Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er til sjúkdómur sem veldur því að maður sér aðeins í svarthvítu?

Heiða María Sigurðardóttir

Já, að minnsta kosti er til fólk sem getur aðeins greint á milli mismunandi birtustigs en ekki á milli lita. Slíka allitblindu (e. monochromacy) má yfirleitt rekja til galla í gerð augans eða bilunar í heilastöðvum sem sjá um litaskynjun.

Venjulegt mannsauga inniheldur tvær gerðir ljósnema: Keilur og stafi. Í mönnum eru til þrenns konar keilur sem hver um sig er næmust fyrir tiltekinni bylgjulengd ljóss. Keilurnar senda síðan boð til sjónsvæða heilans sem sameina þessar upplýsingar og túlka sem tiltekinn lit. Stafirnir eru aftur á móti aðeins af einni gerð og gagnast einungis til að greina birtustig ljóss en ekki lit þess.

Til er fólk sem hefur aðeins tvær tegundir keilna en ekki þrjár. Þetta veldur því að það verður litblint. Meira má fræðast um litblindu í svari Þuríðar Þorbjarnardóttur við spurningunni Hvað er litblinda? Orðið litblinda er samt svolítið rangnefni þar sem þetta fólk getur flest séð einhverja liti, það sér litina bara ekki á sama hátt og annað fólk. Dæmi er um konu sem aðeins var litblind á öðru auga; með heilbrigða auganu sá hún alla liti, en með litblinda auganu sá hún aðeins bláa, gráa og gula tóna, en hvorki rauða né græna.

Tvær tegundir keilna duga til þess að fólk sjái einhverja liti, þó ekki jafnmarga og það sæi með þremur. Fólk sem aðeins hefur eina tegund keilna getur hins vegar ekki greint á milli lita og er því allitblint (sumt bendir reyndar til að þetta fólk geti að einhverju leyti greint á milli lita með því að bera saman boð frá keilum og stöfum, sjá til dæmis Reitner, Sharpe og Zrenner, 1991).


Það væri leiðinlegt að geta ekki greint alla þessa fallegu liti.

Einnig er til fólk sem hefur hreinlega engar keilur, aðeins stafi. Þetta fólk er ekki aðeins allitblint, heldur hefur það einnig ýmis önnur einkenni; það er til dæmis ljósfælið (e. photophobic), hefur tinandi augu (e. nystagmus), sjónin er ekki skörp svo það á erfitt með að greina á milli smáatriða og það sér illa eða alls ekki það sem er beint fyrir framan það (í miðju sjónsviði) en betur til hliðanna. Ástæðan fyrir síðastnefnda atriðinu er að engir stafir eru í miðgróf (e. fovea) augans, staðnum þar sem ljós frá miðju sjónsviðinu fellur vanalega. Í venjulegu fólki væru þar keilur, en fólk með engar keilur hefur þar enga ljósnema.

Að lokum má nefna að til er fólk sem skynjar ekki liti á eðlilegan hátt, en ekki vegna þess að það vanti ljósnema heldur vegna þess að heilinn vinnur ekki á eðlilegan hátt úr þeim upplýsingum sem ljósnemarnir senda honum. Heimurinn birtist þessu fólki sem litlaus og daufur; allt virðist vera í gráum eða brúnum tónum. Það virðist því vera algjörlega litblint.

Þegar betur er að gáð er málið ekki svo einfalt því að þetta "litblinda" fólk virðist að einhverju leyti geta ráðið í upplýsingar um bylgjulengd ljóss, en venjulegt fólk skynjar mismunandi bylgjulengdir sem mismunandi liti. Þannig er til dæmis mögulegt að það geti notað bylgjulengd ljóss til að skynja form og hreyfingu, og greini skil á milli svæða af mismunandi bylgjulengd jafnvel þótt svæðin séu jafnbjört. Þetta fólk virðist því í sumum tilfellum hafa einhvers konar litaskynjun, en sú skynjun vekur aftur á móti enga meðvitaða upplifun á litum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir, frekara lesefni og mynd

  • Castro, E. (1998). Incomplete and complete achromatopsia.
  • Cole, G. G., Heywood, C., Kentridge, R., Fairholm, I. og Cowey, A. (2003). Attentional capture by colour and motion in cerebral achromatopsia. Neuropsychologia, 41, 1837-1846.
  • Cowey, A. og Heywood, C. A. (1995). There's more to colour than meets the eye. Behavioural Brain Research, 71, 89-100.
  • Gleitman, H., Fridlund, A. J. og Reisberg, D. (1999). Psychology (5. útgáfa). New York: Norton.
  • Reitner, A., Sharpe, L. T. og Zrenner, E. (1991). Is colour vision possible with only rods and blue-sensitive cones? Nature, 352(6338), 798-800.
  • Wissinger, B., Jägle, H., Kohl, S., Broghammer, M., Baumann, B., Hanna, D. B. o.fl. (1998). Human rod monochromacy: Linkage analysis and mapping of a cone photoreceptor expressed candidate gene on chromosome 2q11. Genomics, 51, 325-331.
  • Myndin er af Area-A: Shirakami fresh green festival (Shiragami Nishikaigan area).

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

5.4.2006

Spyrjandi

Rósa Tryggvadóttir, f. 1993

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Er til sjúkdómur sem veldur því að maður sér aðeins í svarthvítu?“ Vísindavefurinn, 5. apríl 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5796.

