Hvað er vísindaleg aðferðafræði? Hver eru helstu skref vísindalegrar aðferðafræði?Svarið við þessari spurningu er bæði umdeilt og flókið. Ástæðan er meðal annars sú að aðferðafræði vísinda er afar ólík á milli vísindagreina – til dæmis notast félagsvísindi oft við svokallaðar eigindlegar aðferðir sem þekkjast ekki í raunvísindum. Auk þess má benda á að aðferðafræði vísinda hefur tekið umtalsverðum breytingum í áranna rás, oft samhliða því að nýjar kenningar eru teknar upp í viðkomandi vísindagreinum. Meðal annars af þessum sökum telja margir að ekki sé rétt að tala um eina tiltekna aðferðafræði vísinda. Þess í stað notist vísindin við margar ólíkar aðferðir og að ekki sé hægt að gefa sér fyrirfram að ein tiltekin aðferð muni gagnast í öllum rannsóknum. Að þessu sögðu má skipta flestum nútíma vísindarannsóknum í náttúru- og raunvísindum í grófum dráttum í eftirfarandi skref:
- Rannsóknarspurning er sett fram, til dæmis „Hvað veldur hiksta í mannfólki?“
- Hugmynd að svari er sett fram í formi tilgátu, til dæmis „Hiksti orsakast af umframmagni af lofti í maganum.“
- Tilgátan er prófuð í tilraun eða athugunum, til dæmis með því að leiða af henni forspár um ókomna atburði eins og „Ef við fáum 100 sjálfboðaliða og skiptum þeim handhófskennt í tvo jafnstóra hópa þar sem annar hópurinn er beðinn um að gleypa loft en hinn ekki, þá verður hiksti algengari meðal þeirra sem eru í fyrri hópnum.“
- Gögnin sem fengust í fyrra skrefi eru greind og túlkuð, til dæmis með hjálp tölfræðireikninga sem segja til um hvort um marktækar niðurstöður sé að ræða.
- Ákvarðað er hvort gögnin styðji tilgátuna eða ekki og niðurstöðurnar eru svo birtar ef tilefni er til þess, til dæmis í ritrýndu vísindatímariti.
- Chalmers, Alan (2013). What is This Thing Called Science? (fjórða útgáfa). Indianapolis: Hackett.
- Kuhn, Thomas S. (2015). Vísindabyltingar. Íslensk þýðing eftir Kristján B. Arngrímsson; inngangur eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
- Popper, Karl (2009). Ský og klukkur. Íslensk þýðing eftir Gunnar Ragnarsson; inngangur eftir Huginn F. Þorsteinsson. Reykjavík: Heimspekistofnun Háskóla Íslands.
- File:Urbain Le Verrier.jpg - Wikimedia Commons (Sótt 11.1.16.)