Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvernig bý ég til aflandsfélag í skattaskjóli án þess að nokkur komist að því? Hvað getið þið sagt mér um alþjóðlegar skattaparadísir?
Á síðustu áratugum hefur heimurinn skroppið saman í eitt markaðssvæði. Fyrirtæki, sem áður einskorðuðu starfsemi sína við eitt þjóðríki (og báru fulla skattskyldu þar), hafa fært út kvíarnar og eru með starfsstöðvar og efnahagsstarfsemi í mörgum löndum. Fyrirtæki sem starfa í mörgum löndum eru jafnframt skattþegnar margra ríkja. Þau greiða launatengd gjöld í samræmi við reglur og lög þess ríkis sem starfsemin fer fram í. Þar geta komið upp álitamál sérstaklega tengd launþegum sem ferðast milli landa. Þau vandkvæði eru þó barnaleikur samanborið við skattlagningu hagnaðar og fjármagnstekna.
Stjórnvöld í nokkrum litlum (ey)-ríkjum hafa séð sér leik á borði og bjóða upp á hagstætt skattaumhverfi í þeirri von að auðugir einstaklingar og fjölþjóðleg fyrirtæki gerist skattborgarar viðkomandi ríkis. Þannig segir til dæmis Reuters frá því að Google hafi talið um 11 milljaðra evra fram sem hagnað í Bermúda árið 2014 og þannig komist hjá að greiða tekjuskatt af þeirri upphæð.[1]
Google taldi 11 milljarða evra fram sem hagnað í Bermúda árið 2014 og komst þannig hjá því að greiða tekjuskatt af þeirri upphæð. Myndin sýnir hús Hæstaréttar á Bermúda.
Svar við alþjóðavæðingu skattasniðgöngu (e. tax-avoidance) er aukin alþjóðavæðing skattakerfisins, ekki síst fyrir tilstilli Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD), samanber frumkvæði þeirra varðandi vinnu með svonefndar BEPS-reglur. Ríki og/eða lögsagnarumdæmi stunda skaðlega skattasamkeppni (e. harmful tax competion), að mati OECD, með stofnun svokallaðra skattaskjóla (e. tax haven, f. paradis fiscal). Ástæða þess að OECD berst gegn skattaskjólum er að tilvist þeirra verður til þess að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja sem ekki nýta sér þjónustu þeirra og auka skattbyrði þeirra skattborgara sem eiga örðugt með að flytja fé milli landa.
Helstu einkenni skattaskjóla samkvæmt OECD eru:
Enginn eða mjög lágur tekjuskattur
Skortur á skilvirkum upplýsingaskiptum
Skortur á gagnsæi
Engin raunveruleg starfsemi fer þar fram
Skattaskjól gegna þríþættu hlutverki: í fyrsta lagi eru þau aðsetur fyrir svokölluð skúffufyrirtæki, það er engin raunveruleg starfsemi fer þar fram heldur er þar eingöngu póstfang, í öðru lagi útvega þau möguleika á að skrá og færa bókhald eftir smekk viðkomandi, en ekki viðurkenndum bókhaldsreglum, og síðast en ekki síst koma þau í veg fyrir að skattyfirvöld geti rannsakað bankareikninga viðkomandi.
Öll þessi atriði hafa áhrif á skattkerfi annarra ríkja en skattaskjólanna og ýta undir skattsvik, skattasniðgöngu, peningaþvætti, mútur og spillingu.[2]
Hér má fræðast um þau skref sem blaðamenn National Public Radio í Bandaríkjunum þurftu að taka til að stofna sitt eigið skúffufyrirtæki:
Blaðamennirnir stofnuðu fyrirtækið Unbelizable Inc. í Belís, sem er ríki í Mið-Ameríku, og bauðst að opna reikning í nafni Unbelizable Inc. í svissneskum banka. Blaðamennirnir voru fullvissaðir um raunverulegu eignarhaldi Unbelizable yrði haldið algjörlega leyndu. Þegar spurt var sérstaklega hvort bandarísk yfirvöld gætu ekki krafið stjórnvöld í Belize um upplýsingar var svarið: Aðeins ef dómstóll í Belize úrskurðar svo.
