Sólin Sólin Rís 04:11 • sest 22:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 11:12 • Sest 04:26 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:10 • Síðdegis: 24:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:00 • Síðdegis: 18:11 í Reykjavík
COVID-19 borði í flokk

Hvert er efnahagslegt tjón vegna COVID-19?

Gylfi Magnússon

Veirufaraldurinn sem nú skekur heimsbyggðina hefur nú þegar haft veruleg efnahagsleg áhrif og mun fyrirsjáanlega hafa það áfram þótt erfitt sé að sjá fyrir hve lengi. Viðbrögðin við faraldrinum hafa verið mjög mismunandi eftir löndum en þó yfirleitt falið í sér verulegar takmarkanir á ferðum og samkomum fólks. Þetta hefur skiljanlega haft mjög lamandi áhrif á efnahagsstarfsemi. Bæði hefur framboð af ýmiss konar vörum og þjónustu minnkað og dregið verulega úr eftirspurn. Jafnvel þar sem nægar vörur er að fá og margir vilja kaupa er ekki hægt með góðu móti að eiga viðskipti ef sölustaðir eru lokaðir eða ómögulegt fyrir viðskiptavini að sækja þá heim.

Ef ekki er hægt að selja vörur og þjónustu dregst framleiðslan eðli máls samkvæmt saman fyrr eða síðar. Sumar vörur er reyndar hægt að framleiða til að eiga birgðir þegar ástandið færist aftur í eðlilegt horf en það er þó oftast ekki hægt nema að ákveðnu marki. Aðrar er ekki hægt að geyma eða að minnsta kosti bara í stuttan tíma og því ekki raunhæft fyrir framleiðendur að safna birgðum. Í þjónustugreinum er yfirleitt ekki hægt að safna birgðum og því hættir framleiðsla um leið og sala. Sem dæmi mætti nefna hárgreiðslu, leiksýningar eða flugferðir.

Þessar aðgerðir sem gripið hefur verið til í því augnamiði að draga úr sýkingum eru nánast fordæmalausar. Að sönnu hefur sumum þeirra verið beitt að einhverju marki í fyrri faröldrum en aldrei á jafnviðamikinn hátt og nú. Sem dæmi má nefna að í spænsku veikinni svokölluðu, 1918, tókst að vernda Norður og Austurland með því að loka þau landsvæði af á meðan faraldurinn geisaði á Suður og Vesturlandi. Faraldurinn sjálfur er hins vegar ekki fordæmalaus, svipaðir faraldrar hafa geisað margoft áður og sumir mun skæðari með miklu meira mannfalli.

Viðbrögðin við faraldrinum hafa verið mjög mismunandi eftir löndum en þó yfirleitt falið í sér verulegar takmarkanir á ferðum og samkomum fólks. Þetta hefur skiljanlega haft mjög lamandi áhrif á efnahagsstarfsemi.

Á meðan faraldurinn gengur yfir og ýmiss konar hömlum á mannlíf er beitt til að ná tökum á útbreiðslu hans dregst verðmætasköpun, það er framleiðsla á vörum og þjónustu, verulega saman. Algengur mælikvarði á þá verðmætasköpun er verg landsframleiðsla. Hún á að mæla verðmæti vöru og þjónustu sem framleidd er í viðkomandi landi á tilteknu tímabili, oftast einu ári. Þetta er þó grófur og að sumu leyti gallaður mælikvarði. Meðal gallanna má nefna að ekki er tekið tillit til gæða sem ekki teljast markaðsvörur, ekki horft til þess hvort gengið er á náttúrugæði og ekkert tillit tekið til þess hvernig þær tekjur sem framleiðslan skilar skiptast. Þrátt fyrir þessa galla gefur verg landsframleiðsla þó þokkalega mynd af umfangi efnahagsstarfseminnar.

