Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Leitin að fædda afbrotamanninum er orðin löng og ströng. Fyrsta uppgötvunin sem þótti benda til að glæpahegðan væri arfbundin kom frá ítalska fangelsislækninum Cesare Lombroso árið 1876. Hann taldi á grundvelli athugana sinna að fangar hefðu líffræðileg einkenni sem gerðu þá frábrugðna öðrum borgurum og skýrðu afbrotahegðun þeirra. Einkennin birtust til dæmis í hárvexti, lengd handleggja og kjálkastærð. Seinna kom í ljós að þessi einkenni fundust ekki síður meðal venjulegra borgara en Lombroso og lærisveinar hans voru eftir sem áður fullvissir um að afbrotahegðan væri meðfæddur eiginleiki.
Rannsóknir hafa á síðustu áratugum orðið fullkomnari og leitin að meðfæddum einkennum afbrotamanna borist að lítt sjáanlegum einkennum mannsins einsog genum og hormónum. Þrátt fyrir fjárfrekar og viðamiklar rannsóknir hefur glæpagenið þó ekki fundist en samt finnast vísbendingar sem benda til sambands milli ýmiss konar frávikshegðunar og meðfæddra einkenna. Þannig telja ýmsir fræðimenn að fíkn í áfengi og önnur fíkniefni sé að einhverju leyti meðfædd. Aðrir eru þess fullvissir að til sé ofbeldisgen en áreiðanlega staðfestingu á því hefur reynst erfitt að finna. Hins vegar hafa ekki fundist líffræðileg tengsl við auðgunarbrot.
En hvers vegna hefur þessi leit að afbrotageninu ekki borið meiri árangur en raun ber vitni? Hér þarf að huga að ýmsu og ekki síst skilgreiningu á því hvað eru glæpir. Skilgreiningin er mjög breytileg eftir löndum, tímabilum og menningarsvæðum. Það sem telst afbrot í einu landi getur verið álitið eðlileg hegðan í öðru landi, eins og til dæmis notkun vímuefna. Það sem er talið ofbeldi og varðar við hegningarlög á einum stað getur verið fullkomlega eðlileg hegðan og jafnvel hreystiverk á öðrum stað.
Meðan skilgreiningar á afbrotum eru breytilegar og samfélagsbundnar verður leitin að einu afbrotageni óhjákvæmilega torsótt og jafnvel ómöguleg. Fræðimenn eru samt ekki af baki dottnir og athyglisvert er að rannsóknir sem benda til sambands afbrota og líffræðilegra einkenna vekja yfirleitt mikla athygli í samfélaginu. Hins vegar fer færri sögum af þeim aragrúa rannsókna sem finna ekkert marktækt samband þarna á milli.
Helgi Gunnlaugsson. „Hvað er svokallað glæpagen, og hver eru einkenni þess?“ Vísindavefurinn, 17. júlí 2001, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1791.
Helgi Gunnlaugsson. (2001, 17. júlí). Hvað er svokallað glæpagen, og hver eru einkenni þess? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1791
Helgi Gunnlaugsson. „Hvað er svokallað glæpagen, og hver eru einkenni þess?“ Vísindavefurinn. 17. júl. 2001. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1791>.