Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Tölurnar þrjár, sjö, níu og þrettán, eru sérstaklega magnaðar tölur í þjóðtrúnni og því ekki tilviljun að þær eru til að mynda þuldar upp þegar bankað er í við. Lesa má meira um þennan sið í svari sama höfundar við spurningunni Hvaðan kemur hjátrúin að banka í við?
Í rauninni er þrír talin einhver mesta happatala sem sögur fara af, og ætti hún því vel heima í talnaþulunni. En tölurnar eru þrjár og þrisvar sinnum þrír eru níu svo að sú tala er enn magnaðri en talan þrír ein og sér. Of langt mál er að rekja hér hvers vegna talan þrír þykir svona sérstök, en þó má minnast á að guðdómurinn í kristinni trú er þríeinn: Faðirinn, sonurinn og heilagur andi. Þríeiningar í einhverri mynd þekkjast í flestum trúarbrögðum. Forvitnum lesendum má benda á svar Rakelar Pálsdóttur við spurningunni Af hverju gerist alltaf eitthvað þrennt í ævintýrum?
Talan þrír kemur oft fyrir sem tákn í trú, til að mynda er kristinn guð þríeinn: Faðirinn, sonurinn og heilagur andi.
Talan sjö hefur einnig lengi verið talin sérstök heillatala. Hún er samansett úr tölunum þremur – tölu heilagrar þrenningar, tákni himinsins – og fjórum – tölunni sem myndar ferninginn, tákni jarðarinnar. Saman mynda þær tölu alheimsins, himins og jarðar, töluna sjö. Samkvæmt gömlum hugmyndum býr sjö yfir óvenjulegum töframætti og í tölunni er sjálf lífshrynjandin fólgin.
Langt er síðan menn veittu því eftirtekt að gangur tunglsins endurspeglar lífsmynstrið: Nýtt tungl, vaxandi tungl, fullt tungl og þverrandi tungl. Maðurinn fæðist, vex úr grasi, verður fullorðinn, stendur í blóma en síðan fer lífskraftur hans þverrandi þar til dauðinn knýr dyra. Þó að einn hverfi heldur lífið áfram.
Í hverjum fjórðungi tunglmánaðarins eru um sjö dagar. Súmerar (sjá Fyrir hvað eru Súmerar þekktir? eftir Harald Ólafsson), sem byggðu Mesópótamíu á þeim slóðum sem nú heita Írak, lögðu grunninn að tímatalsútreikningum sínum út frá gangi himintunglanna, 2000-3000 árum f. Kr. Þá reiknuðu þeir með því að hver tunglmánuður skiptist í um 4 x 7 daga, samtals um 28 daga. Þeir tóku líka eftir því að tíðahringur konunnar er um það bil.28 dagar, jafnlangur og tunglmánuðurinn. Þar sem konan getur aðeins orðið barnshafandi á ákveðnu tímabili var tíðahringurinn álitinn afar mikilvægur. Lífshrynjandi konu og tungls helst í hendur.
Í hverjum fjórðungi tunglmánaðarins eru um sjö dagar.
Þessar líffræðilegu og stjarnfræðilegu staðreyndir gáfu hugmyndum dulspekinga um lífshrynjandina byr undir báða vængi. Þá komu einnig fram kenningar um að mannslíkaminn endurnýist á sjö ára fresti og að líf mannsins vari nokkurn veginn í 7 x 10 ár. Síðar skutu þessar hugmyndir upp kolli í hjátrúnni, til dæmis að það boði sjö ára ógæfu að brjóta spegil eða að sitji ógift stúlka við borð milli tveggja bræðra giftist hún ekki fyrr en eftir sjö ár og svo framvegis. Kraftur þeirrar bölvunar eða ógæfu sem dynur yfir menn endist ekki lengur en eitt sjö ára tímabil í lífshrynjandi mannsins.
Annars hefur talan sjö stærðfræðilega eiginleika sem sennilega hafa ýtt undir sérstöðu hennar. Séu allar tölur frá einum upp í sjö lagðar saman, það er 1 + 2 + 3 + 4 + 5 + 6 + 7, verður útkoman 28, dagafjöldi tunglmánaðarins og tíðahringsins.
Langalgengasta talan í Biblíunni er sjö og mun koma þar fyrir í um það bil 300 atriðum. Segja má að hvarvetna í kristnum löndum, þar sem Biblían hefur gegnt veigamiklu hlutverki, finnist það viðhorf til tölunnar sjö að hún sé heilög tala og um leið happatala.
Hugmyndin um sjö himna kemur fram í ýmsum fornum heimsmyndum og þeim sem eru í sjöunda himni líður sérstaklega vel, eru alsælir. Þá má nefna að sjöarma kertastjaki er helgigripur og tákn Gyðinga frá fornu fari, í faðirvorinu eru sjö bænir (sjá Af hverju ætti Guð að leiða okkur í freistni eins og segir í Faðirvorinu? eftir Einar Sigurbjörnsson), sjö tónar í tónstiganum og sjö litir í litrófinu og þar af leiðandi í regnboganum. Höfuðdyggðir í kristinni siðfræði eru sjö, dauðasyndirnar eru einnig sjö (sjá Hverjar eru dauðasyndirnar (erfðasyndirnar) sjö? eftir Hauk Má Helgason og Sigurjón Árna Eyjólfsson) og undur veraldar er sjö. Sjö er líka gegnumgangandi tala í bókmenntum frá fornu fari og einnig í þjóðsögum og ævintýrum.
Meðganga kvenna tekur um níu mánuði.
