Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Einfaldast er að svara spurningunni á þá leið að Hómer sé skáldið sem Grikkir eignuðu elstu bókmenntaverk sín, Ilíonskviðu og Ódysseifskviðu. Um þetta skáld vitum við nánast ekki neitt og meira að segja hafa menn efast um að kviðurnar séu verk einhvers eins höfundar.
Hómer í fornöld
Grikkir eignuðu skáldinu Hómer ekki einungis Ilíons- og Ódysseifskviðu heldur raunar ýmis önnur kvæði líka en nær óhugsandi þykir að þau séu ort af sama skáldinu og samdi hin fyrstnefndu. Grikkir vissu sjálfir engu meira um Hómer sjálfan en við vitum nú. Þeir sögðu ýmsar sögur af skáldinu en engar þeirra eru trúverðugar. Hómer var venjulega sagður vera blindur en um það er í raun ekkert vitað. Það er ekki heldur vitað með vissu hvaðan Hómer var. Margar borgir gerðu tilkall til Hómers en af þeim virðast Smyrna og Kíos koma helst til greina sem fæðingarstaðir skáldsins. En úr því að heimildir um skáldið eru af svo skornum skammti sem raun ber vitni getum við spurt í staðinn hvað við vitum um kviðurnar sem honum eru eignaðar.
Hómer var sagður blindur en ekkert er í raun hægt að fullyrða um hvort það hafi verið rétt. Homère et son guide (1874) eftir William-Adolphe Bouguereau.
Hómer og kviðurnar
Fræðimenn telja að Ilíonskviða hafi verið ort um eða eftir miðja 8. öld f. Kr. og Ódysseifskviða aðeins seinna. Þegar á hellenískum tíma töldu sumir fræðimenn að kviðurnar tvær væru ekki eftir sama skáldið. Á síðari tímum hafa nokkrir fræðimenn reynt að færa rök fyrir því sama, til dæmis með tilvísun til málfars, siða og viðhorfs til guðanna í kviðunum tveimur. Sumir gengu enn lengra og töldu að það væri hvorki einn höfundur né tveir heldur fjölmörg skáld, enda þykir ljóst að kviðurnar byggi að einhverju leyti á munnlegri geymd kvæða. Þeir sem gengu lengst í þessa átt litu svo á að kviðurnar væru alls ekki heildstæð kvæði heldur samsettar úr mörgum styttri kvæðum sem hefðu varðveist í munnlegri geymd. En hér er vandi á ferð. Ef það er enginn einn höfundur að kviðunum og höfundur þeirra er samt nefndur Hómer (líkt og venja er að gera), hver var þá þessi Hómer? Var hann til? Allt frá lokum 18. aldar hefur spurningin um höfund Hómerskviða verið miðlæg í hómerískum fræðum og er nefnd spurningin um Hómer (e. the Homeric question).
Rannsóknir Milmans Parrys (1902-1935) frá 4. áratug 20. aldar á munnlegum kveðskap á Balkanskaga veittu mönnum aukinn skilning á eðli slíks kveðskapar og urðu til þess að upp úr miðri 20. öld hljóðnuðu flestar efasemdaraddir um tilvist Hómers. Mönnum varð ljóst hvernig skáld – eins og Hómer – gat starfað innan munnlegrar hefðar og nýtt hana til að semja sjálfstæð verk. Nú líta flestir svo á að Hómer hafi einmitt verið þannig skáld. En þótt flestir séu nú sammála um að hvor kviðan um sig sé heildstætt kvæði eftir einn höfund er ekki þar með sagt að sami höfundurinn – Hómer – hafi samið bæði Ilíonskviðu og Ódysseifskviðu. Seint munu öll kurl koma til grafar í þeim efnum. Á hinn bóginn hefur ekkert komið fram sem útilokar að einn og sami höfundurinn hafi samið báðar kviðurnar og flestir fræðimenn hallast að því.
En hvað getum við vitað meira um Hómer að því gefnu að Hómer sé höfundur Hómerskviða? Í fyrsta lagi teljum við okkur vita hvenær kviðurnar voru samdar. Hómer hlýtur að hafa verið uppi á þeim tíma sem kviðurnar voru samdar, eða á 8. öld f. Kr. að því er talið. Málið á kviðunum er forngríska og er mállýskan einfaldlega nefnd hómerísk. Þessi mállýska var ekki töluð heldur var hún samblanda af ólíkum mállýskum með ýmsum sérkennum sem hæfa bragnum. Hómeríska mállýskan er aðallega jónísk mállýska með ögn af áhrifum frá æólískri mállýsku. Þess vegna telja flestir að Hómer hafi verið frá Jóníu, annaðhvort frá borg í Litlu Asíu eða einhverri eyjunni undan ströndum Litlu Asíu.
Ekki er vitað hvenær kviðurnar voru fyrst skrifaðar niður. Sumir telja að það hafi verið gert þegar á 8. öld f. Kr. og að Hómer hafi ef til vill nýtt sér tilkomu ritmálsins til að láta skrifa niður lengri kviður en áður þekktust. Það hefur meira að segja verið reynt að færa rök fyrir því að gríska stafrófið hafi verið fundið upp beinlínis til þess að hægt væri að skrásetja kviðurnar (B.B. Powell, Homer and the origin of the Greek alphabet, 1991) en engar samtímaheimildir eru um þetta. Elsti vitnisburðurinn um ritun Hómerskviða er frá 6. öld f. Kr. en sagt er að þá hafi aþenski harðstjórinn Peisistratos fyrirskipað að kviðurnar yrðu ritaðar niður vegna þess að nauðsynlegt væri að geta stuðst við réttan texta. Sá texti sem við höfum varðveittan á aftur á móti rætur að rekja til Alexandríu á hellenískum tíma (3.-1. öld f. Kr.). Þá ritstýrðu fræðimenn þar útgáfum á textum Hómerskviða (og ýmissa annarra verka). Sumir fræðimenn leggja áherslu á að það séu fyrstu eiginlegu útgáfurnar á kviðum Hómers, að þá fyrst hafi kviðurnar eins og við þekkjum þær orðið til og ekki fyrr. Flestir hallast þó að því að kviðurnar hafi verið ritaðar einhvern tímann á tímabilinu 750-530 f. Kr.
Í stuttu máli má segja að Hómer hafi verið grískt skáld sem var uppi um miðja 8. öld f. Kr. einhvers staðar í Jóníu og var höfundur Ilíonskviðu og Ódysseifskviðu. Um kviðurnar tvær hefur mikið verið ritað og rætt en um höfund þeirra er því miður lítið meira hægt að segja.
Lesendum er bent á að lesa líka svar höfundar við spurningunni Um hvað fjalla Hómerskviður?Mynd: Homer. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Hómer og eru til einhverjar traustar heimildir um hann?“ Vísindavefurinn, 8. febrúar 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5628.
Geir Þ. Þórarinsson. (2006, 8. febrúar). Hver var Hómer og eru til einhverjar traustar heimildir um hann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5628
Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Hómer og eru til einhverjar traustar heimildir um hann?“ Vísindavefurinn. 8. feb. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5628>.