Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Úr hvaða ritum fékk Snorri Sturluson sína vitneskju um fljótið Tanais sem nú kallast Don?

Geir Þ. Þórarinsson

Snorri Sturluson getur fljótsins Tanais í Heimskringlu. Þar segir í upphafi Ynglingasögu:
Úr norðri frá fjöllum þeim, er fyrir utan eru byggð alla, fellur á um Svíþjóð, sú er að réttu heitir Tanais; hún var forðum kölluð Tanakvísl eða Vanakvísl; hún kemur til sjávar inn í Svartahaf. Í Vanakvíslum var þá kallað Vanaland eða Vanaheimur. Sú á skilur heimsþriðjungana; heitir fyrir austan Asía en fyrir vestan Evrópa.1

Hér er átt við ána Don.

Samkvæmt heimsmynd miðaldamanna voru mörk á milli Asíu og Evrópu mörkuð af ánni Don, sem þá var nefnd Tanais. Hér sést kort af svonefndri T-O-gerð sem sýnir mörkin á milli heimsálfanna þriggja sem þá voru þekktar.

Sennilega er ómögulegt að segja með vissu hvaðan Snorri fékk upplýsingar um Tanais en afar ósennilegt er að hann hafi fengið þær úr grískum ritum, til dæmis úr landafræði Strabons, eins og fram kemur í svari undirritaðs við spurningunni Er hægt að leiða líkum að því að Snorri Sturluson hafi lesið landfræði grísk-rómverska landfræðingsins Strabons? Að öllum líkindum hafði hann þennan fróðleik upp úr einhverju riti á latínu, til dæmis kvæðinu Pharsalia (sem er einnig nefnt Um borgarastríðið) eftir rómverska skáldið Marcus Annaeus Lucanus eða úr ritinu Um stríðið við Júgurthu eftir rómverska sagnaritarann Sallustius. En skáldin Virgill, Propertius, Horatius, Ovidius, Seneca, Statius og Valerius Flaccus minnast líka öll á fljótið Tanais og það gera einnig sagnaritararnir Tacitus og Ammianus Marcellinus og rithöfundarnir Vitruvius og Plinius eldri. En sennilega eru Lucanus og Sallustius álitlegasta vinnutilgátan, ekki síst Lucanus. Þeir voru mikið lesnir á miðöldum og notaðir í kennslu.

Það eru meira að segja til íslenskar þýðingar af ritum þeirra Lucanusar og Sallustiusar í handritum frá 14. öld og síðar. Þær ganga saman undir nafninu Rómverja saga og komu nýlega út í tveimur bindum hjá Stofnun Árna Magnússonar í ritstjórn Þorbjargar Helgadóttur (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2010). Í þýðingunni á Júgurthu segir til dæmis (með breyttri réttritun) „þá flytur hann herinn á leiðis til ár þeirrar er Tanais heitir ...“2 (bindi II, bls. 125 = Sal. Jug. 90.1.3) en í Rómverja sögu er hins vegar ekki að finna þær línur þar sem Lucanus minnist á Tanais því einhverjar línur vantar inn í handritin. En sjálf handritin eru líka of ung til að Snorri hafi getað lesið þau. Tilvist þeirra sýnir þó að íslenskir lærdómsmenn þekktu til Lucanusar og Sallustiusar á 14. öld og reyndar aðeins fyrr því að þýðingarnar munu vera svolítið eldri en elstu handritin. Svo virðist sem þýðingunum hafi verið steypt saman í eitt verk, Rómverja sögu, seint á 12. öld eða um það leyti sem Snorri fæddist (hann fæddist annaðhvort 1178 eða 1179). En hvort sem Snorri þekkti þessar þýðingar eða ekki, lærði hann þó örugglega að lesa latínu þegar hann var sendur í fóstur til Jóns Loftssonar í Odda á Rangárvöllum, sem þá var eitt mesta lærdómssetur á Íslandi, og vel má vera að þar hafi hann lært að lesa einmitt þessa höfunda.

