Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað geturðu sagt mér um Émile Durkheim?

Þorbjörn Broddason

Líkt og allar aðrar fræðigreinar er félagsfræðin lifandi vettvangur kenninga og rannsókna þar sem nýjar hugmyndir og nýjar niðurstöður leysa gamlar af hólmi. Sjálft viðfangsefni félagsfræðinnar er þjóðfélagið, sem við lifum í. Þar sem það ólgar af sífelldum breytingum er óumflýjanlegt að fræðigreinin, sem er helguð því ólgi einnig og breytist. Eigi að síður má finna sterka samfellu í félagsfræðilegum rannsóknum og skrifum, sem rekja má rúma öld aftur í tímann. Á síðari hluta 19. aldar má segja að rannsóknir á þjóðfélaginu hafi fengið á sig nútímasvip og félagsfræðin í raun orðið til. Óhætt er að nefna þrjá menn, sem öðrum fremur má telja feður félagsfræðinnar. Þeir eru Karl Marx (1818-1883), Émile Durkheim, sem hér er fjallað um (1858-1917), og Max Weber (1864-1920).

Marx og Weber voru Þjóðverjar en Durkheim var franskur, fæddur í landamærahéraðinu Lorraine eða Lothringen sem hefur í aldanna rás ýmist tilheyrt Frakklandi eða Þýskalandi og verið sífellt bitbein þessara grannþjóða. Durkheim var af gyðingaættum (eins og Marx) og kominn af rabbínum í marga ættliði. Ekki átti þó fyrir honum að liggja að feta í fótspor föður síns, afa og langafa heldur kastaði hann trúnni á unga aldri. Því fer þó fjarri að hann hafi snúið baki við trúarlegum málefnum því framlag hans til félagsfræðilegs skilnings á trúarbrögðunum er glæsilegt stórvirki, sem hefur markað óafmáanleg spor innan félagsvísindanna og reyndar einnig á öðrum fræðasviðum, þar með talin guðfræði.

Bókin Grundvallaratriði trúarlífsins (Les formes élémentaires de la vie religieuse á frummálinu), sem kom fyrst út árið 1912, telst almerkasta verk hans og raunar eitt áhrifaríkasta rit, sem skrifað hefur verið á sviði félagsfræði trúarbragðanna og félagsfræði almennt. Áhugi Durkheims beindist ekki að trúarupplifun einstaklinga heldur að þeim samfélagslegu böndum, sem myndast og viðhaldast við trúariðkanir og þar með að þætti trúarbragðanna í eflingu samfélagsgerðarinnar og hinnar félagslegu samvitundar. Sýn hans, þessa yfirlýsta trúleysingja, á trúarbrögðin er í sannleika stórbrotin.

Í upphafi bókarinnar um grundvallaratriði trúarbragðanna segir hann:
Í raun og sannleika eru engin trúarbrögð ósönn heldur eru þau öll sönn, hver á sinn hátt; öll bregðast þau við tilteknum þáttum mannlegrar reynslu. Þau svara sömu þörfum, gegna sama hlutverki, byggjast á sömu forsendum.

En svo segir hann einnig á öðrum stað í sömu bók:
jafnvel þótt unnt sé að sýna fram á trúarlega reynslu, sem svo má kalla, þá felur það engan veginn í sér að hinn hlutlægi veruleiki að baki reynslunni samsvari á nokkurn hátt hugmyndum hinna trúuðu.

Durkheim heldur með öðrum orðum fram sannindum trúarbragðanna í öðru orðinu en hafnar samt trúarskilningi iðkendanna í hinu orðinu. Þessi afstaða, sem kann að virðast þversagnarkennd í augum einhverra, leiðir okkur að því sem líklega mætti kalla kjarnann í skilningi Durkheims á trúarbrögðunum: Trúarbrögðin eru algerlega félagslegt fyrirbæri, þau eru ekki til utan samfélags og það sem meira er: þegar trúariðkendur hylla heilög tákn (það geta verið hlutir svo sem helgirit, kross eða líkneski, bænarorð eins og guð sé oss næstur eða Allah-u-akbar, en það geta einnig verið tilteknir dagar vikunnar eða ársins, sunnudagar, sólstöður, páskar, Jom Kippur, eða tímabil eins og ramadan og langafasta, eða skepnur eins og nautgripir eða slöngur) þá eru þeir - óafvitandi að mati Durkheims - í raun að hylla sjálft samfélagið. Þessi tákn hafa nákvæmlega ekkert eigið gildi, krossinn er bara tvær spýtur lagðar þvert hvor á aðra og við þekkjum ekki sunnudaginn frá öðrum dögum nema vegna þess að fyrir liggur félagsleg samstaða um að virða hann. Þannig mætti endalaust telja. Öll þessi tákn, allir þessir helgisiðir, öll þessi trúarlegu boð og bönn, allt er þetta vitamarklaust nema fyrir þá sök að við höfum komið okkur saman um að upphefja það, virða og tilbiðja. Skilningur Durkheims er nánast sá að við tilbiðjum eigin samfélagsgerð og köllum hana Guð. Þetta mætti einnig orða á þann veg að þjóðfélagið sé trúarlegt fyrirbæri.

