- Hvaða breiddarbaugur er lengstur?
- Hver er radíus jarðar frá miðju að pól?
- Hvert er ummál jarðar um miðbaug?
Í þessu kerfi er miðbaugur (sem stundum er kallaður 0-baugur) svokallaður stórhringur sem skiptir yfirborði jarðar í tvo jafnstóra hluta, norðurhvel og suðurhvel. Miðbaugur er því einn breiddarbauganna og samhliða honum eru 90 breiddarbaugar til norðurs og 90 til suðurs.
Bilið á milli breiddarbauga er nokkuð jafnt, að meðaltali um 111 km, en eðli málsins samkvæmt eru þeir mislangir. Lengstur er miðbaugur, en síðan styttast þeir eftir því sem nær dregur pólunum.
Ummál jarðar við miðbaug, og þar með lengd miðbaugsins, er 40.075 km. Þar sem jörðin er ekki fullkomlega hnöttótt heldur flatari til pólanna er ummál hennar aðeins minna þegar mælt er yfir pólana, eða 40.007,8 km.
Þessi lögun jarðar gerir það að verkum að geisli hennar eða radíus er um 21 km styttri við pólana en við miðju. Radíus jarðar frá miðpunkti hennar að miðbaug er 6.378,1 km en 6.356,8 við heimskautin.
Heimild:- Almanak fyrir Ísland 2003. Reykjavík: Háskóli Íslands.