Fyrsta orrusta Alexanders var við Granikos í Litlu-Asíu í maí árið 334 f.Kr. en þar sigraði hann töluvert fámennari her Persa. Alexander hélt suður meðfram ströndinni og náði á sitt vald borgunum Sardis, Efesos og Míletos. Eftir umsátur um borgina Halikarnassos hafði Alexander tekist að „frelsa“ grísku borgríkin í Litlu Asíu sem verið höfðu undir stjórn Persa. Alexander vann aftur mikinn sigur við Issos í nóvember árið 333 f.Kr. gegn mun fjölmennara liði Dareiosar III Persakonungs. Ósigurinn var Persum mikið reiðarslag. Alexander hélt næst suður og náði á sitt vald Fönikíu, Palestínu og Egyptalandi. Fræg voru umsátrin um borgirnar Týros og Gaza. Í Egyptalandi var honum tekið fagnandi og hann hylltur sem sonur Seifs. Hann stofnaði borgina Alexandríu sem varð síðar höfuðborg landsins og eitt mesta menntasetur fornaldar. Eftir vetursetu í Egyptalandi hélt Alexander til Mesópótamíu þar sem hann vann afgerandi sigur á Persum í orrustunni við Gaugamela 1. október árið 331 f.Kr. Dareios varð að flýja en Alexander hélt til Babýlon. Í orrustunni við Persaskörð í janúar árið 330 f.Kr. sigraði her Alexanders síðustu leifar persneska hersins. Nú var leiðin greið að höfuðborginni Persepolis. Um sumarið var Dareios myrtur og Alexander lýsti því yfir að stríðinu gegn Persum væri lokið. Árið 327 f.Kr. réðst Alexander inn í Norður-Indland og ári síðar komst hann austur fyrir Indusfljót. Her Alexanders náði allt austur að Gangesfljóti en neitaði þá að fara lengra. Förinni var þá haldið aftur í vesturátt. Þann 10. júní árið 323 f.Kr. lést Alexander skyndilega í blóma lífsins. Ekki er vitað um dánarorsök hans en ágiskanir hafa verið um að hann hafi fengið hitastótt eða að honum hafi ef til vill verið byrlað eitur. Um það má lesa nánar í svari Almars Steins Atlasonar og Heiðu Maríu Sigurðardóttur við spurningunni Hvernig dó Alexander mikli? Hann var lagður til grafar í borginni Alexandríu í Egyptalandi en þá borg hafði hann sjálfur stofnað átta árum áður.
Þegar Alexander lést var veldi hans gríðarstórt en það stóð ekki lengi. Um árið 270 f.Kr., eftir áratuga löng átök eftirmanna Alexanders, hafði veldi hans liðast í sundur. Veldi Antigoníta var á Grikklandi og Makedóníu en því stýrðu afkomendur Antigonosar I, herforingja Alexanders, sem nefndur var hinn eineygði. Veldi Selevkíta var í Mesópótamíu og Persíu; það teygði sig austur að Indus-dalnum og náði yfir hluta Litlu-Asíu og Palestínu er það var stærst. Því stýrðu afkomendur Selevkosar I, herforingja Alexanders. Og veldi Ptolemaja var á Egyptalandi en því stýrðu afkomendur Ptolemajosar I sem einnig hafði verið herforingi Alexanders. Skipting þessi varði í um eina öld en árið 168 f.Kr. lögðu Rómverjar veldi Antigoníta undir sig en Selevkítaveldið féll fyrst í hendur Pörþum og að lokum að hluta í hendur Rómverjum. Veldi Ptolemaja hélt velli í Egyptalandi þar til Octavíanus lagði það undir sig í kjölfar sigurs síns á Marcusi Antoniusi og Kleópötru. Með útþenslu konungdæmis Alexanders breiddist grísk menning út víða um Asíu, langt út fyrir Litlu-Asíu og alla leið austur til Indlands, og um Norður-Afríku út frá Egyptalandi. Jafnframt kynntust Grikkir menningu þeirra þjóða sem Alexander hafði lagt undir sig. Gríska varð alþjóðlegt samskiptamál og hélt þeirri stöðu öldum saman. En það var ekki aðeins grísk tunga sem breiddist út heldur einnig grísk stjórnspeki, grísk menning, bókmenntir og listir, heimspeki og vísindi og iðullega blandaðist gríska menningin þeirri menningu sem fyrir var. Þannig hafði Alexander ómæld áhrif á sögu og menningu fjölmargra þjóða. Fleiri svör um Alexander á Vísindavefnum:
- Hvað hét hestur Alexanders mikla? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
- Hvað er hellenismi og á hvaða tímabili var hann í mannkynssögunni? eftir Jóhann Bjarka Arnarsson Hall
- Hvernig vann Persaveldi sig upp aftur eftir að Alexander mikli lagði það undir sig? eftir Svavar Hrafn Svavarsson
- Bosworth, A.B., Conquest and Empire: The Reign of Alexander the Great (Cambridge: Cambridge University Press, 1993).
- Cartledge, Paul, Alexander the Great (New York: Overlook Press, 2004).
- Fildes, Alan og Fletcher, Joann, Alexander the Great: Son of the Gods (New York: Oxford University Press, 2004).
- Fox, Robin Lane, Alexander the Great (New York: Penguin, 2004).
- Walbank, F.W., The Hellenistic World (Cambridge, MA.: Harvard University Press, 1981).
- Worthington, Ian (ritstj.), Alexander the Great: A Reader (New York: Routledge, 2003).