Er sá munur fólginn í lækningaraðferðum eða greiningu, eða er hann meiri?
Það virðist nokkuð algengt að menn rugli saman geðlækningum og sálfræði, en greinarnar eru þó um margt ólíkar. Geðlækningar eru, eins og nafnið bendir til, undirgrein læknisfræðinnar. Geðlæknar ljúka fyrst almennu læknanámi en sérhæfa sig svo í greiningu og meðferð geðsjúkdóma. Þeir mega framvísa geðlyfjum og veita stundum samtalsmeðferð. Sálfræði er aftur á móti nokkuð víðtækari grein en geðlæknisfræði. Viðfangsefni hennar eru ekki einskorðuð við andleg vandamál fólks, heldur ná þau jafnframt til hugarstarfs, hegðunar, og heilastarfsemi. Nánar má lesa um störf sálfræðinga í svörum sama höfundar við spurningunum Hvað eru til margar gerðir af sálfræði? og Vinna sálfræðingar eingöngu við meðferð?
Munurinn á sálfræði og geðlæknisfræði er því allnokkur, en aftur á móti skarast störf geðlækna og svokallaðra klínískra sálfræðinga mjög mikið. Klínískir sálfræðingar ljúka grunnmenntun í sálfræði en sérhæfa sig svo í geðrænum vandamálum fólks, rétt eins og geðlæknar. Ólíkt geðlæknum mega þeir ekki skrifa upp á lyf, en beita oft bæði samtalsmeðferð og atferlismeðferð. Einnig meta þeir hugarstarf og hegðun með sálfræðilegum prófum. Heimildir
- Aldís Guðmundsdóttir og Jörgen Pind (2003). Almenn sálfræði: Hugur, heili, hátterni. Reykjavík: Mál og menning.
- Gylfi Ásmundsson. Hver er munurinn á sálfræðingi og geðlækni?