Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hugmyndir Herders um þjóðina og endalok menningarlegrar þjóðar

Guðmundur Hálfdanarson

Hér í norðrinu hefir varðveitzt einn hinn sterkasti þáttur, sem menning nútímans er ofin úr: þáttur forn-germanskrar menningar. Það er hinn vígði þáttur okkar sögu, sá þátturinn sem varðveitti þjóðina frá glötun, þegar loppa erlendra yfirráða, óáran og vesöld var næst því komin að klippa sundur lífsþráð hennar. Frumgermanskt frelsi og þjóðstjórn er nú aftur heimaofinn þáttur í íslenzku þjóðlífi.
Þessi orð Ásgeirs Ásgeirssonar, forseta sameinaðs Alþingis og síðar forseta Íslands, á alþingishátíð árið 1930 lýsa vel afstöðu Íslendinga til sambands þjóðernis og menningar - sögu og nútíma. Íslendingar eru þjóð vegna þess að þeir eiga sér sérstæða menningu, sérstakt tungumál og sérstaka siði, en það sem gefur þessum þáttum helst gildi er það að þeir eiga sér rætur í upphafi búsetu á Íslandi og teygjast óslitið aftur til uppruna þjóðarinnar. Þessi hugmynd myndaði kjarnann í málflutningi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni og til hennar er iðulega vísað enn þann dag í dag.

Um rætur hugmyndarinnar um hina upprunalegu þjóð er sjaldan getið í íslenskri stjórnmálaumræðu, enda þykir flestum hún sjálfsögð - óhagganleg staðreynd fremur en pólitísk skoðun. Hér langar mig að gera nokkra bragarbót á og rekja hana aftur til upphafsmannsins, það er til helsta kenningasmiðs evrópskrar þjóðernisstefnu, þýska heimspekingsins Johanns Gottfrieds Herders, og velta fyrir mér í því sambandi annars vegar fræðilegum forsendum hennar og hins vegar því hvort hún eigi sér framtíð í evrópskum stjórnmálum.

Upphaf menningarlegrar þjóðernisstefnu

Johann Gottfried Herder var fæddur árið 1744 í bænum Mohrungen í Austur-Prússlandi (nú Morag í Póllandi). Hann lærði guðfræði, heimspeki og bókmenntir við háskólann í Königsberg, þar sem hann kynntist meðal annars bæði Immanúel Kant og Johann Georg Hamann, en hinn síðarnefndi var einn áhrifamesti gagnrýnandi upplýsingarinnar í Evrópu upp úr miðri 18. öld. Á árunum 1764-69 starfaði Herder sem prestur í borginni Ríga í Lettlandi, sem þá tilheyrði Rússlandi, en að þeirri dvöl lokinni lagði hann í ferð til Frakklands, sem átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á lífsviðhorf hans og hugmyndir um stöðu mannsins í þjóðfélaginu.

Á þessum árum var Frakkland forystuland Evrópu, hvort sem var í stjórnmálum eða á menningarsviðinu. Upplýsingin var umfram allt frönsk að uppruna, en hún var eins, og kunnugt er, ríkjandi hugmyndastefna í álfunni á þessum árum, með gagnrýni sinni á hjátrú og hindurvitni, og áherslu á algild náttúrulögmál, hvort sem var í náttúrunni eða samskiptum manna. Í ferðinni snerist Herder öndverður gegn hugmyndum upplýsingarinnar og þá aðallega út frá tveimur forsendum; í fyrra lagi gramdist honum, sem Þjóðverja, yfirburðastaða franskrar menningar í Evrópu, sem kom meðal annars fram í því að þýsk yfirstétt kaus gjarnan að mæla á franska tungu frekar en þýska, enda þótti mun fínna að nota menningartunguna en hið barbaríska jaðarmál. Í seinna lagi hafnaði hann „úniversalisma“ upplýsingarinnar, eða hugmyndinni um að samfélög manna, hvar sem er í heiminum, lúti algildum lögmálum, ótengdum staðbundnum hefðum. Andstaða Herders við upplýsinguna átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á rómantíska hugsun 19. aldar, og þá ekki síst á vöxt þjóðernisstefnunnar í Evrópu - en reyndar var það hann sem fyrstur manna notaði hugtakið nationalismus í þessu sambandi.

Í grófum dráttum byggir þjóðernisstefna Herders á þeirri sannfæringu hans að þjóðerni myndist fyrir stöðugt samspil manns og náttúru. Rök hans fyrir þessu var sú sannfæring að tungumálið, sem honum fannst frumforsenda þjóðernisins, endurspegli náttúrulegt umhverfi mannlegra samfélaga, af því að þau breytast og þróast í stöðugri glímu mannskepnunnar við náttúrulegar aðstæður sínar. Hefðir og venjur eiga, á sama hátt, rætur í náttúrunni, sem veldur því að þær verða mjög ólíkar á milli svæða og menningarheima. Herder skrifar til dæmis í sínu þekktasta verki,Ideen zur Philosophie der Geschichte der Menschheit (Hugleiðingar um heimspeki mannkynssögunnar, 1784-1791):
Berið saman grænlenska goðafræði og indverska, lappneska og japanska, perúíska og goðafræði blökkumanna; fullkomna landafræði hins skapandi anda. Tæplega kæmi nokkur mynd í huga Bramína þegar Völuspá Íslendinga væri lesin fyrir hann og útskýrð; og Vedakvæðin yrðu Íslendingnum alveg jafn torskiljanleg.
Ofuráhersla Herders á tungumálið helgaðist ekki síst af þeirri vissu hans að það væri í senn lykill að sjálfsskilningi mannsins, vegna þess að við getum einungis fangað hugsanir okkar í orð, og grundvöllur allra samskipta manna á milli. En orðin hafa líka dýpri áhrif á manninn en þau sem í þessu felast, segir Herder, vegna þess að tilfinningalíf okkar er fólgið í móðurmálinu, það er að segja tungumálinu sem við lærum í barnæsku. Fyrstu orðin sem brjóstmylkingurinn lærir af foreldrum sínum móta huga hans og sál, segir Herder í ritgerð um uppruna tungumála (Abhandlung über den Ursprung der Sprache, 1772); það sem eftir er lífsins „lifa þessi fyrstu áhrif frá barnæskunni, þessar myndir úr hugum og hjörtum foreldranna; með orðunum flytjast áfram allar þær tilfinningar sem flæddu um huga hans í upphafi […]“. Manninum gagnast því ekki hvaða tungumál sem er, vegna þess að ekkert tungumál hefur sömu tilfinningalegu skírskotun og móðurmálið - ekkert annað tungumál veitir manninum aðgang að dýpstu fylgsnum sálarlífsins.

Kenningar Herders voru, eins og áður sagði, fyrst og fremst settar fram sem andóf gegn hugmyndum upplýsingarinnar um að til væru altæk lögmál um skipan mannlegs samfélags. Sérhver menningarhópur, sem hann nefndi Volk, eða þjóð, átti sér sérstakar hefðir, sem mótuðust af aldalangri sögu hans og fluttust á milli kynslóða með tungumálinu og þjóðlegri menningu alþýðunnar. Herder fannst af þeim sökum að eðlilegast væri, og í bestu samræmi við náttúrulega skipan þjóðfélagsins, að hver þjóð stjórnaði sér sjálf. Þar sem þjóðmenningin endurspeglaði umhverfið, og aðstæður hverrar þjóðar voru sérstakar, var ekki til nein ákveðin algild fyrirmynd um það hvernig haga átti samskiptum þegnanna, heldur hlaut stjórn hvers ríkis að taka mið af hefðbundnum einkennum þjóðarinnar. Ekki þarf því að koma á óvart að Herder var mjög í nöp við „óeðlilega“ stór ríki, þar sem „kynþáttum og þjóðum var blandað saman á villtan hátt undir einum veldissprota […]“, eins og hann orðaði það. Slíkur sambræðingur gat aldrei orðið annað og meira en „brothætt vél, sem nefna mætti ríkisvél, án innra lífs eða samkenndar hinna ýmsu hluta“. Þessum orðum var beint gegn flestum konungsríkjum Evrópu á 18. öld, en á þeim tíma voru öll sterkustu ríki álfunnar samsett úr ósamstæðum héruðum, oft fjöldamörgum, sem sjaldnast áttu annað sameiginlegt en einvaldan erfðakóng.

