyldur kynjanna og það hvernig konur og karlar eigi að líta út og hegða sér.

Það voru einmitt mannfræðingar sem ruddu mótunarhyggjunni braut á sínum tíma með því að benda á að kynhlutverk og það sem kallað hafði verið “eðli kynjanna” var ákaflega breytilegt frá einu samfélagi til annars. Hugmyndir um kynjabundinn mun og æskilega hlutverkaskiptingu milli karla og kvenna finnast alls staðar en þær eru breytilegar frá einu samfélagi til annars. Niðurstaðan var því sú að karl- eða kven-”eðli” væri menningarleg afurð en ekki óbreytanlegt náttúrufyrirbæri sem hægt væri að ganga að, óháð samfélagsgerð.

Þrátt fyrir röksemdir mótunarsinna eru hverskyns hugmyndir um eðlislægan kynjamun ótrúlega lífseigar í dægurmenningu. Má þar nefna metsölubækur sem ganga út á það að kynin tvö komi hvort frá sinni plánetu og eigi fátt sameiginlegt. Þá fjallaði leikritið Hellisbúinn, sem sýnt var við metaðsókn hér á landi, á klisjukenndan hátt um þá árekstra sem óhjákvæmilega myndast þegar “karl- og kveneðlið” rekast á.

Það sem er hinsvegar horft fram hjá í öllu tali um karl- og kveneðli er margbreytileiki mannfólksins. Þvert ofan á allan kynjamun kemur breitt litróf einstaklinga sem falla engan veginn inn í svarthvítt tveggja flokka kerfi. Það að dæma stöðu, hlutverk, hegðun eða útlit einstaklinga, rétt eða rangt, viðeigandi eða óviðeigandi, eftir því hvort manneskjan sem um ræðir er karl eða kona er bæði heftandi og niðurnjörvandi fyrir einstaklingana og fyrir samfélagið þýðir það sóun á mannauði. Þess vegna er nauðsynlegt að tryggja félagslegt svigrúm svo að fólk geti fundið sér réttan bás í litrófi samfélagsins, óháð stöðluðum hugmyndum um “eðli kynjanna.”


Þetta svar er samið frá sjónarhóli kynjafræðings. Heimspekingur hefur einnig fjallað um sömu spurningu á Vísindavefnum, sjá svar Ástu Kristjönu Sveinsdóttur. -- Ritstjórn.

...