Talan níu er almennt álitin heillatala og kemur víða við sögu í þjóðtrú. Eins og fyrr segir fæst hún með því að margfalda töluna þrír með sjálfri sér og er þess vegna sérstaklega áhrifamikil. En ýmislegt fleira skiptir máli hvað töluna níu varðar. Veigamikið atriði er að meðgöngutími kvenna er níu mánuðir. Þar að auki hefur talan níu stærðfræðilega sérstöðu. Það er alveg sama með hvaða tölu hún er margfölduð, þversumma útkomunnar, eða þversumman af þversummunni, verður alltaf níu. Tökum nokkur dæmi: 9 x 7 = 63 (6 + 3 = 9), 9 x 951 = 5319 (5 + 3 + 1 + 9 = 18 og 1 + 8 = 9 ), 9 x 10832 = 97488 (þversumman er 36 og þversumman af 36 er 9). Talan níu er sú eina sem býr yfir þessum eiginleika.
Á heiðnum tíma var talan níu álitin heilög tala og tengdist helgisiðum. Hún virðist hafa haft viðlíka trúarlega þýðingu í heiðni og talan sjö öðlaðist í kristinni trú.
Flestir þekkja þá hjátrú að telja töluna þrettán óheillatölu (sjá Af hverju er hjátrú um töluna 13? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur). Sú trú að þessi tala sé sérstök, annað hvort hættuleg eða heilög, er talin mjög gömul. Hugsanlega má rekja ótrúna á töluna þrettán allt aftur til Súmera. Þeir bjuggu yfir víðtækri stærðfræðikunnáttu og voru framúrskarandi stjörnufræðingar en einnig stjörnuspekingar. Þeir rannsökuðu þannig gang himintunglanna ásamt því að leggja stund á stjörnuspár.
Í talnakerfi Súmera er lagður grunnur að svokölluðu sextugakerfi sem hefur grunntöluna 60. Súmerar reiknuðu út frá gangi himintunglanna að árið væri 365 dagar og fjórðungur að degi að auki. Út frá stjörnuathugunum sínum skiptu þeir árinu í tólf mánuði (sjá Af hverju eru bara tólf mánuðir í árinu? eftir Þorstein Vilhjálmsson), gáfu þeim guðanöfn (sjá Hvaðan koma nöfnin á mánuðunum?) og hver mánuður fékk að auki úthlutað einu stjörnumerki úr dýrahringnum (sjá Hvað eru til mörg stjörnumerki í himinhvolfinu? eftir Sævar Helga Bragason).
Sé reiknað með 30 dögum í hverjum mánuði og tólf mánuðum í einu ári verða 360 dagar í árinu. Þá munar rúmum fimm dögum á 12 mánaða ári og útreikningi Súmera. Þetta leiddi til þess að á sex árum myndaðist eins mánaðar skekkja. Til að leiðrétta skekkjuna var skotið inn aukamánuði, sjötta hvert ár, og á 120 ára fresti urðu aukamánuðirnir tveir til að vinna upp þann fjórðung úr degi sem safnast hafði upp.
Rómverskt dagatal með þrettán mánuðum: Tólf venjulegum og einum aukamánuði. Smellið á myndina til að stækka hana.
Þannig reiknuðu Súmerar, Babýlóníumenn og síðar einnig Gyðingar árið bæði út frá sólárinu og tunglárinu. Í þessum útreikningum skipti talan þrettán verulegu máli, hún var sérstök aukatala til að leiðrétta þá skekkju sem varð þegar gengið var út frá grunneiningum í sextugakerfinu. Þekking á þessu sviði barst frá hinum fornu menningarsvæðum fyrir botni Miðjarðarhafsins yfir í gríska og rómverska menningu og þaðan áfram til germanskra þjóða.
Það voru ekki einungis mánuðirnir sem urðu tólf að fyrirmynd Súmera heldur grundvallast einnig skipting sólarhringsins á talnakerfi þeirra. Í hverjum sólarhring eru 2 x 12 klukkustundir, hverri klukkustund er skipt í 60 mínútur og hverri mínútu í 60 sekúndur. Skipting hringsins í 360 gráður er af sömu rót runnin.
Sérstaða tölunnar þrettán innan sextugakerfisins er einfaldlega sú að sé farið út fyrir grunntöluna tólf (eina af grunneiningum sextugakerfisins), fæst talan þrettán, það er 12 + 1 eru 13. Þetta þarf ekki endilega að hafa í för með sér að talan þrettán öðlist neikvæða merkingu, það gerir hana hins vegar sérstaka og þar af leiðandi heilaga. Það sem er heilagt er á vissan hátt hættulegt og á því hvílir bannhelgi. Sú bannhelgi og ótti sem enn fylgir tölunni þrettán gæti átt rót sína að rekja til þessara hugmynda.
Heimildir
Piø, Iørn. 1973. Den lille overtro. Håndbog om hverdagens magi. Kaupmannahöfn.
Símon Jón Jóhannsson. 1999. Stóra hjátrúarbókin. Vaka-Helgafell.
Myndir
Numbers. Flickr.com. Höfundur myndar er MissyH. Myndin er birt undir Creative Commons leyfi.
Símon Jón Jóhannsson. „Af hverju þykja tölurnar 7, 9 og 13 sérstaklega kynngimagnaðar?“ Vísindavefurinn, 17. nóvember 2006, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6386.
Símon Jón Jóhannsson. (2006, 17. nóvember). Af hverju þykja tölurnar 7, 9 og 13 sérstaklega kynngimagnaðar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6386
Símon Jón Jóhannsson. „Af hverju þykja tölurnar 7, 9 og 13 sérstaklega kynngimagnaðar?“ Vísindavefurinn. 17. nóv. 2006. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6386>.