Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Af hverju man fólk með Alzheimer hvað það gerði fyrir 50 árum, en ekki hvað það borðaði í morgunmat?

Jón Snædal

Alzheimers-sjúkdómur er algengasti heilahrörnunarsjúkdómurinn, en þeir eru allmargir. Eitt aðaleinkenni hans er skert minni og virðist það einkum koma fram í nærminni eða með öðrum orðum hæfileikanum til að leggja nýja hluti eða nýliðna atburði á minnið. Þegar nánar er að gáð, til dæmis með beinum spurningum um fjarlægari atburði (fjarminni), kemur oftast í ljós að þessi hæfileiki er einnig skertur, en ekki eins mikið. Munurinn virðist hins vegar meiri en hann er í raun og veru því að sérhver einstaklingur þarf á nærminni að halda frá morgni til kvölds í daglegu lífi, en það skiptir ekki eins miklu máli hvað munað er úr fortíðinni. Þó er greinilegt að nærminni dofnar fyrr en fjarminni og hverfur nánast þegar á sjúkdóminn líður, en fjarminnið helst í einhverjum mæli fram á síðustu stig hans.

Heilarýrnun í Alzheimers-sjúkdómi kemur fyrst fram í þeim hluta heilans sem kallast dreki (hippocampus). Rýrnun í drekanum má jafnvel sjá ef teknar eru sérstakar myndir þegar á fyrstu stigum sjúkdómsins, annaðhvort tölvusneiðmyndir eða myndir með segulómun (NMR). Þetta er þó tæknilega flókið og er því ekki hluti af venjulegri rannsókn. Drekinn hefur það hlutverk að taka á móti upplýsingum sem heilanum berast og tengir þær meðvitaðri upplifun frá því áður. Við það öðlast upplýsingarnar merkingu og berast áfram innan heilans, til heilabarkarins til frekari varðveislu (minning). Ef rýrnun verður í þessum hluta heilans eins og gerist snemma í Alzheimers-sjúkdómi er hæfileiki hans til að senda áfram meðvitaðar upplýsingar skertur.

Drekinn tengir þær þá ekki á sama hátt og áður við fyrri upplifun, upplýsingarnar fá því ekki haldbært innihald og festast þá ekki í minni. Ljóst er einnig að boðin sem berast áfram verða að ná ákveðnum styrkleika eða að endurtakast til að eiga möguleika á áframhaldandi geymslu í heilaberkinum. Þetta kemur berlega í ljós þegar lögð eru fyrir þessa sjúklinga einföld minnispróf. Þeir geta endurtekið það sem við þá er sagt og því er ljóst að þeir ná að grípa það sem sagt er, skilja hvað á að gera og senda það svo áfram til talstöðvanna þar sem endursögn fer fram. Nokkrum mínútum síðar er ef til vill allt gleymt og þeim tekst ekki að halda neinu atriðanna í minni, jafnvel þótt þeim hafi verið gert ljóst í upphafi að þeir verði spurðir að nýju. Það sem þeir heyrðu hefur ekki fengið nægilega tengingu við fyrri reynslu (í drekanum) til að festast í minni.

Þegar á sjúkdóminn líður verður vaxandi rýrnun í heilaberki, einkum hvirfilgeira (parietal lobus) og gagnaugageira (temporal lobus). Þá fer önnur minnisstarfsemi að láta meira á sjá svo sem fjarminni, en auk þess getur svo farið að talstöðvar rýrna og þá kemur fram málstol. Þegar svo er komið getur sjúklingurinn ekki tjáð það sem hann hugsar og þá er hætta á að þeir sem umgangast hann telji minni hans og aðra hugsun lakari en hún er. Því á alltaf að ganga út frá því að Alzheimers-sjúklingar með málstol hafi heilbrigðari hugsun en mál þeirra gefur til kynna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Höfundur

Jón Snædal

öldrunarlæknir við Landspítalann

Útgáfudagur

21.11.2000

Spyrjandi

Hrönn Guðmundsdóttir

Tilvísun

Jón Snædal. „Af hverju man fólk með Alzheimer hvað það gerði fyrir 50 árum, en ekki hvað það borðaði í morgunmat?“ Vísindavefurinn, 21. nóvember 2000. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1152.

