Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Orsakir streitu geta verið margvíslegar. Hægt er að fá fram streituviðbrögð hjá tilraunadýrum með áreitum á borð við kulda, hávaða, hormón, raflost og sýkla. Einnig hafa mun flóknari streituvaldar verið rannsakaðir, til dæmis áhrif breytinga og áfalla á heilsufar, tengsl mataræðis og streitu, áhrif mengunar, búsetu og atvinnu. Hér að neðan er fjallað nánar um nokkra þessara þátta.
Samskipti
Streituviðbrögð má oft rekja til mannlegra samskipta. Óöryggi og kvíði gera oftast vart við sig innan um annað fólk; sömuleiðis geta komið upp hagsmunaárekstrar eða samkeppni, eða fólk orðið fyrir andstöðu, upphefð eða niðurlægingu. Þá hafa atriði eins og starfsskilyrði, andrúmsloft á vinnustað, heimilisaðstæður og hjónaband mikil áhrif á streitustig fólks og vellíðan.
Breytingar
Ýmsir fræðimenn telja skort á stöðugleika og festu í þjóðfélaginu leiða til óöryggis og streitu. Máli sínu til stuðnings benda þeir á að í sumum löndum heims, þar sem iðnvæðing hefur ekki enn hafið innreið sína að neinu marki, séu streitutengdir sjúkdómar eins og kransæðastífla nær óþekkt fyrirbæri hjá yngra fólki en fertugu.
Á sumum landsvæðum, svo sem í Georgíu og Kákasus, er fólk óvenju langlíft. Það sem virðist greina þessi svæði frá öðrum er stöðugleiki og hæfileg líkamleg vinna. Ungir sem aldnir hafa ákveðnu hlutverki að gegna í samfélaginu og lífið missir ekki gildi sitt og innihald við ákveðin aldursmörk; það er gott að vera barn, gott að vera fullorðinn og gott að vera gamall. Þar sem þetta kerfi riðlast og mikill félagslegur hreyfanleiki, hörð samkeppni og auknar kröfur til sérhæfingar og símenntunar kemur í staðinn, breytast lífslíkurnar og verða sambærilegar við það sem gerist annars staðar. Slíkt samfélag gerir stöðugt kröfur um árvekni og krefst aðlögunar, sem aftur leiðir til streitu og streitutengdra sjúkdóma.
Með iðnvæðingu hafa atvinnuhættir líka gerbreyst. Að mati margra fræðimanna hafa þessar breytingar leitt til þess að fólk fær oft litla fullnægju í daglegum störfum sínum. Gleði og stolt nútímamannsins eru oftar en ekki bundin neyslu; hamingjan mælist í kaupgetu og eignum, íbúðarstærð, bílum, utanlandsferðum og öðru slíku. Sumir ganga svo langt að halda því fram að hér sé komin undirrót alls þess sem miður fer í nútímasamfélagi; tilraunir til að kaupa hamingjuna eða sanka að sér utanaðkomandi gleðigjöfum séu dæmdar til að mistakast og leiði einungis til tómleika og streitu.
Höft
Eitt af því sem kemur við sögu í streitumyndun eru höft. Ekki verður hjá því komist að setja nokkuð strangar reglur um mannleg samskipti á svæðum þar sem margir ólíkir einstaklingar búa saman, og reglur setja fólki alltaf vissar skorður. Þegar það er hindrað í að gera það sem það langar til bregst það gjarnan við með reiði eða árásargirni sem aftur veldur streitu.
Mikil þrengsli geta valdið vanlíðan.
Nefna má þrennt sem er heftandi í daglegu lífi. Í stórborgum nútímans geta mannmergð og þrengsli valdið streitu. Sumir fræðimenn fullyrða að flestum dýrum, þar með talið manninum, sé eðlilegt að hafa sæmilega rúmt um sig; þéttbýli, troðningur á götum og stöðug návist annarra valdi þvingunartilfinningu og hefti hreyfingar. Ýmsar tilraunir á dýrum benda til þess að of mikill fjöldi einstaklinga á afmörkuðu svæði valdi margs konar líkamlegum kvillum þegar til lengdar lætur og jafnvel afbrigðilegri hegðun.
Mismunun er líka talin heftandi og getur því verið streituvaldur. Mikið hefur verið fjallað um mismunun kynþátta, en mönnum er einnig mismunað út frá trúarbrögðum, stétt, menntun, kyni, líkamlegu útliti, þjóðerni, fötlun og fleiru.
Að lokum geta efnahagslegir þættir verið heftandi og má þar nefna verðbólgu, atvinnuleysi og skattheimtu. Meiriháttar efnahagslegar sveiflur, svo sem heimskreppan á 3. og 4. áratug 20. aldar, eru taldar hafa mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu þjóðfélagsþegnanna. Það sama má segja um viðvarandi fátækt.
Kröfur
Kröfur umhverfisins til einstaklingsins geta orðið svo miklar að hann hafi hvorki krafta né tíma til að sinna þeim öllum. Það sem við eigum ógert veldur ekki síður streitu en það sem við gerum eða verðum fyrir.