Hafa má í huga að Durkheim lifði á tímum mikillar ólgu í andlegu lífi Vesturlanda. Vísindalegar framfarir og vísindahyggja nagaði rætur gróinna sanninda og margir óttuðust að gömul og góð gildi mundu fara sömu leið. Hefðbundin trúarbrögð áttu í vök að verjast og því var jafnvel spáð að þau yrðu brátt úr sögunni. Vafalaust er að Durkheim hefur vonast til að greining hans á kjarna trúarbragðanna mundi auðvelda samtímamönnum hans að horfast í augu við óvissu og breytingar og hjálpa þeim að fóta sig í nýjum heimi.

Fyrri verk Durkheims bera vitni sömu ástríðunni til agaðra vinnubragða, sannleiksleitar og afhjúpunar leyndra samfélagslegra afla, hinum einbeitta ásetningi hans að sanna að mannleg hegðun lúti félagslegum lögmálum. Þegar árið 1893 kom út fyrsta stórvirki hans, Verkaskiptingin í samfélaginu (De la division du travail social á frummálinu). Þar kynnti hann til sögunnar nokkur hugtök, sem síðan hafa átt heima í verkfærasafni hvers einasta félagsfræðings. Þar má nefna hugtakatvennuna, vélræn samstaða og lífræn samstaða. Hann beitti þeim til að greina muninn á virkni og forsendum einfaldra samfélaga annars vegar og flókinna hins vegar. Atvinnuhættir, fjölskylduhættir, umgengnishættir og lífsskilyrði almennt taka miklum breytingum þegar þjóðfélög þróast í átt til iðnvæðingar og þéttbýlis. Durkheim lagði þessa hugtakatvennu til grundvallar greiningu sinni á þessari þróun og greip þá einnig til hugtaksins anomie sem á íslensku hefur verið nefnt siðrof. Þetta hugtak vísar til þjóðfélagsástands, sem myndast þegar breytingar eru svo örar og þjóðfélagsástandið verður í kjölfarið svo framandi að umgengnishættir og gildi, sem almenningur hefur alist upp við, glata samhenginu við hinn félagslega veruleika. Siðrofi fylgir óvissa, upplausn, vantraust milli einstaklinga og hópa og getur leitt til mikillar vár í þjóðfélaginu.

Þriðja stórvirki Durkheims, sem hér verður gert að umræðuefni, gaf hann hið stutta og dapurlega heiti Sjálfsmorð (Le suicide) og undirtitilinn Félagsfræðileg rannsókn (1897). Vandfundið er öfgakenndara dæmi um persónulegan verknað eða einstaklingsbundnari ákvörðun. Einmanalegri stund en síðasta andartakið í lífi sjálfsmorðingja er naumast unnt að hugsa sér. Durkheim tók sér eigi að síður fyrir hendur að sýna fram á að tíðni sjálfsmorða lyti félagslegum lögmálum og sýndi með skipulegum hætti og geysimikilli tölfræðivinnu og gagnasöfnun fram á samband milli félagslegra kringumstæðna og fjölda sjálfsmorða. Þannig skýrði hann í félagsfræðilegu ljósi mun á tíðni sjálfsmorða milli þjóðfélaga, kynja og trúarhópa og einnig árstíðabundnar sveiflur, sem stundum virtust fara á bug við skynsamlegar tilgátur. Hann beitti meðal annars fyrrnefndu siðrofshugtaki af mikilli hugkvæmni til að skýra eitt afbrigði sjálfsmorða þar sem hann sýndi fram á aukningu sjálfsmorða á upplausnar- og óvissutímum.

