Er „hjá-“ í orðum eins og hjátrú og hjárænulegur skylt orðinu „hjá“ í merkingunni „nálægt“ eða í merkingunni „á vegum“?Hjá- í hjátrú og hjárænulegur er forsetningin hjá notuð sem forskeyti. Það er notað um það sem er við hliðina á grunnorðinu og fær stundum andstæða merkingu. Orðið ræna merkir til dæmis ‘skynsemi, meðvitund’ en hjáræna merkir ‘sérviska’ en einnig ‘sauðarháttur’ og hjárænulegur maður er sauðarlegur maður. Trú er meðal annars notað um trúarbrögð en hjátrú er fremur trú á tilvist þess sem brýtur í bága við heimsskoðun samtímans. Bragð er af mat en hjábragð er notað um aukakeim af mat sem ekki á að vera, hjábarn einhvers er óskilgetið barn hans, hjáfræði eru óhefðbundin vísindi og hjáleið í umferðinni er vegur eða leið sem notuð er til bráðabirgða og svo framvegis. Öll lýsa þessi orð einhverju sem ekki kemur fyllilega heim og saman við grunnorðið.
Forsetningin hjá er að uppruna til fornt þágufall eða staðarfall af *hiwa- ‘heimilisfólk’ og í hjá merkti upphaflega ‘með heimilisfólki’. Mynd: The Independent Lordsburg Liberal