Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað þýðir hugtakið fjölskylda og hvað er fjölskyldumeðferð?

Sigrún Júlíusdóttir

Á síðustu áratugum hafa orðið miklar breytingar á fjölskyldustofnuninni. Gerð hennar, samsetning, stærð, verkefni og hlutverk hafa gjörbreyst. Þannig er ekki lengur hægt að tala um fjölskylduna. Til eru svokallaðar kjarnafjölskyldur, einforeldris- og stjúpfjölskyldur og svo framvegis. Sambúð/hjónabönd eru ýmist staðfest eða lausbundin, með og án barna, sam- eða gagnkynhneigð og svo framvegis.

Sambúðarformum fjölgar og talað er um sambúð, sérbúð, fjarbúð, ungbúð og jafnvel æfingabúð, því fólk býr tengsl sín í breytilegan búning og steypir sér ekki endilega lengur saman í einhver fyrirfram gefin form. Ákvörðun um lífsform er tekin eftir aðstæðum, meðal annars öðrum fjölskylduhögum og margvíslegum hagsmunum. Þannig er eðli tengsla orðið mjög fjölbreytilegt og lífshættir sömuleiðis.

Stundum eru það einmitt þessar umbreytingar sem kalla á faglega aðstoð, eins og fjölskyldumeðferð, eða ráðgjöf.

Nýleg skilgreining á fjölskyldu endurspeglar því líka mikla vídd og breytileika sem flestir meðferðaraðilar taka mið af í starfi sínu, nálgun og aðferðum með einu eða öðru móti:
Fjölskylda er hópur einstaklinga sem á sameiginlegt heimili þar sem þeir deila saman tómstundum, hvíld, tilfinningum, efnahag, ábyrgð og verkefnum. Meðlimirnir eru oftast fullorðnar manneskjur af báðum kynjum eða einstaklingur, ásamt barni eða börnum (þeirra). Þau eru skuldbundin hvert öðru í siðferðilegri, gagnkvæmri hollustu.
Fjölskyldumeðferð er skilgreind sem meðferð þar sem tekið er mið af áhrifamætti fjölskylduheildarinnar og velferð hennar höfð að leiðarljósi. Þessi skilgreining byggist á hugmyndinni um fjölskyldu sem kerfi og vitund um að líðan einstaklinganna og breytingar á þeim hafa áhrif á fjölskyldutengslin. Hver einstaklingur verður þess vegna fyrir áhrifum af því sem gerist í lífi annarra í sömu fjölskyldu eða tengslaneti. Þangað er hægt að sækja jákvæðan kraft og úrræði, en stundum þarf líka að gera ráð fyrir kröftum sem kunna að verka gegn settu meðferðarmarkmiði.

Í þessari skilgreiningu er ekki fengist um að afmarka hverjir taka þátt í sjálfri meðferðarvinnunni. Það getur jafnvel verið aðeins einn einstaklingur eða ákveðnar undirheildir, par/hjón, (stjúp)foreldrar, amma/afi, (stjúp/hálf)systskini og svo framvegis. Metið er eftir aðstæðum og í samráði hvenær og hvort einhverjir aðrir taka beinan þátt en sá sem sjálf/ur leitar til meðferðaraðila með sín persónulegu samskiptamál.

Hvernig fer fjölskyldumeðferð fram?
Þegar leitað er aðstoðar með fjölskyldu- eða hjónavanda hjá fagaðila er tekin afstaða til þess hvort þörf sé fyrir ráðgjöf, einstök viðtöl eða lengri meðferðarvinnu. Þetta fer eftir eðli vandans og hvernig skjólstæðingur og meðferðaraðili í sameiningu meta það hvernig skuli nálgast hann. Um getur verið að ræða upplýsingar, fræðslu, ráðgjöf, stuðning eða meðferð. Upplýsingar, fræðsla og tímabundinn stuðningur eru oftast veitt í einstökum viðtölum og efnið er skýrt afmarkað. Oft eru gefin bein ráð og unnið með áþreifanleg verkefni.

