Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað er helst vitað um svartadauða á Íslandi?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Hér er að finna svör við fjölmörgum spurningum sem Vísindavefnum hafa borist um svartadauða, meðal annars:
Hvenær kom svartidauði til Íslands? Hvernig smitaðist veikin? Hversu margir voru Íslendingar fyrir og eftir svartadauða? Hversu hratt gekk svartidauði yfir í heiminum og á Íslandi?

Farsóttin sem síðar var kölluð svartidauði (á latínu mors nigra) var oftast kölluð pest eða plága þegar hún gekk yfir Evrópu um miðja 14. öld og olli gífurlegu manntjóni. Áætlanir um mannfall liggja gjarnan á bilinu einn fjórði til þrír fjórðu hlutar íbúa. Þessi faraldur barst ekki til Íslands, sennilega vegna þess að þeir sem höfðu sýkst í Noregi, þaðan sem mest var siglt til landsins á þeim tíma, hafa dáið í hafi áður en þeir náðu til Íslands. Síðan féllu samgöngur fljótt niður vegna þess að þeir Norðmenn sem lifðu eftir hafa haft meira en nóg að sýsla heima fyrir. Að sögn annáls sigldi ekkert skip til Íslands árið 1350.

Eftir að þessi faraldur gekk yfir var pestin landlæg víða í Evrópu, og minni háttar faraldrar gengu næstu aldirnar allt fram á 18. öld, stundum á nokkurra áratuga fresti. Tveir slíkir faraldrar náðu til Íslands, sá fyrri gekk hér á árunum 1402–04, sá síðari 1494–95. Um smitleiðir pestarinnar höfðu menn lengi þá skoðun að hún liði yfir landið eins og þokumóða, og voru til sögur um hvernig fólk hefði séð hana nálgast úr fjarska. En um aldamótin 1900 kom upp afar mannskæð kýlapest í Kína og Indlandi, svo mannskæð að fljótt var giskað á að þarna væri á ferð sami sjúkdómur og hafði verið kallaður svartidauði. Lengi voru smitleiðir þessa sjúkdóms mikil ráðgáta, en eftir nokkurra ára rannsóknir kom í ljós að hann smitaðist ekki beint frá manni til manns heldur á milli manna með flóm sem lifðu aðallega á rottum. Þegar rotturnar drápust úr pestinni leituðu flærnar á menn til að seðja hungur sitt og smituðu þá í leiðinni. Skömmu síðar kom svo í ljós að sami sjúkdómur gat líka gengið frá manni til manns sem lungnapest og var þá ennþá mannskæðari, drap nánast alla sem veiktust. En engu er líkara en að vísindaheimurinn hafi verið svo stoltur af ráðningu sinni á smitleið kýlapestarinnar að haldið var dauðahaldi í að þannig hlyti miðaldaplágan í Evrópu að hafa smitast.

Svartidauði herjaði á Evrópu töluvert áður en sjúkdómurinn barst til Íslands. Myndin er af sjúklingum með svartadauða, frá árinu 1411.

Þess vegna þvældist það nokkuð fyrir fræðimönnum að engar heimildir voru um rottur á Íslandi á tíma pestarfaraldranna. Í fornleifarannsóknum hefur farið að tíðkast síðustu áratugi að tína bein upp úr sýnum úr sorphaugum mannabústaða og tegundargreina þau, og hefur það staðfest að landið hafi verið rottulaust fram yfir lok miðalda. Þetta leiddi suma til þess að álykta að faraldrarnir á Íslandi hafi verið af einhverjum öðrum sjúkdómi en pest. Aðrir bentu á að ekkert væri því til fyrirstöðu að pestin hefði gengið sem lungnapest. Loks voru þeir til sem sögðu að pestin sjálf sannaði að það hefðu verið rottur á Íslandi, hvað sem liði ritheimildum eða fornleifum. En síðustu áratugi hefur þeirri skoðun vaxið fylgi í Evrópu að svartidauði hafi frá upphafi gengið sem lungnapest um álfuna. Rottur hafi ekki átt neinn hlut að honum, enda hafi þær líklega verið fátíðar í sveitum; svarta rottan sem þá var í Evrópu hafi varla lifað utan borga. Í áratugargamalli enskri bók um svartadauða í Evrópu má lesa í niðurstöðukafla: „Þessi bók hefur leitast við að frelsa svartadauða úr fangelsi kýlapestarinnar sem hún hefur verið í síðan seint á 19. öld. Með því hefur bókin lagt grunn að nýrri sögu sjúkdóma og menningar á Vesturlöndum.“

