Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Hvað eru tvíburarannsóknir og hvernig eru þær gerðar?

Magnús Jóhannsson

Tvíburar geta verið eineggja eða tvíeggja. Á Íslandi má gera ráð fyrir að að minnsta kosti 50-60 tvíburar fæðist á ári en þeir eru langflestir tvíeggja. Eineggja tvíburar verða til úr nákvæmlega sama erfðaefninu, einu eggi og einni sæðisfrumu, og eru þess vegna að öllu leyti eins. Tvíeggja tvíburar verða hins vegar til úr tveimur eggjum og tveimur sæðisfrumum og eru ekki líkari erfðafræðilega en venjuleg systkini.



Eineggja tvíburasystur.

Hér er um að ræða tilvalinn efnivið til að rannsaka þátt erfða í sjúkdómum með því einu að bera saman fylgni sjúkdóma í eineggja og tvíeggja tvíburum. Ef annar tvíbura fær sjúkdóm eru fundnar líkurnar á því að hinn tvíburinn fái sama sjúkdóm. Ef um er að ræða sjúkdóm sem er algerlega óháður erfðum, má búast við að líkur á að hinn tvíburinn fái sjúkdóminn séu þær sömu hvort sem um er að ræða eineggja eða tvíeggja tvíbura. Hins vegar, ef sjúkdómur er mjög arfgengur, má búast við að báðir eineggja tvíburar fái mun oftar þennan sama sjúkdóm en þeir tvíeggja sem ekki eru eins líkir erfðafræðilega.

Eitt af því sem takmarkar svona rannsóknir er að eineggja tvíburar eru ekki mjög margir og þegar um er að ræða sjaldgæfa sjúkdóma eru þess vegna mjög fáir eineggja tvíburar sem veikjast og niðurstöðurnar verða ekki áreiðanlegar. Tvíburarannsóknir henta því best til rannsókna á sjúkdómum sem eru algengir eða frekar algengir.

Önnur tegund rannsókna til að greina á milli erfða og umhverfisþátta er að nota ættleidda einstaklinga og ákvarða fylgni sjúkdóma milli þeirra og blóðforeldra eða systkina. Þeir ættleiddu hafa erfðirnar frá foreldrunum en hafa alist upp í umhverfi sem er óháð þeim. Þegar við sjáum til dæmis of feita fjölskyldu, foreldra og börn, gætum við farið að velta fyrir okkur hvort offita barnanna hafi einfaldlega erfst frá foreldrunum, hvort hún byggist á lifnaðarháttum (einkum matarvenjum og hreyfingu) fjölskyldunnar eða hvort þarna komi við sögu bæði erfðir og umhverfisþættir (lifnaðarhættir).

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á tvíburum og ættleiddum og hafa þær leitt ýmislegt áhugavert í ljós. Í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð hafa verið gerðar ýmis konar rannsóknir á tæplega 45 þúsund tvíburapörum.

Þessar rannsóknir hafa meðal annars beinst að arfgengi krabbameina og samkvæmt þeim virðast flestar tegundir illkynja sjúkdóma frekar háðar umhverfisþáttum en erfðum. Þó kom í ljós að þrjár krabbameinstegundir, í blöðruhálskirtli, brjóstum og endaþarmi eða ristli, höfðu mun meiri fylgni meðal eineggja tvíbura en þeirra tvíeggja.

Áfengissýki á sér fjölþættar orsakir en erfðaþátturinn er nokkuð sterkur. Rannsóknir á fjölskyldum, tvíburum og ættleiddum hafa leitt í ljós að börn áfengissjúklinga eru í um fjórfalt meiri hættu að verða áfengissjúklingar en þeir sem eiga heilbrigða foreldra.

Nokkrar rannsóknir á offitu þar sem notaðir voru tvíburar og ættleiddir sýndu sterk ættartengsl en arfgengi offitu er flókið og fjölgena.

Tvíburarannsóknir á sykursýki hafa sýnt að í insúlínháðri sykursýki er erfðaþátturinn mjög sterkur en í fullorðinssykursýki (gerð 2) virðist vægi erfða og umhverfisþátta svipað.

Tvíburarannsóknir hafa ennfremur sýnt sterkan erfðaþátt í þunglyndi og mígreni.

Parkinsonsveiki sem byrjar fyrir fimmtugt er að miklu leyti arfgeng en sú sem byrjar eftir fimmtugt virðist hins vegar vera að mestu óháð erfðum.

Mynd: TwinsWorld

Höfundur

Magnús Jóhannsson

prófessor emeritus í líflyfjafræði við HÍ

Útgáfudagur

16.7.2003

Spyrjandi

Olga Sif Guðmundsdóttir, f. 1985

Tilvísun

Magnús Jóhannsson. „Hvað eru tvíburarannsóknir og hvernig eru þær gerðar?“ Vísindavefurinn, 16. júlí 2003. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3584.

