Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Er það satt að plasteyjur, miklu stærri en Ísland, fljóti um heimshöfin?

Stefán Gíslason og Birgitta Stefánsdóttir

Upprunalegu spurningarnar hljóðuðu svona:
Hvað getið þið sagt mér um ruslaeyjur Kyrrahafsins?

Hvað getið þið sagt mér um plasteyjuna í Kyrrahafinu? Er hún til og er hún 14 sinnum stærri en Ísland?

Það er satt að svokallaðar „plasteyjur“ fljóti um heimshöfin. Reyndar er ekki um að ræða eyjur í orðsins fyllstu merkingu, því að þær eru engan veginn svo fastar fyrir að hægt sé að ganga þar um. Þess vegna er réttara að tala um fláka.

Alls hafa fimm plastflákar verið skilgreindir í heimshöfunum, einn á norðanverðu Kyrrahafi, annar á sunnanverðu Kyrrahafi, sá þriðji á norðanverðu Atlantshafi, sá fjórði á sunnanverðu Atlantshafi og sá fimmti á Indlandshafi.

Kort sem sýnir staðsetningu plastfláka á úthöfunum. Rannsóknir benda til að um 13.000-18.000 plaststykki megi að meðaltali finna á hverjum ferkílómetra af sjó.

Flákarnir myndast á miðjum úthöfum, nánar tiltekið í grennd við hvarfbaugana, þar sem hafstraumar safna smátt og smátt plasti og öllu öðru lauslegu inn á sama svæði. Svo er auðvitað heilmikið af plasti á floti eða marandi í hálfu kafi annars staðar í höfunum. Mest af þessu plasti endar líklega ferðalag sitt í flákunum með tíð og tíma.

Erfitt er að áætla hversu mikið plast flýtur um heimshöfin en rannsóknir benda til að um 13.000-18.000 plaststykki megi að meðaltali finna á hverjum ferkílómetra af sjó. Í flákunum hafa fundist allt að 200.000 stk/km2 og er talið að plastflákinn á norðanverðu Kyrrahafi sé einna þéttastur. Erfitt er að átta sig á stærð flákanna enda erfitt að draga útlínur þeirra af nákvæmni. Flákinn á norðanverðu Kyrrahafi er sagður vera á stærð við Texasríki í Bandaríkjunum, eða um sjöfalt stærri en Ísland.

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) má ætla að eins og staðan er í dag eigi um 80% af plastinu í heimshöfunum rætur sínar að rekja til starfsemi á landi og aðeins um 20% til starfsemi á hafi úti. Á síðustu áratugum hefur dregið verulega úr plastúrgangi sem kemur frá fiskiskipum, skemmtiferðaskipum, olíuborpöllum, flutningaskipum og öðrum samgöngum á hafi, en að sama skapi finnst sífellt meira af venjulegum neytendavörum á borð við gosflöskur, kveikjara og tannbursta. Þetta gerist bæði vegna þess að fólk hendir plastrusli út í náttúruna og vegna þess að meðhöndlun úrgangs er víða ábótavant, til dæmis á urðunarstöðum. Það sem sleppur út í veður og vind endar að mestu leyti í sjónum. Þá hefur það færst í aukana að framleiðendur noti litlar plastagnir („míkróplast“) við framleiðslu á andlitskremi, tannkremi, svonefndum húðskrúbbum og þvottaefnum. Þessar litlu plastagnir (< 5 mm) skolast niður um niðurföll og sleppa auðveldlega í gegnum skólphreinsistöðvar út í hafið. Flákarnir í hafinu samanstanda sem sagt bæði af stóru plastrusli á borð við olíubrúsa og fiskinet og minna plasti sem stundum er ekki hægt að sjá með berum augum. Sumt af því er til orðið við að stærra plast, svo sem gosflöskur og plastpokar, molnar niður í minni stykki.

Sífellt stærri hluta af plastmengun heimshafanna má rekja til venjulega neytendavara sem notaðar eru á landi en berast til hafs á einhvern hátt.