Erfitt að meta efnahagsáhrifin því skýr fordæmi vantar

Þegar þetta er ritað, í maí 2020, er margt óljóst um áhrif faraldursins á efnahagslífið. Meðal annars eru ýmsar lykilforsendur óþekktar, þar á meðal hve langan tíma mun taka að ná tökum á faraldrinum. Þannig er til dæmis ekki vitað hvort hann muni blossa upp að nýju á Íslandi eða öðrum löndum þar sem sýkingum hefur fækkað til muna. Ekki er vitað hvort og þá hvenær bóluefni verður í boði eða lækning. Það er erfitt að spá fyrir um efnahagsáhrifin án þess að hafa skýr svör frá heilbrigðisvísindunum um slíka þætti. Jafnvel þótt slík svör fengjust er þó erfitt að meta efnahagsáhrifin enda ekki hægt að byggja spár á skýrum fordæmum. Faraldrar fortíðar, eins og til dæmis spænska veikin, urðu við allt aðrar aðstæður í efnahagslífinu og viðbrögð samfélaga voru einnig mjög frábrugðin þeim sem nú hefur verið gripið til. Líkön hagfræðinnar af hagkerfum hafa því ekki verið prófuð við aðstæður sem þessar enda það ekki hægt án nothæfra gagna og fordæma.

Engu að síður hafa verið gerðar ýmsar tilraunir til að meta samdráttinn og spá fyrir um hann. Þær eru allar því marki brenndar að byggja á ófullkomnum gögnum og líkönum og því verður að taka niðurstöðunum með verulegum fyrirvara. Skekkjumörk í spám eru að minnsta kosti mjög víð. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur þannig áætlað að heimshagkerfið (það er samanlögð landsframleiðsla allra landa) muni dragast saman um 3% í ár en hafði spáð 3% vexti fyrir faraldur. Það er mun meiri samdráttur en til dæmis í fjármálakrísunni um og upp úr 2008. Spár fyrir Ísland eru talsvert svartsýnni og þannig spáir AGS 7,2% samdrætti hérlendis í ár. Aðrir hafa spáð ívið meiri samdrætti en þetta, til dæmis Seðlabankinn 8% og Íslandsbanki og Landsbankinn um 9%. Fyrir faraldur var hins vegar spáð um 1,5% hagvexti (það er vexti vergrar landsframleiðslu) á Íslandi í ár. Verg landsframleiðsla Íslands var rétt um 2.966 milljarðar króna á síðasta ári, 2019. Miðað við þessar spár minnkar verðmætasköpun íslenska hagkerfisisins því um 7-9% af því eða 210-270 milljarða króna árið 2020. Að auki verður ekki sá hagvöxtur sem spáð hafði verið sem hækkar matið á efnahagsáfallinu um um það bil 50 milljarða króna. Þá er rétt að hafa í huga að efnahagsáfallið kemur örugglega ekki allt fram í ár því að áhrifanna mun örugglega einnig gæta á næsta ári og mjög líklega eitthvað lengur.

Hvenær verða umsvifin aftur þau sömu?

Þessi minni framleiðsla á vörum og þjónustu kemur víða fram og höggið er þyngst fyrir greinar eins og ferðaþjónustu. Lokun landamæra þýðir augljóslega að sala á ferðaþjónustu til útlendinga hverfur alveg. Jafnvel þótt tekin verði einhver skref í átt til opnunar landamæra áður en faraldurinn er genginn yfir er ólíklegt að það skili sér í miklum umsvifum í sölu ferðaþjónustu til skamms tíma. Þá verður að teljast líklegt að einhvern tíma taki fyrir umsvif í ferðaþjónustu að verða svipuð og fyrir faraldur jafnvel þegar allar hömlur á ferðalög hafa verið afnumdar. Í íslenskri ferðaþjónustu flækir það svo málið að hún hafði þegar dregist nokkuð saman frá því sem mest var áður en áhrifa faraldursins tók að gæta. Í ljósi þess virðist engan veginn hægt að ganga að því vísu að umsvifin nái fljótt aftur fyrri hæðum.

Fleiri greinar hafa orðið fyrir höggi, meðal annars þær sem veita ýmiss konar persónulega þjónustu, sem var gert að loka um lengri eða skemmri tíma. Lista- og menningargeirinn tapaði líka miklum tekjum enda ekki hægt að selja miða á leiksýningar eða tónleika eða skemmta í til dæmis brúðkaupum eða þorrablótum í samkomubanni. Af svipuðum ástæðum urðu íþróttafélög fyrir miklu tekjutapi. Fyrrnefndar tölur um samdrátt efnahagslífsins ættu að endurspegla allt þetta og margt fleira.

