Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hugmyndin um konu sem þjóðartákn var víða á kreiki í Evrópu á 18. og 19. öld. Hún tengdist rómantísku stefnunni og hugmyndinni um móður jörð. Nefna má Germaníu hina þýsku, Marianne þá frönsku og Britanníu hina ensku.
Elsta hugmynd um konu sem tákn Íslands virðist koma fram hjá Eggert Ólafssyni á myndskreytingu við kvæðisbrot og hét Ofsjónir við jarðarför Lovísu drottningar 1752. Myndin finnst því miður ekki lengur enda segir Eggert að fjárhagur námsmanna í Kaupmannahöfn hafi ekki leyft prentun hennar sem hefði kostað 500 ríkisdali. Kostuleg lýsing á henni í níu köflum var á hinn bóginn prentuð bæði á dönsku og latínu en síðan útlögð á íslensku með skýringum. Þar segir í 4. kafla:
Lengst uppí dalnum, þar sem áin kemur fram, situr kona nokkur á steini. Yfir höfði hennar er skrifað Island. Hún hefir yfir sér svarta kvenskykkju þrönga, undir stuttan niðurhlut og silfurbelti um sig, þunna skó á fótum, lítinn stinnan kraga um hálsinn, hulið höfuð með svörtu silki og kvenhatt með silfurskildi. Þessi kona hefir með öllu sorgliga ásýnd, styður vinstri hönd undir kinn og horfir upp til himins. Til hægri handar standa nokkrar kýr og blína á hana, sem þeim þætti hún að látum og limaburði óvenjulig. Hjá þeim sést þessi yfirskrift:
Bragð er að, fyrst baulur þekkja líka
að Ísland bregður sínum sið
svoddan nautin kannast við.
Eiginmaður Lovísu, Friðrik konungur 5., andaðist 1766. Eggert orti þá Friðriksdrápu og nú leyfði efnahagurinn að mynd væri prentuð sem enn er til. Á henni eru ýmsar táknmyndir. Sennilega hefur Eggert teiknað báðar þessar myndir sjálfur því hann var drátthagur eins og margar myndir í Ferðabók hans eru til vitnis um.
Seinni myndin hefur einnig verið gefin út á lausu blaði og Eggert ort enn einn texta við hana. Sá samsetningur heitir Málverk íslenskunnar 1766 og þess skýring í móðurmáli. Eggert var sér þess meðvitandi að sum kvæði hans mundu nokkuð torskilin fyrir almúga og lét því stundum eigin skýringar fylgja þeim. Hér eru myndskýringar í fimm braghendum með tilvísunarmerkjum í táknmyndirnar og er hin fyrsta þannig:
Ísland málað er í konu líki:
við er (a) Fátækt vinstri hlið
við er hina (b) Þakklætið.
Ekki hefur samt fundist dæmi þess að Eggert nefni þessa táknmynd sína nokkru sinni fjallkonuna. Elsta þekkta dæmið um hana er í upphafi hins alkunna kvæðis Bjarna Thorarensens frá fyrsta áratug 19. aldar:
Aðrir komu í kjölfarið á næstu áratugum: Sigurður Breiðfjörð, Jónas Hallgrímsson og Jón Thoroddsen. Fyrstur til að klæða hana í faldbúning mun vera Gunnlaugur Oddsson síðar dómkirkjuprestur. Við biskupsvígslu Steingríms Jónssonar í Kaupmannahöfn á jólum 1824 mælti hann í skálarkvæði fyrir minni Valgerðar Jónsdóttur biskupsfrúar:
Fannhvítum hreykti faldi hátt
Fjallkonan sköruglig.
Álíka mynd má sjá í upphafi Magnúsarkviðu [Stephensen] eftir Jónas Hallgrímsson:
Úti sat und hvítum
alda faldi
fjallkonan snjalla
fögur ofan lög.