Í eiginlegri meðferðarvinnu er viðfangsefnið oftast flóknari tilfinninga- og samskiptamál sem liggja dýpra og þarfnast því meira tíma og svigrúms auk þess að náið traust sé fyrir hendi í samvinnutengslunum. Innihald meðferðarinnar fer eðlilega eftir frásögn skjólstæðingsins eða skjólstæðinganna og þeim þemum sem líf þeirra snúast um. Þá er yfirleitt unnið samkvæmt meðferðarsamningi þar sem skjólstæðingar og meðferðaraðili skuldbinda sig til að vinna saman í ákveðinn tímafjölda með ákveðnu millibili, oftast yfir ákveðið tímabil. Venjulegt er að vinna með vikulegum viðtölum en oft er beinlínis æskilegt að hafa mun lengra milli tíma. Algengt er að viðtöl með einum miðist við 50 mínútur en hjóna- eða fjölskylduviðtöl 60-75 mínútur.

Hvað er hjóna- eða parmeðferð?
Algengasta meðferðareiningin innan fjölskyldu er par eða hjón. Líkt og í öllum lækningum og meðferðarstarfi er markmiðið að efla heilbrigði þess sem fyrir er. Í því felst að vinna úr hindrunum, átökum, ósætti og sársauka þannig að tengslin verði heilbrigðari, sterkari og heilli.

Sígild hjónameðferð er skilgreind sem meðferð á faglegum grunni með tvennd einstaklinga sem hafa myndað tilfinningasamband sem hefur þróast í náin tengsl. Með vísuninni í hjón er þannig átt við par, óháð aldurs- eða kynsamsetningu, sem er í varanlegu ástarsambandi og á sameiginlegan samastað, oftast lögskráð heimili. Það er óháð því hvort undanfari sambúðar er lagaleg eða kirkjulega gifting. Sambúðin getur líka verið í formi sérbúðar eða fjarbúðar, það er parið haldi heimili á tveimur stöðum, nær eða fjær.

Litið er á óstarfhæfni sambandsins sem teikn um tímabundna og eðlilega erfiðleika, togstreitu, lausnaþurrð, efasemdir eða þroskakreppu (hjá einstaklingi eða í sambandinu). Meðferðaraðili er hlutlaus gagnvart einstaklingunum en hollusta hans er við hjónabandið og samband einstaklinganna eða tengslin sem mynda það. Markmiðið er þannig að gera parsambandið starfhæft að nýju og öflugra en áður.

Reynist samband ekki búa yfir nægilegum þrótti eða náist ekki að leysa úr læðingi nægilegan (lífs)kraft til slíkrar endurbyggingar eða ásættanlegra umbreytinga er unnið að uppbyggilegri upplausn, það er skilnaði. Í skilnaðarmeðferð er unnið með hliðsjón af þörfum og forsendum beggja sem einstaklinga. Jafnframt er unnið að velferð alls fjölskyldukerfisins, þó fyrst og fremst barna, og að óhjákvæmilegum framtíðartengslum einstaklinganna í fjölskyldunni. Hollusta meðferðaraðila flyst þá frá hjónasambandinu yfir á hið umbreytta samband þar sem áherslan er á foreldrasambandið.

Hverjir veita fjölskyldu-og hjónameðferð?
Flest fagfólk á sviði samskiptafræða og sem starfar í heilbrigðis-, félags-, eða skólakerfi getur tekið að sér að veita grunnupplýsingar um fjölskyldumál, uppeldismál og almenn samskiptamál. Þessir aðilar leiðbeina líka um hvar eða hjá hverjum öðrum er hægt að nálgast sértækari upplýsingar. Margir hafa sérhæft sig í fræðslu eða kennslu um samskiptamál. Þeir stýra oft hópstarfi þar sem er samþætt fræðsla, þjálfun og samræður og þeir halda fyrirlestra og námskeið. Þannig stuðla þeir að breytingum sem hafa oft meðferðaráhrif þótt það sé með óbeinum hætti. Almenn ráðgjöf, hagnýt leiðsögn eða fræðsla felur ekki í sér meðferðarábyrgð og krefst því ekki sambærilegrar þjálfunar

Mun færri fagaðilar hafa þjálfun og réttindi til að taka að sér meðferð.Til þess að hafa meðferðarréttindi þarf fagaðili að hafa lokið háskólanámi á sviðinu og farið sjálfur gegnum meðferðarferli til að öðlast innsæi, skilning og tök á eigin tilfinningum og viðbrögðum. Einnig þarf hann að hafa starfað undir handleiðslu annars fagmanns á sviðinu í ákveðinn tíma og unnið fræðilegt verkefni um meðferðarvinnu.