Plastrusl hefur margvísleg áhrif á lífríkið, en rannsóknir gefa til kynna að alls hafi um 700 tegundir dýra orðið fyrir áhrifum af plastrusli í hafinu. Dýr geta til dæmis kafnað við að gleypa stærri plaststykki og í sumum tilfellum geta plastpokar, net og aðrir hlutir kyrkt sjávarspendýr og fugla. Plaststykki geta einnig stíflað eða fyllt meltingarveginn þannig að dýrunum finnist þau alltaf vera södd. Þannig geta dýrin dáið úr næringarskorti. Smærra plast getur einnig auðveldlega komist inn í fæðukeðjuna og borið með sér skaðleg efni sem enda þá hugsanlega í matvælum til manneldis.

Plastrusl í hafinu hefur ekki bara áhrif á lífríkið heldur líka á hagkerfið. Þar lendir tap og kostnaður við hreinsun sjaldnast á þeim sem orsakaði vandamálið. Svo dæmi sé tekið er áætlað að kostnaður útgerða í Skotlandi vegna plasts sem flækist í veiðarfæri, skrúfur og vatnsinntök samsvari um 5% af tekjum útgerðarfyrirtækjanna. Einnig er oft miklum fjármunum eytt í hreinsun stranda, auk þess sem ferðaþjónustan getur tapað á minnkandi gæðum strand- og hafssvæða.

Net og aðrir plasthlutir geta kyrkt sjávarspendýr.

Plastflákarnir í höfunum stækka ár frá ári, enda er áætlað að við missum árlega 7-10 milljónir tonna af plasti í sjóinn. Jafnvel þótt við myndum öll snarhætta að sleppa plasti út í buskann eða niður um niðurfallið, þá verða flákarnir á sínum stað næstu aldir ef ekkert er að gert, þó að stykkin minnki sjálfsagt eitthvað hvert um sig. Það tekur venjulegt plast nefnilega allt upp í nokkrar aldir eða jafnvel 1.000 ár að brotna niður til fulls.

Heimildir og myndir:

Höfundar

Stefán Gíslason

umhverfisstjórnunarfræðingur MSc

Birgitta Stefánsdóttir

umhverfisfræðingur MSc

Útgáfudagur

15.4.2015

Spyrjandi

María Pálsdóttir, Þórhildur Þorbjarnardóttir

Tilvísun

Stefán Gíslason og Birgitta Stefánsdóttir. „Er það satt að plasteyjur, miklu stærri en Ísland, fljóti um heimshöfin?“ Vísindavefurinn, 15. apríl 2015. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=54188.

Stefán Gíslason og Birgitta Stefánsdóttir. (2015, 15. apríl). Er það satt að plasteyjur, miklu stærri en Ísland, fljóti um heimshöfin? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=54188

Stefán Gíslason og Birgitta Stefánsdóttir. „Er það satt að plasteyjur, miklu stærri en Ísland, fljóti um heimshöfin?“ Vísindavefurinn. 15. apr. 2015. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=54188>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er það satt að plasteyjur, miklu stærri en Ísland, fljóti um heimshöfin?
Upprunalegu spurningarnar hljóðuðu svona:

Hvað getið þið sagt mér um ruslaeyjur Kyrrahafsins?

Hvað getið þið sagt mér um plasteyjuna í Kyrrahafinu? Er hún til og er hún 14 sinnum stærri en Ísland?

Það er satt að svokallaðar „plasteyjur“ fljóti um heimshöfin. Reyndar er ekki um að ræða eyjur í orðsins fyllstu merkingu, því að þær eru engan veginn svo fastar fyrir að hægt sé að ganga þar um. Þess vegna er réttara að tala um fláka.

Alls hafa fimm plastflákar verið skilgreindir í heimshöfunum, einn á norðanverðu Kyrrahafi, annar á sunnanverðu Kyrrahafi, sá þriðji á norðanverðu Atlantshafi, sá fjórði á sunnanverðu Atlantshafi og sá fimmti á Indlandshafi.

Kort sem sýnir staðsetningu plastfláka á úthöfunum. Rannsóknir benda til að um 13.000-18.000 plaststykki megi að meðaltali finna á hverjum ferkílómetra af sjó.

Flákarnir myndast á miðjum úthöfum, nánar tiltekið í grennd við hvarfbaugana, þar sem hafstraumar safna smátt og smátt plasti og öllu öðru lauslegu inn á sama svæði. Svo er auðvitað heilmikið af plasti á floti eða marandi í hálfu kafi annars staðar í höfunum. Mest af þessu plasti endar líklega ferðalag sitt í flákunum með tíð og tíma.

