Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hræðsla við rauðhært fólk kemur víða fram í þjóðtrú. Á Írlandi er talið mikið ólánsmerki að mæta rauðhærðri konu á vegferð sinni þótt varla verði hjá því komist í stærri bæjum þar í landi. Sums staðar hafa rauðhærðir jafnvel álíka slæmt orð á sér og svartir kettir. Í einstaka tilfellum eru rauðhærðir þó frekar gæfumerki. Stundi menn fjárhættuspil er talið gott að nudda spilateningunum í hárið á rauðhærðu fólki. Það er líka lánsmerki að fara höndum um rautt hár.
Sagan segir að Júdas hafi verið rauðhærður og þess vegna hafi menn fengið illan bifur á þessum háralit. Aðrar skýringar eru hins vegar sennilegri þótt ekkert verði fullyrt í þeim efnum. Á gömlu menningarsvæðunum við Miðjarðarhaf hefur rautt hár að öllum líkindum verið mjög sjaldgæft en þessi háralitur frekar fyrirfundist hjá barbörum í norðri. Rauðhærðir hafa þess vegna þótt sérkennilegir og framandi og því álitnir varasamir eða jafnvel hættulegir.
Víða er því haldið fram að rauðhærðum sé ekki treystandi og í norsku máltæki er sagt: „Rødt hår og furuskog vokser ikke på god jord“ (rautt hár og furuskógur vaxa ekki í góðum jarðvegi). Þá er haldið fram að rauðhært fólk hafi hræðilegt og sveiflukennt skap. Svo er líka sagt að ótrúar eiginkonur eignist rauðhærð börn. Á málverkum af Maríu Magdalenu er hún oft máluð rauðhærð enda loða við hana sagnir um syndugt líferni áður en hún hitti frelsarann.
Rauðhærðir strákar þykja henta einstaklega vel til beitu.
Sagt er í íslenskum þjóðsögum að rauðhærðir strákar hafi verið eftirsóttir hjá útlendum duggurum og meðal annars notaðir í beitu. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá manni einum er Guðbrandur hét og var Jónsson. Hann var „miðlungi góðgjarn, illur viðfangs og ójafnaðarmaður og fégjarn“. Svo fégjarn var Guðbrandur að hann seldi hollenskum sjómönnum einkason sinn, rauðhærðan, tíu eða tólf ára gamlan, en sjómennirnir hugðust nota blóð hans til lækninga og greiddu vel fyrir. Sagan segir að þegar Hollendingarnir komu út í fjarðarmynnið hafi þeir hengt drenginn upp á fótunum og tappað úr honum blóðinu og hafi óhljóð hans heyrst í land.
Rauður litur hefur lengi verið tákn fyrir lífskraftinn, meðal annars vegna þess að hann er litur blóðsins. Þessi litur hefur einnig verið talinn vernda gegn illum öflum, nornum og öðru illþýði. Fjandinn sjálfur er jafnvel sagður óttast þennan lit.
Sagt er að rauðir bílar lendi í færri árekstrum en margir aðrir litir. Það gæti stafað af af því að rautt fellur síður inn í umhverfið og rauðir bílar sjást því vel. Engu að síður virðast margar konur hafa ótrú á rauðum bílum að sögn bílasala. Rauðar rósir eru yfirleitt tákn ástarinnar en ekki er þó talið heillavænlegt að færa sjúklingum blómvendi með rauðum og hvítum blómum. Rauður er líka litur hættu eins og sjá má á götuljósum nú til dags. Séu norðurljósin rauð eru þau ófriðarboði og rautt tungl er fyrirboði storma.
Úr De Wallen, rauða hverfinu í Amsterdam, Hollandi.
Í byrjun tuttugustu aldar tóku menn að tengja rauða litinn vændi og lauslæti. Konur sem klæddust rauðu voru til í ýmislegt og oft eru höfð rauð ljós á húsum eða við götur til merkis um að þar séu konur sem falbjóði sig. Vændishverfi margra borga eru kölluð „rauðu hverfin“.
Þegar menn skoða dagatöl og velta fyrir sér „rauðu dögunum“, það er að segja sunnudögum, helgidögum og öðrum frídögum, hugsa sjálfsagt fæstir um það af hverju þessir dagar eru prentaðir rauðir en ekki í einhverjum öðrum lit. Sennilega á þessi venja rætur að rekja til almennra bæna- og helgisiðabóka fyrri alda. Í þeim flestum og einnig kirkjudagatölum var til siðs að prenta nafnadaga dýrlinga og aðra trúarlega helgidaga í rauðum lit. Litur blóðsins er eins og áður segir dágóð fjandafæla og í mikilvægum trúarathöfnum í ýmsum trúarbrögðum hefur rauði liturinn lengi gegnt mikilvægu hlutverki. Það er því ekki tilviljun að á flestum dagatölum eru helgidagar enn í dag prentaðir í rauðum lit.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
Símon Jón Jóhannsson. „Hvaða hjátrú er til um rauðhærða og annað rautt?“ Vísindavefurinn, 1. ágúst 2006, sótt 23. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6098.
Símon Jón Jóhannsson. (2006, 1. ágúst). Hvaða hjátrú er til um rauðhærða og annað rautt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6098
Símon Jón Jóhannsson. „Hvaða hjátrú er til um rauðhærða og annað rautt?“ Vísindavefurinn. 1. ágú. 2006. Vefsíða. 23. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6098>.