Rit Durkheims eru vissulega sífersk uppspretta frjórra hugmynda fyrir félagsfræðinga okkar daga. Ekki fer þó hjá því að nútímafræðimenn finni ýmislegt gagnrýnivert í vísindaritum, sem hafa fagnað aldarafmælinu, og verk Durkheims fara sannarlega ekki varhluta af slíkri ágjöf. Það breytir því þó ekki að rit hans og lífsverk allt er skínandi vottur um hverju einbeittur vilji, þrotlaus vinna og leiftrandi gáfur sameinuð í heilsteyptum einstaklingi geta áorkað.

Eins og geta má nærri hafa margir síðari tíma fræðimenn freistast til að bera saman þremenningana Marx, Durkheim og Weber, sem nefndir voru í upphafi þessa pistils. Þótt ekki sé svigrúm til að rekja þau skrif hér er vert að nefna að þessir gjörólíku einstaklingar litu allir á trúarbrögðin sem lykilþátt í lausn gátunnar um þjóðfélagið og allir voru þeir trúleysingjar.

Émile Durkheim lét mjög til sín taka í þjóðfélagsmálum og barðist meðal annars fyrir málstað Alfreds Dreyfusar (1859-1935). Hann gegndi lykilhlutverki í endurskoðun háskólakerfisins og var áhrifaríkur í frönskum menntamálum að öðru leyti. Hann var sannur föðurlandsvinur og þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á beitti hann kröftum sínum í þágu ættjarðarinnar. Einkasonur hans féll í stríðinu, mjög efnilegur fræðimaður, sem Durkheim hafði bundið miklar vonir við. Þessi mikli missir er talinn hafa flýtt dauða hans en hann lést aðeins 59 ára gamall haustið 1917.

Mynd:

Höfundur

Þorbjörn Broddason

prófessor emeritus í félagsfræði við HÍ

Útgáfudagur

25.8.2011

Spyrjandi

Gunnar Freyr Þorleifsson

Tilvísun

Þorbjörn Broddason. „Hvað geturðu sagt mér um Émile Durkheim? “ Vísindavefurinn, 25. ágúst 2011. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60498.

Þorbjörn Broddason. (2011, 25. ágúst). Hvað geturðu sagt mér um Émile Durkheim? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60498

Þorbjörn Broddason. „Hvað geturðu sagt mér um Émile Durkheim? “ Vísindavefurinn. 25. ágú. 2011. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60498>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað geturðu sagt mér um Émile Durkheim?
Líkt og allar aðrar fræðigreinar er félagsfræðin lifandi vettvangur kenninga og rannsókna þar sem nýjar hugmyndir og nýjar niðurstöður leysa gamlar af hólmi. Sjálft viðfangsefni félagsfræðinnar er þjóðfélagið, sem við lifum í. Þar sem það ólgar af sífelldum breytingum er óumflýjanlegt að fræðigreinin, sem er helguð því ólgi einnig og breytist. Eigi að síður má finna sterka samfellu í félagsfræðilegum rannsóknum og skrifum, sem rekja má rúma öld aftur í tímann. Á síðari hluta 19. aldar má segja að rannsóknir á þjóðfélaginu hafi fengið á sig nútímasvip og félagsfræðin í raun orðið til. Óhætt er að nefna þrjá menn, sem öðrum fremur má telja feður félagsfræðinnar. Þeir eru Karl Marx (1818-1883), Émile Durkheim, sem hér er fjallað um (1858-1917), og Max Weber (1864-1920).

Marx og Weber voru Þjóðverjar en Durkheim var franskur, fæddur í landamærahéraðinu Lorraine eða Lothringen sem hefur í aldanna rás ýmist tilheyrt Frakklandi eða Þýskalandi og verið sífellt bitbein þessara grannþjóða. Durkheim var af gyðingaættum (eins og Marx) og kominn af rabbínum í marga ættliði. Ekki átti þó fyrir honum að liggja að feta í fótspor föður síns, afa og langafa heldur kastaði hann trúnni á unga aldri. Því fer þó fjarri að hann hafi snúið baki við trúarlegum málefnum því framlag hans til félagsfræðilegs skilnings á trúarbrögðunum er glæsilegt stórvirki, sem hefur markað óafmáanleg spor innan félagsvísindanna og reyndar einnig á öðrum fræðasviðum, þar með talin guðfræði.

