Sólin Sólin Rís 04:55 • sest 21:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 05:20 • Sest 12:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:37 • Síðdegis: 13:22 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:14 • Síðdegis: 19:34 í Reykjavík

Hvað er marxismi?

Nanna Hlín Halldórsdóttir

Marxismi er hugmyndastefna á sviði stjórnmála, hagfræði og fleiri fræðigreina sem kennd er við Karl Marx og vísar beint eða óbeint til verka hans. Talsverð fjölbreytni er meðal þess fræða- og baráttufólks sem kennir sig við marxisma en allt á það sameiginlegt að vera gagnrýnið á kapítalisma og vilja annars konar hagkerfi. Einnig deila flestir sem aðhyllast marxisma þeirri hugmynd að vinnandi fólk bindist samtökum og vinni að sameiginlegri baráttu fyrir bættum kjörum.

Algeng stef innan marxisma eru eftirfarandi:
  • Greining á kapítalisma, til dæmis hvað varðar þensluskeið og kreppur kerfisins en einnig launavinnu, arð, arðrán og söluvöru.
  • Skoðun á stéttarstöðu fólks, og þá aðallega muninum á verkalýðsstétt og borgarastétt. Alþjóðahyggja þegar kemur að baráttu verkafólks.
  • Söguleg efnishyggja sem snýr að greiningu á raunverulegum, efnislegum aðstæðum fólks. Í tengslum við sögulega efnishyggju mætti einnig nefna mótunarhyggju þegar kemur að hugmyndum um manneskjuna og þá hugmynd að firring einkenni líf launþega í kapítalísku hagkerfi.
  • Hugmyndir um hvernig megi bylta núverandi efnahags- og stjórnmálakerfi og koma á kommúnísku eða sósíalísku fyrirkomulagi.

Karl Marx (1818-1883) var af þýskum eða prússneskum ættum en gerður brottrækur af þýsku yfirráðasvæði 1843. Hann heillaðist ungur af heimspeki Hegels og því heimspekilega andrúmslofti sem ríkti í Prússlandi á þessum tíma, en eitt aðaleinkenni þess var gagnrýni á trúarbrögð og krafa um lýðræði og frelsi innan prússneska ríkisins. Á meðal annarra áhrifavalda Marx var sá sósíalismi sem finna mátti í Frakklandi á hans yngri árum og síðan kenningar klassískra hagfræðinga á borð við Adam Smith (1723-1790) og David Ricardo (1772-1823). Ungur hóf Marx vinnu við framtíðarverkefni sitt, að skrifa gagnrýnið rit um kapítalisma, en fyrsta bindi þessa frægasta verks hans, Auðmagnsins (Das Kapital), kom út 1867.

Marxismi er hugmyndastefna á sviði stjórnmála, hagfræði og fleiri fræðigreina sem kennd er við Karl Marx.

Það var ekki endilega sjálfsagt að gagnrýnin sýn á kapítalisma væri kennd við einn mann. Um miðja nítjándu öldina var talsvert um slíka greiningu, til dæmis má nefna rit Pierre-Joseph Proudhon (1809-1865) sem oft er talinn vera faðir anarkisma. Marx starfaði náið með Friedrich Engels (1820-1895) og ritaði sum sinna áhrifamestu verka, á borð við Kommúnistaávarpið, með honum. Engels átti stóran þátt í því að Marx varð síðar að táknmynd andkapítalisma, hann hafði tröllatrú á vini sínum í lifanda lífi, studdi hann meðal annars fjárhagslega og stuðlaði að útbreiðslu kenninga hans eftir dauða Marx. Einnig má nefna að forsvarsmenn Jafnaðarmannaflokks Þýskalands (þ. Sozialdemokratische Partei Deutschlands, SPD) sem á nítjándu öldinni var sósíalískur flokkur, unnu að því að varðveita arfleifð Marx á seinni hluta 19. aldar. Meðal þeirra sem hvað mest hélt uppi þessari arfleifð innan SPD (og klauf sig að lokum frá flokknum) var Rósa Lúxemburg (1871-1919) sem þykir einn áhrifamesti kenningasmiður marxismans.