Kenningar Herders um þjóðmenningu og þjóðríki eru, með einum eða öðrum hætti, uppspretta menningarlegrar þjóðernisstefnu í hvaða mynd sem hún hefur birst síðustu tvær aldirnar. Honum hafa því stundum verið kennd flest þau óbermi sem þessi angi þjóðernisstefnunnar hefur alið af sér, allt frá kynþáttahyggju yfir í hugmyndina um Favoritvolk - hina útvöldu þjóð - sem hefur rétt á troða á öðrum þjóðum að vild í krafti meintra yfirburða sinna. Í raun á Herder betra skilið, af því að hann var alla tíð sannfærður afstæðishyggjumaður um gildi þjóðernis og algerlega mótfallinn því að telja eina þjóð annarri fremri. Hann gerði þannig mjög lítið úr hlutverki kynþátta við myndun þjóðernis - og fyrir vikið gagnrýndu menn á borð við Kant hann fyrir að fara niðrandi orðum um kynþáttahugtakið. Herder gekk reyndar svo langt í að afneita kynþáttahyggjunni að hann fullyrti að Evrópubúar væru ekkert merkilegri íbúum annarra heimsálfa, og hafnaði hann því með öllu bæði nýlendustefnu og þrælahaldi.

Herder dró í raun sjálfur ekki aðrar ályktanir af þjóðernishugmyndum sínum en þær að mannkynið deildist upp í ólík menningarsamfélög sem öll væru jafn rétthá og mikilvæg fyrir framtíð mannkynsins. Um leið benti Herder löndum sínum á að þeir þyrftu alls ekki að skammast sín fyrir sína eigin menningu; þýskt andans líf væri allt eins merkilegt og franskt, jafnvel þótt almennt væri viðurkennt að Frakkar hefðu forystu á meginlandi Evrópu á síðari hluta 18. aldar. Í kvæði sem hann nefndi „An die Deutschen“ sárbændi Herder landa sína um að láta af erlendri eftiröpun:
Og þú Þjóðverji, vilt þú einn heilsa þinni eigin móður

á frönsku, þegar þú snýrð aftur af erlendri grund?

Ó, spýttu út úr þér við húsdyrnar, spýttu út úr þér

andstyggilegri leðjunni úr Signu.

Talaðu þýsku, ó þú Þjóðverji! Ekki eltast við tískuna

í látbragði og siðum. Orð þín

líkjast afreksverkum, líkjast óhagganlegum

björgum sannleikans.
Frá sérstæðum þjóðum til yfirburðaþjóða

Þrátt fyrir víðsýni frumherjans reyndist, þegar til kom, skammur vegur frá áherslu Herders á sérstætt eðli þjóðarinnar og fjölbreytni mannkyns til kenninga arftaka hans í þýsku menningarlífi um sérstaka yfirburði þýskrar þjóðar. Í fyrirlestraröð sem heimspekingurinn Johann Gottlieb Fichte flutti í Berlín veturinn 1807-1808, í skugga háðulegs ósigurs Prússa fyrir herjum Napóleons Bónaparte Frakkakeisara, setti hann fram þá róttæku kenningu að Þjóðverjar væru ekki aðeins jafn merkilegir Frökkum heldur stæðu þeir í raun Frökkum langtum framar á andlega sviðinu. Rök Fichtes fyrir þessari hugmynd voru þau að Þjóðverjar hefðu einir germanskra ættbálka staðist freistingu Rómaríkis á þjóðflutningatímanum og viðhaldið upprunalegu tungumáli sínu eftir að heimsborgin var sigruð af germönskum þjóðflokkum seint á 5. öld. Allir bræðraflokkar germana, fullyrti Fichte í fyrirlestrum sínum, tóku aftur á móti upp tungumál hins fallna heimsveldis, enda þótti það mun fágaðra og siðmenntaðra en upprunalegar tungur sigurvegaranna. Á þennan hátt urðu öll nýlatnesku málin til, segir Fichte, en þar er helst að telja tungumál eins og frönsku, spænsku og ítölsku.

Í augum Fichtes markaði tungumálaþróunin við upphaf miðalda í raun afdrifa­ríkustu þáttaskil Evrópusögunnar. Hann áleit, eins og Herder, að tungumálið væri bæði tenging einstaklingsins við sitt eigið innra eðli og táknmál þjóðmenningarinnar. En tungumál voru meira en það, skrifar Fichte, af því að:
þegar tungumálinu er ekki miðlað á gerræðislegan hátt, heldur brýst fram sem hreint náttúruafl út úr lifandi skynsemi, hefur það einnig mátt til þess að hafa áhrif á og örva lífið, svo fremi að það hafi þróast óslitið eftir þessu lögmáli.
Það sem heimspekingurinn átti við var að einungis þær þjóðir sem töluðu upprunaleg tungumál gætu talist lifandi, vegna þess að þær einar stóðu í beinu sambandi við menningu sína og hugsun sem þróast hafði óslitið allt frá árdögum sögunnar. Þarna höfðu Þjóðverjar sérstöðu meðal Evrópuþjóða, enda töluðu þeir einir, að mati Fichtes, „tungumál sem hafði lifað allt frá þeirri stundu að það varð til í náttúrunni, á meðan tungumál annarra germanskra þjóðflokka hreyfast aðeins á yfirborðinu, rætur þeirra eru dauðar“. Einungis Þjóðverjar voru því færir um lifandi hugsun og hvað sem stöðu þeirra í samtímanum leið var framtíðin þeirra - enda er „það hvorki afl handanna né máttur vopnanna sem vinnur sigra, heldur vilji sálarinnar“, eins og Fichte orðaði það í hvatningu sinni til þýsku þjóðarinnar.

Þar með voru Þjóðverjar orðnir ekki aðeins jafnir Frökkum og öðrum þjóðum, eins og Herder hafði sagt, heldur öðrum fremri, Favoritvolk. Þetta gekk þvert gegn frumgerð hinnar menningarlegu þjóðernisstefnu. Fichte gekk svo langt að fullyrða að þegar allt kæmi til alls væru Þjóðverjar hin eina raunverulega þjóð Evrópu, og reyndar mun betur fallnir til að skilja franska þjóðarsál en Frakkar sjálfir. Þessi kenning átti eftir að taka á sig mun myrkari myndir eftir að hún blandaðist kynþáttahyggju og gyðingahatri, og þá ekki síst eftir að Þýskaland reis úr öskustó Evrópu á síðustu áratugum 19. aldar og tók sér stöðu sem óskoruð forystuþjóð álfunnar.