Hagstærðir segja ekki alla söguna

Tjón sem mælist í landsframleiðslu segir ekki alla söguna. Margs konar sálrænar og félagslegar afleiðingar af til dæmis samkomubanni geta skipt verulegu máli þótt þær komi ekki fram í hagstærðum. Sömuleiðis getur verið að til dæmis röskun á skólastarfi hafi ýmsar slæmar afleiðingar sem ekki er auðvelt að meta til fjár. Þá er vel þekkt að atvinnuleysi hefur margar aðrar afleiðingar en bara tekjumissi. Hér verður þó ekki reynt að meta slíka þætti.

Þótt hluti höggsins lendi beint á fyrirtækjum og þar með starfsmönnum þeirra, viðskiptavinum og birgjum þá kemur efnahagssamdrátturinn miklu víðar fram. Fjárhagur hins opinbera, það er ríkis og sveitarfélaga, versnar til muna. Að hluta er það vegna þess sem hagfræðingar kalla sjálfvirka sveiflujafnara. Þeir fela það í sér að tekjur hins opinbera dragast saman í samdrætti hagkerfisins og útgjöld hækka, sem minnkar áhrifin fyrir heimili og fyrirtæki. Sem dæmi útgjaldamegin mætti nefna atvinnuleysistryggingar og raunar velferðarkerfið í heild. Tekjumegin minnkar skattheimta þegar tekjur launþega og fyrirtækja lækka. Fyrir utan þessi sjálfvirku áhrif hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða sem annað hvort lækka tekjur eða fresta fyrir ríki og sveitarfélög eða auka útgjöld. Sem dæmi mætti nefna svokallaða hlutabótaleið. Fjárhagur ríkisins versnar því til muna þótt erfitt sé að meta nú hve mikill hallinn verður. Spár um það eru mjög ónákvæmar nú en ef til vill gæti hallinn orðið svipaður og samdráttur landsframleiðslu eða um það bil 300 milljarðar. Áhrifin á sveitarfélögin eru líka mjög neikvæð en örugglega mjög ólík milli sveitarfélaga, meðal annars vegna þess að vægi atvinnugreina sem eru í miklum vanda er misjafnt eftir landshlutum.

Skammtímahögg breytir litlu um langtímaþróun hagkerfisins

Horfur í efnahagsmálum eru því ekki bjartar til skamms tíma en það má ekki gleyma því að skammtímahögg sem þetta ætti ekki að breyta miklu um langtímaþróun hagkerfisins. Þegar faraldurinn er genginn yfir verður allt til staðar til að framleiða vörur og þjónustu með sama krafti og áður, það er fólk, fjármunir, náttúruauðlindir og þekking. Það mun hins vegar án efa taka einhvern tíma að ná aftur upp svipuðum umsvifum og áður, til dæmis vegna þess að fyrirtæki hafa hætt starfsemi og önnur þurfa að koma í þeirra stað, starfsfólk er hætt og þarf að finna sér nýja vinnu (og fyrirtæki nýtt starfsfólk) og fjárhagsstaða ýmissa fyrirtækja verður slæm þótt þau hafi ekki farið í þrot.

Þegar faraldurinn er genginn yfir verður allt til staðar til að framleiða vörur og þjónustu með sama krafti og áður, það er fólk, fjármunir, náttúruauðlindir og þekking.

Við vitum ekki nú hve langan tíma það mun taka. Nærtækasta fordæmið á Íslandi er fjármálakrísan fyrir rúmum áratug. Miðað við spár gæti samdrátturinn nú orðið svipaður og í fjármálakrísunni. Þá dróst hagkerfið saman í tvö ár og var svo um það bil fjögur ár til viðbótar að ná aftur sömu umsvifum og fyrir krísu. Það er þó margt mjög ólíkt með fjármálakrísunni og veirukrísunni svo að slíkar spár má ekki taka of alvarlega. Hér skiptir líka máli að íslenska hagkerfið nær sér vart á fullt skrið aftur nema svipað gerist í nágrannalöndunum enda þau okkar helstu viðskiptalönd.