Árið 1866 kom út í Lundúnum seinna bindið af enskum þýðingum Eiríks Magnússonar og G. E. J. Powells á íslenskum þjóðsögum. Framan við var hin alkunna fjallkonumynd sem Benedikt Gröndal tók síðar í heimildarleysi upp í þjóðhátíðarspjald sitt árið 1874.
Upphaflega fjallkonumyndin var gerð af þýskum málara að nafni J. B. Zwecker eftir fyrirsögn Eiríks Magnússonar sem var bókavörður í Cambridge. Eiríkur lýsir táknum hennar svo í bréfi til Jóns Sigurðssonar 11. apríl 1866:
Konumyndin á að tákna Ísland, því hefur hún ískórónu á höfði, sem eldar gjósa upp úr. Á öxl hennar er hrafninn, Íslands einkennilegasti fugl, Óðins forni vin og skáldanna eftirlætisgoð, fréttafugl mikill og margkunnugur. Yfir sjónum flögrar már, en yfir brimsævi tíma og sögu berast rúnakefli að landi eða upp í fang konunni, og hefur hún þegar náð einu þeirra. Þetta átti svo sem að vera symbolum (tákn) bókmenntalandsins og sögulandsins okkar. Yfir er nótt og stirndur himinn og máninn uppi. Á bak við eru fjöll, tunglroðin á eggjunum.
Mörgum hefur þótt sem fjallkona Zweckers bæri nokkurn svip af Viktoríu Englandsdrottningu sem um þetta leyti mátti vissulega kallast Drottningin með stórum staf í Evrópu.
Vestur-Íslendingar í Winnipeg brugðu stundum á það ráð eftir aldamótin 1900 að láta skrýdda fjallkonu mæla nokkur orð á þorrablótum. Árið 1924 tóku þeir upp þann sið að láta fjallkonuna koma fram á hinum árlega Íslendingadegi sínum og hefur sú venja haldist. Jónas Jónsson frá Hriflu heimsótti byggðir Vestur-Íslendinga haustið 1938 og kynnti sér meðal annars þjóðlegar venjur þeirra. Sumarið 1939 efndi Þjóðræknisfélagið, að frumkvæði Jónasar, til svokallaðs Vestur-Íslendingadags á Þingvöllum. Þar kom Vigdís Steingrímsdóttir, kona Hermanns Jónassonar, fram í gervi fjallkonunnar en með henni voru Miss Ameríka (Kristjana Pétursdóttir) og Miss Kanada (Gerður dóttir Jónasar frá Hriflu).
Á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 17. júní 1944 var búið að ráðgera að fjallkonan, ung stúlka í skautbúningi, skyldi hylla fána Íslands. Sú útvalda var Kristjana Geirsdóttir Thorsteinsson, dótturdóttir Hannesar Hafstein fyrsta ráðherra Íslands. Hið alræmda slagviðri þennan dag kom þó í veg fyrir að af þessu gæti orðið.
Árið 1947 var ávarp fjallkonunnar flutt í fyrsta sinn við hátíðahöldin 17. júní í Reykjavík. Í hlutverkið valdist Alda Möller leikkona. Sú hefð hefur haldist og oftast komið í hlut ungrar leikkonu að flytja ávarpið. Í Winnipeg hefur jafnan verið valin roskin kona sem lagt hefur eitthvað af mörkum fyrir hið vestur-íslenska samfélag. Þetta má kallast eðlileg verkaskipting þar sem í Ameríku var fjallkonan tákn gamla landsins en í Reykjavík tákn hins unga lýðveldis.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Árni Björnsson. „Hver er uppruni fjallkonunnar og hvaða hlutverki gegnir hún?“ Vísindavefurinn, 22. júní 2007, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6696.
Árni Björnsson. (2007, 22. júní). Hver er uppruni fjallkonunnar og hvaða hlutverki gegnir hún? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6696
Árni Björnsson. „Hver er uppruni fjallkonunnar og hvaða hlutverki gegnir hún?“ Vísindavefurinn. 22. jún. 2007. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6696>.