Á Íslandi er ekki skipulegt eftirlit með því hverjir stunda meðferðarstörf og íslensk heilbrigðisyfirvöld veita ekki formleg meðferðarréttindi en það er annað en þau löggiltu almennu réttindi sem faghópar eins og félagsráðgjafar, hjúkrunarfræðingar, læknar og sálfræðingar fá hér á landi að loknu viðurkenndu starfsréttindanámi hér heima eða erlendis. Því er mikilvægt að skjólstæðingar spyrjist fyrir um hvaða menntun og reynslu viðkomandi meðferðaraðili hefur og séu á varðbergi gagnvart því að setja ekki sjálfa sig og sína nánustu í hendur annarra en þeirra sem til þess hafa viðeigandi menntun og þjálfun.

Heimildir:
  • Ingibjörg Broddadóttir (ritstj.) 1994. Fjölskyldan: uppspretta lífsgilda. Reykjavík: Landsnefnd um Ár fjölskyldunnar/ Félagsmálráðuneytið.
  • Levin, I., & Trost, J., 2003. Særbo: et par - to hjem. Oslo: N.W. Damm & Søn.
  • Sigrún Júlíusdóttir og Nanna K. Sigurðardóttir, 2000. Áfram foreldrar: Rannsókn um sameiginlega forsjá og velferð barna við skilnað foreldra. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Sigrún Júlíusdóttir, 2001. Fjölskyldur við aldahvörf. Náin tengsl og uppeldisskilyrði barna. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Sigrún Júlíusdóttir, 2003. ”Samningar og sjálfsvirðing. Að elska er ekki nóg”. http://www.hjg.is
  • Walsh, F., 1998. Strengthening Family Resilience. London: The Guilford Press.

Höfundur

Sigrún Júlíusdóttir

prófessor í félagsráðgjöf við HÍ

Útgáfudagur

30.8.2004

Spyrjandi

Hera Rut Hólmarsdóttir, f. 1988
Líney Hermannsdóttir
Arnar Gíslason

Tilvísun

Sigrún Júlíusdóttir. „Hvað þýðir hugtakið fjölskylda og hvað er fjölskyldumeðferð?“ Vísindavefurinn, 30. ágúst 2004, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4485.

Sigrún Júlíusdóttir. (2004, 30. ágúst). Hvað þýðir hugtakið fjölskylda og hvað er fjölskyldumeðferð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4485

Sigrún Júlíusdóttir. „Hvað þýðir hugtakið fjölskylda og hvað er fjölskyldumeðferð?“ Vísindavefurinn. 30. ágú. 2004. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4485>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað þýðir hugtakið fjölskylda og hvað er fjölskyldumeðferð?
Á síðustu áratugum hafa orðið miklar breytingar á fjölskyldustofnuninni. Gerð hennar, samsetning, stærð, verkefni og hlutverk hafa gjörbreyst. Þannig er ekki lengur hægt að tala um fjölskylduna. Til eru svokallaðar kjarnafjölskyldur, einforeldris- og stjúpfjölskyldur og svo framvegis. Sambúð/hjónabönd eru ýmist staðfest eða lausbundin, með og án barna, sam- eða gagnkynhneigð og svo framvegis.

Sambúðarformum fjölgar og talað er um sambúð, sérbúð, fjarbúð, ungbúð og jafnvel æfingabúð, því fólk býr tengsl sín í breytilegan búning og steypir sér ekki endilega lengur saman í einhver fyrirfram gefin form. Ákvörðun um lífsform er tekin eftir aðstæðum, meðal annars öðrum fjölskylduhögum og margvíslegum hagsmunum. Þannig er eðli tengsla orðið mjög fjölbreytilegt og lífshættir sömuleiðis.

Stundum eru það einmitt þessar umbreytingar sem kalla á faglega aðstoð, eins og fjölskyldumeðferð, eða ráðgjöf.