Áfallið fyrir ríkissjóð verður án efa töluvert sem fyrr segir en þó vel innan þolmarka. Vegna þess að faraldrar eru blessunarlega tiltölulega sjaldgæf fyrirbrigði er eðlilegt að greiða niður kostnað vegna þeirra á löngum tíma, til dæmis nokkrum áratugum. Það þarf einungis óverulegar breytingar á tekjuöflun eða útgjöldum hins opinbera frá því sem var fyrir faraldur til að greiða niður skuldir vegna faraldursins sé það gert á nokkrum áratugum. Hér skiptir meðal annars máli að ríkissjóður getur tekið lán á mjög lágum vöxtum um þessar mundir, nánast 0% raunvöxtum. Því kostar það ríkissjóð lítið ef nokkuð að vera lengi að greiða upp þau lán sem hann mun fyrirsjáanlega þurfa að taka. Það þarf því engar umtalsverðar aðhaldsaðgerðir eftir faraldur að því gefnu að það takist að fá efnahagslífið til að skila svipuðum verðmætum og fyrir faraldur og þar með svipuðum skatttekjum og þá.

Að einhverju leyti gæti faraldurinn raunar skilað framförum fyrir efnahagslífið þegar til lengdar lætur. Sérstaklega verður áhugavert hvort sú áhersla sem hefur verið á fjarvinnu og fjarfundi og sölu á vörum og þjónustu í gegnum netið mun ekki skila ávinningi til frambúðar. Þótt þetta hafi verið neyðarráðstöfun við sérstakar aðstæður þá segir sagan okkur að tilraunir sem þessar geta haft varanleg áhrif. Það gæti svo aftur haft jákvæð umhverfisáhrif, til dæmis vegna minni ferðalaga til og frá vinnu eða vegna funda eða skilvirkari dreifingar á vörum og þjónustu. Væntanlega fellur það undir fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott!

Myndir:

Spurningu Elvars er hér svarað að hluta.

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

25.5.2020

Spyrjandi

Elvar

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hvert er efnahagslegt tjón vegna COVID-19?“ Vísindavefurinn, 25. maí 2020. Sótt 15. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=79554.

Gylfi Magnússon. (2020, 25. maí). Hvert er efnahagslegt tjón vegna COVID-19? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=79554

Gylfi Magnússon. „Hvert er efnahagslegt tjón vegna COVID-19?“ Vísindavefurinn. 25. maí. 2020. Vefsíða. 15. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=79554>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvert er efnahagslegt tjón vegna COVID-19?
Veirufaraldurinn sem nú skekur heimsbyggðina hefur nú þegar haft veruleg efnahagsleg áhrif og mun fyrirsjáanlega hafa það áfram þótt erfitt sé að sjá fyrir hve lengi. Viðbrögðin við faraldrinum hafa verið mjög mismunandi eftir löndum en þó yfirleitt falið í sér verulegar takmarkanir á ferðum og samkomum fólks. Þetta hefur skiljanlega haft mjög lamandi áhrif á efnahagsstarfsemi. Bæði hefur framboð af ýmiss konar vörum og þjónustu minnkað og dregið verulega úr eftirspurn. Jafnvel þar sem nægar vörur er að fá og margir vilja kaupa er ekki hægt með góðu móti að eiga viðskipti ef sölustaðir eru lokaðir eða ómögulegt fyrir viðskiptavini að sækja þá heim.

Ef ekki er hægt að selja vörur og þjónustu dregst framleiðslan eðli máls samkvæmt saman fyrr eða síðar. Sumar vörur er reyndar hægt að framleiða til að eiga birgðir þegar ástandið færist aftur í eðlilegt horf en það er þó oftast ekki hægt nema að ákveðnu marki. Aðrar er ekki hægt að geyma eða að minnsta kosti bara í stuttan tíma og því ekki raunhæft fyrir framleiðendur að safna birgðum. Í þjónustugreinum er yfirleitt ekki hægt að safna birgðum og því hættir framleiðsla um leið og sala. Sem dæmi mætti nefna hárgreiðslu, leiksýningar eða flugferðir.

