Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þessi spurning virðist tvíþætt. Annars vegar er spurt: Af hverju hefur mannkynið einhvern eiginleika sem það hefur – nefnilega þann að vera svona forvitið. Þeirri spurningu er helst svarað með vísun í þróunarkenninguna: Þessi eiginleiki hefur reynst þessu dýri (manninum) vel til að komast af.
Höfum í huga að vísindastarfsemi hefur tvíþættan tilgang, tvö aðskilin markmið. Í fyrsta lagi svalar hún fróðleiksfýsn forvitinnar mannskepnunnar. Í öðru lagi gefur hún okkur færi á að hlutast til um heiminn í kringum okkur; þekkingin færir okkur í hendur tól til að ná ýmsum markmiðum. Tilraunir á dýrum færa okkur þannig bæði þekkingu á virkni lífvera, sem marga langar að öðlast, en hjálpa einnig til við að ráða bót á sjúkdómum, kveikja hugmyndir að tækninýjungum og framleiða ofnæmisprófaðan og kossþolinn andlitsfarða.
Hins vegar virðist að baki vangaveltunum liggja siðferðileg spurning; sennilega virðist spyrjanda óréttlátt eða ljótt gagnvart dýrum að loka þau inni í búrum til að svala forvitni manna. Er það svo? Hér verður ekki gefið játandi eða neitandi svar frekar en endranær en litið snöggt yfir helstu hugmyndir um efnið.
---
Í gegnum vestræna menningarsögu hafa menn litið á sjálfa sig sem annars konar fyrirbæri í heiminum en dýr og þær skyldur sem menn hafa litið svo á að þeir beri hver til annars, og réttindi manna, hafa ekki náð til dýra. Samfélög virðast ekki fá staðist nema þar komi menn sér saman um ákveðnar reglur: Að drepa ekki hver annan, til dæmis, ljúga ekki hver að öðrum, standa við loforð og svo framvegis. Það hefur hins vegar ekki reynst nauðsynlegt að eiga slíkt samkomulag við dýr, enda virðast dýr ófær um þátttöku í sáttmálum. Í raun lítur þvert á móti út fyrir að mönnum sé nauðsynlegt að hagnýta sér dýr með því að drepa þau, til að tryggja eigin afkomu. Þetta á sér í lagi við um kaldari slóðir, þar sem jörð er gróðurvana og menn þurfa góð klæði.
Í skrifum evrópskra spekinga í gegnum aldirnar má sjá ýmsar skýringar á því hvers vegna siðferði nær ekki til dýra. Descartes segir dýr vera nokkurs konar róbóta, án huga og sálar. Þegar þau virðist finna sársauka sé í dýrinu engin vera sem finni neitt. Immanúel Kant lítur á það sem óbeina skyldu að fara vel með dýr, þvi ill meðferð dýra skapi slæman vana. Hobbes leggur til hugmyndina um samfélagssáttmálann sem undirstöðu siðferðisins, þar sem aðeins þeir sem eigi aðild að samningnum heyri til siðferðisins. Dýr geta engan veginn tekið þátt í slíku samkomulagi og hafa ekki gert það.
Á þessari öld hafa einhverjir siðfræðingar gert lítið úr greinarmuninum á mönnum og dýrum og reynt að víkka siðferðið svo að það taki til annarra skepna en manna. Peter Singer er einn þeirra, Tom Regan annar. Tom Regan segir siðferðið ná til þeirra vera sem hafi langanir, trú og væntingar. Mörg æðri dýr, önnur en menn, sýni atferli sem gefi þetta allt til kynna og hafi því eigið gildi og þar með sömu grundvallarréttindi til lífs og manneskjur.
Þeir menn sem eiga aðild að hnattsamfélaginu og allri auðlegð þess, til dæmis allir íbúar Vesturlanda, gætu sjálfsagt komist af án þess að meiða eða deyða dýr, í það minnsta dýr af æðri gerðum, þau sem hafa langanir, trú og væntingar. Þess vegna hljóta hugmyndir Regans nú hljómgrunn hjá hópum manna.
Svo er þó alls ekki að skilja að meirihluti manna, hvorki heimspekinga né annarra, taki undir þessar hugmyndir enda borða flestir Vesturlandabúar kjöt og tækju sjálfsagt undir að eitt mannslíf væri verðmætara en þúsund rottur, jafnvel þúsund kýr.
Haukur Már Helgason. „Af hverju er mannkynið svo forvitið að það lokar saklaus dýr inni í búrum?“ Vísindavefurinn, 6. september 2000, sótt 28. janúar 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=882.
Haukur Már Helgason. (2000, 6. september). Af hverju er mannkynið svo forvitið að það lokar saklaus dýr inni í búrum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=882
Haukur Már Helgason. „Af hverju er mannkynið svo forvitið að það lokar saklaus dýr inni í búrum?“ Vísindavefurinn. 6. sep. 2000. Vefsíða. 28. jan. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=882>.