Heiða María Sigurðardóttir. (2006, 5. apríl). Er til sjúkdómur sem veldur því að maður sér aðeins í svarthvítu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5796

Heiða María Sigurðardóttir. „Er til sjúkdómur sem veldur því að maður sér aðeins í svarthvítu?“ Vísindavefurinn. 5. apr. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5796>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er til sjúkdómur sem veldur því að maður sér aðeins í svarthvítu?
Já, að minnsta kosti er til fólk sem getur aðeins greint á milli mismunandi birtustigs en ekki á milli lita. Slíka allitblindu (e. monochromacy) má yfirleitt rekja til galla í gerð augans eða bilunar í heilastöðvum sem sjá um litaskynjun.

Venjulegt mannsauga inniheldur tvær gerðir ljósnema: Keilur og stafi. Í mönnum eru til þrenns konar keilur sem hver um sig er næmust fyrir tiltekinni bylgjulengd ljóss. Keilurnar senda síðan boð til sjónsvæða heilans sem sameina þessar upplýsingar og túlka sem tiltekinn lit. Stafirnir eru aftur á móti aðeins af einni gerð og gagnast einungis til að greina birtustig ljóss en ekki lit þess.

Til er fólk sem hefur aðeins tvær tegundir keilna en ekki þrjár. Þetta veldur því að það verður litblint. Meira má fræðast um litblindu í svari Þuríðar Þorbjarnardóttur við spurningunni Hvað er litblinda? Orðið litblinda er samt svolítið rangnefni þar sem þetta fólk getur flest séð einhverja liti, það sér litina bara ekki á sama hátt og annað fólk. Dæmi er um konu sem aðeins var litblind á öðru auga; með heilbrigða auganu sá hún alla liti, en með litblinda auganu sá hún aðeins bláa, gráa og gula tóna, en hvorki rauða né græna.

Tvær tegundir keilna duga til þess að fólk sjái einhverja liti, þó ekki jafnmarga og það sæi með þremur. Fólk sem aðeins hefur eina tegund keilna getur hins vegar ekki greint á milli lita og er því allitblint (sumt bendir reyndar til að þetta fólk geti að einhverju leyti greint á milli lita með því að bera saman boð frá keilum og stöfum, sjá til dæmis Reitner, Sharpe og Zrenner, 1991).


Það væri leiðinlegt að geta ekki greint alla þessa fallegu liti.

Einnig er til fólk sem hefur hreinlega engar keilur, aðeins stafi. Þetta fólk er ekki aðeins allitblint, heldur hefur það einnig ýmis önnur einkenni; það er til dæmis ljósfælið (e. photophobic), hefur tinandi augu (e. nystagmus), sjónin er ekki skörp svo það á erfitt með að greina á milli smáatriða og það sér illa eða alls ekki það sem er beint fyrir framan það (í miðju sjónsviði) en betur til hliðanna. Ástæðan fyrir síðastnefnda atriðinu er að engir stafir eru í miðgróf (e. fovea) augans, staðnum þar sem ljós frá miðju sjónsviðinu fellur vanalega. Í venjulegu fólki væru þar keilur, en fólk með engar keilur hefur þar enga ljósnema.

Að lokum má nefna að til er fólk sem skynjar ekki liti á eðlilegan hátt, en ekki vegna þess að það vanti ljósnema heldur vegna þess að heilinn vinnur ekki á eðlilegan hátt úr þeim upplýsingum sem ljósnemarnir senda honum. Heimurinn birtist þessu fólki sem litlaus og daufur; allt virðist vera í gráum eða brúnum tónum. Það virðist því vera algjörlega litblint.

Þegar betur er að gáð er málið ekki svo einfalt því að þetta "litblinda" fólk virðist að einhverju leyti geta ráðið í upplýsingar um bylgjulengd ljóss, en venjulegt fólk skynjar mismunandi bylgjulengdir sem mismunandi liti. Þannig er til dæmis mögulegt að það geti notað bylgjulengd ljóss til að skynja form og hreyfingu, og greini skil á milli svæða af mismunandi bylgjulengd jafnvel þótt svæðin séu jafnbjört. Þetta fólk virðist því í sumum tilfellum hafa einhvers konar litaskynjun, en sú skynjun vekur aftur á móti enga meðvitaða upplifun á litum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir, frekara lesefni og mynd

  • Castro, E. (1998). Incomplete and complete achromatopsia.
  • Cole, G. G., Heywood, C., Kentridge, R., Fairholm, I. og Cowey, A. (2003). Attentional capture by colour and motion in cerebral achromatopsia. Neuropsychologia, 41, 1837-1846.
  • Cowey, A. og Heywood, C. A. (1995). There's more to colour than meets the eye. Behavioural Brain Research, 71, 89-100.
  • Gleitman, H., Fridlund, A. J. og Reisberg, D. (1999). Psychology (5. útgáfa). New York: Norton.
  • Reitner, A., Sharpe, L. T. og Zrenner, E. (1991). Is colour vision possible with only rods and blue-sensitive cones? Nature, 352(6338), 798-800.
  • Wissinger, B., Jägle, H., Kohl, S., Broghammer, M., Baumann, B., Hanna, D. B. o.fl. (1998). Human rod monochromacy: Linkage analysis and mapping of a cone photoreceptor expressed candidate gene on chromosome 2q11. Genomics, 51, 325-331.
  • Myndin er af Area-A: Shirakami fresh green festival (Shiragami Nishikaigan area).
...