Um mannfall í faröldrunum á Íslandi eru talsverðar heimildir en að vísu ósamstæðar. Frásagnarheimildir eru einkum annálar, og þeir segja ævinlega frá mannfalli á ákveðnum stöðum eða landsvæðum, og þar er það nánast alltaf yfir helmingur íbúa. Til biskupssetursins í Skálholti náði pestin fyrir jól 1402. „Aleyddi þá þegar staðinn að lærðum mönnum og leikum, fyrir utan biskupinn sjálfan og tvo leikmenn.“ Árið 1404 „eyddi þá enn staðinn í Skálholti þrjá tíma að þjónustufólki. Deyði þar þá þrír prestar og mesti hlutur klerka; tveir prestar lifðu eftir.“ Í Húnavatnsþingi og Skagafirði segir að „víða var aleytt bæði af prestum og leikmönnum.“ Í nunnuklaustrinu í Kirkjubæ á Síðu „eyddi staðinn þrjá tíma að manfólki [það er þjónustufólki] svo að um síðir mjólkuðu systurnar kúfénaðinn … Item [það er einnig] hið sama ár eyddi staðinn í Þykkvabæ þrisvar að manfólki svo að ekki var eftir nema tveir bræður [það er munkar] … og einn húskarl staðarins.“ Sagt er að allir lærðir menn í Hólabiskupsdæmi hafi fallið nema sex prestar, þrír djáknar og einn munkur í Þingeyraklaustri. Þá hafi varla lifað eftir nema 50 prestar í Skálholtsbiskupsdæmi. Það ætti að vera um 95% mannfall klerka í Hólabiskupsdæmi en yfir 80% í Skálholtsbiskupsdæmi. En þess verður að gæta að ritheimildir nefna fremur dæmi um mannfall þar sem það var meira en í meðallagi. Líka má gera ráð fyrir að prestar hafi verið í meiri smithættu en aðrir af því að þeir hafi þjónustað deyjandi fólk – auk þess sem þeir hafa verið í sérstakri smithættu ef það var farið að tíðkast að fólk kyssti prestinn í þakklætisskyni fyrir guðsþjónustu, eins og var siður að gera síðar.

Orsakir og smitleiðir svartadauða voru lengi vel mikil ráðgáta. Sums staðar í Evrópu var gyðingum kennt um sjúkdóminn og var fjöldi þeirra brenndur á báli sökum þess.

Heildstæðustu heimildirnar um mannfall eru skýrslur um byggingu jarða ákveðinna eigenda eftir fyrri pestarfaraldurinn. Um það eru til skýrslur sem ná til 716 jarða norðanlands og vestanlands og eru skráðar á árunum 1431–49 eða 27–45 árum eftir að faraldrinum lauk. Þá voru 82% jarðanna í byggð en 18% í eyði. Samkvæmt því gæti til dæmis látið nærri að helmingur íbúanna hefði fallið í pestinni, þeir sem eftir lifðu hefðu dreift svolítið úr sér þegar nóg jarðnæði var í boði þannig að 60% jarða hefðu verið í byggð strax eða fljótlega eftir pestina. Á um fjórum áratugum eftir pestina má áætla að fólki hafi fjölgað svo að 20% jarða byggðust upp á ný. Þá voru eftir um 20% jarða óbyggðar, eins og skýrslurnar sýna. Enginn veit hve margir Íslendingar voru á þessum tímum, en ef gert er ráð fyrir að þeir hafi verið um 50.000 fyrir pestina, eins og þeir voru þegar fyrsta manntalið var tekið 1703, hafa um 25.000 fallið samkvæmt þessari áætlun, sem vissulega er hvorki nákvæm né örugg.