Uppruna skattaskjóla má rekja til áranna eftir fyrri heimstyrjöld þegar ríki meginlands Evrópu hækkuðu skatta til að standa straum af kostnaði við uppbyggingu eftir hörmungar stríðsins. Alla 19. öldina hafði yfirstéttin safnað auði, en lítinn eða engan skatt greitt. Nú varð breyting á. Skuldir hins opinbera höfðu margfaldast eftir stríðið; það varð að hlynna að sjúkum og greiða hermönnum eftirlaun. Í Frakklandi fór jaðarskatturinn til dæmis úr 4% fyrir stríð í 72% árið 1924. Yfirstéttin vildi ekki greiða sinn hlut í uppbyggingunni og skattsvikaiðnaðurinn varð til með flutningi fjármagns frá Frakklandi til Sviss. Talið er að á milli heimstyrjaldanna hafi Sviss sogað til sín um það bil 125 miljarða svissneskra franka á verði ársins 2013 að teknu tilliti til verðbreytinga. Með öðrum orðum margfölduðust þeir fjármunir sem geymdir voru á leynireikningum í Sviss, þeir fóru úr 0,5% af heildareignum í 2,5%.
Uppruna skattaskjóla má rekja til áranna eftir fyrri heimstyrjöld þegar ríki meginlands Evrópu hækkuðu skatta til að standa straum af kostnaði við uppbyggingu eftir hörmungar stríðsins. Yfirstéttin vildi ekki greiða sinn hlut í uppbyggingunni og skattsvikaiðnaðurinn varð til með flutningi fjármagns frá Frakklandi til Sviss. Myndin sýnir banka í Sviss og er tekin um 1920.
Á níunda áratugnum bættust fleiri skattakjól í hópinn, London, Hong Kong, Singapúr, Jersey, Lúxemborg, Bahamaeyjar, Panama og svo framvegis. Áætlað hefur verið að lágmarki 8% af heildarauðæfum heimila heims séu í skattaskjólum, eða um það bil 5.800 miljarðar €. Þar af er talið að í Sviss séu 1.800 miljarðar €.[3]
Leyndin er innsta eðli skattaskjóla en með auknu alþjóðlegu samstarfi, kröfunni um aukið gagnsæi í viðskiptum og aukinni rannsóknarblaðamennsku hafa myndast glufur í hana. Hér má nefna hinn svokallaða Lagarde-lista, sem kenndur er við Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands, sem lét Grikkjum í té upplýsingar um 2.000 skattssvikara í október 2010. Lagarde-listinn er aðeins lítið brot af svonefndum Falciani-lista, en á árunum 2006 og 2007 safnaði franski tölvunarfræðingurinn Hervé Falciani upplýsingum um 130.000 skattsvikara frá svissneska bankanum HSBC í Genf, sem franska leyniþjónustan komst yfir.[4] Þá má nefna uppljóstranir Rudolfs Elmers, sem tengjast reikningum sem Julius Bar-bankinn hafði milligöngu um á Cayman-eyjum.[5] Loks má nefna Panama-lekann, sem samtök rannsóknarblaðamanna standa að og er stærsti gagnaleki sögunnar, en þar má meðal annars finna upplýsingar um 600 Íslendinga.[6] Dagar leyndarhyggjunnar eru taldir.
Tilvísanir:
Jóhannes Hraunfjörð Karlsson og Þórólfur Matthíasson. „Hvað eru skattaskjól og hvenær urðu þau til?“ Vísindavefurinn, 27. apríl 2016, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=71970.
Jóhannes Hraunfjörð Karlsson og Þórólfur Matthíasson. (2016, 27. apríl). Hvað eru skattaskjól og hvenær urðu þau til? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=71970
Jóhannes Hraunfjörð Karlsson og Þórólfur Matthíasson. „Hvað eru skattaskjól og hvenær urðu þau til?“ Vísindavefurinn. 27. apr. 2016. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=71970>.