Sá atburður sem oftast er tengdur marxismanum er án efa rússneska byltingin árið 1917 og stofnun Sovétríkjanna. Leiðtogi bolsévika, Vladimir Lenín (1870-1924), leitaðist við að yfirfæra fræðilegar hugmyndir Marx um ólík stig byltingar frá borgarasamfélagi með sterku ríkisvaldi, yfir í ríkisvaldslaust kommúnískt samfélag. Þegar þessar hugmyndir eru skoðaðar er oft talað um marx-lenínisma. Innan Sovétríkjanna, sem og annarra kommúnískra ríkja, voru víða reistar brjóstmyndir og styttur af Marx og var ímynd hans eins konar táknmynd um kommúníska drauminn. Af öðrum hugmyndastefnum kommúnískra ríkja sem tengjast marxismanum má nefna trotskýisma, maóisma og stalínisma, en deilt er um hve mikið síðastnefnda stefnan á skylt með marxisma. Meira bar á þessum stefnum fyrir fall Sovétríkjanna en þær hafa ekki náð sömu stöðu og marxisminn, sérstaklega ekki innan vestrænna ríkja.

Þessa styttu af Karl Marx og Friedrich Engels er að finna nærri Alexanderplatz í austurhluta Berlínar.

Á Vesturlöndum hefur marxismi haft mikil áhrif innan fræða og vísinda, einkum í hug- og félagsvísindum. Sjálfur er Marx oft talinn einn upphafsmanna félagsvísinda, þar sem hugmyndir hans og greining lúta svo oft að þeim félagslegu skilyrðum sem einkenna líf fólks. Innan fræðanna hefur marxismi einnig þróast í margar áttir. Ein skýrasta skiptingin er eflaust í þann marxisma sem fylgdi línu Sovétríkjanna annars vegar og hins vegar í ný-marxisma (eða póst-marxisma) sem er óhræddari við að sameinast ýmsum hugmyndastraumum 20. aldar á borð við femínisma, sálgreiningu og síðnýlendufræði. Ný-marxismi styðst einkum við verk Marx frá fyrri hluta ævinnar.

Þessir nýju hugmyndastraumar urðu áberandi með þeirri andófsbylgju á áttunda áratug tuttugustu aldar sem oft er kennd við Nýja vinstrið og tengdist mótmælum víða um heim. Maí-uppreisnin í París 1968 tengdist þessari andófsbylgju en upp úr því andrúmslofti sem ríkti í París á þessum tíma spruttu margir áhrifamiklir hugsuðir marxisma. Má þar nefna Étienne Balibar, Jacques Ranciére og Alan Badiou en heimspekingurinn Louis Althusser (1918-1990) hafði mikil áhrif á þessa kynslóð heimspekinga.

Áður hafði Frankfurtarskólinn í Þýskalandi verið áhrifamikill á sviði marxisma og gagnrýninna fræða og höfðu verk hugsuða á borð við Theodor W. Adorno (1903-1969), Max Horkheimer (1895-1973) og Herbert Marcuse (1898-1979) mikil áhrif á Nýja vinstrið. Ekki má gleyma Ítalanum Antonio Gramsci (1891-1937) sem lagði meiri áherslu á skoðun á menningarlegu og hugmyndafræðilegu forræði (e. hegemony) eins hóps yfir öðrum en áður hafði þekkst í marxismanum, til dæmis borgarastéttarinnar yfir öreigum eða þeim sem hann nefndi undirsáta (e. subaltern). Meðal þeirra hugmyndastefna sem óx fiskur um hrygg á tímum Nýja vinstrisins var marxískur femínismi. Ein af grunnhugmyndum hans var að arður innan kapítalisma verði ekki aðeins til með vinnu launþega heldur einnig með þeirri ókeypis vinnu sem fer fram innan heimilanna.

Margir áhrifamiklir hugsuðir marxisma spruttu upp úr því andrúmslofti sem ríkti í París 1968.

