Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Mallorca tilheyrir Baleareyjum í Miðjarðarhafi, úti fyrir austurströnd Spánar. Alls lifa um 46 tegundir hákarla í Miðjarðarhafi, þar af 13 tegundir sem verða yfir þrír metrar á lengd.
Það eru afar sjaldgæft að hákarlar ráðist á fólk við strendur Mallorca, eða annars staðar í Miðjarðarhafi, þrátt fyrir þær milljónir manna sem sækja strendur eyjarinnar. Á 130 ára tímabili, frá 1874 til 2004, voru skráðar 1.969 hákarlaárásir á heimsvísu. Af þeim voru 38 tilvik eða 1,9% í Miðjarðarhafi og leiddu þau til 18 dauðsfalla. Eins og sjá má er þetta mjög lítill hlutfall, og til að róa strandgesti á Mallorca enn frekar þá eiga flestar árásir í Miðjarðarhafinu sér stað við strendur Ítalíu og í austurhluta Miðjarðarhafs. Tólf hákarlaárásir hafa verið skráðar við strendur Ítalíu og níu tilvik við strendur Grikklands. Aðeins þrjú tilvik eru þekkt við Spánarstrendur.
Þetta er ekki dæmigerð strandmynd frá Mallorca enda hákarlaárásir ekki algengar þar.
Hákarlaárásir tengjast oft sjó- eða flugslysum. Í seinni heimsstyrjöldinni voru nokkur slík tilvik skráð þar sem sjóorrustur fóru fram, meðal annars að minnsta kosti tvö tilvik í Miðjarðarhafi. Annað var þegar bandarísk orrustuflugvél var skotin niður 60 km fyrir utan Napólí á Ítalíu árið 1943. Flugmaðurinn komst lífs af en skýrði frá því að á meðan hann hélt sér á floti á flugvélarbrakinu og beið björgunar hefðu hákarlar oftsinnis nartað í hann og var hann með ljót sár eftir árásir þeirra. Sennilega eru mörg önnur tilvik frá stríðsárunum sem af skiljanlegum ástæðum voru ekki skráð.
Sem dæmi um nýlegri hákarlaárásir í Miðjarðarhafinu má nefna að árið 1977 réðst stór hákarl á fiskimann sem var þar við veiðar. Maðurinn komst lífs af en bátur hans stórskemmdist. Kafarinn Luciano Costanzo var ekki eins heppinn á vormánuðum 1984, en hann lést af sárum sínum eftir árás hvíthákarls. Þetta er nýjasta þekkta dæmið um banvæna árás hákarla í Miðjarðarhafi.
Sennilega eru bláháfur (Prionace glauca) og makrílháfur (Isurus oxyrinchus) algengustu hákarlarnir af stærri gerðinni á grunnsævinu kringum Baleareyjarnar. Sá síðarnefndi getur orðið tæpir fjórir metrar á lengd og á það til að ráðast á báta og fólk, sérstaklega þegar honum finnst sér vera ógnað. Mörg dæmi eru um árásir makrílháfa undan vesturströnd Bandaríkjanna þar sem tegundin er vinsæl sem krefjandi veiðifiskur fyrir sjóstangaveiðimenn. Í Miðjarðarhafi hefur stofn makrílháfa algerlega hrunið á undanförnum 15 árum og telja sjávarlíffræðingar á Möltu að hrunið nemi um 85%.
Makrílháfur (Isurus oxyrinchus).
Hvíthákarlinn (Carcharodon carcharias) er væntanlega kunnastur þeirra „mannætuhákarla“ sem lifa í Miðjarðarhafi. Á tímabilinu 1874-2004 eru þekkt 212 tilvik í heiminum öllum þar sem hvíthákarlar hafa ráðist á menn. Flest þessara tilvika áttu sér stað við vesturströnd Bandaríkjanna, 80 talsins, 46 við Suður-Afríku og 37 árásir við suðurströnd Ástralíu. Miðjarðarhafið er svo í fjórða sæti þar sem hvíthákarlar áttu þátt í 22 árásum á fólk á því svæði og leiddu þær til 10 dauðsfalla.
Hvíthákarlinn er sjaldgæfur við Mallorca en hans verður þó vart þar enda er svæðið við eyjarnar á útbreiðslusvæði hans. Af ofangreindum 22 árásum hvíthákarla í Miðjarðarhafinu átti aðeins ein sér stað við Mallorca og var hún ekki bannvæn. Flestar árásirnar, eða átta, urðu við Ítalíu og leiddu til eins dauðsfalls. Flest dauðsföllin áttu sér þó stað við strendur Grikklands, eða þrjú talsins.
Þess má að lokum geta að vísbendingar eru um það að hvíthákörlum, líkt og öðrum hákarlategundum, hafi fækkað stórlega í Miðjarðarhafi á undanförnum árum.
Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um árásir hákarla á menn eða dýr, til dæmis:
Jón Már Halldórsson. „Eru hákarlar við Mallorca sem ráðast á fólk?“ Vísindavefurinn, 20. september 2005, sótt 1. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5277.
Jón Már Halldórsson. (2005, 20. september). Eru hákarlar við Mallorca sem ráðast á fólk? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5277
Jón Már Halldórsson. „Eru hákarlar við Mallorca sem ráðast á fólk?“ Vísindavefurinn. 20. sep. 2005. Vefsíða. 1. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5277>.