Í þessu sambandi má minna á að prússneski sagnfræðingurinn Heinrich von Treitschke sótti rök sín fyrir innlimun héraðanna Alsace-Lorraine í sameinað Þýskaland beint í smiðju þeirra Herders og Fichtes. „Hver vogar sér,“ spurði Treitschke haustið 1870, „þegar við stöndum frammi fyrir þeirri skyldu okkar að tryggja heimsfriðinn, að bera því við að íbúar Elsass og Lothringen vilji ekki sameinast Þýskalandi?“ Þessi héruð skyldu verða þýsk, með mætti sverðsins ef ekki vildi betur, af því að íbúarnir töluðu flestir þýsku og því hlutu þeir að teljast þýskir hvað svo sem þeim sjálfum fyndist. „Frönsk stjórn yfir þýskum kynþætti er alltaf óeðlilegt ástand“, fullyrti Treitschke, „en nú hlýtur kúgun hálfmenntaðra barbara á frjálsum mönnum að teljast glæpur gegn sögulegri skynsemi.“

Ríkisþjóðir og menningarþjóðir

Tengsl menningarbundinnar þjóðernisstefnu við fasisma og nasisma hefur varpað nokkrum skugga á arfleifð Herders og Fichtes á síðustu áratugum, og reyndar á þjóðernisstefnu yfirleitt. „Þjóðernisstefna er stærsta pólitíska hneisa 20. aldar; hún er versti, vanhelgasti, en um leið óvæntasti smánarblettur evrópskrar stjórnmálasögu síðan árið 1900“, fullyrðir til dæmis enski stjórnmálafræðingurinn John Dunn í nýlega endurútgefnu yfirlitsriti um vestrænar stjórnmálakenningar, og hefur hann þar efalaust í huga bitra reynslu síðari heimsstyrjaldar.

Ég ætla þó ekki að fylgja þessari gagnrýni eftir frekar, enda er ávallt hæpið að kenna frumkvöðlum um syndir sporgöngu­manna. Mig langar aftur á móti að gera að umtalsefni þann misskilning Herders - og reyndar þeirra sem honum hafa fylgt að málum - að þjóðir og þjóðríki eigi sér menn­ingarlegar for­sendur. Þjóðríki nútímans eru nefnilega alls ekki sjálf­sprottin menningar­samfélög, eins og Herder trúði, með djúpar rætur í fortíð og sögu, heldur hafa þau ávallt verið fjölbreytt samfélög manna sem lúta einum lögum og einni stjórn.

Í fyrsta lagi er rétt að muna að þrátt fyrir að þjóðir skírskoti í langflestum tilvikum til sérstakrar þjóðmenningar, sem sameinar þegna þeirra innbyrðis og greinir þá frá þegnum annarra þjóða, þá er nútímaþjóðin fyrst og fremst pólitískt fyrirbæri og tengist sem slík náið uppruna og þróun nútíma ríkisvalds. Ein meginkenning Herders var sú að þessir tveir þræðir þjóðernisins - pólitískur og menningarlegur - væru í raun einn og hinn sami; ekki væru til neinar almennar reglur um það hvernig stjórna bæri þjóðfélögum, heldur bæri hverju menningarsamfélagi (Volk) að finna sér sínar eigin leiðir til haga málum sínum og það myndi gerast sjálfkrafa ef þjóðin öðlaðist frelsi til að stjórna sér sjálf. Að baki þessari skoðun Herders lá almenn og djúpstæð andúð á ríkisvaldi sem honum fannst hlekkja manninn eins og dýr. Í Ideen zur Philosophie skrifaði hann:
Milljónir manna á jörðinni lifa án ríkis, faðir og móðir, eiginmaður og eiginkona, barn og bróðir, vinur og maður - þetta eru náttúruleg sambönd sem veita okkur hamingju; það sem ríkið býður okkur er gerviúrræði, og því miður getur það einnig rænt okkur nokkru sem er mun mikilvægara, okkur sjálfum.
Herder vildi því leita „lífræns“ skipulags þjóðfélagsins, þar sem þjóðin starfaði í anda hefða sinna og siða og fjölskyldan myndaði þann grunn sem öll önnur samskipti tóku mið af. Og það var einmitt þjóðríkið eitt sem tryggði slíka skipan mála að hans mati; náttúran „hefur aðskilið þjóðir, ekki aðeins með skógum og fjöllum, höfum og eyðimörkum, ám og veðurfari, heldur einnig, og mun frekar, með tungu­málum, löngunum og skapgerð; og aðeins þannig hefur hún gert kúgandi harð­stjórum erfitt fyrir og komið í veg fyrir að allir hlutar heimsins hafi lent í maga tré­hests.“

Nútímaþjóðríki eiga auðvitað fátt sameiginlegt með rómantískri draumsýn þýska heimspekingsins. Lýðræðisríki samtímans eru ekki reist á grunni einhvers konar lífræns eðlis þjóðanna, sem hefur orðið til og þróast í árþúsunda baráttu mannsins við umhverfið, heldur einmitt á þeim altæku reglum sem Herder var svo mjög í nöp við. Virðingin fyrir rétti einstaklingsins til einkalífs og rétti þegnanna til að hafa áhrif á lagasetningu og stjórn ríkisins eru frumlögmál nútímaríkisins, og gildir þar einu hvort ríkið er franskt, íslenskt eða danskt. Bitur reynsla síðustu aldar sannaði fyrir mönnum að þrátt fyrir allt eru þessar reglur farsælasti grunnur sem við þekkjum fyrir ríkisvaldi og því ber okkur siðferðileg skylda til að verja þær gegn öllum draumórum um hið endanlega samræmi á jörð.

Í öðru lagi, er augljóst að einungis örfá þjóðríki Evrópu geta látið sem svo að landamæri þeirra afmarki „upprunaleg“ menningarsvæði. Flest þjóðríki láta vitanlega eins og að þegnar þeirra séu tengdir römmum menningar- og sögulegum taugum, og leggja því mikla áherslu á að rækta innri einingu þjóðanna með eflingu þjóðernistákna, hvort sem þar er um að ræða tungumál, sameiginlegar minningar eða gleymsku, eða eitthvað annað sem gefur þjóðinni sögulega dýpt. Þannig ná öll stærri þjóðríki Evrópu, og reyndar mörg hinna smærri einnig, yfir landsvæði og hópa sem hafa allar forsendur til að teljast þjóðir út af fyrir sig eða þegnar í allt öðrum þjóðríkjum en þeir tilheyra nú. Nægir þar að nefna Bretóna, Korsíkubúa og Baska í Frakklandi, Katalóna, Baska og Galisíubúa á Spáni, Sikileyinga á Ítalíu, Ungverja í Rúmeníu, Rússa í baltnesku löndunum, Vallóna og Flæmingja í Belgíu, Sama í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, og þannig mætti áfram telja. Því er til fjöldi dæma um þjóðernishópa sem telja sig hafa fulla ástæðu til að draga í efa að pólitísk og þjóðernisleg landamæri Evrópu séu rétt dregin.

Af þessum sökum sýnist mér sem svo að menningareinkenni hafi alls ekki verið helsta forsenda myndunar þjóðríkja á árum áður, heldur hafi þau þvert á móti verið ein stærsta ógnin við tilveru þjóðríkjanna, að minnsta kosti eins og þau hafa tíðkast í Evrópu síðustu tvær aldir. Samræming eða útrýming slíkra einkenna á altari þjóðareiningar, í því skyni að skapa einingu þar sem engin var fyrir, hefur því verið mjög útbreiddur siður í álfunni.

Þjóðum hefur stundum verið skipt upp í tvær meginfylkingar. Annars vegar það sem kallast Staatsnationen á þýskri tungu, eða ríkisþjóðir, en það eru þjóðir þar sem ríki hefur, oft á löngum tíma, skapað þjóðarheild úr flokki ólíkra þjóðernishópa. Dæmi um slíkt er Frakkland en þar varð ríkið til á undan þjóðinni og þjóðin varð til úr samruna fjölda ósamstæðra þjóðarbrota. Hins vegar er það sem kallað hefur verið Kulturnationen, eða menningarþjóðir, en það eru þjóðir sem kröfðust ríkis á grundvelli menningarlegrar sérstöðu sinnar. Þar hefur Þýskaland oftast verið efst á blaði, en við gætum auðvitað bætt Íslandi við þann lista.

