Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sjá má merki þess strax á miðöldum að svæðið við Faxaflóa sunnanverðan þótti vel til þess fallið að vera aðsetur umboðsstjórnar konungs á Íslandi. Líklega hefur það einkum stafað af því að þar voru góð fiskimið nærri landi og góðir lendingarstaðir skipa, í Hafnarfirði og víðar. Útlendir kaupmenn hafa því verið fúsir að sigla þangað og tryggja þannig samband við umheiminn.
Konungur mun hafa eignast Bessastaði á Álftanesi strax á 13. öld, og á 14. öld var sá siður tekinn upp að æðstu umboðsmenn konungs á landinu, hirðstjórar, höfðu aðsetur þar ef þeir voru útlendir. En ef Íslendingar gegndu hirðstjórn sátu þeir framvegis á eigin jörðum. Snemma verður vart við tilhneigingu konungs til að safna stjórnarstofnunum landsins saman í grennd við Bessastaði. Þannig gaf konungur út bréf árið 1574 þar sem hann skipaði svo fyrir að Alþingi skyldi framvegis háð í Kópavogi. En Íslendingar virðast ekki hafa tekið neitt mark á því, og haldið var áfram að koma saman á þing á Þingvöllum.
Reykjavík sem verksmiðjuþorp um 1770.
Um miðja 18. öld var ákveðið að landfógeti, eins konar fjármálastjóri konungs á Íslandi, hefði aðsetur í Viðey. Skúli Magnússon hafði þá nýlega tekið við því embætti og var að vinna að því að koma á fót á Íslandi iðnaðarstofnunum, svokölluðum Innréttingum, einkum til að vinna klæði úr ull. Um þetta var stofnað hlutafélag á Þingvöllum um þingtímann sumarið 1751. Eftir þingið fór Skúli til Kaupmannahafnar að afla stuðnings frá konungi við fyrirtækið og fékk meðal annars til ráðstöfunar jarðirnar Reykjavík og Örfirisey sem konungur átti. Í Reykjavík var þá sveitabær með einar átta hjáleigur, á milli bæjanna Hlíðarhúsa og Arnarhóls. Ætla má að Skúli hafi valið Reykjavík af því að hún var nálægt bústað hans sjálfs, og stutt var til verslunarstaðar sem var þá í Örfirisey. Til er skriflegur rökstuðningur Skúla fyrir því að velja Reykjavíkurjörðina, þar sem hann tiltekur kosti hennar: nægilegt eldsneyti (líklega einkum mór), sæmileg hafnarskilyrði frá náttúrunnar hendi, tiltölulega góðar samgöngur og gnægð vatns. Slíka kosti hefði væntanlega mátt finna á mörgum jörðum.
Á næstu árum var byggt yfir verkstæði Innréttinganna í Reykjavík, og myndaðist þar dálítil húsaröð meðfram götuslóða til sjávar sem fékk seinna nafnið Aðalstræti. Þessi byggð hlóð síðan utan á sig. Um 1780 var verslunin flutt úr Örfirisey til Reykjavíkur og jók svolitlu við þorpið þar. Árið 1786, þegar einokunarverslun var afnumin, fékk Reykjavík svonefnd kaupstaðarréttindi, og fólust í því ýmis forréttindi til að stofna þar verslanir eða verkstæði, til dæmis ókeypis byggingarlóðir.
Um leið tóku stjórnarstofnanir að safnast saman í Reykjavík. Eftir mikla jarðskjálfta á Suðurlandi árið 1784 voru biskupsstóll og latínuskóli í Skálholti lagðir niður og fluttir til Reykjavíkur nokkrum árum síðar. Skólinn átti reyndar eftir að flytjast suður á Bessastaði árið 1804 en koma til Reykjavíkur aftur 1846. Landfógetaembættið var flutt til Reykjavíkur 1795. Alþingi var háð þar sumarið 1799, en árið eftir var það lagt niður og stofnaður Landsyfirréttur í staðinn, og hafði hann aðsetur í Reykjavík frá upphafi. Stiftamtmaður, eftirmaður hirðstjóra, fluttist í bæinn 1804 þegar Bessastaðastofa var tekin undir skólann. Stiftsbókasafn, síðar Landsbókasafn var stofnað í Reykjavík 1818. Landlæknir hafði haft aðsetur á Nesi við Seltjörn en fluttist til Reykjavíkur 1833 ásamt apóteki. Öllum þessum stofnunum fylgdi auðvitað að byggja þurfti íbúðarhús yfir starfsmenn þeirra. Verslunum fjölgaði og þjónustustofnanir eins og veitinarhús spruttu upp.
Miðbær Reykjavíkur árið 1836.
Þegar ráðgjafarþingið Alþingi var stofnað, árið 1845, var því valinn staður í Reykjavík, þótt flestum Íslendingum muni hafa fundist Þingvellir betur viðeigandi. Þá var nær öll æðsta stjórn landsins komin til Reykjavíkur og bærinn eiginlega orðinn höfuðstaður. Íbúar bæjarins voru þá um þúsund manns, enn innan við 2% af þjóðinni. Þeim fjölgaði síðan smám saman og bæjarlandið var stækkað til að það gæti tekið við þeim.
Í fornum ritum, Íslendingabók og Landnámabók, segir að fyrsti varanlegi landnámsmaður Íslands, Ingólfur Arnarson, hafi búið í Reykjavík. Ekki veit ég til þess að nokkur maður hafi hugsað þá hugsun að viðeigandi væri þess vegna að gera þann stað að þéttbýli eða stofna þar höfuðborg landsins. Á fyrstu árum Innréttinganna voru Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson í rannsóknarferðum sínum um Ísland og fylgdust örugglega vel með öllum nýjungum. Í Ferðabók þeirra, sem Eggert mun hafa ritað, er það kallað skemmtileg tilviljun að óðal fyrsta landnámsmannsins yrði fyrir valinu. Hér virðist tilviljunin ein hafa verið að verki. Stundum er hún hnyttnari en nokkur hugmyndasmiður.
Heimildir og myndir:
Einar Arnórsson: Réttarsaga Alþingis. Reykjavík, Alþingissögunefnd, 1945.
Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Icelandic Historical Statistics. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
Þorleifur Óskarsson: Saga Reykjavíkur í þúsund ár. 870–1870 I–II. Reykjavík, Iðunn, 2002.
Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson, Páll Líndal: Landið þitt Ísland III. L–R. Reykjavík, Örn og Örlygur, 1982.
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Af hverju varð Reykjavík höfuðstaður Íslands?“ Vísindavefurinn, 7. apríl 2015, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68453.
Gunnar Karlsson (1939-2019). (2015, 7. apríl). Af hverju varð Reykjavík höfuðstaður Íslands? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68453
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Af hverju varð Reykjavík höfuðstaður Íslands?“ Vísindavefurinn. 7. apr. 2015. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68453>.