Eineggja tvíburar eru líkir bæði í útliti og persónuleika. Þeir eru samt sem áður ekki alveg eins þrátt fyrir að erfðaefni þeirra sé nákvæmlega hið sama. Myndin er af leikkonunum Mary-Kate og Ashley Olsen.
Þótt fólk vísi of oft í persónuleika manna til að skýra hegðun eiga slíkar skýringar samt stundum rétt á sér; fólk er mismunandi að upplagi og munur á skapgerð fólks virðist koma fram frekar fljótt á lífsleiðinni. Til að skýra þennan mun hafa menn meðal annars kannað persónuleika eineggja og tvíeggja tvíbura. Rétt eins og með útlit mælist persónuleiki eineggja tvíbura almennt líkari en tvíeggja tvíbura. Flestir túlka þetta sem svo að erfðir ráði allnokkru um persónuleika fólks. Persónuleiki eineggja tvíbura er þó að sjálfsögðu ekki alveg nákvæmlega eins, svo umhverfisáhrif eru nokkur. Það kemur kannski á óvart, en fjölskylduaðstæður (uppeldi, félagsleg staða og annað slíkt) virðast ekki hafa mikil áhrif á helstu persónueinkenni, eins og hvort fólk sé innhverft eða úthverft eða hvort það sé jafnlynt eða tilfinningaríkt. Staða og reynsla hvers fjölskyldumeðlims virðist skipta mun meira máli, til dæmis hvar í systkinaröðinni menn eru og hvaða fólk þeir umgangast að jafnaði. Svo má ekki gleyma því að samspil er á milli áhrifa erfða og umhverfis á persónuleika; manneskja með tiltekna skapgerð sækir í ákveðnar aðstæður, sem aftur móta persónuleika hennar.
* Segja mætti að íslenska orðið erfðahyggja sé dálítið rangnefni, þar sem hugtakið nær yfir þá sem aðhyllast það að eiginleikar séu meðfæddir, óháð því hvort þeir telji að þeir erfist eða ekki.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Af hverju eru sumir gáfaðri en aðrir? eftir Sigurð J. Grétarsson.
- Ef maður elur stelpu upp eins og hún væri strákur, mundi hún þá ekkert vita og haga sér eins og strákur? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur.
- Getur persónuleiki fólks gerbreyst? eftir Jakob Smára.
- Hefur slæmt uppeldi (foreldrar hóta þér sífellt einhverju illu) áhrif á framtíð þína? eftir Freydísi Jónu Freysteinsdóttur.
- Hver er munurinn á heila karla og kvenna? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur.
- Gleitman, H., Fridlund, A. J. og Reisberg, D. (1999). Psychology (5. útgáfa). New York: Norton.
- Leahey, T. H. (2004). A history of psychology: Main currents in psychological thought (6. útgáfa). Upper Saddle River, NY: Pearson Prentice Hall.
- Myndin er af síðunni Switching goals.