Í fljótu bragði virðist þessi tvískipting draga kenningu Herders að landi - þótt augljóslega eigi ekki allar þjóðir sér sameiginlegan uppruna eða tungumál, þá gildir það þó alltént um sumar þjóðir. Gallinn við þetta er þó sá að jafnvel hin dæmigerða menningarþjóð Þjóðverjar er alls ekki sjálfsprottin heldur búin til af ríkinu á sama hátt og flestar nágrannaþjóðirnar. Aðgreining Austurríkismanna, sem líta nú á sig sem sérstaka þjóð, og Þjóðverja, er til dæmis tilkomin vegna pólitískra ákvarðana á 19. og 20. öld - reyndar í bland við aldalanga samkeppni á milli þýsku forysturíkjanna Austurríkis og Prússlands. Eins er tungumálið „þýska“ fjarri því eins upprunalegt og Herder og Fichte vildu vera láta - lágþýska, sem töluð var í norðurhluta núverandi Þýskalands var til dæmis mun skyldari hollensku en háþýsku og því eiga landamæri Þýskalands og Niðurlanda sér pólitískar rætur en ekki menningarlegar.

Að síðustu er rétt að geta þess að Herder hefði átt að vera fullljóst að hugmyndin um þjóðmenningu var í besta falli óraunsæ, og í versta falli stórhættuleg. Sagnfræðingurinn Daniel Chirot hefur bent á að í borginni Riga, þar sem Herder hóf starfsferil sinn eins og áður sagði, bjó að mestu í sátt og samlyndi, fjöldi menningarhópa sem talaði ólík tungumál, játaði ólíka trú og átti sér ólíkar hefðir og uppruna. Hugmyndin um hina einsleitu þjóð, sem er stjórnað í samræmi við upprunalegar hefðir, gróf einmitt undan möguleikanum á að þessir hópar gætu starfað saman og umgengist hvern annan af virðingu og skilningi.

Menningarleg eining eða fjölmenning

Hugmyndin um hreinleika þjóða og tengsl við fortíðina hefur sætt mikilli gagnrýni á undanförnum áratugum, þótt hennar hafi lítt orðið vart á Íslandi fyrr en á allra síðustu árum. Þannig hefur verið bent á að ímyndin um „sameiginlegar minningar“ þjóða eigi sér sjaldnast nokkra stoð í raunveruleikanum, heldur hafi þetta hugtak verið notað til að fela það að í raun var ríkjandi söguskoðun þröngvað upp á þegnana. Þjóðarsagan hefur verið skrifuð og lesin eins og þroskasaga einstaklings í því skyni að réttlæta ríkjandi valdakerfi eða lífssýn hverju sinni, fremur en sem viðurkenning á því að á öllum tímum hafa tekist á mismunandi hagsmunir og sjónarmið um framtíðarskipulag þjóðfélagsins. Þær persónur í fortíðinni sem talið er að hafi stuðlað að frelsi þjóðarinnar, eins og það er túlkað hverju sinni, eða drýgt hetjudáðir í hennar nafni, eru dregnar fram sem fyrirmyndir í nútímanum og tákn fyrir sameinaða þjóð. En slíkar minningar eru aldrei einfaldar eða „saklausar“, heldur liggur að baki þeirra merking og meining. Með vaxandi vitund fyrir misrétti kynjanna, svo dæmi sé tekið, hafa fræðimenn bent á að ímyndir um þjóðareinkenni hafa verið notaðar til að leggja áherslu á og réttlæta „eðlislægt“ kynjamisrétti í samfélaginu. Þannig er hinum dæmigerða fulltrúa þjóðarinnar gjarnan lýst sem fullorðnum, menntuðum og „skynsömum“ karlmanni, en „kvenleg“ einkenni eru túlkuð sem andstæða hins þjóðlega.

Vaxandi fjölbreytni í evrópskum þjóðfélögum, í kjölfar innflutnings fólks frá fjarlægum heimshornum, hefur einnig grafið undan hugmyndum um menningarlega einingu þjóða. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá hafa gömlu þjóðernistáknin litla merkingu fyrir fólk sem á sér sínar eigin minningu og einkenni - til dæmis eru þjóðsögur af 15. aldar dýrlingnum Jóhönnu af Örk ekki vel fallnar til þess að fá múslímska innflytjendur frá Norður-Afríku til að finnast þeir vera franskir. Þjóðartákn og minningar um liðna atburði í sögu þjóðanna, sem áður þjöppuðu þegnunum saman, verða af þessum sökum til þess að útiloka stóra hópa fólks frá þjóðarfjölskyldunni og leiða því til sundrungar fremur en sameiningar. Þrenning Snorra Hjartarsonar, land, þjóð og tunga, sem fram að þessu hefur sannfært Íslendinga um að þeir væru allir eins, eða ein fjölskylda og nátengdir landinu, er allt í einu orðin að ókleifum múr fyrir Íslendinga af erlendum uppruna sem vilja aðgang að þjóðarheimilinu.

Slíkar staðreyndir, segir enski menningarfræðingurinn Stuart Hall, hafa dregið það fram að meginhlutverk þjóðmenningar hefur ávallt verið að skapa þá ímynd „að það sem er í raun eþnískur hrærigrautur nútíma þjóðernis sé upprunaleg eining ‘einnar þjóðar’ [one people]“. Um leið eru uppdiktaðar hefðir notaðar til að sannfæra fólk um að saga þjóðarinnar sé óslitinn þráður sem nær langt aftur til goðsögulegs tíma, þrátt fyrir að raunveruleg mótunarsaga allra þjóðríkja einkennist af snöggum breytingum og landvinningum fremur en hægfara og samfelldum vexti. Af þessu dregur Hall þá ályktun að kenningar upplýsingarinnar og frönsku byltingarinnar um borgararétt verði í framtíðinni bæði að taka tillit til jafnréttis allra þegna (án tillits til kyns, stéttar eða eþnísks uppruna) og sýna menningarlegri fjölbreytni virðingu - ef þetta tekst ekki er lýðræðið ekki á vetur setjandi.

Ég vil enda þetta erindi á að taka undir þessi orð Halls, um leið og ég tek fram að með því er ég ekki að boða endalok íslenskrar menningar, eða lasta þá viðleitni manna að vilja varðveita íslenska tungu eða hefja íslenskar fornbókmenntir til vegs og virðingar. Menningarleg fjölbreytni er eitt af því sem gefur heiminum gildi og það er einmitt hlutverk okkar, og ekki síður komandi kynslóða, að viðhalda lifandi menningarsköpun og umræðu á íslenskri tungu. Sú hugmynd að menningarhópar séu einangruð fyrirbæri, sem hljóta að stjórna sér sjálfir án utanaðkomandi áhrifa, er aftur á móti úr sögunni - og hefur reyndar aldrei verið raunsætt markmið í stjórnmálum. Því boða ég endalok hins hagkvæma hjónaband lýðveldis og eþnískrar þjóðar - það virkaði oft vel, stundum miður, en á næstu áratugum verðum við að gera upp á milli þeirra.

Fyrirlestur í hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands „Hvað er (ó)þjóð“ 23. október 2001.

Höfundur

Guðmundur Hálfdanarson

prófessor í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

23.10.2001

Spyrjandi

Ritstjórn

Efnisorð

Tilvísun

Guðmundur Hálfdanarson. „Hugmyndir Herders um þjóðina og endalok menningarlegrar þjóðar.“ Vísindavefurinn, 23. október 2001, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70774.

