Skollakoppur (Strongylocentrotus droebachiensis).
Skollakoppur lifir aðallega á grunnsævi en teygir sig þó stundum allt niður á 1.000 metra dýpi. Líkt og flest önnur ígulker étur hann allt sem að kjafti kemur en oftast nær er fæða skollakoppsins þörungar. Hann getur til dæmis verið á beit í þörungaskógum en um leið lagt sér hrúðurkarla til munns ef því er að skipta. Einnig er hann stundum skæður skemmdarvargur í ýmsum krabba- og humargildrum þar sem beitan laðar dýrin að.
Lirfustig skollakopps.
Losun kynfrumna eins skollakopps örvar losun nágrannanna, þannig að heilt skollakoppasamfélag hefur yfirleitt losun kynfrumna út í sjóinn á sama tíma. Slík samhæfing eykur mjög líkurnar á því að frjóvgun heppnist. Eftir að eggin klekjast út í sjónum hefst svokallað sviflægt lirfustig og varir það í fáein ár. Lirfurnar lifa á ýmsum örverum og dreifast um hafið, en það dregur úr líkum á skyldleikaæxlun. Við lok þessa stigs setjast lirfurnar á sjávarbotninn og myndbreytast í fullorðin ígulker. Tímabilið stuttu eftir að lirfurnar setjast á botninn og hefja myndbreytingu er afar viðkvæmt. Ýmsir botnfiskar, humrar og stórkrabbar (Malacostraca) sækja mjög í ung ígulker. Breskar rannsóknir hafa sýnt að skollakoppur getur orðið allt að 8 cm í þvermál. Hann er græn- eða brúnleitur og áberandi flatvaxnari í laginu en marígull sem er rauðleitur á litinn og hnattlagaðri.
Í svarinu er að finna vísanir á tengd svör af Vísindavefnum. Auk þeirra skal áhugasömum bent á svar Jörundar Svavarssonar við spurningunni Er líf á hafsbotni? Einnig er hægt að smella á efnisorðin neðan við svarið.
Heimildir og myndir:
- Vefsetur Reykjavíkurhafnar
- Grein um skrápdýr ("echinoderm") á vefsetri Encyclopædia Britannica
- Kerry L. Werry --- Photography; Marine Life; Scuba Diving
- MBWEB: Gallery of Larvae
- Animals on the Net