Erfitt er að áætla hversu mikið plast flýtur um heimshöfin en rannsóknir benda til að um 13.000-18.000 plaststykki megi að meðaltali finna á hverjum ferkílómetra af sjó. Í flákunum hafa fundist allt að 200.000 stk/km2 og er talið að plastflákinn á norðanverðu Kyrrahafi sé einna þéttastur. Erfitt er að átta sig á stærð flákanna enda erfitt að draga útlínur þeirra af nákvæmni. Flákinn á norðanverðu Kyrrahafi er sagður vera á stærð við Texasríki í Bandaríkjunum, eða um sjöfalt stærri en Ísland.

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) má ætla að eins og staðan er í dag eigi um 80% af plastinu í heimshöfunum rætur sínar að rekja til starfsemi á landi og aðeins um 20% til starfsemi á hafi úti. Á síðustu áratugum hefur dregið verulega úr plastúrgangi sem kemur frá fiskiskipum, skemmtiferðaskipum, olíuborpöllum, flutningaskipum og öðrum samgöngum á hafi, en að sama skapi finnst sífellt meira af venjulegum neytendavörum á borð við gosflöskur, kveikjara og tannbursta. Þetta gerist bæði vegna þess að fólk hendir plastrusli út í náttúruna og vegna þess að meðhöndlun úrgangs er víða ábótavant, til dæmis á urðunarstöðum. Það sem sleppur út í veður og vind endar að mestu leyti í sjónum. Þá hefur það færst í aukana að framleiðendur noti litlar plastagnir („míkróplast“) við framleiðslu á andlitskremi, tannkremi, svonefndum húðskrúbbum og þvottaefnum. Þessar litlu plastagnir (< 5 mm) skolast niður um niðurföll og sleppa auðveldlega í gegnum skólphreinsistöðvar út í hafið. Flákarnir í hafinu samanstanda sem sagt bæði af stóru plastrusli á borð við olíubrúsa og fiskinet og minna plasti sem stundum er ekki hægt að sjá með berum augum. Sumt af því er til orðið við að stærra plast, svo sem gosflöskur og plastpokar, molnar niður í minni stykki.

Sífellt stærri hluta af plastmengun heimshafanna má rekja til venjulega neytendavara sem notaðar eru á landi en berast til hafs á einhvern hátt.

Plastrusl hefur margvísleg áhrif á lífríkið, en rannsóknir gefa til kynna að alls hafi um 700 tegundir dýra orðið fyrir áhrifum af plastrusli í hafinu. Dýr geta til dæmis kafnað við að gleypa stærri plaststykki og í sumum tilfellum geta plastpokar, net og aðrir hlutir kyrkt sjávarspendýr og fugla. Plaststykki geta einnig stíflað eða fyllt meltingarveginn þannig að dýrunum finnist þau alltaf vera södd. Þannig geta dýrin dáið úr næringarskorti. Smærra plast getur einnig auðveldlega komist inn í fæðukeðjuna og borið með sér skaðleg efni sem enda þá hugsanlega í matvælum til manneldis.

Plastrusl í hafinu hefur ekki bara áhrif á lífríkið heldur líka á hagkerfið. Þar lendir tap og kostnaður við hreinsun sjaldnast á þeim sem orsakaði vandamálið. Svo dæmi sé tekið er áætlað að kostnaður útgerða í Skotlandi vegna plasts sem flækist í veiðarfæri, skrúfur og vatnsinntök samsvari um 5% af tekjum útgerðarfyrirtækjanna. Einnig er oft miklum fjármunum eytt í hreinsun stranda, auk þess sem ferðaþjónustan getur tapað á minnkandi gæðum strand- og hafssvæða.

Net og aðrir plasthlutir geta kyrkt sjávarspendýr.

Plastflákarnir í höfunum stækka ár frá ári, enda er áætlað að við missum árlega 7-10 milljónir tonna af plasti í sjóinn. Jafnvel þótt við myndum öll snarhætta að sleppa plasti út í buskann eða niður um niðurfallið, þá verða flákarnir á sínum stað næstu aldir ef ekkert er að gert, þó að stykkin minnki sjálfsagt eitthvað hvert um sig. Það tekur venjulegt plast nefnilega allt upp í nokkrar aldir eða jafnvel 1.000 ár að brotna niður til fulls.

Heimildir og myndir:

...