Guðmundur Hálfdanarson. (2001, 23. október). Hugmyndir Herders um þjóðina og endalok menningarlegrar þjóðar. Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70774

Guðmundur Hálfdanarson. „Hugmyndir Herders um þjóðina og endalok menningarlegrar þjóðar.“ Vísindavefurinn. 23. okt. 2001. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70774>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hugmyndir Herders um þjóðina og endalok menningarlegrar þjóðar

Hér í norðrinu hefir varðveitzt einn hinn sterkasti þáttur, sem menning nútímans er ofin úr: þáttur forn-germanskrar menningar. Það er hinn vígði þáttur okkar sögu, sá þátturinn sem varðveitti þjóðina frá glötun, þegar loppa erlendra yfirráða, óáran og vesöld var næst því komin að klippa sundur lífsþráð hennar. Frumgermanskt frelsi og þjóðstjórn er nú aftur heimaofinn þáttur í íslenzku þjóðlífi.
Þessi orð Ásgeirs Ásgeirssonar, forseta sameinaðs Alþingis og síðar forseta Íslands, á alþingishátíð árið 1930 lýsa vel afstöðu Íslendinga til sambands þjóðernis og menningar - sögu og nútíma. Íslendingar eru þjóð vegna þess að þeir eiga sér sérstæða menningu, sérstakt tungumál og sérstaka siði, en það sem gefur þessum þáttum helst gildi er það að þeir eiga sér rætur í upphafi búsetu á Íslandi og teygjast óslitið aftur til uppruna þjóðarinnar. Þessi hugmynd myndaði kjarnann í málflutningi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni og til hennar er iðulega vísað enn þann dag í dag.

Um rætur hugmyndarinnar um hina upprunalegu þjóð er sjaldan getið í íslenskri stjórnmálaumræðu, enda þykir flestum hún sjálfsögð - óhagganleg staðreynd fremur en pólitísk skoðun. Hér langar mig að gera nokkra bragarbót á og rekja hana aftur til upphafsmannsins, það er til helsta kenningasmiðs evrópskrar þjóðernisstefnu, þýska heimspekingsins Johanns Gottfrieds Herders, og velta fyrir mér í því sambandi annars vegar fræðilegum forsendum hennar og hins vegar því hvort hún eigi sér framtíð í evrópskum stjórnmálum.

Upphaf menningarlegrar þjóðernisstefnu

Johann Gottfried Herder var fæddur árið 1744 í bænum Mohrungen í Austur-Prússlandi (nú Morag í Póllandi). Hann lærði guðfræði, heimspeki og bókmenntir við háskólann í Königsberg, þar sem hann kynntist meðal annars bæði Immanúel Kant og Johann Georg Hamann, en hinn síðarnefndi var einn áhrifamesti gagnrýnandi upplýsingarinnar í Evrópu upp úr miðri 18. öld. Á árunum 1764-69 starfaði Herder sem prestur í borginni Ríga í Lettlandi, sem þá tilheyrði Rússlandi, en að þeirri dvöl lokinni lagði hann í ferð til Frakklands, sem átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á lífsviðhorf hans og hugmyndir um stöðu mannsins í þjóðfélaginu.

Á þessum árum var Frakkland forystuland Evrópu, hvort sem var í stjórnmálum eða á menningarsviðinu. Upplýsingin var umfram allt frönsk að uppruna, en hún var eins, og kunnugt er, ríkjandi hugmyndastefna í álfunni á þessum árum, með gagnrýni sinni á hjátrú og hindurvitni, og áherslu á algild náttúrulögmál, hvort sem var í náttúrunni eða samskiptum manna. Í ferðinni snerist Herder öndverður gegn hugmyndum upplýsingarinnar og þá aðallega út frá tveimur forsendum; í fyrra lagi gramdist honum, sem Þjóðverja, yfirburðastaða franskrar menningar í Evrópu, sem kom meðal annars fram í því að þýsk yfirstétt kaus gjarnan að mæla á franska tungu frekar en þýska, enda þótti mun fínna að nota menningartunguna en hið barbaríska jaðarmál. Í seinna lagi hafnaði hann „úniversalisma“ upplýsingarinnar, eða hugmyndinni um að samfélög manna, hvar sem er í heiminum, lúti algildum lögmálum, ótengdum staðbundnum hefðum. Andstaða Herders við upplýsinguna átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á rómantíska hugsun 19. aldar, og þá ekki síst á vöxt þjóðernisstefnunnar í Evrópu - en reyndar var það hann sem fyrstur manna notaði hugtakið nationalismus í þessu sambandi.

Í grófum dráttum byggir þjóðernisstefna Herders á þeirri sannfæringu hans að þjóðerni myndist fyrir stöðugt samspil manns og náttúru. Rök hans fyrir þessu var sú sannfæring að tungumálið, sem honum fannst frumforsenda þjóðernisins, endurspegli náttúrulegt umhverfi mannlegra samfélaga, af því að þau breytast og þróast í stöðugri glímu mannskepnunnar við náttúrulegar aðstæður sínar. Hefðir og venjur eiga, á sama hátt, rætur í náttúrunni, sem veldur því að þær verða mjög ólíkar á milli svæða og menningarheima. Herder skrifar til dæmis í sínu þekktasta verki,Ideen zur Philosophie der Geschichte der Menschheit (Hugleiðingar um heimspeki mannkynssögunnar, 1784-1791):
Berið saman grænlenska goðafræði og indverska, lappneska og japanska, perúíska og goðafræði blökkumanna; fullkomna landafræði hins skapandi anda. Tæplega kæmi nokkur mynd í huga Bramína þegar Völuspá Íslendinga væri lesin fyrir hann og útskýrð; og Vedakvæðin yrðu Íslendingnum alveg jafn torskiljanleg.
Ofuráhersla Herders á tungumálið helgaðist ekki síst af þeirri vissu hans að það væri í senn lykill að sjálfsskilningi mannsins, vegna þess að við getum einungis fangað hugsanir okkar í orð, og grundvöllur allra samskipta manna á milli. En orðin hafa líka dýpri áhrif á manninn en þau sem í þessu felast, segir Herder, vegna þess að tilfinningalíf okkar er fólgið í móðurmálinu, það er að segja tungumálinu sem við lærum í barnæsku. Fyrstu orðin sem brjóstmylkingurinn lærir af foreldrum sínum móta huga hans og sál, segir Herder í ritgerð um uppruna tungumála (Abhandlung über den Ursprung der Sprache, 1772); það sem eftir er lífsins „lifa þessi fyrstu áhrif frá barnæskunni, þessar myndir úr hugum og hjörtum foreldranna; með orðunum flytjast áfram allar þær tilfinningar sem flæddu um huga hans í upphafi […]“. Manninum gagnast því ekki hvaða tungumál sem er, vegna þess að ekkert tungumál hefur sömu tilfinningalegu skírskotun og móðurmálið - ekkert annað tungumál veitir manninum aðgang að dýpstu fylgsnum sálarlífsins.

