Mynd: Ólafur Ingólfsson, 2007.
Eitt megineinkenni jökla er sem fyrr segir að þeir hreyfast. Jökulís skilur sig frá snjó eða hjarni af því að hann er kristallaður. Snjór og hjarn umbreytist í jökulís vegna þrýstings á 20-30 m dýpi undir fargi nýsnævis og hjarns. Þegar þykkt íssins er orðin 30-50 m verður jökulísinn þjáll og þá skríður hann undan halla og þrýstingi og leitar niður fjallshlíðar og dali. Þannig ná skriðjöklar Vatnajökuls langt niður fyrir jöklunarmörk, og eru lægstu jökuljaðrar við sunnanverðan Vatnajökul í minna en 100 m hæð yfir sjó. Þegar jöklar skríða, springur yfirborð þeirra ef ísrennslið er hratt. Það gerist vegna þess að ísinn er þjáll á miklu dýpi, en efstu 20-30 m eru stökkir og brotna auðveldlega. Því einkenna mikil sprungusvæði marga skriðjökla, og geta sprungurnar orðið allt að 30 m djúpar.
Mynd: Ólafur Ingólfsson, 2005.
Sá hluti jökulsins sem liggur ofan við jöklunarmörk er safnsvæði jökulsins. Neðan jöklunarmarka leysir á sumrin allan snjó sem þar fellur á vetrum, og er sá hluti jökulsins leysingarsvæði. Jökull helst á því svæði eingöngu vegna ísskriðs, yfirleitt ofan frá. Jöklunarmörkin skilgreina jafnvægislínu á jöklinum, þar sem ákoma og leysing á staðnum standast á. Við rennsli færist ís frá yfirborði niður í jökulinn ofan jafnvægislínu, en leitar til yfirborðs neðan jafnvægislínu. Þetta mynstur í rennsli jökla skýrir hvernig þeir geta flutt bergbrot og bergmylsnu og skilað þessu upp á yfirborð við neðri jaðar, og hvernig þeir rjúfa undirlag sitt og setja af sér jökulruðning og jökulgarða.
Teikning: Ólafur Ingólfsson, 2008.
Þegar jöklar skríða fram rjúfa þeir undirlag sitt. Þeir nota bergmylsnu sem flyst með botni jökuls sem “graftartól” til að sverfa undirlagið. Jökulrákaðar klappir á svæðum sem jöklar hafa farið yfir bera vitni þessa rofs við botn jökulsins. Bergmylsnan flyst síðan til yfirborðs jökulsins á leysingarsvæði hans og safnast í jökulgarða við jaðar jökulsins.
Mynd: Ólafur Ingólfsson, 2005.
Á Vísindavefnum eru fleiri svör um jökla, til dæmis:
- Hve stór hluti landsins er hulinn jöklum? eftir UA.
- Hvað eru margir jöklar á Íslandi? eftir ÞV.
- Hvað er jökulrof? Hvernig verður jökulrof og landmótun jökla á Íslandi? eftir Sigurð Steinþórsson.
- Ef Vatnajökull myndi hverfa á morgun hvað mundi land undir honum rísa mikið og á hvað löngum tíma? eftir Freystein Sigmundsson.
- Hvaða ályktanir um loftslagsbreytingar í tímans rás má draga af rannsóknum á jöklabreytingum á Íslandi? eftir Ólaf Ingólfsson.
- Hvað er líklegt að ísinn neðst í Vatnajökli sé gamall? eftir Sigurð Steinþórsson.
- Hvernig myndast jökulár og af hverju eru þær svona á litinn? eftir Sigurð Steinþórsson.
- Þorleifur Einarsson 1968, Jarðfræði, Saga Bergs og Lands. Reykjavík, Mál og Menning, 335 bls.
- Douglas I. Benn og David J.A. Evans, 1998. Glaciers and Glaciation. London: Arnold, 734 bls.