Við fall Berlínarmúrsins dró nokkuð úr mætti marxisma bæði innan stjórnmálahreyfinga og háskólasamfélaga. Þetta má til dæmis sjá í þeirri tilhneigingu innan femínisma að tala um efnishyggju (e. materialism) á breiðari grundvelli fremur en marxisma og efnahagsbreytur. Eftir þá hnattrænu efnahagskreppu sem hófst árið 2008 hefur marxismi fengið aukinn byr í seglin. Þetta hefur gerst samfara þeirri endurnýjun sem hefur átt sér stað í verkalýðsfélögum á heimsvísu og vegna síaukinnar gagnrýni á kapítalisma vegna áhrifa hans á hlýnun jarðar.

Nú á dögum er ekki algengt að fræðafólk eða fólk í stjórnmálum kalli sig marxista. Þetta er ólíkt því sem tíðkast í femínisma þar sem mikilvægt hefur þótt að kalla sig femínista. Fremur er það svo að fræðafólk telji sig vinna með marxisma sem tæki í verkum sínum og að þau sem aðhyllast andkapítalisma í stjórnmálum og aktívisma, kalli sig sósíalista eða kenni sig við kommúnisma. Því mætti segja að marxismi hafi fengið þann sess að tákna gagnrýni á ráðandi samfélagsform fremur en að hann sé heiti á þeim stjórnmálahreyfingum sem reyna að umbreyta samfélaginu.

Heimildir og frekara lesefni:

  • Karl Marx og Friedrich Engels. Kommúnistaávarpið. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2010.
  • Karl Marx og Friedrich Engels. Úrvalsrit í tveimur bindum. Reykjavík: Heimskringla, 1968.
  • Karl Marx. Æskuverk. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2011.
  • Jóhann Páll Árnason. Þættir úr sögu sósíalismans. Reykjavík: Mál og menning, 1970.
  • Magnús Þór Snæbjörnsson og Viðar Þorsteinsson (ritst.). Af marxisma. Reykjavík: Nýhil, 2009.
  • Gareth Stedman Jones. Karl Marx: Greatness and Illusion. UK: Penguin Books, 2017.

Mörg verka sem kennd eru við marxisma má einnig nálgast á marxists.org.

Myndir:

Höfundur

Nanna Hlín Halldórsdóttir

doktor í heimspeki

Útgáfudagur

2.12.2020

Spyrjandi

Helga Helgadóttir, Ingvar Pálmarsson, Þórarinn Jóhannesson

Tilvísun

Nanna Hlín Halldórsdóttir. „Hvað er marxismi?“ Vísindavefurinn, 2. desember 2020. Sótt 2. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=26357.

Nanna Hlín Halldórsdóttir. (2020, 2. desember). Hvað er marxismi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=26357

Nanna Hlín Halldórsdóttir. „Hvað er marxismi?“ Vísindavefurinn. 2. des. 2020. Vefsíða. 2. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=26357>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er marxismi?
Marxismi er hugmyndastefna á sviði stjórnmála, hagfræði og fleiri fræðigreina sem kennd er við Karl Marx og vísar beint eða óbeint til verka hans. Talsverð fjölbreytni er meðal þess fræða- og baráttufólks sem kennir sig við marxisma en allt á það sameiginlegt að vera gagnrýnið á kapítalisma og vilja annars konar hagkerfi. Einnig deila flestir sem aðhyllast marxisma þeirri hugmynd að vinnandi fólk bindist samtökum og vinni að sameiginlegri baráttu fyrir bættum kjörum.

Algeng stef innan marxisma eru eftirfarandi:
  • Greining á kapítalisma, til dæmis hvað varðar þensluskeið og kreppur kerfisins en einnig launavinnu, arð, arðrán og söluvöru.
  • Skoðun á stéttarstöðu fólks, og þá aðallega muninum á verkalýðsstétt og borgarastétt. Alþjóðahyggja þegar kemur að baráttu verkafólks.
  • Söguleg efnishyggja sem snýr að greiningu á raunverulegum, efnislegum aðstæðum fólks. Í tengslum við sögulega efnishyggju mætti einnig nefna mótunarhyggju þegar kemur að hugmyndum um manneskjuna og þá hugmynd að firring einkenni líf launþega í kapítalísku hagkerfi.
  • Hugmyndir um hvernig megi bylta núverandi efnahags- og stjórnmálakerfi og koma á kommúnísku eða sósíalísku fyrirkomulagi.