Kenningar Herders voru, eins og áður sagði, fyrst og fremst settar fram sem andóf gegn hugmyndum upplýsingarinnar um að til væru altæk lögmál um skipan mannlegs samfélags. Sérhver menningarhópur, sem hann nefndi Volk, eða þjóð, átti sér sérstakar hefðir, sem mótuðust af aldalangri sögu hans og fluttust á milli kynslóða með tungumálinu og þjóðlegri menningu alþýðunnar. Herder fannst af þeim sökum að eðlilegast væri, og í bestu samræmi við náttúrulega skipan þjóðfélagsins, að hver þjóð stjórnaði sér sjálf. Þar sem þjóðmenningin endurspeglaði umhverfið, og aðstæður hverrar þjóðar voru sérstakar, var ekki til nein ákveðin algild fyrirmynd um það hvernig haga átti samskiptum þegnanna, heldur hlaut stjórn hvers ríkis að taka mið af hefðbundnum einkennum þjóðarinnar. Ekki þarf því að koma á óvart að Herder var mjög í nöp við „óeðlilega“ stór ríki, þar sem „kynþáttum og þjóðum var blandað saman á villtan hátt undir einum veldissprota […]“, eins og hann orðaði það. Slíkur sambræðingur gat aldrei orðið annað og meira en „brothætt vél, sem nefna mætti ríkisvél, án innra lífs eða samkenndar hinna ýmsu hluta“. Þessum orðum var beint gegn flestum konungsríkjum Evrópu á 18. öld, en á þeim tíma voru öll sterkustu ríki álfunnar samsett úr ósamstæðum héruðum, oft fjöldamörgum, sem sjaldnast áttu annað sameiginlegt en einvaldan erfðakóng.

Kenningar Herders um þjóðmenningu og þjóðríki eru, með einum eða öðrum hætti, uppspretta menningarlegrar þjóðernisstefnu í hvaða mynd sem hún hefur birst síðustu tvær aldirnar. Honum hafa því stundum verið kennd flest þau óbermi sem þessi angi þjóðernisstefnunnar hefur alið af sér, allt frá kynþáttahyggju yfir í hugmyndina um Favoritvolk - hina útvöldu þjóð - sem hefur rétt á troða á öðrum þjóðum að vild í krafti meintra yfirburða sinna. Í raun á Herder betra skilið, af því að hann var alla tíð sannfærður afstæðishyggjumaður um gildi þjóðernis og algerlega mótfallinn því að telja eina þjóð annarri fremri. Hann gerði þannig mjög lítið úr hlutverki kynþátta við myndun þjóðernis - og fyrir vikið gagnrýndu menn á borð við Kant hann fyrir að fara niðrandi orðum um kynþáttahugtakið. Herder gekk reyndar svo langt í að afneita kynþáttahyggjunni að hann fullyrti að Evrópubúar væru ekkert merkilegri íbúum annarra heimsálfa, og hafnaði hann því með öllu bæði nýlendustefnu og þrælahaldi.

Herder dró í raun sjálfur ekki aðrar ályktanir af þjóðernishugmyndum sínum en þær að mannkynið deildist upp í ólík menningarsamfélög sem öll væru jafn rétthá og mikilvæg fyrir framtíð mannkynsins. Um leið benti Herder löndum sínum á að þeir þyrftu alls ekki að skammast sín fyrir sína eigin menningu; þýskt andans líf væri allt eins merkilegt og franskt, jafnvel þótt almennt væri viðurkennt að Frakkar hefðu forystu á meginlandi Evrópu á síðari hluta 18. aldar. Í kvæði sem hann nefndi „An die Deutschen“ sárbændi Herder landa sína um að láta af erlendri eftiröpun:
Og þú Þjóðverji, vilt þú einn heilsa þinni eigin móður

á frönsku, þegar þú snýrð aftur af erlendri grund?

Ó, spýttu út úr þér við húsdyrnar, spýttu út úr þér

andstyggilegri leðjunni úr Signu.

Talaðu þýsku, ó þú Þjóðverji! Ekki eltast við tískuna

í látbragði og siðum. Orð þín

líkjast afreksverkum, líkjast óhagganlegum

björgum sannleikans.
Frá sérstæðum þjóðum til yfirburðaþjóða

Þrátt fyrir víðsýni frumherjans reyndist, þegar til kom, skammur vegur frá áherslu Herders á sérstætt eðli þjóðarinnar og fjölbreytni mannkyns til kenninga arftaka hans í þýsku menningarlífi um sérstaka yfirburði þýskrar þjóðar. Í fyrirlestraröð sem heimspekingurinn Johann Gottlieb Fichte flutti í Berlín veturinn 1807-1808, í skugga háðulegs ósigurs Prússa fyrir herjum Napóleons Bónaparte Frakkakeisara, setti hann fram þá róttæku kenningu að Þjóðverjar væru ekki aðeins jafn merkilegir Frökkum heldur stæðu þeir í raun Frökkum langtum framar á andlega sviðinu. Rök Fichtes fyrir þessari hugmynd voru þau að Þjóðverjar hefðu einir germanskra ættbálka staðist freistingu Rómaríkis á þjóðflutningatímanum og viðhaldið upprunalegu tungumáli sínu eftir að heimsborgin var sigruð af germönskum þjóðflokkum seint á 5. öld. Allir bræðraflokkar germana, fullyrti Fichte í fyrirlestrum sínum, tóku aftur á móti upp tungumál hins fallna heimsveldis, enda þótti það mun fágaðra og siðmenntaðra en upprunalegar tungur sigurvegaranna. Á þennan hátt urðu öll nýlatnesku málin til, segir Fichte, en þar er helst að telja tungumál eins og frönsku, spænsku og ítölsku.

Í augum Fichtes markaði tungumálaþróunin við upphaf miðalda í raun afdrifa­ríkustu þáttaskil Evrópusögunnar. Hann áleit, eins og Herder, að tungumálið væri bæði tenging einstaklingsins við sitt eigið innra eðli og táknmál þjóðmenningarinnar. En tungumál voru meira en það, skrifar Fichte, af því að:
þegar tungumálinu er ekki miðlað á gerræðislegan hátt, heldur brýst fram sem hreint náttúruafl út úr lifandi skynsemi, hefur það einnig mátt til þess að hafa áhrif á og örva lífið, svo fremi að það hafi þróast óslitið eftir þessu lögmáli.
Það sem heimspekingurinn átti við var að einungis þær þjóðir sem töluðu upprunaleg tungumál gætu talist lifandi, vegna þess að þær einar stóðu í beinu sambandi við menningu sína og hugsun sem þróast hafði óslitið allt frá árdögum sögunnar. Þarna höfðu Þjóðverjar sérstöðu meðal Evrópuþjóða, enda töluðu þeir einir, að mati Fichtes, „tungumál sem hafði lifað allt frá þeirri stundu að það varð til í náttúrunni, á meðan tungumál annarra germanskra þjóðflokka hreyfast aðeins á yfirborðinu, rætur þeirra eru dauðar“. Einungis Þjóðverjar voru því færir um lifandi hugsun og hvað sem stöðu þeirra í samtímanum leið var framtíðin þeirra - enda er „það hvorki afl handanna né máttur vopnanna sem vinnur sigra, heldur vilji sálarinnar“, eins og Fichte orðaði það í hvatningu sinni til þýsku þjóðarinnar.

Þar með voru Þjóðverjar orðnir ekki aðeins jafnir Frökkum og öðrum þjóðum, eins og Herder hafði sagt, heldur öðrum fremri, Favoritvolk. Þetta gekk þvert gegn frumgerð hinnar menningarlegu þjóðernisstefnu. Fichte gekk svo langt að fullyrða að þegar allt kæmi til alls væru Þjóðverjar hin eina raunverulega þjóð Evrópu, og reyndar mun betur fallnir til að skilja franska þjóðarsál en Frakkar sjálfir. Þessi kenning átti eftir að taka á sig mun myrkari myndir eftir að hún blandaðist kynþáttahyggju og gyðingahatri, og þá ekki síst eftir að Þýskaland reis úr öskustó Evrópu á síðustu áratugum 19. aldar og tók sér stöðu sem óskoruð forystuþjóð álfunnar.

