Þessir hópar verkefna eru kallaðir flækjustigsflokkar. Einn af þeim er kallaður P og í honum eru öll verkefni sem hægt er að leysa með fjölda aðgerða sem er í stærðarþrepi (stærðargráðu, order of magnitude) margliðu miðað við stærð inntaksins. Til dæmis ef inntakið er strengur af lengd n þá væri verkefni sem leysa má með n2 aðgerðum í flokknum P en verkefni sem þarf 3n aðgerðir væri ekki í P (af því að fallið 3n er ekki margliða í n). Annar hópur er kallaður NP og í honum eru öll verkefni þar sem hægt er að staðfesta uppgefna lausn með fjölda aðgerða sem er af margliðustærðargráðu miðað við stærð inntaksins. Í P eru vandamál eins og línuleg bestun, að finna stærsta samnefnara og að ákvarða hvort að tala er prímtala eða ekki. Þessi vandamál eru einnig í NP en til viðbótar er talið að þáttun tölu, ferðasölumannsvandamálið, netlitunarvandamálið og mörg fleiri verkefni séu í NP en ekki í P. Tengsl flækjustigsflokkana P og NP er enn óleyst vandamál. Það er vitað að P er hlutmengi í NP því ein leið til að staðfesta hvort að tiltekin lausn á verkefni sé rétt er einfaldlega að leysa verkefnið aftur og fá sömu lausn. En það er ekki vitað hvort P og NP séu í raun sama mengið eða sami hópur verkefna. Til einföldunar má segja að spurningin sem þurfi að svara sé ,,er til verkefni þar sem tiltölulega auðvelt er að staðfesta að uppgefin svör séu rétt en mjög erfitt er að finna rétt svör?'' þar sem ,,mjög erfitt" þýðir að hraðvirk tölva gæti verið milljónir ára að leita að réttri lausn með besta reikniritinu sem til væri, en án árangurs. Innifalið í spurningunni er að sýna þarf fram á að ekkert betra reiknirit gæti verið til, það er að segja að vandamálið við að finna lausn á hagkvæman hátt sé ekki skortur á hugmyndaflugi við að uppgötva gott reiknirit heldur sú staðreynd að slíkt hagkvæmt reiknirit sé alls ekki til. Þessi spurning, ,,er P = NP?'', er ein sú mikilvægasta í tölvunarfræði og hefur til dæmis Clay Mathematics stofnunin boðið eina milljón Bandaríkjadala í verðlaun fyrir rétta lausn. Svarið við þessari spurningu myndi hafa mikil áhrif á tölvunarfræði, sérstaklega ef niðurstaðan væri sú að P og NP sé sama mengið. Einkum hefði það áhrif á dulmálsfræði, en í dulritun eru notuð verkefni sem vitað er að eru í NP en talið er að séu ekki í P (auðvelt að afkóða ef lykill er til staðar en ómögulegt að brjóta upp dulkóðun án lykils). Ef í ljós kæmi að P og NP er sama mengið þá væri þar með hægt að brjóta upp alla þá dulritun sem notuð er í dag, til dæmis í netbankaviðskiptum, án þess að vera með réttan lykil. Upphaflega spurningin var:
Getið þið skýrt út fyrir mér hvað felst í stærðfræðivandamálinu ,,P vs. NP'' (sem er eitt af þúsaldarvandamálum Clay-stofnunarinnar)?Frekara lesefni af Vísindavefnum:
- Reiknirit
- Hvað er algrím og hvernig nýtist það í tölvufræði? eftir Snorra Agnarsson.
- Afköst tölva
- Er hraðinn í þróun tölvutækninnar kominn á ljóshraða? Hvað svo eftir það? eftir Kristján Leósson.
- Er það rétt að afkastageta tölva aukist þegar innra minni er stækkað? eftir Bergþór Jónsson.
- Dulritun
- Er hægt að dulkóða gagnagrunn á heilbrigðissviði þannig að enginn geti fundið ákveðinn einstakling? Hvers vegna? Hvers vegna ekki? eftir Snorra Agnarsson.
- Hvað er og hvernig verkar dulkóðun? eftir Erlend S. Þorsteinsson.
- Clay Mathematics Institute.
- Complexity classes P and NP. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
- Computational complexity theory. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
- NP (complexity). Wikipedia: The Free Encyclopedia.
- NP-complete. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
- P (complexity). Wikipedia: The Free Encyclopedia.