Nýleg skilgreining á fjölskyldu endurspeglar því líka mikla vídd og breytileika sem flestir meðferðaraðilar taka mið af í starfi sínu, nálgun og aðferðum með einu eða öðru móti:
Fjölskylda er hópur einstaklinga sem á sameiginlegt heimili þar sem þeir deila saman tómstundum, hvíld, tilfinningum, efnahag, ábyrgð og verkefnum. Meðlimirnir eru oftast fullorðnar manneskjur af báðum kynjum eða einstaklingur, ásamt barni eða börnum (þeirra). Þau eru skuldbundin hvert öðru í siðferðilegri, gagnkvæmri hollustu.
Fjölskyldumeðferð er skilgreind sem meðferð þar sem tekið er mið af áhrifamætti fjölskylduheildarinnar og velferð hennar höfð að leiðarljósi. Þessi skilgreining byggist á hugmyndinni um fjölskyldu sem kerfi og vitund um að líðan einstaklinganna og breytingar á þeim hafa áhrif á fjölskyldutengslin. Hver einstaklingur verður þess vegna fyrir áhrifum af því sem gerist í lífi annarra í sömu fjölskyldu eða tengslaneti. Þangað er hægt að sækja jákvæðan kraft og úrræði, en stundum þarf líka að gera ráð fyrir kröftum sem kunna að verka gegn settu meðferðarmarkmiði.

Í þessari skilgreiningu er ekki fengist um að afmarka hverjir taka þátt í sjálfri meðferðarvinnunni. Það getur jafnvel verið aðeins einn einstaklingur eða ákveðnar undirheildir, par/hjón, (stjúp)foreldrar, amma/afi, (stjúp/hálf)systskini og svo framvegis. Metið er eftir aðstæðum og í samráði hvenær og hvort einhverjir aðrir taka beinan þátt en sá sem sjálf/ur leitar til meðferðaraðila með sín persónulegu samskiptamál.

Hvernig fer fjölskyldumeðferð fram?
Þegar leitað er aðstoðar með fjölskyldu- eða hjónavanda hjá fagaðila er tekin afstaða til þess hvort þörf sé fyrir ráðgjöf, einstök viðtöl eða lengri meðferðarvinnu. Þetta fer eftir eðli vandans og hvernig skjólstæðingur og meðferðaraðili í sameiningu meta það hvernig skuli nálgast hann. Um getur verið að ræða upplýsingar, fræðslu, ráðgjöf, stuðning eða meðferð. Upplýsingar, fræðsla og tímabundinn stuðningur eru oftast veitt í einstökum viðtölum og efnið er skýrt afmarkað. Oft eru gefin bein ráð og unnið með áþreifanleg verkefni.

Í eiginlegri meðferðarvinnu er viðfangsefnið oftast flóknari tilfinninga- og samskiptamál sem liggja dýpra og þarfnast því meira tíma og svigrúms auk þess að náið traust sé fyrir hendi í samvinnutengslunum. Innihald meðferðarinnar fer eðlilega eftir frásögn skjólstæðingsins eða skjólstæðinganna og þeim þemum sem líf þeirra snúast um. Þá er yfirleitt unnið samkvæmt meðferðarsamningi þar sem skjólstæðingar og meðferðaraðili skuldbinda sig til að vinna saman í ákveðinn tímafjölda með ákveðnu millibili, oftast yfir ákveðið tímabil. Venjulegt er að vinna með vikulegum viðtölum en oft er beinlínis æskilegt að hafa mun lengra milli tíma. Algengt er að viðtöl með einum miðist við 50 mínútur en hjóna- eða fjölskylduviðtöl 60-75 mínútur.

Hvað er hjóna- eða parmeðferð?
Algengasta meðferðareiningin innan fjölskyldu er par eða hjón. Líkt og í öllum lækningum og meðferðarstarfi er markmiðið að efla heilbrigði þess sem fyrir er. Í því felst að vinna úr hindrunum, átökum, ósætti og sársauka þannig að tengslin verði heilbrigðari, sterkari og heilli.

Sígild hjónameðferð er skilgreind sem meðferð á faglegum grunni með tvennd einstaklinga sem hafa myndað tilfinningasamband sem hefur þróast í náin tengsl. Með vísuninni í hjón er þannig átt við par, óháð aldurs- eða kynsamsetningu, sem er í varanlegu ástarsambandi og á sameiginlegan samastað, oftast lögskráð heimili. Það er óháð því hvort undanfari sambúðar er lagaleg eða kirkjulega gifting. Sambúðin getur líka verið í formi sérbúðar eða fjarbúðar, það er parið haldi heimili á tveimur stöðum, nær eða fjær.