Í þessu sambandi má minna á að prússneski sagnfræðingurinn Heinrich von Treitschke sótti rök sín fyrir innlimun héraðanna Alsace-Lorraine í sameinað Þýskaland beint í smiðju þeirra Herders og Fichtes. „Hver vogar sér,“ spurði Treitschke haustið 1870, „þegar við stöndum frammi fyrir þeirri skyldu okkar að tryggja heimsfriðinn, að bera því við að íbúar Elsass og Lothringen vilji ekki sameinast Þýskalandi?“ Þessi héruð skyldu verða þýsk, með mætti sverðsins ef ekki vildi betur, af því að íbúarnir töluðu flestir þýsku og því hlutu þeir að teljast þýskir hvað svo sem þeim sjálfum fyndist. „Frönsk stjórn yfir þýskum kynþætti er alltaf óeðlilegt ástand“, fullyrti Treitschke, „en nú hlýtur kúgun hálfmenntaðra barbara á frjálsum mönnum að teljast glæpur gegn sögulegri skynsemi.“

Ríkisþjóðir og menningarþjóðir

Tengsl menningarbundinnar þjóðernisstefnu við fasisma og nasisma hefur varpað nokkrum skugga á arfleifð Herders og Fichtes á síðustu áratugum, og reyndar á þjóðernisstefnu yfirleitt. „Þjóðernisstefna er stærsta pólitíska hneisa 20. aldar; hún er versti, vanhelgasti, en um leið óvæntasti smánarblettur evrópskrar stjórnmálasögu síðan árið 1900“, fullyrðir til dæmis enski stjórnmálafræðingurinn John Dunn í nýlega endurútgefnu yfirlitsriti um vestrænar stjórnmálakenningar, og hefur hann þar efalaust í huga bitra reynslu síðari heimsstyrjaldar.

Ég ætla þó ekki að fylgja þessari gagnrýni eftir frekar, enda er ávallt hæpið að kenna frumkvöðlum um syndir sporgöngu­manna. Mig langar aftur á móti að gera að umtalsefni þann misskilning Herders - og reyndar þeirra sem honum hafa fylgt að málum - að þjóðir og þjóðríki eigi sér menn­ingarlegar for­sendur. Þjóðríki nútímans eru nefnilega alls ekki sjálf­sprottin menningar­samfélög, eins og Herder trúði, með djúpar rætur í fortíð og sögu, heldur hafa þau ávallt verið fjölbreytt samfélög manna sem lúta einum lögum og einni stjórn.

Í fyrsta lagi er rétt að muna að þrátt fyrir að þjóðir skírskoti í langflestum tilvikum til sérstakrar þjóðmenningar, sem sameinar þegna þeirra innbyrðis og greinir þá frá þegnum annarra þjóða, þá er nútímaþjóðin fyrst og fremst pólitískt fyrirbæri og tengist sem slík náið uppruna og þróun nútíma ríkisvalds. Ein meginkenning Herders var sú að þessir tveir þræðir þjóðernisins - pólitískur og menningarlegur - væru í raun einn og hinn sami; ekki væru til neinar almennar reglur um það hvernig stjórna bæri þjóðfélögum, heldur bæri hverju menningarsamfélagi (Volk) að finna sér sínar eigin leiðir til haga málum sínum og það myndi gerast sjálfkrafa ef þjóðin öðlaðist frelsi til að stjórna sér sjálf. Að baki þessari skoðun Herders lá almenn og djúpstæð andúð á ríkisvaldi sem honum fannst hlekkja manninn eins og dýr. Í Ideen zur Philosophie skrifaði hann:
Milljónir manna á jörðinni lifa án ríkis, faðir og móðir, eiginmaður og eiginkona, barn og bróðir, vinur og maður - þetta eru náttúruleg sambönd sem veita okkur hamingju; það sem ríkið býður okkur er gerviúrræði, og því miður getur það einnig rænt okkur nokkru sem er mun mikilvægara, okkur sjálfum.
Herder vildi því leita „lífræns“ skipulags þjóðfélagsins, þar sem þjóðin starfaði í anda hefða sinna og siða og fjölskyldan myndaði þann grunn sem öll önnur samskipti tóku mið af. Og það var einmitt þjóðríkið eitt sem tryggði slíka skipan mála að hans mati; náttúran „hefur aðskilið þjóðir, ekki aðeins með skógum og fjöllum, höfum og eyðimörkum, ám og veðurfari, heldur einnig, og mun frekar, með tungu­málum, löngunum og skapgerð; og aðeins þannig hefur hún gert kúgandi harð­stjórum erfitt fyrir og komið í veg fyrir að allir hlutar heimsins hafi lent í maga tré­hests.“

Nútímaþjóðríki eiga auðvitað fátt sameiginlegt með rómantískri draumsýn þýska heimspekingsins. Lýðræðisríki samtímans eru ekki reist á grunni einhvers konar lífræns eðlis þjóðanna, sem hefur orðið til og þróast í árþúsunda baráttu mannsins við umhverfið, heldur einmitt á þeim altæku reglum sem Herder var svo mjög í nöp við. Virðingin fyrir rétti einstaklingsins til einkalífs og rétti þegnanna til að hafa áhrif á lagasetningu og stjórn ríkisins eru frumlögmál nútímaríkisins, og gildir þar einu hvort ríkið er franskt, íslenskt eða danskt. Bitur reynsla síðustu aldar sannaði fyrir mönnum að þrátt fyrir allt eru þessar reglur farsælasti grunnur sem við þekkjum fyrir ríkisvaldi og því ber okkur siðferðileg skylda til að verja þær gegn öllum draumórum um hið endanlega samræmi á jörð.

Í öðru lagi, er augljóst að einungis örfá þjóðríki Evrópu geta látið sem svo að landamæri þeirra afmarki „upprunaleg“ menningarsvæði. Flest þjóðríki láta vitanlega eins og að þegnar þeirra séu tengdir römmum menningar- og sögulegum taugum, og leggja því mikla áherslu á að rækta innri einingu þjóðanna með eflingu þjóðernistákna, hvort sem þar er um að ræða tungumál, sameiginlegar minningar eða gleymsku, eða eitthvað annað sem gefur þjóðinni sögulega dýpt. Þannig ná öll stærri þjóðríki Evrópu, og reyndar mörg hinna smærri einnig, yfir landsvæði og hópa sem hafa allar forsendur til að teljast þjóðir út af fyrir sig eða þegnar í allt öðrum þjóðríkjum en þeir tilheyra nú. Nægir þar að nefna Bretóna, Korsíkubúa og Baska í Frakklandi, Katalóna, Baska og Galisíubúa á Spáni, Sikileyinga á Ítalíu, Ungverja í Rúmeníu, Rússa í baltnesku löndunum, Vallóna og Flæmingja í Belgíu, Sama í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, og þannig mætti áfram telja. Því er til fjöldi dæma um þjóðernishópa sem telja sig hafa fulla ástæðu til að draga í efa að pólitísk og þjóðernisleg landamæri Evrópu séu rétt dregin.

Af þessum sökum sýnist mér sem svo að menningareinkenni hafi alls ekki verið helsta forsenda myndunar þjóðríkja á árum áður, heldur hafi þau þvert á móti verið ein stærsta ógnin við tilveru þjóðríkjanna, að minnsta kosti eins og þau hafa tíðkast í Evrópu síðustu tvær aldir. Samræming eða útrýming slíkra einkenna á altari þjóðareiningar, í því skyni að skapa einingu þar sem engin var fyrir, hefur því verið mjög útbreiddur siður í álfunni.