Bókin Grundvallaratriði trúarlífsins (Les formes élémentaires de la vie religieuse á frummálinu), sem kom fyrst út árið 1912, telst almerkasta verk hans og raunar eitt áhrifaríkasta rit, sem skrifað hefur verið á sviði félagsfræði trúarbragðanna og félagsfræði almennt. Áhugi Durkheims beindist ekki að trúarupplifun einstaklinga heldur að þeim samfélagslegu böndum, sem myndast og viðhaldast við trúariðkanir og þar með að þætti trúarbragðanna í eflingu samfélagsgerðarinnar og hinnar félagslegu samvitundar. Sýn hans, þessa yfirlýsta trúleysingja, á trúarbrögðin er í sannleika stórbrotin.

Í upphafi bókarinnar um grundvallaratriði trúarbragðanna segir hann:
Í raun og sannleika eru engin trúarbrögð ósönn heldur eru þau öll sönn, hver á sinn hátt; öll bregðast þau við tilteknum þáttum mannlegrar reynslu. Þau svara sömu þörfum, gegna sama hlutverki, byggjast á sömu forsendum.

En svo segir hann einnig á öðrum stað í sömu bók:
jafnvel þótt unnt sé að sýna fram á trúarlega reynslu, sem svo má kalla, þá felur það engan veginn í sér að hinn hlutlægi veruleiki að baki reynslunni samsvari á nokkurn hátt hugmyndum hinna trúuðu.

Durkheim heldur með öðrum orðum fram sannindum trúarbragðanna í öðru orðinu en hafnar samt trúarskilningi iðkendanna í hinu orðinu. Þessi afstaða, sem kann að virðast þversagnarkennd í augum einhverra, leiðir okkur að því sem líklega mætti kalla kjarnann í skilningi Durkheims á trúarbrögðunum: Trúarbrögðin eru algerlega félagslegt fyrirbæri, þau eru ekki til utan samfélags og það sem meira er: þegar trúariðkendur hylla heilög tákn (það geta verið hlutir svo sem helgirit, kross eða líkneski, bænarorð eins og guð sé oss næstur eða Allah-u-akbar, en það geta einnig verið tilteknir dagar vikunnar eða ársins, sunnudagar, sólstöður, páskar, Jom Kippur, eða tímabil eins og ramadan og langafasta, eða skepnur eins og nautgripir eða slöngur) þá eru þeir - óafvitandi að mati Durkheims - í raun að hylla sjálft samfélagið. Þessi tákn hafa nákvæmlega ekkert eigið gildi, krossinn er bara tvær spýtur lagðar þvert hvor á aðra og við þekkjum ekki sunnudaginn frá öðrum dögum nema vegna þess að fyrir liggur félagsleg samstaða um að virða hann. Þannig mætti endalaust telja. Öll þessi tákn, allir þessir helgisiðir, öll þessi trúarlegu boð og bönn, allt er þetta vitamarklaust nema fyrir þá sök að við höfum komið okkur saman um að upphefja það, virða og tilbiðja. Skilningur Durkheims er nánast sá að við tilbiðjum eigin samfélagsgerð og köllum hana Guð. Þetta mætti einnig orða á þann veg að þjóðfélagið sé trúarlegt fyrirbæri.

Hafa má í huga að Durkheim lifði á tímum mikillar ólgu í andlegu lífi Vesturlanda. Vísindalegar framfarir og vísindahyggja nagaði rætur gróinna sanninda og margir óttuðust að gömul og góð gildi mundu fara sömu leið. Hefðbundin trúarbrögð áttu í vök að verjast og því var jafnvel spáð að þau yrðu brátt úr sögunni. Vafalaust er að Durkheim hefur vonast til að greining hans á kjarna trúarbragðanna mundi auðvelda samtímamönnum hans að horfast í augu við óvissu og breytingar og hjálpa þeim að fóta sig í nýjum heimi.