Ástæðan fyrir því að Lucanus er sennileg heimild fyrir fróðleik Snorra er þó ekki einungis sú að kvæði Lucanusar var lesið víða á miðöldum, þar á meðal á Íslandi. Í þeim línum þar sem Lucanus minnist á Tanais er einnig að finna aðeins meiri landfræðilegar upplýsingar en hjá hinum skáldunum. Þegar Propertius minnist á fljótið spyr hann: „Hvert flýrðu, sturlaði maður? Það er engin undankomuleið. Þótt þú flýir til Tanais mun ástin elta þig uppi þar.“ (Prop. II.30.2). Þarna er engar landfræðilegar upplýsingar að hafa. Af sama tagi eru flestar tilvísanir skáldanna. Ovidius hefur aðeins meira að bjóða því að í kvæðinu Tristia, sem hann samdi í útlegð sinni, kvartar hann sáran undan því að búa í köldu og hrjóstrugu landi handan hvers ekkert er nema Sæviðarsund, Tanais og mýrlendið í Skýþíu og svo alveg ókunnugt land (III.4b.49-52). En Lucanus lýsir því beinlínis hvernig Tanais skiptir heiminum þannig að öðrum megin er Asía en hinum megin Evrópa (III.272-5; ýtarlegri lýsingu er að finna í IX.411 o.áfr.).

Því má leiða líkum að því að Lucanus hafi verið heimild Snorra um fljótið Tanais því hann segir í megindráttum það sama og Snorri segir og var auk þess títt lesinn höfundur á miðöldum og lesinn líka hér á landi á þeim tíma þegar Snorri hlaut menntun sína. Snorri hefur síðan sjálfur fundið upp á að tengja Tanais við Vanaland.

Mynd:

Tilvísanir:

1 „Ór norðri frá fjöllum þeim, er fyrir útan eru byggð alla, fellr á um Svíþjóð, sú er at réttu heitir Tanais; hon var forðum kölluð Tanakvísl eða Vanakvísl; hon kömr til sjávar inn í Svartahaf. Í Vanakvíslum var þá kallat Vanaland eða Vanaheimr. Sú á skilr heimsþriðjungana; heitir fyrir austan Ásíá, en fyrir vestan Európá.“

2 „þa flytr hann herinn a læiðis til áár þæirar er Tanais hæiter ...“

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

27.4.2012

Spyrjandi

Elías Halldór Ágústsson

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Úr hvaða ritum fékk Snorri Sturluson sína vitneskju um fljótið Tanais sem nú kallast Don?“ Vísindavefurinn, 27. apríl 2012, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62475.

Geir Þ. Þórarinsson. (2012, 27. apríl). Úr hvaða ritum fékk Snorri Sturluson sína vitneskju um fljótið Tanais sem nú kallast Don? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62475

Geir Þ. Þórarinsson. „Úr hvaða ritum fékk Snorri Sturluson sína vitneskju um fljótið Tanais sem nú kallast Don?“ Vísindavefurinn. 27. apr. 2012. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62475>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Úr hvaða ritum fékk Snorri Sturluson sína vitneskju um fljótið Tanais sem nú kallast Don?
Snorri Sturluson getur fljótsins Tanais í Heimskringlu. Þar segir í upphafi Ynglingasögu:

Úr norðri frá fjöllum þeim, er fyrir utan eru byggð alla, fellur á um Svíþjóð, sú er að réttu heitir Tanais; hún var forðum kölluð Tanakvísl eða Vanakvísl; hún kemur til sjávar inn í Svartahaf. Í Vanakvíslum var þá kallað Vanaland eða Vanaheimur. Sú á skilur heimsþriðjungana; heitir fyrir austan Asía en fyrir vestan Evrópa.1

Hér er átt við ána Don.

Samkvæmt heimsmynd miðaldamanna voru mörk á milli Asíu og Evrópu mörkuð af ánni Don, sem þá var nefnd Tanais. Hér sést kort af svonefndri T-O-gerð sem sýnir mörkin á milli heimsálfanna þriggja sem þá voru þekktar.

Sennilega er ómögulegt að segja með vissu hvaðan Snorri fékk upplýsingar um Tanais en afar ósennilegt er að hann hafi fengið þær úr grískum ritum, til dæmis úr landafræði Strabons, eins og fram kemur í svari undirritaðs við spurningunni Er hægt að leiða líkum að því að Snorri Sturluson hafi lesið landfræði grísk-rómverska landfræðingsins Strabons? Að öllum líkindum hafði hann þennan fróðleik upp úr einhverju riti á latínu, til dæmis kvæðinu Pharsalia (sem er einnig nefnt Um borgarastríðið) eftir rómverska skáldið Marcus Annaeus Lucanus eða úr ritinu Um stríðið við Júgurthu eftir rómverska sagnaritarann Sallustius. En skáldin Virgill, Propertius, Horatius, Ovidius, Seneca, Statius og Valerius Flaccus minnast líka öll á fljótið Tanais og það gera einnig sagnaritararnir Tacitus og Ammianus Marcellinus og rithöfundarnir Vitruvius og Plinius eldri. En sennilega eru Lucanus og Sallustius álitlegasta vinnutilgátan, ekki síst Lucanus. Þeir voru mikið lesnir á miðöldum og notaðir í kennslu.

