Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Af hverju eru fílar með rana?

MBS

Til að svara þessari spurningu er rétt að við byrjum á því að velta fyrir okkur í hvað raninn er notaður. Til hvers nota fílar ranann? Þeir sem þekkja til atferli og lífshátta fílsins vita að hlutverk ranans er í rauninni margþætt. Fyrst og fremst er hann þó notaður til fæðuöflunar. Fílar eru jurtaætur og lifa einkum á grasi, laufum og trjáberki. Þeir nota ranann til að safna sér fæðu og brjóta niður greinar og tré með honum. Fílar eru stórir og miklir og þurfa að innbyrða mjög mikið magn af fæðu á hverjum degi. Það getur því komið sér vel að fullorðinn fíll getur lyft allt að 250 kg með rananum.

Fílar nota ranann einnig til þess að sjúga upp vatn. Fílar eru mjög stórir og þungir og eiga því erfitt með að beygja sig niður að vatnsbólum. Langur raninn gerir þeim hins vegar kleyft að sjúga vatn upp tiltölulega auðveldlega án þess að þurfa að beygja sig mikið.

Raninn er jafnframt mjög mikilvægt samskiptatæki fyrir fíla. Þeir nota hann til að þreifa á hvor öðrum, rannsaka umhverfið og styrkja tengsl milli móður og afkvæmis. Fílsraninn er nefninlega mjög næmur og er mikilvægasta skynfæri fíla. Nánar má lesa um notagildi fílsranans í svari Jóns Más Halldórssonar við spurningunni: Til hvers nota fílar ranann?

Þegar við hugsum um þróun fíla er mikilvægt að við höfum allt þetta í huga. Þróun felur í sér að breytingar verða á stofni lífvera vegna aðlögunar yfir mjög langan tíma. Ef við hugsum um lífshætti fílsins sjáum við að eitt helsta einkenni fílsins er hversu stór og mikill hann er og þarf að borða og drekka mikið. Það er því auðvelt að hugsa sér að hjá forverum fílsins hafi það reynst kostur að hafa frekar langt trýni sem jafnvel var hægt að beita til ýmissa verka. Þau dýr sem höfðu lengra trýni voru því sennilega líklegri til að lifa af og eignast afkvæmi. Afkvæmi þeirra erfðu svo þetta einkenni og voru jafnvel með ennþá ýktari svipgerð. Þannig hefur sú þróun sennilega haldist í hendur að fílarnir stækkuðu og raninn lengdist.

Nú gegnir raninn einnig mikilvægu hlutverki sem skynfæri hjá fílum. Ef við horfum aftur til líkamsbyggingar fíla er auðvelt að sjá af hverju svo langur og næmur rani er mikill kostur. Fílar eru stórir og gnæfa því hátt yfir jörðina. Það er því ótvíræður kostur að hafa skynfæri sem nær nánast alveg niður á jörðu og hægt er að beita til að skoða umhverfið.

Fílar eru einnig hópdýr og gegnir raninn mikilvægu hlutverki í samskiptum þeirra á milli. Raninn er í rauninni það eina í líkamsbyggingu fíla sem gerir þeim kleyft að hafa samskipti og treysta böndin milli einstaklinga. Þessi atriði hafa sennilega verið mjög mikilvæg í þróun fíla en næmur og langur rani hefur verið mikill kostur hjá þessum dýrum. Með tímanum hefur raninn því orðið sífellt lengri og næmari, en þess má geta að í honum eru 40 þúsund vöðvar. Á mjög löngum tíma hefur rani fíla þróast í þennan fjölhæfa útlim og er ljóst að án hans væri bæði útlit og lífshættir fíla mjög frábrugðnir því sem þeir eru í dag.

Mikið er til af svörum um fíla á Vísindavefnum, til dæmis þessi:

Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.

Höfundur

Margrét Björk Sigurðardóttir

líffræðingur

Útgáfudagur

29.2.2008

Spyrjandi

Una Guðmundsdóttir

Tilvísun

MBS. „Af hverju eru fílar með rana?“ Vísindavefurinn, 29. febrúar 2008. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=7118.