Þegar grannt er skoðað má þó segja að of miklar kröfur séu ekki eingöngu umhverfinu eða öðru fólki að kenna; einstaklingurinn hlýtur sjálfur að geta ráðið ferðinni að einhverju leyti. Kröfurnar sem við gerum sjálf til lífsins eru oft óraunhæfar, auk þess sem kröfur annarra eru vitaskuld meira eða minna háðar samþykki okkar. Því má segja að álag sé oft sjálfskaparvíti: Þau áhrif sem kröfur umhverfisins hafa á okkur fara eftir því hvað við sjálf kjósum að gera úr þeim.
Einangrun
Einangrun er talin algengur streituvaldur. Afleiðingar leiðinda og einmanaleika bitna harðast á ákveðnum hópum samfélagsins. Sumir rannsakendur halda því til dæmis fram að nálega 20% unglinga í Bandaríkjunum þjáist beinlínis af leiðindum. Leiðindin leiða svo oft til alvarlegri meinsemda á borð við vímuefnanotkun, geðtruflanir, afbrot og sjálfsvíg.
En það eru fleiri en unglingar sem þjást af leiðindum. Helstu dánarorsakir nútímamanna, svo sem hjarta- og æðasjúkdómar, krabbamein og bílslys, eru mun algengari meðal einhleypra, ekkna, ekkla og fráskilinna af báðum kynjum heldur en þeirra sem búa við fastan félagsskap. Fullyrt hefur verið að dánarlíkur ókvæntra karla á aldrinum 45-54 ára séu að minnsta kosti 120% meiri en kvæntra jafnaldra þeirra.
Neysla
Mataræði getur haft mikil áhrif á streitustig. Það getur einkum gerst með tvennu móti, annaðhvort með því að örva beint virkni svokallaðs semjuhluta sjálfvirka taugakerfisins, eða með því að valda veikleika eða ertingu líffæra sem aftur veldur streitueinkennum.
Af þeim efnum sem örva semjuhluta sjálfvirka taugakerfisins og þar með streituviðbrögðin er koffín vafalítið algengast. Koffín er örvandi efni sem aðallega er að finna í kaffi, svörtum gosdrykkjum, tei og fleiri drykkjum. Það eykur alls kyns streitueinkenni, svo sem hraðan hjartslátt og hækkaðan blóðþrýsting. Nánar má lesa um áhrif koffíns í svari Björns Sigurðar Gunnarssonar við spurningunni Eru guarana og koffein holl eða óholl? Hver er virki þátturinn í þeim og hver er efnafræðileg verkun þeirra á líkamann?
Óhófleg kaffineysla getur verið streituvaldandi.
Af öðru sem talið er hafa bein eða óbein áhrif á streitu má nefna vítamínskort, óhóflegt sykurát, óhóflega saltneyslu og tóbaksreykingar. Í hinu síðastnefnda munar ef til vill mestu um efnið nikótín, sem er í rauninni afar sterkt eitur. Það er algengt að reykingafólk telji sig slaka best á með sígarettu, enda vita menn að það að hætta að reykja getur valdið mikilli streitu. En sú streita er tímabundin og líður hjá, en stöðugar reykingar viðhalda langvarandi streitu.
Kyrrseta
Iðnvæðingin hefur breytt lífi fólks á marga vegu. Vinnan krefst ekki líkamlegra átaka í sama mæli og áður og líkamleg áreynsla telst núorðið til tómstundaiðju hjá flestum.
Hreyfingarleysi, lítil áreynsla og einhæfar hreyfingar hafa margslungin áhrif á streitumyndun. Líta má á óæskilega streitu sem uppsafnaða spennu sem nýtist ekki til átaka. Einföld leið til að vinna á spennu er því að hreyfa sig, nota líkamann til átaka. Þó að það kunni að hljóma mótsagnakennt er holl og góð líkamsrækt oft árangursrík leið til að ná fram góðri slökun og endurnæringu.
En streita tengist lítilli hreyfingu á fleiri vegu. Flest vinnum við sitjandi eða standandi allan daginn og hreyfingar okkar eru oft einhæfar. Einhæf vinna krefst þess að fáir vöðvar séu í notkun, en hins vegar þarf oft mikla orku til að halda öðrum vöðvum kyrrum; það getur verið orkufrekt að hreyfa sig ekki. Ónotaðir vöðvar eru því stundum spenntir, en hins vegar berst þeim ekki það blóðmagn sem æskilegt væri. Það veldur vöðvagigt og öðrum óþægindum sem ýta undir streitu, streitan eykur svo aftur vöðvabólguna og vítahringur myndast.
Þetta svar er stytt og örlítið breytt útgáfa greinar sem birtist upphaflega á vefsetrinu Persóna.is, og birtist hér með góðfúslegu leyfi aðstandenda þess. Hægt er að nálgast heildarútgáfu greinarinnar hér.
Myndir
Sæmundur Hafsteinsson og Jóhann Ingi Gunnarsson. „Af hverju verður fólk stressað?“ Vísindavefurinn, 24. apríl 2006, sótt 1. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5837.
Sæmundur Hafsteinsson og Jóhann Ingi Gunnarsson. (2006, 24. apríl). Af hverju verður fólk stressað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5837
Sæmundur Hafsteinsson og Jóhann Ingi Gunnarsson. „Af hverju verður fólk stressað?“ Vísindavefurinn. 24. apr. 2006. Vefsíða. 1. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5837>.