Þessar aðgerðir sem gripið hefur verið til í því augnamiði að draga úr sýkingum eru nánast fordæmalausar. Að sönnu hefur sumum þeirra verið beitt að einhverju marki í fyrri faröldrum en aldrei á jafnviðamikinn hátt og nú. Sem dæmi má nefna að í spænsku veikinni svokölluðu, 1918, tókst að vernda Norður og Austurland með því að loka þau landsvæði af á meðan faraldurinn geisaði á Suður og Vesturlandi. Faraldurinn sjálfur er hins vegar ekki fordæmalaus, svipaðir faraldrar hafa geisað margoft áður og sumir mun skæðari með miklu meira mannfalli.

Viðbrögðin við faraldrinum hafa verið mjög mismunandi eftir löndum en þó yfirleitt falið í sér verulegar takmarkanir á ferðum og samkomum fólks. Þetta hefur skiljanlega haft mjög lamandi áhrif á efnahagsstarfsemi.

Á meðan faraldurinn gengur yfir og ýmiss konar hömlum á mannlíf er beitt til að ná tökum á útbreiðslu hans dregst verðmætasköpun, það er framleiðsla á vörum og þjónustu, verulega saman. Algengur mælikvarði á þá verðmætasköpun er verg landsframleiðsla. Hún á að mæla verðmæti vöru og þjónustu sem framleidd er í viðkomandi landi á tilteknu tímabili, oftast einu ári. Þetta er þó grófur og að sumu leyti gallaður mælikvarði. Meðal gallanna má nefna að ekki er tekið tillit til gæða sem ekki teljast markaðsvörur, ekki horft til þess hvort gengið er á náttúrugæði og ekkert tillit tekið til þess hvernig þær tekjur sem framleiðslan skilar skiptast. Þrátt fyrir þessa galla gefur verg landsframleiðsla þó þokkalega mynd af umfangi efnahagsstarfseminnar.

Erfitt að meta efnahagsáhrifin því skýr fordæmi vantar

Þegar þetta er ritað, í maí 2020, er margt óljóst um áhrif faraldursins á efnahagslífið. Meðal annars eru ýmsar lykilforsendur óþekktar, þar á meðal hve langan tíma mun taka að ná tökum á faraldrinum. Þannig er til dæmis ekki vitað hvort hann muni blossa upp að nýju á Íslandi eða öðrum löndum þar sem sýkingum hefur fækkað til muna. Ekki er vitað hvort og þá hvenær bóluefni verður í boði eða lækning. Það er erfitt að spá fyrir um efnahagsáhrifin án þess að hafa skýr svör frá heilbrigðisvísindunum um slíka þætti. Jafnvel þótt slík svör fengjust er þó erfitt að meta efnahagsáhrifin enda ekki hægt að byggja spár á skýrum fordæmum. Faraldrar fortíðar, eins og til dæmis spænska veikin, urðu við allt aðrar aðstæður í efnahagslífinu og viðbrögð samfélaga voru einnig mjög frábrugðin þeim sem nú hefur verið gripið til. Líkön hagfræðinnar af hagkerfum hafa því ekki verið prófuð við aðstæður sem þessar enda það ekki hægt án nothæfra gagna og fordæma.

Engu að síður hafa verið gerðar ýmsar tilraunir til að meta samdráttinn og spá fyrir um hann. Þær eru allar því marki brenndar að byggja á ófullkomnum gögnum og líkönum og því verður að taka niðurstöðunum með verulegum fyrirvara. Skekkjumörk í spám eru að minnsta kosti mjög víð. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur þannig áætlað að heimshagkerfið (það er samanlögð landsframleiðsla allra landa) muni dragast saman um 3% í ár en hafði spáð 3% vexti fyrir faraldur. Það er mun meiri samdráttur en til dæmis í fjármálakrísunni um og upp úr 2008. Spár fyrir Ísland eru talsvert svartsýnni og þannig spáir AGS 7,2% samdrætti hérlendis í ár. Aðrir hafa spáð ívið meiri samdrætti en þetta, til dæmis Seðlabankinn 8% og Íslandsbanki og Landsbankinn um 9%. Fyrir faraldur var hins vegar spáð um 1,5% hagvexti (það er vexti vergrar landsframleiðslu) á Íslandi í ár. Verg landsframleiðsla Íslands var rétt um 2.966 milljarðar króna á síðasta ári, 2019. Miðað við þessar spár minnkar verðmætasköpun íslenska hagkerfisisins því um 7-9% af því eða 210-270 milljarða króna árið 2020. Að auki verður ekki sá hagvöxtur sem spáð hafði verið sem hækkar matið á efnahagsáfallinu um um það bil 50 milljarða króna. Þá er rétt að hafa í huga að efnahagsáfallið kemur örugglega ekki allt fram í ár því að áhrifanna mun örugglega einnig gæta á næsta ári og mjög líklega eitthvað lengur.

