Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvað fannst?
Gaulverjabær er kirkjustaður á Suðurlandi, í Flóanum í Árnessýslu sunnan við Selfoss. Nafn sitt dregur bærinn af átthögum landnámsmannsins Lofts Ormssonar frá Gaulum eða Gulum í Noregi. Þótt engar skipulegar fornleifarannsóknir hafi farið fram í Gaulverjabæ eru þaðan nokkrar merkar fornleifar. Til dæmis fannst þar árið 1974 útskorin fjöl úr furu, líklega frá 11. öld, skreytt í svokölluðum Hringaríkisstíl, og er hún ein örfárra slíkra sem varðveist hafa.
Alþingishátíðarárið 1930 unnu nokkrir menn við að færa út kirkjugarðinn í Gaulverjabæ. Til að auðvelda sér verkið ákváðu þeir að að ná í mold úr ávalri bungu sunnan við garðinn. Gerðist það þá að undan skóflu eins mannsins valt hrúga af silfurpeningum, og reyndust þeir vera 360 talsins. Sjóðurinn fannst um einn metra ofan í jörðinni og virtist hafa verið grafinn í kringlóttum öskjum sem höfðu þó eyðst. Þjóðminjaverði var gert viðvart og fór silfursjóðurinn rakleitt á Þjóðminjasafnið til varðveislu.
Hvernig peningar voru þetta?
Í Gaulverjabæjarsjóðnum kennir margra grasa. Peningarnir í honum eru af arabískum, þýskum, enskum, írskum, sænskum og dönskum uppruna. Þeir eru flestir merktir þeim konungum sem létu slá þá eða framleiða. Vitað er hvenær þessir konungar ríktu og því hægt að aldursgreina peningana með nokkurri vissu. Elsta myntin er arabísk, slegin í Bagdad, og er líklega frá 869-870. Þeim sem hafa lesið bókina Þúsund og ein nótt gæti þótt merkilegt að lengst upp á Íslandi hafi fundist peningar merktir kalífum af ætt Harúns al Raschids. Í töflunni hér að neðan sést hvernig peningarnir skiptast eftir aldri og uppruna.
Upprunaland:
Fjöldi:
Aldursgreining:
Enskir peningar
180
990-1010
Írskir peningar
2
989-1029
Þýskir peningar
160
936-1014
Bæheimskir peningar
1
967-999
Arabískir (kúfískir) peningar
5
869-942
Sænskir peningar
3
Frá lokum 10. aldar
Danskir peningar
5
940-986
Af sláttutíma peninganna hefur verið áætlað að sjóðurinn hafi verið grafinn á árabilinu 1010-1015.
Silfurpeningar úr Gaulverjabæjarfundinum.
Hvers vegna voru þeir á Íslandi?
Með útrás víkinga á 8. og 9. öld jókst millilandaverslun í Norður-Evrópu sem hafði í för með sér aukna þörf á silfri sem gjaldmiðli. Í mörgum af þeim löndum sem víkingar skiptu við var þá byrjað að slá mynt til þessara nota en Norðurlandamenn sjálfir notuðu mest svokallað gangsilfur, ómótaða silfurbúta, fram undir lok 10. aldar þegar myntslátta hófst líka á Norðurlöndum. Norrænir menn fluttu inn gríðarlegt magn af kúfískum peningum frá Miðausturlöndum í gegnum Rússland og ber mikið á þeim í silfursjóðum sem fundist hafa á Norðurlöndum, ekki síst á Gotlandi, frá 9. og 10. öld.
Ein eftirlætisaðferð víkinga í hernaði var að láta landstjórnendur borga sér háar upphæðir fyrir að herja ekki á lönd þeirra. Þetta gerði til dæmis Englandskonungur í lok 10. aldar og er það talin ein helsta ástæðan fyrir því mikla magni af enskum peningum sem fundist hefur á Norðurlöndum. Líklegt er að Gaulverjabæjarsjóðurinn hafi orðið til erlendis, en hvort sá eða sú sem gróf hann í jörð í Gaulverjabæ hafi grætt fé af ránskap og hernaði er erfiðara að segja.
Hvers vegna var silfrið grafið niður?