Jón Snædal. (2000, 21. nóvember). Af hverju man fólk með Alzheimer hvað það gerði fyrir 50 árum, en ekki hvað það borðaði í morgunmat? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1152

Jón Snædal. „Af hverju man fólk með Alzheimer hvað það gerði fyrir 50 árum, en ekki hvað það borðaði í morgunmat?“ Vísindavefurinn. 21. nóv. 2000. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1152>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju man fólk með Alzheimer hvað það gerði fyrir 50 árum, en ekki hvað það borðaði í morgunmat?
Alzheimers-sjúkdómur er algengasti heilahrörnunarsjúkdómurinn, en þeir eru allmargir. Eitt aðaleinkenni hans er skert minni og virðist það einkum koma fram í nærminni eða með öðrum orðum hæfileikanum til að leggja nýja hluti eða nýliðna atburði á minnið. Þegar nánar er að gáð, til dæmis með beinum spurningum um fjarlægari atburði (fjarminni), kemur oftast í ljós að þessi hæfileiki er einnig skertur, en ekki eins mikið. Munurinn virðist hins vegar meiri en hann er í raun og veru því að sérhver einstaklingur þarf á nærminni að halda frá morgni til kvölds í daglegu lífi, en það skiptir ekki eins miklu máli hvað munað er úr fortíðinni. Þó er greinilegt að nærminni dofnar fyrr en fjarminni og hverfur nánast þegar á sjúkdóminn líður, en fjarminnið helst í einhverjum mæli fram á síðustu stig hans.

Heilarýrnun í Alzheimers-sjúkdómi kemur fyrst fram í þeim hluta heilans sem kallast dreki (hippocampus). Rýrnun í drekanum má jafnvel sjá ef teknar eru sérstakar myndir þegar á fyrstu stigum sjúkdómsins, annaðhvort tölvusneiðmyndir eða myndir með segulómun (NMR). Þetta er þó tæknilega flókið og er því ekki hluti af venjulegri rannsókn. Drekinn hefur það hlutverk að taka á móti upplýsingum sem heilanum berast og tengir þær meðvitaðri upplifun frá því áður. Við það öðlast upplýsingarnar merkingu og berast áfram innan heilans, til heilabarkarins til frekari varðveislu (minning). Ef rýrnun verður í þessum hluta heilans eins og gerist snemma í Alzheimers-sjúkdómi er hæfileiki hans til að senda áfram meðvitaðar upplýsingar skertur.

Drekinn tengir þær þá ekki á sama hátt og áður við fyrri upplifun, upplýsingarnar fá því ekki haldbært innihald og festast þá ekki í minni. Ljóst er einnig að boðin sem berast áfram verða að ná ákveðnum styrkleika eða að endurtakast til að eiga möguleika á áframhaldandi geymslu í heilaberkinum. Þetta kemur berlega í ljós þegar lögð eru fyrir þessa sjúklinga einföld minnispróf. Þeir geta endurtekið það sem við þá er sagt og því er ljóst að þeir ná að grípa það sem sagt er, skilja hvað á að gera og senda það svo áfram til talstöðvanna þar sem endursögn fer fram. Nokkrum mínútum síðar er ef til vill allt gleymt og þeim tekst ekki að halda neinu atriðanna í minni, jafnvel þótt þeim hafi verið gert ljóst í upphafi að þeir verði spurðir að nýju. Það sem þeir heyrðu hefur ekki fengið nægilega tengingu við fyrri reynslu (í drekanum) til að festast í minni.

Þegar á sjúkdóminn líður verður vaxandi rýrnun í heilaberki, einkum hvirfilgeira (parietal lobus) og gagnaugageira (temporal lobus). Þá fer önnur minnisstarfsemi að láta meira á sjá svo sem fjarminni, en auk þess getur svo farið að talstöðvar rýrna og þá kemur fram málstol. Þegar svo er komið getur sjúklingurinn ekki tjáð það sem hann hugsar og þá er hætta á að þeir sem umgangast hann telji minni hans og aðra hugsun lakari en hún er. Því á alltaf að ganga út frá því að Alzheimers-sjúklingar með málstol hafi heilbrigðari hugsun en mál þeirra gefur til kynna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:...