Um síðari faraldurinn, 1495–96, segja ritheimildir líka frá meira en helmings mannfalli. „Sótt og plága mikil um allt landið nema um Vestfjörðu, svo að hreppar eyddust og sveitir að mestu,“ segir í norðlenskum annál. Sunnlenskur annáll segir: „Í þessari sótt var svo mikið mannfall að enginn mundi eður hafði heyrt þess getið, því margir bæir eyddust, og þeir voru flestir að ekki urðu eftir á bænum utan þrír menn eða tveir …“ Ennfremur segir þar: „Þó að færi sex eða sjö til kirkjunnar með þá dauðu þá komu ekki aftur utan þrír eða mest fjórir. Þeir dóu þá er þeir tóku öðrum grafirnar og fóru þar svo í sjálfir.“ Fjóra bæi nafngreinir annállinn í Hrunamannahreppi og Grímsnesi þar sem sóttin hafi ekki komið. Um eyðibyggð eru fátæklegri gögn eftir þennan faraldur en þann fyrri. En ef reiknað er á sama hátt út úr þeim komum við niður á rúmlega 40% mannfall utan Vestfjarða, tæplega 40% af öllum landsmönnum ef tekið er tillit til þess að Vestfirðir sluppu alveg. Hafi mannfjöldinn verið kominn upp í 50.000 fyrir seinni faraldurinn hefur hann þá farið niður í kringum 30.000.

Meðan plágurnar gengu yfir hefur auðvitað leitt af þeim mikinn ótta og mikla sorg. En þegar frá leið losaði pestin jarðnæði til ábúðar og gerði þeim lífið léttara sem eftir lifðu. Ætla má að pestin hafi framlengt líf algers dreifbýlissamfélags á Íslandi, gert óþarft lengur en ella að fólk tæki sér fasta búsetu í verstöðvum og breyttu þeim í sjávarþorp með fasta búsetu.

Heimildir og myndir:
  • Annálar 1400–1800 I. Reykjavík, Bókmenntafélag, 1922–27.
  • Cohn, Samuel K. Jr.: The Black Death Transformed: disease and culture in early renaissance Europe. London, Arnold, 2003.
  • Gunnar Karlsson: „Delerium bubonis. Rannsóknarfræðileg umræða um kýlapestarkenninguna.“ Sagnir XVIII (1997), 87–90.
  • Gunnar Karlsson: Lífsbjörg Íslendinga frá 10. öld til 16. aldar. Handbók í íslenskri miðaldasögu III. Reykjavík, Háskólaútgáfan, 2009.
  • Gunnar Karlsson: „Plague without Rats: the case of fifteenth-century Iceland.“ Journal of Medieval History XXII:3 (1996), 263–84.
  • Gunnar Karlsson og Helgi Skúli Kjartansson: „Plágurnar miklu á Íslandi.“ Saga XXXII (1994), 11–74.
  • Islandske Annaler indtil 1578. Udgivne for det norske historiske Kildeskriftfond ved Dr. Gustav Storm. Christiania, Grøndahl & Søns Bogtrykkeri, 1888.
  • Jón Egilsson: „Biskupa-annálar Jóns Egilssonar með formála, athugagreinum og fylgiskjölum eptir Jón Sigurðsson.“ Safn til sögu Íslands I (1856), 15–136.
  • Fyrri mynd: Black Death - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 12. 3. 2014).
  • Seinni mynd: Massacre of Jews woodcut, 1493.jpg - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 12. 3. 2014).


Vísindavefurinn hefur fengið margar spurningar um svartadauða. Meðal þeirra eru:

  • Hvernig voru afleiðingar svartadauða á Íslandi?
  • Af hverju kom svartidauði ekki til Íslands fyrr en 50 árum eftir að hafa geisað í Evrópu?
  • Hvernig barst svartidauði til Íslands?
  • Hvaða ár geisaði svartidauði?
  • Hversu margir Íslendingar létust í svartadauða?
  • Hversu margir voru Íslendingar þegar plágunni lauk og hve margir voru þeir fyrir svartadauða?
  • Hvað geturðu sagt mér um pláguna miklu?

Spyrjendur eru: Guðmundur Daði Kristjánsson, Sara Sesselja Friðriksdóttir, Jóhannes Ólafsson, Kristinn Hannesson, Magnea Waltersd, Þorgeir Halldórsson, Erla Þorsteinsdóttir og Hermann Björnsson.

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

3.4.2014

Spyrjandi

Sara Rut Sigurðardóttir, Eyrún Eik Gísladóttir

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað er helst vitað um svartadauða á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 3. apríl 2014. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=66333.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2014, 3. apríl). Hvað er helst vitað um svartadauða á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=66333

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað er helst vitað um svartadauða á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 3. apr. 2014. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=66333>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er helst vitað um svartadauða á Íslandi?
Hér er að finna svör við fjölmörgum spurningum sem Vísindavefnum hafa borist um svartadauða, meðal annars:

Hvenær kom svartidauði til Íslands? Hvernig smitaðist veikin? Hversu margir voru Íslendingar fyrir og eftir svartadauða? Hversu hratt gekk svartidauði yfir í heiminum og á Íslandi?

Farsóttin sem síðar var kölluð svartidauði (á latínu mors nigra) var oftast kölluð pest eða plága þegar hún gekk yfir Evrópu um miðja 14. öld og olli gífurlegu manntjóni. Áætlanir um mannfall liggja gjarnan á bilinu einn fjórði til þrír fjórðu hlutar íbúa. Þessi faraldur barst ekki til Íslands, sennilega vegna þess að þeir sem höfðu sýkst í Noregi, þaðan sem mest var siglt til landsins á þeim tíma, hafa dáið í hafi áður en þeir náðu til Íslands. Síðan féllu samgöngur fljótt niður vegna þess að þeir Norðmenn sem lifðu eftir hafa haft meira en nóg að sýsla heima fyrir. Að sögn annáls sigldi ekkert skip til Íslands árið 1350.

Eftir að þessi faraldur gekk yfir var pestin landlæg víða í Evrópu, og minni háttar faraldrar gengu næstu aldirnar allt fram á 18. öld, stundum á nokkurra áratuga fresti. Tveir slíkir faraldrar náðu til Íslands, sá fyrri gekk hér á árunum 1402–04, sá síðari 1494–95. Um smitleiðir pestarinnar höfðu menn lengi þá skoðun að hún liði yfir landið eins og þokumóða, og voru til sögur um hvernig fólk hefði séð hana nálgast úr fjarska. En um aldamótin 1900 kom upp afar mannskæð kýlapest í Kína og Indlandi, svo mannskæð að fljótt var giskað á að þarna væri á ferð sami sjúkdómur og hafði verið kallaður svartidauði. Lengi voru smitleiðir þessa sjúkdóms mikil ráðgáta, en eftir nokkurra ára rannsóknir kom í ljós að hann smitaðist ekki beint frá manni til manns heldur á milli manna með flóm sem lifðu aðallega á rottum. Þegar rotturnar drápust úr pestinni leituðu flærnar á menn til að seðja hungur sitt og smituðu þá í leiðinni. Skömmu síðar kom svo í ljós að sami sjúkdómur gat líka gengið frá manni til manns sem lungnapest og var þá ennþá mannskæðari, drap nánast alla sem veiktust. En engu er líkara en að vísindaheimurinn hafi verið svo stoltur af ráðningu sinni á smitleið kýlapestarinnar að haldið var dauðahaldi í að þannig hlyti miðaldaplágan í Evrópu að hafa smitast.

Svartidauði herjaði á Evrópu töluvert áður en sjúkdómurinn barst til Íslands. Myndin er af sjúklingum með svartadauða, frá árinu 1411.

Þess vegna þvældist það nokkuð fyrir fræðimönnum að engar heimildir voru um rottur á Íslandi á tíma pestarfaraldranna. Í fornleifarannsóknum hefur farið að tíðkast síðustu áratugi að tína bein upp úr sýnum úr sorphaugum mannabústaða og tegundargreina þau, og hefur það staðfest að landið hafi verið rottulaust fram yfir lok miðalda. Þetta leiddi suma til þess að álykta að faraldrarnir á Íslandi hafi verið af einhverjum öðrum sjúkdómi en pest. Aðrir bentu á að ekkert væri því til fyrirstöðu að pestin hefði gengið sem lungnapest. Loks voru þeir til sem sögðu að pestin sjálf sannaði að það hefðu verið rottur á Íslandi, hvað sem liði ritheimildum eða fornleifum. En síðustu áratugi hefur þeirri skoðun vaxið fylgi í Evrópu að svartidauði hafi frá upphafi gengið sem lungnapest um álfuna. Rottur hafi ekki átt neinn hlut að honum, enda hafi þær líklega verið fátíðar í sveitum; svarta rottan sem þá var í Evrópu hafi varla lifað utan borga. Í áratugargamalli enskri bók um svartadauða í Evrópu má lesa í niðurstöðukafla: „Þessi bók hefur leitast við að frelsa svartadauða úr fangelsi kýlapestarinnar sem hún hefur verið í síðan seint á 19. öld. Með því hefur bókin lagt grunn að nýrri sögu sjúkdóma og menningar á Vesturlöndum.“