Fyrri verk Durkheims bera vitni sömu ástríðunni til agaðra vinnubragða, sannleiksleitar og afhjúpunar leyndra samfélagslegra afla, hinum einbeitta ásetningi hans að sanna að mannleg hegðun lúti félagslegum lögmálum. Þegar árið 1893 kom út fyrsta stórvirki hans, Verkaskiptingin í samfélaginu (De la division du travail social á frummálinu). Þar kynnti hann til sögunnar nokkur hugtök, sem síðan hafa átt heima í verkfærasafni hvers einasta félagsfræðings. Þar má nefna hugtakatvennuna, vélræn samstaða og lífræn samstaða. Hann beitti þeim til að greina muninn á virkni og forsendum einfaldra samfélaga annars vegar og flókinna hins vegar. Atvinnuhættir, fjölskylduhættir, umgengnishættir og lífsskilyrði almennt taka miklum breytingum þegar þjóðfélög þróast í átt til iðnvæðingar og þéttbýlis. Durkheim lagði þessa hugtakatvennu til grundvallar greiningu sinni á þessari þróun og greip þá einnig til hugtaksins anomie sem á íslensku hefur verið nefnt siðrof. Þetta hugtak vísar til þjóðfélagsástands, sem myndast þegar breytingar eru svo örar og þjóðfélagsástandið verður í kjölfarið svo framandi að umgengnishættir og gildi, sem almenningur hefur alist upp við, glata samhenginu við hinn félagslega veruleika. Siðrofi fylgir óvissa, upplausn, vantraust milli einstaklinga og hópa og getur leitt til mikillar vár í þjóðfélaginu.

Þriðja stórvirki Durkheims, sem hér verður gert að umræðuefni, gaf hann hið stutta og dapurlega heiti Sjálfsmorð (Le suicide) og undirtitilinn Félagsfræðileg rannsókn (1897). Vandfundið er öfgakenndara dæmi um persónulegan verknað eða einstaklingsbundnari ákvörðun. Einmanalegri stund en síðasta andartakið í lífi sjálfsmorðingja er naumast unnt að hugsa sér. Durkheim tók sér eigi að síður fyrir hendur að sýna fram á að tíðni sjálfsmorða lyti félagslegum lögmálum og sýndi með skipulegum hætti og geysimikilli tölfræðivinnu og gagnasöfnun fram á samband milli félagslegra kringumstæðna og fjölda sjálfsmorða. Þannig skýrði hann í félagsfræðilegu ljósi mun á tíðni sjálfsmorða milli þjóðfélaga, kynja og trúarhópa og einnig árstíðabundnar sveiflur, sem stundum virtust fara á bug við skynsamlegar tilgátur. Hann beitti meðal annars fyrrnefndu siðrofshugtaki af mikilli hugkvæmni til að skýra eitt afbrigði sjálfsmorða þar sem hann sýndi fram á aukningu sjálfsmorða á upplausnar- og óvissutímum.

Rit Durkheims eru vissulega sífersk uppspretta frjórra hugmynda fyrir félagsfræðinga okkar daga. Ekki fer þó hjá því að nútímafræðimenn finni ýmislegt gagnrýnivert í vísindaritum, sem hafa fagnað aldarafmælinu, og verk Durkheims fara sannarlega ekki varhluta af slíkri ágjöf. Það breytir því þó ekki að rit hans og lífsverk allt er skínandi vottur um hverju einbeittur vilji, þrotlaus vinna og leiftrandi gáfur sameinuð í heilsteyptum einstaklingi geta áorkað.

Eins og geta má nærri hafa margir síðari tíma fræðimenn freistast til að bera saman þremenningana Marx, Durkheim og Weber, sem nefndir voru í upphafi þessa pistils. Þótt ekki sé svigrúm til að rekja þau skrif hér er vert að nefna að þessir gjörólíku einstaklingar litu allir á trúarbrögðin sem lykilþátt í lausn gátunnar um þjóðfélagið og allir voru þeir trúleysingjar.

Émile Durkheim lét mjög til sín taka í þjóðfélagsmálum og barðist meðal annars fyrir málstað Alfreds Dreyfusar (1859-1935). Hann gegndi lykilhlutverki í endurskoðun háskólakerfisins og var áhrifaríkur í frönskum menntamálum að öðru leyti. Hann var sannur föðurlandsvinur og þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á beitti hann kröftum sínum í þágu ættjarðarinnar. Einkasonur hans féll í stríðinu, mjög efnilegur fræðimaður, sem Durkheim hafði bundið miklar vonir við. Þessi mikli missir er talinn hafa flýtt dauða hans en hann lést aðeins 59 ára gamall haustið 1917.

Mynd:

...