Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda. (Matteusarguðspjall 28: 18-19)Eftir að hafa mælt þessi orð á hann að hafa stigið upp til himna til að sitja við hægri hönd Guðs. Uppstigningardagur er einn fárra helgidaga kirkjunnar sem ekki var afnuminn við siðaskiptin árið 1550. Elstu heimildir um sérstakan uppstigningardag eru frá síðari hluta 4. aldar, en fyrir þann tíma er talið að haldið hafi verið upp á himnaför Jesú á hvítasunnunni. Eftir því sem útbreiðsla kristninnar varð hins vegar meiri fjölgaði í sífellu sérstökum hátíðisdögum sem tengdust ævi Jesú. Ljóst er að uppstigningardagur hefur verið einn mesti hátíðisdagur íslensku kirkjunnar allt frá árinu 1200.
- Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík.
- Biblían.