MBS. (2008, 29. febrúar). Af hverju eru fílar með rana? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=7118

MBS. „Af hverju eru fílar með rana?“ Vísindavefurinn. 29. feb. 2008. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=7118>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju eru fílar með rana?
Til að svara þessari spurningu er rétt að við byrjum á því að velta fyrir okkur í hvað raninn er notaður. Til hvers nota fílar ranann? Þeir sem þekkja til atferli og lífshátta fílsins vita að hlutverk ranans er í rauninni margþætt. Fyrst og fremst er hann þó notaður til fæðuöflunar. Fílar eru jurtaætur og lifa einkum á grasi, laufum og trjáberki. Þeir nota ranann til að safna sér fæðu og brjóta niður greinar og tré með honum. Fílar eru stórir og miklir og þurfa að innbyrða mjög mikið magn af fæðu á hverjum degi. Það getur því komið sér vel að fullorðinn fíll getur lyft allt að 250 kg með rananum.

Fílar nota ranann einnig til þess að sjúga upp vatn. Fílar eru mjög stórir og þungir og eiga því erfitt með að beygja sig niður að vatnsbólum. Langur raninn gerir þeim hins vegar kleyft að sjúga vatn upp tiltölulega auðveldlega án þess að þurfa að beygja sig mikið.

Raninn er jafnframt mjög mikilvægt samskiptatæki fyrir fíla. Þeir nota hann til að þreifa á hvor öðrum, rannsaka umhverfið og styrkja tengsl milli móður og afkvæmis. Fílsraninn er nefninlega mjög næmur og er mikilvægasta skynfæri fíla. Nánar má lesa um notagildi fílsranans í svari Jóns Más Halldórssonar við spurningunni: Til hvers nota fílar ranann?

Þegar við hugsum um þróun fíla er mikilvægt að við höfum allt þetta í huga. Þróun felur í sér að breytingar verða á stofni lífvera vegna aðlögunar yfir mjög langan tíma. Ef við hugsum um lífshætti fílsins sjáum við að eitt helsta einkenni fílsins er hversu stór og mikill hann er og þarf að borða og drekka mikið. Það er því auðvelt að hugsa sér að hjá forverum fílsins hafi það reynst kostur að hafa frekar langt trýni sem jafnvel var hægt að beita til ýmissa verka. Þau dýr sem höfðu lengra trýni voru því sennilega líklegri til að lifa af og eignast afkvæmi. Afkvæmi þeirra erfðu svo þetta einkenni og voru jafnvel með ennþá ýktari svipgerð. Þannig hefur sú þróun sennilega haldist í hendur að fílarnir stækkuðu og raninn lengdist.

Nú gegnir raninn einnig mikilvægu hlutverki sem skynfæri hjá fílum. Ef við horfum aftur til líkamsbyggingar fíla er auðvelt að sjá af hverju svo langur og næmur rani er mikill kostur. Fílar eru stórir og gnæfa því hátt yfir jörðina. Það er því ótvíræður kostur að hafa skynfæri sem nær nánast alveg niður á jörðu og hægt er að beita til að skoða umhverfið.

Fílar eru einnig hópdýr og gegnir raninn mikilvægu hlutverki í samskiptum þeirra á milli. Raninn er í rauninni það eina í líkamsbyggingu fíla sem gerir þeim kleyft að hafa samskipti og treysta böndin milli einstaklinga. Þessi atriði hafa sennilega verið mjög mikilvæg í þróun fíla en næmur og langur rani hefur verið mikill kostur hjá þessum dýrum. Með tímanum hefur raninn því orðið sífellt lengri og næmari, en þess má geta að í honum eru 40 þúsund vöðvar. Á mjög löngum tíma hefur rani fíla þróast í þennan fjölhæfa útlim og er ljóst að án hans væri bæði útlit og lífshættir fíla mjög frábrugðnir því sem þeir eru í dag.

Mikið er til af svörum um fíla á Vísindavefnum, til dæmis þessi:

Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur....