Hver er munurinn á einelti og stríðni?Einelti er ofbeldi þar sem einn eða fleiri ráðast að einum og beita hann ofbeldi yfir lengri tíma. Rannsóknir á einelti hófust að einhverju ráði fyrir rúmlega 30 árum og hafa fjölmargar skilgreiningar á einelti komið fram síðan. Allar eiga þær sameiginlegt að skilgreina einelti sem ofbeldi sem einn eða fleiri beita einstakling yfir lengri tíma, en skilgreiningarnar eru misnákvæmar. Á Íslandi kom fram skilgreining á einelti árið 1996 sem hefur verið mikið notuð allt til dagisns í dag og hljóðar hún svo „Um einelti er að ræða þegar einhver er tekinn fyrir og píndur, andlega eða líkamlega, aftur og aftur í lengri tíma af einum eða fleiri“ (Guðjón Ólafsson, 1996, bls. 11). Eftir því sem rannsóknirnar verða betri og nákvæmari hafa skilgreiningarnar orðið nákvæmari og afmarka hegðunina meira. Í dag er til að mynda talað um líkamlegt, andlegt og rafrænt einelti. Í reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað frá 2004 er einelti skilgreint á þennan hátt:
Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda leiði slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til þeirrar háttsemi sem lýst er hér að framan.Þessi skilgreining er mjög ítarleg en samt örlítið of þröng. Í maí 2011 kom fram tillaga að nýrri skilgreiningu á einelti:
Einelti er endurtekin ámælisverð háttsemi af hálfu eins eða fleiri saman, þ.e. hegðun, athöfn eða athafnaleysi, sem er til þess fallin að meiða, niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna, ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Þetta á m.a. við um skilaboð eða aðrar upplýsingar sem miðlað er í síma eða með rafrænum hætti. Hér er þó almennt ekki átt við samskipti eða skoðanaskipti milli jafninga.Þessi skilgreining inniheldur bæði andlegt, líkamlegt og rafrænt einelti. Einnig tekur hún á þátttöku þeirra sem standa hjá og velja að grípa ekki inn í þegar vitneskja um einelti berst. Rafrænt einelti er frábrugðið öðru einelti að því leyti að til dæmis birting einnar myndar eða ummæla á Netinu getur talist sem ein athöfn og þar af leiðandi fellur það ekki undir skilgreiningu eineltis, en á móti kemur að í framtíðinni er hægt að opna þessar netsíður og við það getur þolandinn átt von á endurtekinni niðurlægingu. Báðar þessar skilgreiningar ítreka það að skoðanaskipti milli jafningja eða skoðanaágreiningur teljist ekki til eineltis heldur þarf hegðunin að vera meðvituð og með vilja til þess að meiða og skaða þann sem fyrir henni verður. Til þess að hegðun geti talist einelti þurfa því einn eða fleiri gerendur að vera til staðar, hegðunin verður að vera endurtekin og mikilvægur þáttur er valdaójafnvægið það er þolandinn verður að standa ójöfnum fæti gagnvart gerandanum. Stríðni er aftur á móti athöfn eða hegðun sem ekki er ætlað að meiða eða niðurlægja og er ekki endurtekin heldur afmarkað tilfelli. Sá sem stríðir tekur ekki fyrir einn aðila heldur eiga það allir á hættu að „lenda“ í honum. Ef einn og sami aðilinn „lendir“ í sífellu í stríðni sama eða sömu aðila er það ekki stríðni lengur heldur einelti, enda geti þolandinn ekki varist og er ekki á jafningagrundvelli í samskiptunum. Ekki eru þó allir á eitt sáttir um þessa skilgreiningu og vilja meina að stríðni sé einnig einelti. Heimild:
- Guðjón Ólafsson. (1996). Einelti. Reykjavík: Ritröð uppeldis og menntunar.
- Reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað nr. 1000/2004.
- Þórhildur Líndal (ritstjóri). 2011. Ábyrgð og aðgerðir: niðurstöður þverfræðilegrar rannsóknar á einelti meðal barna á Íslandi. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Ármanns Snævarrs um fjölskyldumálefni.
- Mynd: Smartphones And The Rise Of Cyberbullying | BCW. (Sótt 21. 3. 2014).