Erlendis eru fjársjóðir sem grafnir hafa verið í jörð yfirleitt hafðir til marks um ófrið, að eigendur þeirra hafi grafið þá til að hindra að þeir féllu í óvinahendur en fallið síðan sjálfir og því ekki getað vitjað fjárins. Kristján Eldjárn hélt því fram að Ísland hafi verið friðarland og því ekki hægt að skýra Gaulverjabæjarsjóðinn þannig að eigandi hans hafi viljað forða fénu úr hers höndum. Líklegri skýring væri að eigandinn hafi trúað því að ef sjóðinum yrði komið í jörðina fyrir dauða sinn myndu fjármunirnir nýtast honum í öðru lífi.
Eitt er víst að ekki hafa margir silfursjóðir fundist hér á landi og er Gaulverjabæjarsjóðurinn sá eini sem eingöngu er með mynt en sjóður frá Ketu í Skagafirði, sem líka er talinn frá því rétt eftir árið 1000, er blandaður mynt og gangsilfri og sjóðir frá Sandmúla og Miðhúsum eru eingöngu með gangsilfri. Allnokkrir stakir silfurpeningar frá víkingaöld hafa einnig fundist hér á landi, bæði í kumlum og húsarústum.
Hvers vegna hirtu fundarmennirnir ekki sjálfir silfrið?
Frásögn kvikmynda á borð við Indiana Jones gefur ekki góða mynd af starfi nútímafornleifafræðinga. Fornleifafræðingur má nefnilega ekki sjálfur eiga það sem hann finnur. Sama á við um þá sem finna forngrip fyrir tilviljun.
Í þjóðminjalögum frá árinu 2001 segir að sá sem finnur forngrip í jörðu verði að gera Fornleifavernd ríkisins og landeiganda viðvart svo fljótt sem auðið er. Það sem finnst er eign ríkisins og skal varðveitast á safni. Sambærileg lög um eignarhald á jarðfundnum minjum voru í gildi árið 1930. Þeir sem áhuga hafa geta lesið nánar í áðurnefndum lögum (18. og 19. grein) um hvað gerist ef ámóta silfursjóður og sá sem fannst í Gaulverjabæ fyndist í dag.
Víða um heim er það vaxandi tómstundagaman fólks að fara um sveitir með málmleitartæki í von um að rekast á góðmálma, til dæmis mynt frá tímum Rómarveldis eða frá víkingaöld. Þessi starfssemi er í flestum tilfellum litin hornauga af fornleifafræðingum þar sem fólk hirðir oftar en ekki sjálft það sem það finnur og selur jafnvel á svörtum markaði. Tjónið sem af þessu hlýst er ekki endilega það að ríkið verði af tekjum, heldur getur fólk valdið óbætanlegu raski á samhengi fornleifa á hverjum stað með því að róta í jörðu og hirða gripi; með því glatast mikilvægar upplýsingar um fortíðina.
Hér á landi er óheimilt að nota málmleitartæki í þeim tilgangi að finna forngripi nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar, sjá 16. grein þjóðminjalaga.
Meira lesefni á Vísindavefnum
Anton Holt, „Mynt frá víkingaöld og miðöldum fundin á Íslandi á síðari árum.“ Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1998, 85-92.
Kristján Eldjárn, Kuml og haugfé í heiðnum sið á Íslandi, 2. útgáfa, Reykjavík 2000, bls. 423-26.
Kristján Eldjárn, „Gaulverjabær-fundet og nogle mindre islandske møntfund fra vikingetiden.“ Nordisk numismatisk årsskrift 1948, bls. 39-62.
Kristján Eldjárn, „Silfursjóður frá Gaulverjabæ.“ Gengið á reka, Akureyri 1948, bls. 83-95.
Þór Magnússon, „Hringaríkisútskurður frá Gaulverjabæ.“ Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1974, 63-74.
Myndin er hluti myndar úr bókinni Kuml og haugfé í heiðnum sið á Íslandi, 2. útgáfa, Reykjavík 2000. Ljósmyndari er Ívar Brynjólfsson, Þjóðminjasafni Íslands.
Dagný Arnarsdóttir. „Hvað fannst í svokölluðum Gaulverjabæjarfundi árið 1930 í Flóanum?“ Vísindavefurinn, 23. febrúar 2006, sótt 28. janúar 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=5664.
Dagný Arnarsdóttir. (2006, 23. febrúar). Hvað fannst í svokölluðum Gaulverjabæjarfundi árið 1930 í Flóanum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5664
Dagný Arnarsdóttir. „Hvað fannst í svokölluðum Gaulverjabæjarfundi árið 1930 í Flóanum?“ Vísindavefurinn. 23. feb. 2006. Vefsíða. 28. jan. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5664>.