Magnús Jóhannsson. (2003, 16. júlí). Hvað eru tvíburarannsóknir og hvernig eru þær gerðar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3584

Magnús Jóhannsson. „Hvað eru tvíburarannsóknir og hvernig eru þær gerðar?“ Vísindavefurinn. 16. júl. 2003. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3584>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru tvíburarannsóknir og hvernig eru þær gerðar?
Tvíburar geta verið eineggja eða tvíeggja. Á Íslandi má gera ráð fyrir að að minnsta kosti 50-60 tvíburar fæðist á ári en þeir eru langflestir tvíeggja. Eineggja tvíburar verða til úr nákvæmlega sama erfðaefninu, einu eggi og einni sæðisfrumu, og eru þess vegna að öllu leyti eins. Tvíeggja tvíburar verða hins vegar til úr tveimur eggjum og tveimur sæðisfrumum og eru ekki líkari erfðafræðilega en venjuleg systkini.



Eineggja tvíburasystur.

Hér er um að ræða tilvalinn efnivið til að rannsaka þátt erfða í sjúkdómum með því einu að bera saman fylgni sjúkdóma í eineggja og tvíeggja tvíburum. Ef annar tvíbura fær sjúkdóm eru fundnar líkurnar á því að hinn tvíburinn fái sama sjúkdóm. Ef um er að ræða sjúkdóm sem er algerlega óháður erfðum, má búast við að líkur á að hinn tvíburinn fái sjúkdóminn séu þær sömu hvort sem um er að ræða eineggja eða tvíeggja tvíbura. Hins vegar, ef sjúkdómur er mjög arfgengur, má búast við að báðir eineggja tvíburar fái mun oftar þennan sama sjúkdóm en þeir tvíeggja sem ekki eru eins líkir erfðafræðilega.

Eitt af því sem takmarkar svona rannsóknir er að eineggja tvíburar eru ekki mjög margir og þegar um er að ræða sjaldgæfa sjúkdóma eru þess vegna mjög fáir eineggja tvíburar sem veikjast og niðurstöðurnar verða ekki áreiðanlegar. Tvíburarannsóknir henta því best til rannsókna á sjúkdómum sem eru algengir eða frekar algengir.

Önnur tegund rannsókna til að greina á milli erfða og umhverfisþátta er að nota ættleidda einstaklinga og ákvarða fylgni sjúkdóma milli þeirra og blóðforeldra eða systkina. Þeir ættleiddu hafa erfðirnar frá foreldrunum en hafa alist upp í umhverfi sem er óháð þeim. Þegar við sjáum til dæmis of feita fjölskyldu, foreldra og börn, gætum við farið að velta fyrir okkur hvort offita barnanna hafi einfaldlega erfst frá foreldrunum, hvort hún byggist á lifnaðarháttum (einkum matarvenjum og hreyfingu) fjölskyldunnar eða hvort þarna komi við sögu bæði erfðir og umhverfisþættir (lifnaðarhættir).

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á tvíburum og ættleiddum og hafa þær leitt ýmislegt áhugavert í ljós. Í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð hafa verið gerðar ýmis konar rannsóknir á tæplega 45 þúsund tvíburapörum.

Þessar rannsóknir hafa meðal annars beinst að arfgengi krabbameina og samkvæmt þeim virðast flestar tegundir illkynja sjúkdóma frekar háðar umhverfisþáttum en erfðum. Þó kom í ljós að þrjár krabbameinstegundir, í blöðruhálskirtli, brjóstum og endaþarmi eða ristli, höfðu mun meiri fylgni meðal eineggja tvíbura en þeirra tvíeggja.

Áfengissýki á sér fjölþættar orsakir en erfðaþátturinn er nokkuð sterkur. Rannsóknir á fjölskyldum, tvíburum og ættleiddum hafa leitt í ljós að börn áfengissjúklinga eru í um fjórfalt meiri hættu að verða áfengissjúklingar en þeir sem eiga heilbrigða foreldra.

Nokkrar rannsóknir á offitu þar sem notaðir voru tvíburar og ættleiddir sýndu sterk ættartengsl en arfgengi offitu er flókið og fjölgena.

Tvíburarannsóknir á sykursýki hafa sýnt að í insúlínháðri sykursýki er erfðaþátturinn mjög sterkur en í fullorðinssykursýki (gerð 2) virðist vægi erfða og umhverfisþátta svipað.

Tvíburarannsóknir hafa ennfremur sýnt sterkan erfðaþátt í þunglyndi og mígreni.

Parkinsonsveiki sem byrjar fyrir fimmtugt er að miklu leyti arfgeng en sú sem byrjar eftir fimmtugt virðist hins vegar vera að mestu óháð erfðum.

Mynd: TwinsWorld...