Litið er á óstarfhæfni sambandsins sem teikn um tímabundna og eðlilega erfiðleika, togstreitu, lausnaþurrð, efasemdir eða þroskakreppu (hjá einstaklingi eða í sambandinu). Meðferðaraðili er hlutlaus gagnvart einstaklingunum en hollusta hans er við hjónabandið og samband einstaklinganna eða tengslin sem mynda það. Markmiðið er þannig að gera parsambandið starfhæft að nýju og öflugra en áður.

Reynist samband ekki búa yfir nægilegum þrótti eða náist ekki að leysa úr læðingi nægilegan (lífs)kraft til slíkrar endurbyggingar eða ásættanlegra umbreytinga er unnið að uppbyggilegri upplausn, það er skilnaði. Í skilnaðarmeðferð er unnið með hliðsjón af þörfum og forsendum beggja sem einstaklinga. Jafnframt er unnið að velferð alls fjölskyldukerfisins, þó fyrst og fremst barna, og að óhjákvæmilegum framtíðartengslum einstaklinganna í fjölskyldunni. Hollusta meðferðaraðila flyst þá frá hjónasambandinu yfir á hið umbreytta samband þar sem áherslan er á foreldrasambandið.

Hverjir veita fjölskyldu-og hjónameðferð?
Flest fagfólk á sviði samskiptafræða og sem starfar í heilbrigðis-, félags-, eða skólakerfi getur tekið að sér að veita grunnupplýsingar um fjölskyldumál, uppeldismál og almenn samskiptamál. Þessir aðilar leiðbeina líka um hvar eða hjá hverjum öðrum er hægt að nálgast sértækari upplýsingar. Margir hafa sérhæft sig í fræðslu eða kennslu um samskiptamál. Þeir stýra oft hópstarfi þar sem er samþætt fræðsla, þjálfun og samræður og þeir halda fyrirlestra og námskeið. Þannig stuðla þeir að breytingum sem hafa oft meðferðaráhrif þótt það sé með óbeinum hætti. Almenn ráðgjöf, hagnýt leiðsögn eða fræðsla felur ekki í sér meðferðarábyrgð og krefst því ekki sambærilegrar þjálfunar

Mun færri fagaðilar hafa þjálfun og réttindi til að taka að sér meðferð.Til þess að hafa meðferðarréttindi þarf fagaðili að hafa lokið háskólanámi á sviðinu og farið sjálfur gegnum meðferðarferli til að öðlast innsæi, skilning og tök á eigin tilfinningum og viðbrögðum. Einnig þarf hann að hafa starfað undir handleiðslu annars fagmanns á sviðinu í ákveðinn tíma og unnið fræðilegt verkefni um meðferðarvinnu.

Á Íslandi er ekki skipulegt eftirlit með því hverjir stunda meðferðarstörf og íslensk heilbrigðisyfirvöld veita ekki formleg meðferðarréttindi en það er annað en þau löggiltu almennu réttindi sem faghópar eins og félagsráðgjafar, hjúkrunarfræðingar, læknar og sálfræðingar fá hér á landi að loknu viðurkenndu starfsréttindanámi hér heima eða erlendis. Því er mikilvægt að skjólstæðingar spyrjist fyrir um hvaða menntun og reynslu viðkomandi meðferðaraðili hefur og séu á varðbergi gagnvart því að setja ekki sjálfa sig og sína nánustu í hendur annarra en þeirra sem til þess hafa viðeigandi menntun og þjálfun.

Heimildir:
  • Ingibjörg Broddadóttir (ritstj.) 1994. Fjölskyldan: uppspretta lífsgilda. Reykjavík: Landsnefnd um Ár fjölskyldunnar/ Félagsmálráðuneytið.
  • Levin, I., & Trost, J., 2003. Særbo: et par - to hjem. Oslo: N.W. Damm & Søn.
  • Sigrún Júlíusdóttir og Nanna K. Sigurðardóttir, 2000. Áfram foreldrar: Rannsókn um sameiginlega forsjá og velferð barna við skilnað foreldra. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Sigrún Júlíusdóttir, 2001. Fjölskyldur við aldahvörf. Náin tengsl og uppeldisskilyrði barna. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Sigrún Júlíusdóttir, 2003. ”Samningar og sjálfsvirðing. Að elska er ekki nóg”. http://www.hjg.is
  • Walsh, F., 1998. Strengthening Family Resilience. London: The Guilford Press.
...