Hvenær verða umsvifin aftur þau sömu?

Þessi minni framleiðsla á vörum og þjónustu kemur víða fram og höggið er þyngst fyrir greinar eins og ferðaþjónustu. Lokun landamæra þýðir augljóslega að sala á ferðaþjónustu til útlendinga hverfur alveg. Jafnvel þótt tekin verði einhver skref í átt til opnunar landamæra áður en faraldurinn er genginn yfir er ólíklegt að það skili sér í miklum umsvifum í sölu ferðaþjónustu til skamms tíma. Þá verður að teljast líklegt að einhvern tíma taki fyrir umsvif í ferðaþjónustu að verða svipuð og fyrir faraldur jafnvel þegar allar hömlur á ferðalög hafa verið afnumdar. Í íslenskri ferðaþjónustu flækir það svo málið að hún hafði þegar dregist nokkuð saman frá því sem mest var áður en áhrifa faraldursins tók að gæta. Í ljósi þess virðist engan veginn hægt að ganga að því vísu að umsvifin nái fljótt aftur fyrri hæðum.

Fleiri greinar hafa orðið fyrir höggi, meðal annars þær sem veita ýmiss konar persónulega þjónustu, sem var gert að loka um lengri eða skemmri tíma. Lista- og menningargeirinn tapaði líka miklum tekjum enda ekki hægt að selja miða á leiksýningar eða tónleika eða skemmta í til dæmis brúðkaupum eða þorrablótum í samkomubanni. Af svipuðum ástæðum urðu íþróttafélög fyrir miklu tekjutapi. Fyrrnefndar tölur um samdrátt efnahagslífsins ættu að endurspegla allt þetta og margt fleira.

Hagstærðir segja ekki alla söguna

Tjón sem mælist í landsframleiðslu segir ekki alla söguna. Margs konar sálrænar og félagslegar afleiðingar af til dæmis samkomubanni geta skipt verulegu máli þótt þær komi ekki fram í hagstærðum. Sömuleiðis getur verið að til dæmis röskun á skólastarfi hafi ýmsar slæmar afleiðingar sem ekki er auðvelt að meta til fjár. Þá er vel þekkt að atvinnuleysi hefur margar aðrar afleiðingar en bara tekjumissi. Hér verður þó ekki reynt að meta slíka þætti.

Þótt hluti höggsins lendi beint á fyrirtækjum og þar með starfsmönnum þeirra, viðskiptavinum og birgjum þá kemur efnahagssamdrátturinn miklu víðar fram. Fjárhagur hins opinbera, það er ríkis og sveitarfélaga, versnar til muna. Að hluta er það vegna þess sem hagfræðingar kalla sjálfvirka sveiflujafnara. Þeir fela það í sér að tekjur hins opinbera dragast saman í samdrætti hagkerfisins og útgjöld hækka, sem minnkar áhrifin fyrir heimili og fyrirtæki. Sem dæmi útgjaldamegin mætti nefna atvinnuleysistryggingar og raunar velferðarkerfið í heild. Tekjumegin minnkar skattheimta þegar tekjur launþega og fyrirtækja lækka. Fyrir utan þessi sjálfvirku áhrif hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða sem annað hvort lækka tekjur eða fresta fyrir ríki og sveitarfélög eða auka útgjöld. Sem dæmi mætti nefna svokallaða hlutabótaleið. Fjárhagur ríkisins versnar því til muna þótt erfitt sé að meta nú hve mikill hallinn verður. Spár um það eru mjög ónákvæmar nú en ef til vill gæti hallinn orðið svipaður og samdráttur landsframleiðslu eða um það bil 300 milljarðar. Áhrifin á sveitarfélögin eru líka mjög neikvæð en örugglega mjög ólík milli sveitarfélaga, meðal annars vegna þess að vægi atvinnugreina sem eru í miklum vanda er misjafnt eftir landshlutum.