Það eru meira að segja til íslenskar þýðingar af ritum þeirra Lucanusar og Sallustiusar í handritum frá 14. öld og síðar. Þær ganga saman undir nafninu Rómverja saga og komu nýlega út í tveimur bindum hjá Stofnun Árna Magnússonar í ritstjórn Þorbjargar Helgadóttur (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2010). Í þýðingunni á Júgurthu segir til dæmis (með breyttri réttritun) „þá flytur hann herinn á leiðis til ár þeirrar er Tanais heitir ...“2 (bindi II, bls. 125 = Sal. Jug. 90.1.3) en í Rómverja sögu er hins vegar ekki að finna þær línur þar sem Lucanus minnist á Tanais því einhverjar línur vantar inn í handritin. En sjálf handritin eru líka of ung til að Snorri hafi getað lesið þau. Tilvist þeirra sýnir þó að íslenskir lærdómsmenn þekktu til Lucanusar og Sallustiusar á 14. öld og reyndar aðeins fyrr því að þýðingarnar munu vera svolítið eldri en elstu handritin. Svo virðist sem þýðingunum hafi verið steypt saman í eitt verk, Rómverja sögu, seint á 12. öld eða um það leyti sem Snorri fæddist (hann fæddist annaðhvort 1178 eða 1179). En hvort sem Snorri þekkti þessar þýðingar eða ekki, lærði hann þó örugglega að lesa latínu þegar hann var sendur í fóstur til Jóns Loftssonar í Odda á Rangárvöllum, sem þá var eitt mesta lærdómssetur á Íslandi, og vel má vera að þar hafi hann lært að lesa einmitt þessa höfunda.

Ástæðan fyrir því að Lucanus er sennileg heimild fyrir fróðleik Snorra er þó ekki einungis sú að kvæði Lucanusar var lesið víða á miðöldum, þar á meðal á Íslandi. Í þeim línum þar sem Lucanus minnist á Tanais er einnig að finna aðeins meiri landfræðilegar upplýsingar en hjá hinum skáldunum. Þegar Propertius minnist á fljótið spyr hann: „Hvert flýrðu, sturlaði maður? Það er engin undankomuleið. Þótt þú flýir til Tanais mun ástin elta þig uppi þar.“ (Prop. II.30.2). Þarna er engar landfræðilegar upplýsingar að hafa. Af sama tagi eru flestar tilvísanir skáldanna. Ovidius hefur aðeins meira að bjóða því að í kvæðinu Tristia, sem hann samdi í útlegð sinni, kvartar hann sáran undan því að búa í köldu og hrjóstrugu landi handan hvers ekkert er nema Sæviðarsund, Tanais og mýrlendið í Skýþíu og svo alveg ókunnugt land (III.4b.49-52). En Lucanus lýsir því beinlínis hvernig Tanais skiptir heiminum þannig að öðrum megin er Asía en hinum megin Evrópa (III.272-5; ýtarlegri lýsingu er að finna í IX.411 o.áfr.).

Því má leiða líkum að því að Lucanus hafi verið heimild Snorra um fljótið Tanais því hann segir í megindráttum það sama og Snorri segir og var auk þess títt lesinn höfundur á miðöldum og lesinn líka hér á landi á þeim tíma þegar Snorri hlaut menntun sína. Snorri hefur síðan sjálfur fundið upp á að tengja Tanais við Vanaland.

Mynd:

Tilvísanir:

1 „Ór norðri frá fjöllum þeim, er fyrir útan eru byggð alla, fellr á um Svíþjóð, sú er at réttu heitir Tanais; hon var forðum kölluð Tanakvísl eða Vanakvísl; hon kömr til sjávar inn í Svartahaf. Í Vanakvíslum var þá kallat Vanaland eða Vanaheimr. Sú á skilr heimsþriðjungana; heitir fyrir austan Ásíá, en fyrir vestan Európá.“

2 „þa flytr hann herinn a læiðis til áár þæirar er Tanais hæiter ...“

...