Karl Marx (1818-1883) var af þýskum eða prússneskum ættum en gerður brottrækur af þýsku yfirráðasvæði 1843. Hann heillaðist ungur af heimspeki Hegels og því heimspekilega andrúmslofti sem ríkti í Prússlandi á þessum tíma, en eitt aðaleinkenni þess var gagnrýni á trúarbrögð og krafa um lýðræði og frelsi innan prússneska ríkisins. Á meðal annarra áhrifavalda Marx var sá sósíalismi sem finna mátti í Frakklandi á hans yngri árum og síðan kenningar klassískra hagfræðinga á borð við Adam Smith (1723-1790) og David Ricardo (1772-1823). Ungur hóf Marx vinnu við framtíðarverkefni sitt, að skrifa gagnrýnið rit um kapítalisma, en fyrsta bindi þessa frægasta verks hans, Auðmagnsins (Das Kapital), kom út 1867.

Marxismi er hugmyndastefna á sviði stjórnmála, hagfræði og fleiri fræðigreina sem kennd er við Karl Marx.

Það var ekki endilega sjálfsagt að gagnrýnin sýn á kapítalisma væri kennd við einn mann. Um miðja nítjándu öldina var talsvert um slíka greiningu, til dæmis má nefna rit Pierre-Joseph Proudhon (1809-1865) sem oft er talinn vera faðir anarkisma. Marx starfaði náið með Friedrich Engels (1820-1895) og ritaði sum sinna áhrifamestu verka, á borð við Kommúnistaávarpið, með honum. Engels átti stóran þátt í því að Marx varð síðar að táknmynd andkapítalisma, hann hafði tröllatrú á vini sínum í lifanda lífi, studdi hann meðal annars fjárhagslega og stuðlaði að útbreiðslu kenninga hans eftir dauða Marx. Einnig má nefna að forsvarsmenn Jafnaðarmannaflokks Þýskalands (þ. Sozialdemokratische Partei Deutschlands, SPD) sem á nítjándu öldinni var sósíalískur flokkur, unnu að því að varðveita arfleifð Marx á seinni hluta 19. aldar. Meðal þeirra sem hvað mest hélt uppi þessari arfleifð innan SPD (og klauf sig að lokum frá flokknum) var Rósa Lúxemburg (1871-1919) sem þykir einn áhrifamesti kenningasmiður marxismans.

Sá atburður sem oftast er tengdur marxismanum er án efa rússneska byltingin árið 1917 og stofnun Sovétríkjanna. Leiðtogi bolsévika, Vladimir Lenín (1870-1924), leitaðist við að yfirfæra fræðilegar hugmyndir Marx um ólík stig byltingar frá borgarasamfélagi með sterku ríkisvaldi, yfir í ríkisvaldslaust kommúnískt samfélag. Þegar þessar hugmyndir eru skoðaðar er oft talað um marx-lenínisma. Innan Sovétríkjanna, sem og annarra kommúnískra ríkja, voru víða reistar brjóstmyndir og styttur af Marx og var ímynd hans eins konar táknmynd um kommúníska drauminn. Af öðrum hugmyndastefnum kommúnískra ríkja sem tengjast marxismanum má nefna trotskýisma, maóisma og stalínisma, en deilt er um hve mikið síðastnefnda stefnan á skylt með marxisma. Meira bar á þessum stefnum fyrir fall Sovétríkjanna en þær hafa ekki náð sömu stöðu og marxisminn, sérstaklega ekki innan vestrænna ríkja.

Þessa styttu af Karl Marx og Friedrich Engels er að finna nærri Alexanderplatz í austurhluta Berlínar.

Á Vesturlöndum hefur marxismi haft mikil áhrif innan fræða og vísinda, einkum í hug- og félagsvísindum. Sjálfur er Marx oft talinn einn upphafsmanna félagsvísinda, þar sem hugmyndir hans og greining lúta svo oft að þeim félagslegu skilyrðum sem einkenna líf fólks. Innan fræðanna hefur marxismi einnig þróast í margar áttir. Ein skýrasta skiptingin er eflaust í þann marxisma sem fylgdi línu Sovétríkjanna annars vegar og hins vegar í ný-marxisma (eða póst-marxisma) sem er óhræddari við að sameinast ýmsum hugmyndastraumum 20. aldar á borð við femínisma, sálgreiningu og síðnýlendufræði. Ný-marxismi styðst einkum við verk Marx frá fyrri hluta ævinnar.