Skammtímahögg breytir litlu um langtímaþróun hagkerfisins

Horfur í efnahagsmálum eru því ekki bjartar til skamms tíma en það má ekki gleyma því að skammtímahögg sem þetta ætti ekki að breyta miklu um langtímaþróun hagkerfisins. Þegar faraldurinn er genginn yfir verður allt til staðar til að framleiða vörur og þjónustu með sama krafti og áður, það er fólk, fjármunir, náttúruauðlindir og þekking. Það mun hins vegar án efa taka einhvern tíma að ná aftur upp svipuðum umsvifum og áður, til dæmis vegna þess að fyrirtæki hafa hætt starfsemi og önnur þurfa að koma í þeirra stað, starfsfólk er hætt og þarf að finna sér nýja vinnu (og fyrirtæki nýtt starfsfólk) og fjárhagsstaða ýmissa fyrirtækja verður slæm þótt þau hafi ekki farið í þrot.

Þegar faraldurinn er genginn yfir verður allt til staðar til að framleiða vörur og þjónustu með sama krafti og áður, það er fólk, fjármunir, náttúruauðlindir og þekking.

Við vitum ekki nú hve langan tíma það mun taka. Nærtækasta fordæmið á Íslandi er fjármálakrísan fyrir rúmum áratug. Miðað við spár gæti samdrátturinn nú orðið svipaður og í fjármálakrísunni. Þá dróst hagkerfið saman í tvö ár og var svo um það bil fjögur ár til viðbótar að ná aftur sömu umsvifum og fyrir krísu. Það er þó margt mjög ólíkt með fjármálakrísunni og veirukrísunni svo að slíkar spár má ekki taka of alvarlega. Hér skiptir líka máli að íslenska hagkerfið nær sér vart á fullt skrið aftur nema svipað gerist í nágrannalöndunum enda þau okkar helstu viðskiptalönd.

Áfallið fyrir ríkissjóð verður án efa töluvert sem fyrr segir en þó vel innan þolmarka. Vegna þess að faraldrar eru blessunarlega tiltölulega sjaldgæf fyrirbrigði er eðlilegt að greiða niður kostnað vegna þeirra á löngum tíma, til dæmis nokkrum áratugum. Það þarf einungis óverulegar breytingar á tekjuöflun eða útgjöldum hins opinbera frá því sem var fyrir faraldur til að greiða niður skuldir vegna faraldursins sé það gert á nokkrum áratugum. Hér skiptir meðal annars máli að ríkissjóður getur tekið lán á mjög lágum vöxtum um þessar mundir, nánast 0% raunvöxtum. Því kostar það ríkissjóð lítið ef nokkuð að vera lengi að greiða upp þau lán sem hann mun fyrirsjáanlega þurfa að taka. Það þarf því engar umtalsverðar aðhaldsaðgerðir eftir faraldur að því gefnu að það takist að fá efnahagslífið til að skila svipuðum verðmætum og fyrir faraldur og þar með svipuðum skatttekjum og þá.

Að einhverju leyti gæti faraldurinn raunar skilað framförum fyrir efnahagslífið þegar til lengdar lætur. Sérstaklega verður áhugavert hvort sú áhersla sem hefur verið á fjarvinnu og fjarfundi og sölu á vörum og þjónustu í gegnum netið mun ekki skila ávinningi til frambúðar. Þótt þetta hafi verið neyðarráðstöfun við sérstakar aðstæður þá segir sagan okkur að tilraunir sem þessar geta haft varanleg áhrif. Það gæti svo aftur haft jákvæð umhverfisáhrif, til dæmis vegna minni ferðalaga til og frá vinnu eða vegna funda eða skilvirkari dreifingar á vörum og þjónustu. Væntanlega fellur það undir fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott!

Myndir:

Spurningu Elvars er hér svarað að hluta....