Við viljum halda líkamshitanum við um það bil 37 gráður á Celsíus og því þurfum við að losna við allan umframvarma sem mundi annars valda því að við ofhitnuðum. Svitamyndun er ein leið líkamans til þess að losa sig við umframvarma. Um þetta er fjallað í nokkrum svörum á Vísindavefnum. Í svari við spurningunni Hvers vegna svitnar maður? segir meðal annars:
Þegar okkur hitnar beinum við heitu blóðinu út í æðakerfi svonefndrar leðurhúðar sem er undir þunnu hornlagi, en það er ytra lag húðarinnar. Samtímis eykst framleiðni svitakirtla og húðin á okkur verður rök. Svitinn gufar upp af húðinni og við það kólnar hún og kælir blóðið. Uppgufunin þarf mikla orku og þess vegna er þetta býsna skilvirk aðferð til kælingar.Ef sundlaugin er mjög köld eða ef við hreyfum okkur ekki það mikið að líkaminn hitni að ráði þá er ekki nein sérstök þörf til þess að kæla líkamann og við svitnum þar af leiðandi ekki mikið. Ef vatnið er hins vegar heitt eða áreynslan nær að hita líkamann vel upp þá leitar líkaminn þeirra leiða sem hann þekkir til að kæla sig, þar á meðal að mynda svita. Ástralskir vísindamenn gerðu könnun á svitamyndun landsliðs Ástrala í sundi. Sundmennirnir voru vigtaðir fyrir og eftir æfingu og útkoman borin saman, að teknu tilliti til þess hversu mikið þeir drukku á meðan á æfingunni stóð. Niðurstaðan var sú að afreksfólkið svitnaði að meðalatali um 600 ml á um það bil klukkustundar langri æfingu. Til samanburðar má geta þess að miðað er við að á erfiðri íþróttaæfingu á þurru landi sem stendur yfir í klukkutíma, geti svitamyndunin verið á bilinu 1 – 1 ½ lítri. Það er sem sagt vel hægt að svitna í sundi þótt við tökum ekki eftir því þar sem svitinn fer út í vatnið. Hins vegar tökum við eftir því að eftir sundferðir getur þorsti sagt til sín og skýrist hann meðal annars af vökvatapinu sem líkaminn verður fyrir þegar hann svitnar í lauginni. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Er húðin líffæri?
- Hvers vegna verður mér kalt þegar ég kem upp úr sundlauginni?
- Af hverju svitnar maður?
- Hvers vegna svitnar maður meira undir höndunum en annars staðar?
- Af hverju svitnar maður þegar maður er kvíðinn eða stressaður?
- Hvað gerist í líkamanum við áreynslu?
- Hver eru áhrif hita og kulda á mannslíkamann?
- Louise Burke. Do you sweat in water? á Swim City. Skoðað 5. 3. 2010.
- Louise Burke. Nutrition for Swimming. Skoðað 5. 3. 2010.
- June M. Wingert. Do swimmer sweat? If so, where does it go? á MadSci Network. Skoðað 5. 3. 2010.
- Mynd: City of Friendswood. Sótt 5. 3. 2010.
Hér er einnig svarað spurningunni:
Þegar maður fer í sund og leggst í heita pottinn, ætli maður sé þá að svitna í vatnið?