Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hversu mikið er vitað um heimspekinginn Díógenes í tunnunni?

Geir Þ. Þórarinsson

Díógenes hundingi er eflaust meðal frægari heimspekinga Grikklands hins forna. Ýmsum sögum fer af honum í fornum heimildum en heimildirnar eru ekki alltaf traustar. Í raun er vitneskja okkar um Díógenes og heimspeki hans fremur rýr.

Meginheimild um Díógenes er ævisaga hans sem rituð var af Díógenesi Laertíosi (uppi á fyrri hluta 3. aldar e.Kr.), sem skrifaði ævisögur merkra heimspekinga. Ævisagan er ekki mjög áreiðanleg heimild, enda var hún skrifuð rúmum 500 árum eftir að heimspekingurinn Díógenes lést. Heimildir Díógenesar Laertíosar greinir líka oft á og eru stundum sjálfar óáreiðanlegar. Aðrar heimildir um Díógenes eru bókmenntaverk eftir Díon Krýsóstómos (uppi á síðari hluta 1. aldar e.Kr.) og Lúkíanos frá Samosata (uppi um 120-180 e.Kr.) en þar er margt fært í stílinn.

Díógenes var uppi á 4. öld f.Kr. Hann var frá borginni Sínópu við botn Svartahafs (í dag í Tyrklandi) og fæddist þar líklega einhvern tíma á bilinu 412-403 f.Kr. Díógenes Laertíos segir að Díógenes og Híkesías, faðir hans, hafi verið sendir í útlegð fyrir að falsa peninga. Heimildir Díógenesar Laertíosar greinir á um hvor þeirra feðga hafi verið sekur um glæpinn.

Ein sagan hermir að Díógenes hafi verið hnepptur í þrældóm og seldur til Xeníadesar í Kórinþu. Ekki er vitað hvað er hæft í þeirri sögu en hann fluttist að minnsta kosti til Aþenu um eða eftir 362 f.Kr. Þar bjó hann við sára fátækt og var sagður halda heimili í stórri víntunnu. Sagt var að Díógenes hafi dáið í Kórinþu sama dag og Alexander mikli lést í Babýlon en það var árið 323 f.Kr. Sagan er ósennileg en ekki er vitað nákvæmlega hvenær Díógenes lést. Talið er að hann hafi ef til vill látist um 324 f.Kr. eða nokkru síðar.


Díógenes í tunnu sinni. Verk eftir John William Waterhouse (1882).

Díógenes Laertíos getur þess að Díógenes hafi átt sér nemendur. Meðal þeirra voru Ónesíkrítos frá Ægínu og synir hans tveir, Androsþenes og Filiskos, Mónímos frá Sýrakúsu, Hegesías frá Sínópu, Krates frá Þebu, Fókíon nefndur hinn góði og Stilpon frá Megöru.

Heimildir greinir á um ritstörf Díógenesar. Díógenes Laertíos eignar honum ýmis rit um heimspeki og sjö harmleiki að auki en aðrar heimildir segja að hann hafi ekki látið eftir sig nein rit og að harmleikirnir hafi verið eftir Filiskos, nemanda hans. Ekkert þessara rita hefur varðveist.

Díógenes boðaði líferni í samræmi við náttúruna. Það fól meðal annars í sér meinlætalíf og algert tillitsleysi gagnvart reglum samfélagsins. Díógenes var til dæmis sagður gera þarfir sínar á götum úti í allra augsýn. Af þessum sökum var hann nefndur kyon, hundur, og er Platon sagður hafa gefið honum viðurnefnið.

Díógenes þótti hnyttinn í tilsvörum og greina margar sögur frá orðaskiptum hans við annað fólk, þar á meðal Platon og Alexander mikla, sem virðast báðir hafa borið virðingu fyrir Díógenesi. Platon sagði að Díógenes væri eins og sturlaður Sókrates en Alexander mikli kvaðst helst vilja vera Díógenes ef hann væri ekki Alexander.

Þegar Platon hafði flutt fyrirlestur og skilgreint manninn sem ófiðraðan tvífætling reytti Díógenes fjaðrirnar af fugli, henti honum inn í salinn og sagði að þar væri kominn maður Platons. Var þá bætt við skilgreininguna að maðurinn hefði flatar neglur.

Í orrustunni við Kæróneu árið 338 f.Kr. sigraði Filippos II, konungur Makedóníu og faðir Alexanders mikla, heri Aþenu og Þebu og tryggði sér yfirráð yfir Grikklandi. Eftir orrustuna var Díógenes handsamaður og færður Filipposi. Þegar hann var spurður hver hann væri svaraði Díógenes að hann væri njósnari sem njósnaði um óseðjanlega græðgi Filipposar. Hann uppskar lof fyrir svar sitt og var í kjölfarið sleppt úr haldi.

Alexander er sagður hafa spurt Díógenes hvort hann óttaðist sig ekki. Díógenes spurði þá Alexander hvað hann væri, eitthvað gott eða eitthvað slæmt. Þegar Alexander kvaðst vera eitthvað gott spurði Díógenes hvers vegna í ósköpunum hann ætti þá að óttast Alexander. Dag einn þegar Díógenes lá í sólbaði kom Alexander til hans og bauðst til að verða við ósk hans og spurði hvað hann gæti gert fyrir Díógenes. Díógenes bað þá Alexander um að færa sig því hann skyggði á sólina.

Mynd: Image:Waterhouse-Diogenes.jpg. Wikimedia Commons.

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

3.8.2006

Spyrjandi

Gunnur Eriksdóttir, f. 1987

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hversu mikið er vitað um heimspekinginn Díógenes í tunnunni?“ Vísindavefurinn, 3. ágúst 2006. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6105.

