Snemma fékk Maurer áhuga á Íslandi, sögu þjóðarinnar og bókmenntum. Hann náði mjög góðum tökum á íslenskri tungu og reyndist sú kunnátta honum dýrmæt þegar hann sótti Ísland heim árið 1858. Í Íslandsferðinni rannsakaði Maurer söguslóðir, safnaði þjóðsögum og lagði sig fram um að kynnast þjóðinni og lífsháttum hennar. Til þess var tekið hversu alþýðlegur og geðþekkur hinn þýski lærdómsmaður var. Maurer eignaðist marga íslenska vini og kunningja. Þar ber hæst vináttu hans og Jóns Sigurðssonar forseta (1811-1879) sem ekki bar skugga á meðan báðir lifðu. Mátu þeir hvor annan mjög mikils. Rannsóknir Maurers á norrænni réttarsögu og sögu Íslands spruttu upp af svokallaðri sögustefnu í þýskri lögfræði á 19. öld. Fylgismenn hennar litu svo á að lagasetning ætti sér rætur í þjóðarsögunni eða þjóðarsálinni, eins og oft var sagt. Því væri brýnt að rannsaka ekki einungis hefðbundna réttarsögu heldur einnig bókmenntir fyrri tíma, þjóðsögur og þjóðkvæði. Skrif Maurers um norræna réttarsögu voru umfangsmikil. Hann var tvímælalaust einn fremsti fræðimaður á því sviði á 19. öld þótt niðurstöður hans hafi vitaskuld staðist tímans tönn misvel. Enn er oft vitnað í verk hans. Þegar litið er sérstaklega til íslenskra fræða, sögu og bókmennta, má skipta framlagi hans í fjóra þætti. Í fyrsta lagi ritaði hann mikið um Íslandssögu. Í öðru lagi hafði Maurer umtalsverð áhrif á rannsóknir á íslenskum fornbókmenntum. Í þriðja lagi lagði hann gjörva hönd á plóg við söfnun íslenskra þjóðsagna og útgáfu þeirra. Í fjórða lagi lagðist hann á árar með Íslendingum í sjálfstæðisbaráttunni og kynnti málstað Íslands í Þýskalandi. Íslandssaga: Árið 1852 kom út eftir Maurer ritið Die Entstehung des Isländischen Staates und seiner Vefassung en það var þýtt á íslensku og gefið út árið 1882 af Hinu íslenska bókmenntafélagi (Upphaf allsherjarríkis á Íslandi og stjórnskipunar þess). Með þessu verki lagði Maurer drjúgan skerf af mörkum til rannsókna á íslenska þjóðveldinu. Annað verk sem vert er að nefna er yfirlitsrit um sögu Íslands frá landnámi til endaloka þjóðveldisins 1262 (Island von seiner Entdeckung bis zum Untergange des Freistaats), mikið rit sem kom út á þjóðhátíðarárinu 1874. Maurer skrifaði auk þess fjöldann allan af ritgerðum um íslenska miðaldasögu. Hann þótti afar nákvæmur og vandvirkur í vinnubrögðum og hafði mótandi áhrif á marga fræðimenn, íslenska jafnt sem erlenda. Íslendingasögur: Á 19. öld voru þýskir fræðimenn brautryðjendur í heimildarýni. Maurer rannsakaði Íslendingasögur með gagnrýnu hugarfari og efaðist um sannfræði þeirra. Taldi hann að þær væru að mestu leyti höfundaverk en ekki munnmælasögur. Af þessum sökum hefur Maurer stundum verið kallaður upphafsmaður bókfestukenningarinnar, sem svo er nefnd. Andstæð henni er sagnfestukenningin sem felur í sér áherslu á munnlega geymd sagnanna. Bókfestukenningin var lengi ráðandi í rannsóknum á Íslendingasögum. Meðal þeirra fræðimanna sem fylgdu í fótspor Maurers í