Orðið er notað sem skammaryrði yfir þá sem eru á einhvern veg utangátta, yfirleitt sökum óvenjulegra áhugamála eða samskiptamynstra í bland við óöryggi og annað smálegt, svosem einkennilegan klæðaburð.Hugtakið nörd er þess vegna notað um þá sem skera sig úr, eru utangátta og þykja öðruvísi. Orðið er þá notað af þeim sem telja sig tilheyra hinum stærra hópi fólks sem sker sig ekki úr, og er ekki utangátta eða öðruvísi en aðrir. Þeir sem kalla aðra nörda eru þess vegna um leið að halda því fram að þeir sjálfir séu eðlilegir. Orðið nörd er þar af leiðandi andstæða þess sem er venjulegt, eðlilegt, eða ekki-nörd. Í þessu felst í raun svarið við spurningunni hér að ofan: Það eru bara sumir sem eru nördar en ekki allir. Ef allir væru nördar, þá væri engin þörf fyrir hugtakið nörd, því það að vera nörd merkir að skera sig úr hópnum, vera ekki eins og fólk er flest, tilheyra eins konar minnihlutahópi. Þetta á að vísu aðeins við ef allir væru nördar á sama sviði. Ef allir hefðu gríðarlegan áhuga á að safna gulum títuprjónum teldist það ekki nördalegt, það væri fullkomlega eðlileg hegðun. En einstakir félagar í alheimssamtökum gulra títuprjónasafnara gætu haft önnur sérkennileg áhugmál sem gerðu það að verkum að þeir skæru sig úr fjöldanum og þá væri hægt að skilgreina þá sem nörda. Orðið 'barbari' eða villimaður er dregið af gríska orðinu barbaros sem merkir 'sá sem talar ekki grísku' eða 'útlendingur'. Grikkir notuðu orðið stundum um þjóðir sem mæltu á aðra tungu og höfðu aðra siði en þeir. Við getum þess vegna sagt sem svo að ef allir hefðu einfaldlega alltaf talað grísku þá væru engir barbarar eða villimenn til. Þá hefði aldrei verið nein þörf að að mynda orðið barbaros. Þessu er líkt farið með nördana. Ef alllir hegðuðu sér eins væri engin þörf á hugtakinu nörd, þar sem það getur aðeins átt við þá sem hegða sér á skjön við aðra. Þess vegna eru það bara sumir sem eru nördar en ekki aðrir.
Af hverju eru sumir nördar en ekki aðrir?
Útgáfudagur
30.7.2003
Spyrjandi
Daníel Antonsson, f. 1990
Tilvísun
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Af hverju eru sumir nördar en ekki aðrir?“ Vísindavefurinn, 30. júlí 2003, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3621.
Jón Gunnar Þorsteinsson. (2003, 30. júlí). Af hverju eru sumir nördar en ekki aðrir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3621
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Af hverju eru sumir nördar en ekki aðrir?“ Vísindavefurinn. 30. júl. 2003. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3621>.