Geir Þ. Þórarinsson. (2006, 3. ágúst). Hversu mikið er vitað um heimspekinginn Díógenes í tunnunni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6105

Geir Þ. Þórarinsson. „Hversu mikið er vitað um heimspekinginn Díógenes í tunnunni?“ Vísindavefurinn. 3. ágú. 2006. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6105>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hversu mikið er vitað um heimspekinginn Díógenes í tunnunni?
Díógenes hundingi er eflaust meðal frægari heimspekinga Grikklands hins forna. Ýmsum sögum fer af honum í fornum heimildum en heimildirnar eru ekki alltaf traustar. Í raun er vitneskja okkar um Díógenes og heimspeki hans fremur rýr.

Meginheimild um Díógenes er ævisaga hans sem rituð var af Díógenesi Laertíosi (uppi á fyrri hluta 3. aldar e.Kr.), sem skrifaði ævisögur merkra heimspekinga. Ævisagan er ekki mjög áreiðanleg heimild, enda var hún skrifuð rúmum 500 árum eftir að heimspekingurinn Díógenes lést. Heimildir Díógenesar Laertíosar greinir líka oft á og eru stundum sjálfar óáreiðanlegar. Aðrar heimildir um Díógenes eru bókmenntaverk eftir Díon Krýsóstómos (uppi á síðari hluta 1. aldar e.Kr.) og Lúkíanos frá Samosata (uppi um 120-180 e.Kr.) en þar er margt fært í stílinn.

Díógenes var uppi á 4. öld f.Kr. Hann var frá borginni Sínópu við botn Svartahafs (í dag í Tyrklandi) og fæddist þar líklega einhvern tíma á bilinu 412-403 f.Kr. Díógenes Laertíos segir að Díógenes og Híkesías, faðir hans, hafi verið sendir í útlegð fyrir að falsa peninga. Heimildir Díógenesar Laertíosar greinir á um hvor þeirra feðga hafi verið sekur um glæpinn.

Ein sagan hermir að Díógenes hafi verið hnepptur í þrældóm og seldur til Xeníadesar í Kórinþu. Ekki er vitað hvað er hæft í þeirri sögu en hann fluttist að minnsta kosti til Aþenu um eða eftir 362 f.Kr. Þar bjó hann við sára fátækt og var sagður halda heimili í stórri víntunnu. Sagt var að Díógenes hafi dáið í Kórinþu sama dag og Alexander mikli lést í Babýlon en það var árið 323 f.Kr. Sagan er ósennileg en ekki er vitað nákvæmlega hvenær Díógenes lést. Talið er að hann hafi ef til vill látist um 324 f.Kr. eða nokkru síðar.


Díógenes í tunnu sinni. Verk eftir John William Waterhouse (1882).

Díógenes Laertíos getur þess að Díógenes hafi átt sér nemendur. Meðal þeirra voru Ónesíkrítos frá Ægínu og synir hans tveir, Androsþenes og Filiskos, Mónímos frá Sýrakúsu, Hegesías frá Sínópu, Krates frá Þebu, Fókíon nefndur hinn góði og Stilpon frá Megöru.

Heimildir greinir á um ritstörf Díógenesar. Díógenes Laertíos eignar honum ýmis rit um heimspeki og sjö harmleiki að auki en aðrar heimildir segja að hann hafi ekki látið eftir sig nein rit og að harmleikirnir hafi verið eftir Filiskos, nemanda hans. Ekkert þessara rita hefur varðveist.

Díógenes boðaði líferni í samræmi við náttúruna. Það fól meðal annars í sér meinlætalíf og algert tillitsleysi gagnvart reglum samfélagsins. Díógenes var til dæmis sagður gera þarfir sínar á götum úti í allra augsýn. Af þessum sökum var hann nefndur kyon, hundur, og er Platon sagður hafa gefið honum viðurnefnið.

Díógenes þótti hnyttinn í tilsvörum og greina margar sögur frá orðaskiptum hans við annað fólk, þar á meðal Platon og Alexander mikla, sem virðast báðir hafa borið virðingu fyrir Díógenesi. Platon sagði að Díógenes væri eins og sturlaður Sókrates en Alexander mikli kvaðst helst vilja vera Díógenes ef hann væri ekki Alexander.

Þegar Platon hafði flutt fyrirlestur og skilgreint manninn sem ófiðraðan tvífætling reytti Díógenes fjaðrirnar af fugli, henti honum inn í salinn og sagði að þar væri kominn maður Platons. Var þá bætt við skilgreininguna að maðurinn hefði flatar neglur.

Í orrustunni við Kæróneu árið 338 f.Kr. sigraði Filippos II, konungur Makedóníu og faðir Alexanders mikla, heri Aþenu og Þebu og tryggði sér yfirráð yfir Grikklandi. Eftir orrustuna var Díógenes handsamaður og færður Filipposi. Þegar hann var spurður hver hann væri svaraði Díógenes að hann væri njósnari sem njósnaði um óseðjanlega græðgi Filipposar. Hann uppskar lof fyrir svar sitt og var í kjölfarið sleppt úr haldi.

Alexander er sagður hafa spurt Díógenes hvort hann óttaðist sig ekki. Díógenes spurði þá Alexander hvað hann væri, eitthvað gott eða eitthvað slæmt. Þegar Alexander kvaðst vera eitthvað gott spurði Díógenes hvers vegna í ósköpunum hann ætti þá að óttast Alexander. Dag einn þegar Díógenes lá í sólbaði kom Alexander til hans og bauðst til að verða við ósk hans og spurði hvað hann gæti gert fyrir Díógenes. Díógenes bað þá Alexander um að færa sig því hann skyggði á sólina.

Mynd: Image:Waterhouse-Diogenes.jpg. Wikimedia Commons....