Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Síðasta aftakan fór fram í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu 12. janúar 1830. Þá voru tekin af lífi Agnes Magnúsdóttir vinnukonu á Illugastöðum og Friðrik Sigurðsson bóndasonur frá Katadal. Þau höfðu verið dæmd til dauða fyrir morð á tveimur mönnum aðfararnótt 14. mars 1828, Nathans Ketilssonar bónda á Illugastöðum og Péturs Jónssonar frá Geitaskarði.
Nathan var talinn eiga peninga, og mun Friðrik hafa haft augastað á þeim. Hann kom að Illugastöðum að kvöldi 13. mars og fékk vinnukonurnar á bænum, Agnesi og Sigríði nokkra Guðmundsdóttur, til að leyna sér úti í fjósi þangað til karlmennirnir væru sofnaðir, Nathan og Pétur Jónsson, sem var næturgestur á bænum. Þá fóru Friðrik og Agnes inn í baðstofu, þar sem mennirnir sváfu, og drap Friðrik þá báða með hnífi. Ekki kemur fram í málskjölum að Sigríður hafi tekið þátt í sjálfu morðinu, en á eftir gekk hún í að hirða það sem þótti fémætt í baðstofunni, áður en Friðrik og Agnes kveiktu í henni.
Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson voru tekin af lífi í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu 12. janúar 1830.
Af einhverjum ástæðum var frásögn Agnesar og Sigríðar af brunanum ekki trúað og komst glæpurinn upp. Í héraðsdómi, Landsyfirrétti í Reykjavík og Hæstarétti í Kaupmannahöfn, voru þau Agnes, Friðrik og Sigríður öll dæmd til dauða. Sigríður fékk náðun konungs, en Agnes og Friðrik voru hálshöggvin.
Um þessa atburði skrifaði Þorgeir Þorgeirsson skáldsögu, Yfirvaldið og mun þar vera fylgt heimildum eftir því sem þær hrökkva til. Kvikmyndin Agnes sem Egill Eðvarðsson leikstýrði (1996), er byggð á sömu atburðarás, en þar er vikið mjög frá þekktum staðreyndum.
Fjórum árum eftir aftökuna í Vatnsdalshólum var síðasti Íslendingurinn tekinn af lífi í Kaupmannahöfn. Það var Sigurður Gottsveinsson, sem hafði verið dæmdur til ævilangrar þrælkunar í Kaupmannahöfn fyrir húsbrot og rán á Kambi í Flóa. Í fangavistinni réðst hann á fangavörð með hnífi og var líflátinn fyrir.
Eftir 1830 var tugur Íslendinga dæmdur til dauða í Hæstarétti. Flest málin spruttu á einhvern hátt af óheimilu kynlífi: Konur höfðu framið dulsmál, reynt að leyna barnsburði með því að fyrirfara börnum sínum. Dæmt var fyrir blóðskömm, óheimilt kynlíf vegna fjölskyldutengsla. Karlmaður drap kornungt barn sem honum hafði verið kennt, annar drap konu sem var ólétt eftir hann. En konungur mildaði refsingu allra svo að enginn var tekinn af lífi samkvæmt dómi. Dauðarefsing var síðan afnumin í tveimur áföngum. Árið 1869 voru sett ný hegningarlög, í aðalatriðum í samræmi við ný dönsk lög, og var þá felld úr lögum dauðarefsing fyrir dulsmál og blóðskömm. Árið 1928 var dauðarefsing afnumin með öllu.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvenær var síðasta aftakan á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 8. desember 2004, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4649.
Gunnar Karlsson (1939-2019). (2004, 8. desember). Hvenær var síðasta aftakan á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4649
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvenær var síðasta aftakan á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 8. des. 2004. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4649>.