Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig myndast jöklar?

Ólafur Ingólfsson

Jöklar eru myndaðir úr ís og er eitt megineinkenni þeirra að þeir skríða undan eigin þunga. Jöklar myndast þar sem meiri snjór safnast fyrir að vetri en sumarhlýindi ná að bræða þegar til lengdar lætur.

Mörkin milli svæða þar sem snjór safnast og auðra svæða þar sem hann bráðnar og hverfur eru kölluð jöklunarmörk. Hæð jöklunarmarka yfir sjó eru háð hitastigi og ofankomu sumar sem vetur á hverju svæði. Má þá einnig hafa í huga að ríkjandi vindáttir og skuggaáhrif vegna hárra fjalla hafa veruleg áhrif á hita og ofankomu og þar með á legu jöklunarmarka.

Á Íslandi liggja jöklunarmörk í um 1100 m yfir sjó á sunnanverðum Vatnajökli og við Langjökul og Hofsjökul. Það þýðir að jöklar geta myndast á fjöllum sem ná hærra en 1100 m á þessum svæðum. Jöklunarmörk eru hvað lægst á Íslandi í um 800 m yfir sjó á Drangjökulssvæðinu. Þar fer saman stutt sumar og lágur sumarhiti (lítil bráðnun að sumri) og langur vetur með mikilli snjókomu.

Jöklunarmörk eru í um 1400 m á Eyjafjarðarsvæðinu, og hvað hæst eru þau á miðhálendinu í kringum Herðurbreið (yfir 1700 m). Á þessum svæðum er það lítil ofankoma á vetrum frekar en hár sumarhiti sem takmarkar vöxt jökla.



Snæfell, norðan Vatnajökuls. Fjallið er 1833 m hátt, og á því er jökulhetta og nokkrir minni skriðjöklar. Jöklunarmörk liggja í um það bil 1600 m hæð yfir sjó.
Mynd: Ólafur Ingólfsson, 2007.

Eitt megineinkenni jökla er sem fyrr segir að þeir hreyfast. Jökulís skilur sig frá snjó eða hjarni af því að hann er kristallaður. Snjór og hjarn umbreytist í jökulís vegna þrýstings á 20-30 m dýpi undir fargi nýsnævis og hjarns. Þegar þykkt íssins er orðin 30-50 m verður jökulísinn þjáll og þá skríður hann undan halla og þrýstingi og leitar niður fjallshlíðar og dali. Þannig ná skriðjöklar Vatnajökuls langt niður fyrir jöklunarmörk, og eru lægstu jökuljaðrar við sunnanverðan Vatnajökul í minna en 100 m hæð yfir sjó.

Þegar jöklar skríða, springur yfirborð þeirra ef ísrennslið er hratt. Það gerist vegna þess að ísinn er þjáll á miklu dýpi, en efstu 20-30 m eru stökkir og brotna auðveldlega. Því einkenna mikil sprungusvæði marga skriðjökla, og geta sprungurnar orðið allt að 30 m djúpar.



Sprungið yfirborð Gígjökuls, sem er skriðjökull frá Eyjafjallajökli. Hratt ísrennsli niður bratta fjallshlíð veldur myndun stórra sprungna.
Mynd: Ólafur Ingólfsson, 2005.

Sá hluti jökulsins sem liggur ofan við jöklunarmörk er safnsvæði jökulsins. Neðan jöklunarmarka leysir á sumrin allan snjó sem þar fellur á vetrum, og er sá hluti jökulsins leysingarsvæði. Jökull helst á því svæði eingöngu vegna ísskriðs, yfirleitt ofan frá. Jöklunarmörkin skilgreina jafnvægislínu á jöklinum, þar sem ákoma og leysing á staðnum standast á.

Við rennsli færist ís frá yfirborði niður í jökulinn ofan jafnvægislínu, en leitar til yfirborðs neðan jafnvægislínu. Þetta mynstur í rennsli jökla skýrir hvernig þeir geta flutt bergbrot og bergmylsnu og skilað þessu upp á yfirborð við neðri jaðar, og hvernig þeir rjúfa undirlag sitt og setja af sér jökulruðning og jökulgarða.



Einfaldað þversnið af daljökli, sem skýrir ísflæði, rof, flutning bergmylsnu og myndun jökulgarða.
Teikning: Ólafur Ingólfsson, 2008.

Þegar jöklar skríða fram rjúfa þeir undirlag sitt. Þeir nota bergmylsnu sem flyst með botni jökuls sem “graftartól” til að sverfa undirlagið. Jökulrákaðar klappir á svæðum sem jöklar hafa farið yfir bera vitni þessa rofs við botn jökulsins. Bergmylsnan flyst síðan til yfirborðs jökulsins á leysingarsvæði hans og safnast í jökulgarða við jaðar jökulsins.



Háir jökulgarðar framan við Kvíárjökul.
Mynd: Ólafur Ingólfsson, 2005.

Á Vísindavefnum eru fleiri svör um jökla, til dæmis:

Ítarefni:

  • Þorleifur Einarsson 1968, Jarðfræði, Saga Bergs og Lands. Reykjavík, Mál og Menning, 335 bls.
  • Douglas I. Benn og David J.A. Evans, 1998. Glaciers and Glaciation. London: Arnold, 734 bls.

Höfundur

prófessor í jarðfræði við HÍ

Útgáfudagur

25.3.2008

Spyrjandi

Róbert Þór Einarsson
Heiður Erna
Halldóra Daníelsdóttir
Áslaug Benediktsdóttir
Reynir Hans Reynisson

Tilvísun

Ólafur Ingólfsson. „Hvernig myndast jöklar?“ Vísindavefurinn, 25. mars 2008, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7251.

