Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Skipta má lesblindu gróflega í tvo flokka: Áunna lesblindu (e. aquired dyslexia) og þroskafræðilega lesblindu (e. developmental dyslexia).
Áunnin lesblinda
Fólk sem áður var að fullu læst getur orðið fyrir heilaskaða sem leiðir til þess að það á í miklum vandræðum með lestur. Þetta kallast þá áunnin lesblinda. Henni er svo skipt í nokkra undirflokka eftir því hvaða heilasvæði eru sködduð og hvaða áhrif skaðinn hefur nákvæmlega á lestrarhæfileika.
Sumir geta til dæmis tapað hæfileikanum til að lesa orð í heilu lagi og orsakast þessi tegund lesblindu yfirleitt af skaða í ákveðnum hlutum vinstra gagnaugablaðs (e. left lateral temporal lobe). Þetta fólk getur stautað sig í gegnum texta með því að mynda hljóð á eftir hverjum bókstaf. Þar sem það þekkir orðin eftir hljóðan þeirra en ekki útliti getur það auðveldlega ruglast á orðum sem hljóma eins, svo sem fíll (spendýr) og fýll (fugl).
Myndin sýnir ennisblað (blátt), gagnaugablað (grænt), hvirfilblað (gult) og hnakkablað (bleikt).
Aðrir geta lesið orð í heilu lagi, en eiga í miklum vandræðum með að lesa orðin eftir bókstöfunum sem mynda þau. Þannig getur þetta fólk oft lesið orð sem það þekkir vel en finnst afar erfitt að lesa bæði svokallaðar orðleysur ("bullorð" eins og 'drask' eða 'prengiró') og orð sem það hefur sjaldan eða aldrei séð áður. Lesblinda af þessu tagi verður oft við skaða í vinstra ennisblaði (e. left frontal lobe).
Það er engin tilviljun að þessar tvær tegundir lesblindu orsakist báðar af heilaskemmd í vinstra heilahveli, en vinstra heilahvelið tekur að jafnaði meiri þátt í úrvinnslu tungumáls en það hægra. Nánar má lesa um heilahvelin í svari Þuríðar Þorbjarnardóttur við spurningunni Hvað fer fram í vinstra heilahveli og hvað fer fram í því hægra? Þroskafræðileg lesblinda
Ólíkt manneskjum með áunna lesblindu hefur fólk með þroskafræðilega lesblindu aldrei orðið fluglæst heldur hefur frá upphafi átt í erfiðleikum með að lesa. Slík lesblinda virðist ganga í ættir og bendir það til þess að hún sé að nokkru leyti arfbundin.
Öll hugsun, skynjun og hegðun á sér rætur í heilastarfsemi. Þegar orsakir lesblindu eru skoðaðar liggur því nokkuð beint við að athuga hvort og þá að hvaða leyti heili lesblindra víki frá því sem venjulegt getur talist. Þó verður að hafa í huga að mismunandi undirtegundir þroskafræðilegrar lesblindu geta mögulega átt mismunandi orsakir, rétt eins og á við um áunna lesblindu.
Lesblindir hafa sumir afbrigðilegt stórfrumulag í hliðlægu hnélíki (merkt á mynd sem lateral geniculate body).
Erfiðlega hefur gengið að rekja þroskafræðilega lesblindu til afbrigðileika í einhverju einu tilteknu heilasvæði. Þó eru vísbendingar um að lesblint fólk sýni frávik í því sem á íslensku mætti kallast stórfrumulag (e. magnocellular layer). Stórfrumulagið er í heilastöð sem kallast hliðlægt hnélík (e. lateral geniculate nucleus), en hún heitir þessu sérkennilega nafni þar sem hún þykir líkjast hné. Hliðlæga hnélíkið tekur þátt í sjónskynjun og stórfrumulagið sér sérstaklega um úrvinnslu á hreyfingum, dýpt og birtuskilum (e. contrast). Margir lesblindir virðast einmitt hafa lélega rúmskynjun og hreyfifærni.
Á grundvelli þessara og fleiri niðurstaðna telja því sumir að lesblindu megi rekja til óeðlilegrar sjónskynjunar. Aðrir gefa lítið fyrir slíkar skýringar og benda á að lesblindir hafi yfirleitt lélega hljóðkerfisvitund (e. phonological awareness) og að í henni megi frekar leita orsaka lesblindu. Lesa má meira um hljóðkerfisvitund í svari Jörgens Pind við spurningunni Hvað er lesblinda? Er hægt að lækna hana?
Eins og í svo mörgu öðru getur verið erfitt að greina á milli orsakar og afleiðingar. Hugsast getur að óeðlileg sjónskynjun sé afleiðing lesröskunar en ekki orsök hennar og hallast margir að því. Það er sömuleiðis mögulegt að léleg hljóðkerfisvitund sé einn fylgikvilli röskunar en ekki bein orsök hennar. Um þetta eru enn deilt á meðal fræðimanna. Þó má hugga sig við að sífellt er verið að gera nýjar rannsóknir á þroskafræðilegri lesblindu og eflaust má vænta betri þekkingar á orsökum hennar í framtíðinni.
Lesendum er að lokum bent á að kynna sér þessi svör Jörgens Pind og Aldísar Guðmundsdóttur um lesblindu:
Heiða María Sigurðardóttir. „Af hverju er maður lesblindur?“ Vísindavefurinn, 12. október 2006, sótt 18. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6309.
Heiða María Sigurðardóttir. (2006, 12. október). Af hverju er maður lesblindur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6309
Heiða María Sigurðardóttir. „Af hverju er maður lesblindur?“ Vísindavefurinn. 12. okt. 2006. Vefsíða. 18. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6309>.