Um mannfall í faröldrunum á Íslandi eru talsverðar heimildir en að vísu ósamstæðar. Frásagnarheimildir eru einkum annálar, og þeir segja ævinlega frá mannfalli á ákveðnum stöðum eða landsvæðum, og þar er það nánast alltaf yfir helmingur íbúa. Til biskupssetursins í Skálholti náði pestin fyrir jól 1402. „Aleyddi þá þegar staðinn að lærðum mönnum og leikum, fyrir utan biskupinn sjálfan og tvo leikmenn.“ Árið 1404 „eyddi þá enn staðinn í Skálholti þrjá tíma að þjónustufólki. Deyði þar þá þrír prestar og mesti hlutur klerka; tveir prestar lifðu eftir.“ Í Húnavatnsþingi og Skagafirði segir að „víða var aleytt bæði af prestum og leikmönnum.“ Í nunnuklaustrinu í Kirkjubæ á Síðu „eyddi staðinn þrjá tíma að manfólki [það er þjónustufólki] svo að um síðir mjólkuðu systurnar kúfénaðinn … Item [það er einnig] hið sama ár eyddi staðinn í Þykkvabæ þrisvar að manfólki svo að ekki var eftir nema tveir bræður [það er munkar] … og einn húskarl staðarins.“ Sagt er að allir lærðir menn í Hólabiskupsdæmi hafi fallið nema sex prestar, þrír djáknar og einn munkur í Þingeyraklaustri. Þá hafi varla lifað eftir nema 50 prestar í Skálholtsbiskupsdæmi. Það ætti að vera um 95% mannfall klerka í Hólabiskupsdæmi en yfir 80% í Skálholtsbiskupsdæmi. En þess verður að gæta að ritheimildir nefna fremur dæmi um mannfall þar sem það var meira en í meðallagi. Líka má gera ráð fyrir að prestar hafi verið í meiri smithættu en aðrir af því að þeir hafi þjónustað deyjandi fólk – auk þess sem þeir hafa verið í sérstakri smithættu ef það var farið að tíðkast að fólk kyssti prestinn í þakklætisskyni fyrir guðsþjónustu, eins og var siður að gera síðar.

Orsakir og smitleiðir svartadauða voru lengi vel mikil ráðgáta. Sums staðar í Evrópu var gyðingum kennt um sjúkdóminn og var fjöldi þeirra brenndur á báli sökum þess.

Heildstæðustu heimildirnar um mannfall eru skýrslur um byggingu jarða ákveðinna eigenda eftir fyrri pestarfaraldurinn. Um það eru til skýrslur sem ná til 716 jarða norðanlands og vestanlands og eru skráðar á árunum 1431–49 eða 27–45 árum eftir að faraldrinum lauk. Þá voru 82% jarðanna í byggð en 18% í eyði. Samkvæmt því gæti til dæmis látið nærri að helmingur íbúanna hefði fallið í pestinni, þeir sem eftir lifðu hefðu dreift svolítið úr sér þegar nóg jarðnæði var í boði þannig að 60% jarða hefðu verið í byggð strax eða fljótlega eftir pestina. Á um fjórum áratugum eftir pestina má áætla að fólki hafi fjölgað svo að 20% jarða byggðust upp á ný. Þá voru eftir um 20% jarða óbyggðar, eins og skýrslurnar sýna. Enginn veit hve margir Íslendingar voru á þessum tímum, en ef gert er ráð fyrir að þeir hafi verið um 50.000 fyrir pestina, eins og þeir voru þegar fyrsta manntalið var tekið 1703, hafa um 25.000 fallið samkvæmt þessari áætlun, sem vissulega er hvorki nákvæm né örugg.