Ólafur Ingólfsson. (2008, 25. mars). Hvernig myndast jöklar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7251

Ólafur Ingólfsson. „Hvernig myndast jöklar?“ Vísindavefurinn. 25. mar. 2008. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7251>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig myndast jöklar?
Jöklar eru myndaðir úr ís og er eitt megineinkenni þeirra að þeir skríða undan eigin þunga. Jöklar myndast þar sem meiri snjór safnast fyrir að vetri en sumarhlýindi ná að bræða þegar til lengdar lætur.

Mörkin milli svæða þar sem snjór safnast og auðra svæða þar sem hann bráðnar og hverfur eru kölluð jöklunarmörk. Hæð jöklunarmarka yfir sjó eru háð hitastigi og ofankomu sumar sem vetur á hverju svæði. Má þá einnig hafa í huga að ríkjandi vindáttir og skuggaáhrif vegna hárra fjalla hafa veruleg áhrif á hita og ofankomu og þar með á legu jöklunarmarka.

Á Íslandi liggja jöklunarmörk í um 1100 m yfir sjó á sunnanverðum Vatnajökli og við Langjökul og Hofsjökul. Það þýðir að jöklar geta myndast á fjöllum sem ná hærra en 1100 m á þessum svæðum. Jöklunarmörk eru hvað lægst á Íslandi í um 800 m yfir sjó á Drangjökulssvæðinu. Þar fer saman stutt sumar og lágur sumarhiti (lítil bráðnun að sumri) og langur vetur með mikilli snjókomu.

Jöklunarmörk eru í um 1400 m á Eyjafjarðarsvæðinu, og hvað hæst eru þau á miðhálendinu í kringum Herðurbreið (yfir 1700 m). Á þessum svæðum er það lítil ofankoma á vetrum frekar en hár sumarhiti sem takmarkar vöxt jökla.



Snæfell, norðan Vatnajökuls. Fjallið er 1833 m hátt, og á því er jökulhetta og nokkrir minni skriðjöklar. Jöklunarmörk liggja í um það bil 1600 m hæð yfir sjó.
Mynd: Ólafur Ingólfsson, 2007.

Eitt megineinkenni jökla er sem fyrr segir að þeir hreyfast. Jökulís skilur sig frá snjó eða hjarni af því að hann er kristallaður. Snjór og hjarn umbreytist í jökulís vegna þrýstings á 20-30 m dýpi undir fargi nýsnævis og hjarns. Þegar þykkt íssins er orðin 30-50 m verður jökulísinn þjáll og þá skríður hann undan halla og þrýstingi og leitar niður fjallshlíðar og dali. Þannig ná skriðjöklar Vatnajökuls langt niður fyrir jöklunarmörk, og eru lægstu jökuljaðrar við sunnanverðan Vatnajökul í minna en 100 m hæð yfir sjó.

Þegar jöklar skríða, springur yfirborð þeirra ef ísrennslið er hratt. Það gerist vegna þess að ísinn er þjáll á miklu dýpi, en efstu 20-30 m eru stökkir og brotna auðveldlega. Því einkenna mikil sprungusvæði marga skriðjökla, og geta sprungurnar orðið allt að 30 m djúpar.



Sprungið yfirborð Gígjökuls, sem er skriðjökull frá Eyjafjallajökli. Hratt ísrennsli niður bratta fjallshlíð veldur myndun stórra sprungna.
Mynd: Ólafur Ingólfsson, 2005.

Sá hluti jökulsins sem liggur ofan við jöklunarmörk er safnsvæði jökulsins. Neðan jöklunarmarka leysir á sumrin allan snjó sem þar fellur á vetrum, og er sá hluti jökulsins leysingarsvæði. Jökull helst á því svæði eingöngu vegna ísskriðs, yfirleitt ofan frá. Jöklunarmörkin skilgreina jafnvægislínu á jöklinum, þar sem ákoma og leysing á staðnum standast á.

Við rennsli færist ís frá yfirborði niður í jökulinn ofan jafnvægislínu, en leitar til yfirborðs neðan jafnvægislínu. Þetta mynstur í rennsli jökla skýrir hvernig þeir geta flutt bergbrot og bergmylsnu og skilað þessu upp á yfirborð við neðri jaðar, og hvernig þeir rjúfa undirlag sitt og setja af sér jökulruðning og jökulgarða.



Einfaldað þversnið af daljökli, sem skýrir ísflæði, rof, flutning bergmylsnu og myndun jökulgarða.
Teikning: Ólafur Ingólfsson, 2008.

Þegar jöklar skríða fram rjúfa þeir undirlag sitt. Þeir nota bergmylsnu sem flyst með botni jökuls sem “graftartól” til að sverfa undirlagið. Jökulrákaðar klappir á svæðum sem jöklar hafa farið yfir bera vitni þessa rofs við botn jökulsins. Bergmylsnan flyst síðan til yfirborðs jökulsins á leysingarsvæði hans og safnast í jökulgarða við jaðar jökulsins.



Háir jökulgarðar framan við Kvíárjökul.
Mynd: Ólafur Ingólfsson, 2005.

Á Vísindavefnum eru fleiri svör um jökla, til dæmis:

Ítarefni:

  • Þorleifur Einarsson 1968, Jarðfræði, Saga Bergs og Lands. Reykjavík, Mál og Menning, 335 bls.
  • Douglas I. Benn og David J.A. Evans, 1998. Glaciers and Glaciation. London: Arnold, 734 bls.
...