Þessir nýju hugmyndastraumar urðu áberandi með þeirri andófsbylgju á áttunda áratug tuttugustu aldar sem oft er kennd við Nýja vinstrið og tengdist mótmælum víða um heim. Maí-uppreisnin í París 1968 tengdist þessari andófsbylgju en upp úr því andrúmslofti sem ríkti í París á þessum tíma spruttu margir áhrifamiklir hugsuðir marxisma. Má þar nefna Étienne Balibar, Jacques Ranciére og Alan Badiou en heimspekingurinn Louis Althusser (1918-1990) hafði mikil áhrif á þessa kynslóð heimspekinga.

Áður hafði Frankfurtarskólinn í Þýskalandi verið áhrifamikill á sviði marxisma og gagnrýninna fræða og höfðu verk hugsuða á borð við Theodor W. Adorno (1903-1969), Max Horkheimer (1895-1973) og Herbert Marcuse (1898-1979) mikil áhrif á Nýja vinstrið. Ekki má gleyma Ítalanum Antonio Gramsci (1891-1937) sem lagði meiri áherslu á skoðun á menningarlegu og hugmyndafræðilegu forræði (e. hegemony) eins hóps yfir öðrum en áður hafði þekkst í marxismanum, til dæmis borgarastéttarinnar yfir öreigum eða þeim sem hann nefndi undirsáta (e. subaltern). Meðal þeirra hugmyndastefna sem óx fiskur um hrygg á tímum Nýja vinstrisins var marxískur femínismi. Ein af grunnhugmyndum hans var að arður innan kapítalisma verði ekki aðeins til með vinnu launþega heldur einnig með þeirri ókeypis vinnu sem fer fram innan heimilanna.

Margir áhrifamiklir hugsuðir marxisma spruttu upp úr því andrúmslofti sem ríkti í París 1968.

Við fall Berlínarmúrsins dró nokkuð úr mætti marxisma bæði innan stjórnmálahreyfinga og háskólasamfélaga. Þetta má til dæmis sjá í þeirri tilhneigingu innan femínisma að tala um efnishyggju (e. materialism) á breiðari grundvelli fremur en marxisma og efnahagsbreytur. Eftir þá hnattrænu efnahagskreppu sem hófst árið 2008 hefur marxismi fengið aukinn byr í seglin. Þetta hefur gerst samfara þeirri endurnýjun sem hefur átt sér stað í verkalýðsfélögum á heimsvísu og vegna síaukinnar gagnrýni á kapítalisma vegna áhrifa hans á hlýnun jarðar.

Nú á dögum er ekki algengt að fræðafólk eða fólk í stjórnmálum kalli sig marxista. Þetta er ólíkt því sem tíðkast í femínisma þar sem mikilvægt hefur þótt að kalla sig femínista. Fremur er það svo að fræðafólk telji sig vinna með marxisma sem tæki í verkum sínum og að þau sem aðhyllast andkapítalisma í stjórnmálum og aktívisma, kalli sig sósíalista eða kenni sig við kommúnisma. Því mætti segja að marxismi hafi fengið þann sess að tákna gagnrýni á ráðandi samfélagsform fremur en að hann sé heiti á þeim stjórnmálahreyfingum sem reyna að umbreyta samfélaginu.

Heimildir og frekara lesefni:

  • Karl Marx og Friedrich Engels. Kommúnistaávarpið. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2010.
  • Karl Marx og Friedrich Engels. Úrvalsrit í tveimur bindum. Reykjavík: Heimskringla, 1968.
  • Karl Marx. Æskuverk. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2011.
  • Jóhann Páll Árnason. Þættir úr sögu sósíalismans. Reykjavík: Mál og menning, 1970.
  • Magnús Þór Snæbjörnsson og Viðar Þorsteinsson (ritst.). Af marxisma. Reykjavík: Nýhil, 2009.
  • Gareth Stedman Jones. Karl Marx: Greatness and Illusion. UK: Penguin Books, 2017.

Mörg verka sem kennd eru við marxisma má einnig nálgast á marxists.org.

Myndir:...