Um síðari faraldurinn, 1495–96, segja ritheimildir líka frá meira en helmings mannfalli. „Sótt og plága mikil um allt landið nema um Vestfjörðu, svo að hreppar eyddust og sveitir að mestu,“ segir í norðlenskum annál. Sunnlenskur annáll segir: „Í þessari sótt var svo mikið mannfall að enginn mundi eður hafði heyrt þess getið, því margir bæir eyddust, og þeir voru flestir að ekki urðu eftir á bænum utan þrír menn eða tveir …“ Ennfremur segir þar: „Þó að færi sex eða sjö til kirkjunnar með þá dauðu þá komu ekki aftur utan þrír eða mest fjórir. Þeir dóu þá er þeir tóku öðrum grafirnar og fóru þar svo í sjálfir.“ Fjóra bæi nafngreinir annállinn í Hrunamannahreppi og Grímsnesi þar sem sóttin hafi ekki komið. Um eyðibyggð eru fátæklegri gögn eftir þennan faraldur en þann fyrri. En ef reiknað er á sama hátt út úr þeim komum við niður á rúmlega 40% mannfall utan Vestfjarða, tæplega 40% af öllum landsmönnum ef tekið er tillit til þess að Vestfirðir sluppu alveg. Hafi mannfjöldinn verið kominn upp í 50.000 fyrir seinni faraldurinn hefur hann þá farið niður í kringum 30.000.

Meðan plágurnar gengu yfir hefur auðvitað leitt af þeim mikinn ótta og mikla sorg. En þegar frá leið losaði pestin jarðnæði til ábúðar og gerði þeim lífið léttara sem eftir lifðu. Ætla má að pestin hafi framlengt líf algers dreifbýlissamfélags á Íslandi, gert óþarft lengur en ella að fólk tæki sér fasta búsetu í verstöðvum og breyttu þeim í sjávarþorp með fasta búsetu.

Heimildir og myndir:
  • Annálar 1400–1800 I. Reykjavík, Bókmenntafélag, 1922–27.
  • Cohn, Samuel K. Jr.: The Black Death Transformed: disease and culture in early renaissance Europe. London, Arnold, 2003.
  • Gunnar Karlsson: „Delerium bubonis. Rannsóknarfræðileg umræða um kýlapestarkenninguna.“ Sagnir XVIII (1997), 87–90.
  • Gunnar Karlsson: Lífsbjörg Íslendinga frá 10. öld til 16. aldar. Handbók í íslenskri miðaldasögu III. Reykjavík, Háskólaútgáfan, 2009.
  • Gunnar Karlsson: „Plague without Rats: the case of fifteenth-century Iceland.“ Journal of Medieval History XXII:3 (1996), 263–84.
  • Gunnar Karlsson og Helgi Skúli Kjartansson: „Plágurnar miklu á Íslandi.“ Saga XXXII (1994), 11–74.
  • Islandske Annaler indtil 1578. Udgivne for det norske historiske Kildeskriftfond ved Dr. Gustav Storm. Christiania, Grøndahl & Søns Bogtrykkeri, 1888.
  • Jón Egilsson: „Biskupa-annálar Jóns Egilssonar með formála, athugagreinum og fylgiskjölum eptir Jón Sigurðsson.“ Safn til sögu Íslands I (1856), 15–136.
  • Fyrri mynd: Black Death - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 12. 3. 2014).
  • Seinni mynd: Massacre of Jews woodcut, 1493.jpg - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 12. 3. 2014).


Vísindavefurinn hefur fengið margar spurningar um svartadauða. Meðal þeirra eru:

  • Hvernig voru afleiðingar svartadauða á Íslandi?
  • Af hverju kom svartidauði ekki til Íslands fyrr en 50 árum eftir að hafa geisað í Evrópu?
  • Hvernig barst svartidauði til Íslands?
  • Hvaða ár geisaði svartidauði?
  • Hversu margir Íslendingar létust í svartadauða?
  • Hversu margir voru Íslendingar þegar plágunni lauk og hve margir voru þeir fyrir svartadauða?
  • Hvað geturðu sagt mér um pláguna miklu?

Spyrjendur eru: Guðmundur Daði Kristjánsson, Sara Sesselja Friðriksdóttir, Jóhannes Ólafsson, Kristinn Hannesson, Magnea Waltersd, Þorgeir Halldórsson, Erla Þorsteinsdóttir og Hermann Björnsson.

...