þessum efnum voru Björn M. Ólsen (1850-1919) og Sigurður Nordal (1886-1974). Íslenskar þjóðsögur: Maurer vann brautryðjendaverk í söfnun og útgáfu íslenskra þjóðsagna. Hann skráði margar sögur á ferðalagi sínu um Ísland og eru nokkrar eftirminnilegar frásagnir af því í ferðabókinni (Íslandsferð 1858). Ein þeirra sagna sem Maurer skrásetti var Djákninn á Myrká. Sögurnar gaf hann út í heimalandi sínu árið 1860 undir heitinu Isländische Volkssagen der Gegenwart vorwiegend nach mündlicher Überlieferung gesammelt und verdeutscht. Hann hvatti Jón Árnason (1819-1888) til dáða og útvegaði honum útgefanda í Þýskalandi. Þjóðsögur Jóns Árnasonar komu síðan út í Leipzig í tveimur þykkum bindum 1862 og 1864 (Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri, I–II). Framlag Maurers í þessum efnum er ómetanlegt og áhrifa hans sér enn stað því hann er upphafsmaður þeirrar flokkunar á íslenskum þjóðsögum sem enn er stuðst við í meginatriðum. Sjálfstæðisbaráttan: Maurer skrifaði greinar í þýsk blöð og tímarit um sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Þær voru síðar gefnar út á bók (Zur politischen Geschichte Islands. Gesammelte Aufsätze, Leipzig 1880). Maurer setti sjálfstæðisbaráttuna í samhengi við deilu Þjóðverja og Dana um Slésvík og Holstein og tók afstöðu með Íslendingum. Fyrir þá var afar mikilvægt að fá slíkan stuðning frá mikils metnum, erlendum fræðimanni. Jón Sigurðsson birti tvær stjórnmálagreinar Maurers í Nýjum félagsritum, þá fyrri 1857, og notaði þær þannig til að stappa stálinu í sitt fólk heima á Íslandi. Í Íslandsferðinni árið eftir varð Maurer þess áskynja að margir höfðu lesið grein hans og voru fyrir bragðið enn fúsari en ella að greiða götu hins erlenda gests í hvívetna. Konrad Maurer var „fríður sýnum og hinn öldurmannlegasti, ennið hátt og svipmikið, augun snör og fögur.“ Svo var honum lýst af Birni M. Ólsen. Maurer mun hafa verið fáskiptinn í daglegri umgengni og nokkuð þunglyndur, einkum á efri árum. En hann var hamhleypa til vinnu og skilaði miklu dagsverki á akri norrænna og íslenskra fræða. Og ekki má vanmeta þátt hans í að vekja áhuga Þjóðverja á Íslandi og íslenskri menningu. Íslendingar hafa fyllstu ástæðu til að halda nafni hans á lofti. Heimildir, lesefni og mynd:
- Harmen Biró, Konrad Maurers Islandreise im Jahre 1858 - Landnahme und Aufgabe, Tübingen: Universität Tübingen (doktorsritgerð), 2011.
- Björn M. Olsen, „Konráð Maurer“, Almanak Hins íslenzka þjóðvinafélags, 24 (1898), bls. 25–31.
- Konrad Maurer, vefsíða. Skoðað 27. apríl 2011.
- Konrad Maurer, Íslandsferð 1858, Reykjavík: Ferðafélag Íslands, 1997 (Baldur Hafstað þýddi). Formálar eftir Pál Sigurðsson, Kurt Schier og Árna Björnsson.
- Konrad Maurer á Wikipedia, þýsku útgáfunni. Skoðað 27. apríl 2011.
- Páll Sigurðsson, „Sögustefnan og Konrad Maurer“, Úlfljótur 28 (1973), bls. 3–42. (Hér er að finna ítarlega ritaskrá Maurers).
- Mynd: Konrad Maurer á Wikipedia, þýsku útgáfunni. Sótt 29. apríl 2011.