Þjóðum hefur stundum verið skipt upp í tvær meginfylkingar. Annars vegar það sem kallast Staatsnationen á þýskri tungu, eða ríkisþjóðir, en það eru þjóðir þar sem ríki hefur, oft á löngum tíma, skapað þjóðarheild úr flokki ólíkra þjóðernishópa. Dæmi um slíkt er Frakkland en þar varð ríkið til á undan þjóðinni og þjóðin varð til úr samruna fjölda ósamstæðra þjóðarbrota. Hins vegar er það sem kallað hefur verið Kulturnationen, eða menningarþjóðir, en það eru þjóðir sem kröfðust ríkis á grundvelli menningarlegrar sérstöðu sinnar. Þar hefur Þýskaland oftast verið efst á blaði, en við gætum auðvitað bætt Íslandi við þann lista.

Í fljótu bragði virðist þessi tvískipting draga kenningu Herders að landi - þótt augljóslega eigi ekki allar þjóðir sér sameiginlegan uppruna eða tungumál, þá gildir það þó alltént um sumar þjóðir. Gallinn við þetta er þó sá að jafnvel hin dæmigerða menningarþjóð Þjóðverjar er alls ekki sjálfsprottin heldur búin til af ríkinu á sama hátt og flestar nágrannaþjóðirnar. Aðgreining Austurríkismanna, sem líta nú á sig sem sérstaka þjóð, og Þjóðverja, er til dæmis tilkomin vegna pólitískra ákvarðana á 19. og 20. öld - reyndar í bland við aldalanga samkeppni á milli þýsku forysturíkjanna Austurríkis og Prússlands. Eins er tungumálið „þýska“ fjarri því eins upprunalegt og Herder og Fichte vildu vera láta - lágþýska, sem töluð var í norðurhluta núverandi Þýskalands var til dæmis mun skyldari hollensku en háþýsku og því eiga landamæri Þýskalands og Niðurlanda sér pólitískar rætur en ekki menningarlegar.

Að síðustu er rétt að geta þess að Herder hefði átt að vera fullljóst að hugmyndin um þjóðmenningu var í besta falli óraunsæ, og í versta falli stórhættuleg. Sagnfræðingurinn Daniel Chirot hefur bent á að í borginni Riga, þar sem Herder hóf starfsferil sinn eins og áður sagði, bjó að mestu í sátt og samlyndi, fjöldi menningarhópa sem talaði ólík tungumál, játaði ólíka trú og átti sér ólíkar hefðir og uppruna. Hugmyndin um hina einsleitu þjóð, sem er stjórnað í samræmi við upprunalegar hefðir, gróf einmitt undan möguleikanum á að þessir hópar gætu starfað saman og umgengist hvern annan af virðingu og skilningi.

Menningarleg eining eða fjölmenning

Hugmyndin um hreinleika þjóða og tengsl við fortíðina hefur sætt mikilli gagnrýni á undanförnum áratugum, þótt hennar hafi lítt orðið vart á Íslandi fyrr en á allra síðustu árum. Þannig hefur verið bent á að ímyndin um „sameiginlegar minningar“ þjóða eigi sér sjaldnast nokkra stoð í raunveruleikanum, heldur hafi þetta hugtak verið notað til að fela það að í raun var ríkjandi söguskoðun þröngvað upp á þegnana. Þjóðarsagan hefur verið skrifuð og lesin eins og þroskasaga einstaklings í því skyni að réttlæta ríkjandi valdakerfi eða lífssýn hverju sinni, fremur en sem viðurkenning á því að á öllum tímum hafa tekist á mismunandi hagsmunir og sjónarmið um framtíðarskipulag þjóðfélagsins. Þær persónur í fortíðinni sem talið er að hafi stuðlað að frelsi þjóðarinnar, eins og það er túlkað hverju sinni, eða drýgt hetjudáðir í hennar nafni, eru dregnar fram sem fyrirmyndir í nútímanum og tákn fyrir sameinaða þjóð. En slíkar minningar eru aldrei einfaldar eða „saklausar“, heldur liggur að baki þeirra merking og meining. Með vaxandi vitund fyrir misrétti kynjanna, svo dæmi sé tekið, hafa fræðimenn bent á að ímyndir um þjóðareinkenni hafa verið notaðar til að leggja áherslu á og réttlæta „eðlislægt“ kynjamisrétti í samfélaginu. Þannig er hinum dæmigerða fulltrúa þjóðarinnar gjarnan lýst sem fullorðnum, menntuðum og „skynsömum“ karlmanni, en „kvenleg“ einkenni eru túlkuð sem andstæða hins þjóðlega.

Vaxandi fjölbreytni í evrópskum þjóðfélögum, í kjölfar innflutnings fólks frá fjarlægum heimshornum, hefur einnig grafið undan hugmyndum um menningarlega einingu þjóða. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá hafa gömlu þjóðernistáknin litla merkingu fyrir fólk sem á sér sínar eigin minningu og einkenni - til dæmis eru þjóðsögur af 15. aldar dýrlingnum Jóhönnu af Örk ekki vel fallnar til þess að fá múslímska innflytjendur frá Norður-Afríku til að finnast þeir vera franskir. Þjóðartákn og minningar um liðna atburði í sögu þjóðanna, sem áður þjöppuðu þegnunum saman, verða af þessum sökum til þess að útiloka stóra hópa fólks frá þjóðarfjölskyldunni og leiða því til sundrungar fremur en sameiningar. Þrenning Snorra Hjartarsonar, land, þjóð og tunga, sem fram að þessu hefur sannfært Íslendinga um að þeir væru allir eins, eða ein fjölskylda og nátengdir landinu, er allt í einu orðin að ókleifum múr fyrir Íslendinga af erlendum uppruna sem vilja aðgang að þjóðarheimilinu.

Slíkar staðreyndir, segir enski menningarfræðingurinn Stuart Hall, hafa dregið það fram að meginhlutverk þjóðmenningar hefur ávallt verið að skapa þá ímynd „að það sem er í raun eþnískur hrærigrautur nútíma þjóðernis sé upprunaleg eining ‘einnar þjóðar’ [one people]“. Um leið eru uppdiktaðar hefðir notaðar til að sannfæra fólk um að saga þjóðarinnar sé óslitinn þráður sem nær langt aftur til goðsögulegs tíma, þrátt fyrir að raunveruleg mótunarsaga allra þjóðríkja einkennist af snöggum breytingum og landvinningum fremur en hægfara og samfelldum vexti. Af þessu dregur Hall þá ályktun að kenningar upplýsingarinnar og frönsku byltingarinnar um borgararétt verði í framtíðinni bæði að taka tillit til jafnréttis allra þegna (án tillits til kyns, stéttar eða eþnísks uppruna) og sýna menningarlegri fjölbreytni virðingu - ef þetta tekst ekki er lýðræðið ekki á vetur setjandi.

Ég vil enda þetta erindi á að taka undir þessi orð Halls, um leið og ég tek fram að með því er ég ekki að boða endalok íslenskrar menningar, eða lasta þá viðleitni manna að vilja varðveita íslenska tungu eða hefja íslenskar fornbókmenntir til vegs og virðingar. Menningarleg fjölbreytni er eitt af því sem gefur heiminum gildi og það er einmitt hlutverk okkar, og ekki síður komandi kynslóða, að viðhalda lifandi menningarsköpun og umræðu á íslenskri tungu. Sú hugmynd að menningarhópar séu einangruð fyrirbæri, sem hljóta að stjórna sér sjálfir án utanaðkomandi áhrifa, er aftur á móti úr sögunni - og hefur reyndar aldrei verið raunsætt markmið í stjórnmálum. Því boða ég endalok hins hagkvæma hjónaband lýðveldis og eþnískrar þjóðar - það virkaði oft vel, stundum miður, en á næstu áratugum verðum við að gera upp á milli þeirra.

Fyrirlestur í hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands „Hvað er (ó)þjóð“ 23. október 2001....