Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hvaða heimildir eru til um Tyrkjaránið?

Þorsteinn Helgason

Tyrkjaránið er minnisstæður atburður sem átti sér stað sumarið 1627. Ránsmannaflokkar frá Norður-Afríku gerðu strandhögg í Grindavík, á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum, drápu um 50 manns en tóku hátt í 400 manns herfangi sem þeir seldu á þrælamörkuðum í heimahöfnum sínum. Um 50 manns voru keyptir aftur heim með lausnargjaldi en flestir dóu drottni sínum í Afríku.


Í Tyrkjaráninu árið 1627 gerðu ránsmenn frá Norður-Afríku strandhögg á Íslandi. Tréristan sýnir skip í sjóorustu á 16. öld. Hún er úr bókinni Saga norrænna þjóða eftir Svíann Olaus Magnus.

Tyrkjaránið er minnisstætt fyrir margra hluta sakir, meðal annars vegna þess að hér er um að ræða einu hernaðarárás sem gerð hefur verið á landið þar sem mannfall hefur orðið svo að heitið geti. En frumskilyrði fyrir því að það er í minnum haft er þó að mikið var skrifað um það fljótlega eftir að það gerðist og því er mikið um það vitað. Helstu íslensku ritin um ránið eru þessi:

  1. Rit Kláusar Eyjólfssonar mektarbónda og lögsögumanns í Austur-Landeyjum. Hann byggði rit sitt á frásögn þeirra sem komust af úr ráninu í Vestmanneyjum og á því sem hann sjálfur sá á vettvangi þar. Kláus skrifaði lýsingu sína strax eftir ránið og hún markast af skelfingu þeirra sem voru til frásagnar. Hann lýsti þó vígi séra Jóns Þorsteinssonar, annars tveggja presta í Eyjum, á yfirvegaðan hátt, sem helgisögu um píslarvott.
  2. Stutt frásögn skrifuð eftir skólapiltum frá Austurlandi sem voru í Skálholti veturinn eftir ránið.
  3. Lýsing (reisubók) séra Ólafs Egilssonar prests í Vestmannaeyjum en hann var hertekinn, færður með fjölskyldu sinni til Algeirsborgar (sem nú er höfuðborg Alsírs) en sleppt fljótlega. Hann var hvattur til að skrifa um reynslu sína og lýsti hann henni af yfirvegun og oft af nákvæmni, allt frá viðbúnaði við ránsmönnum í Vestmanneyjum til þess að honum var sleppt í Algeirsborg og hann fór þrautargöngu gegnum Evrópu til Kaupmannahafnar og loks til Íslands.
  4. Nokkur sendibréf Íslendinga frá Algeirsborg.
  5. Samantekt Björns Jónssonar frá Skarðsá sem var eins konar „hirðritari“ Þorláks Skúlasonar biskups á Hólum. Biskup bað hann að skrifa yfirlitssögu um ránið eftir þeim rituðu heimildum sem þá voru til. Sumt af því sem hann byggði á glataðist síðar.

Flest þessi rit gengu í handrituðum afskriftum manna á milli næstu aldir og breyttust nokkuð í meðförum þeirra. Frumritin eru ekki til en það getur verið merki um mikla notkun. Í byrjun 20. aldar tók Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður sig til og prentaði öll þau rit sem hann komst yfir um Tyrkjaránið og birti í bókinni Tyrkjaránið á Íslandi 1627. Þetta er biblía þeirra sem vilja kynna sér þetta mál í þaula.

Upplýsingar um aðdraganda Tyrkjaránsins og aðstæður allar í Alsír og Marokkó á dögum þess er að hafa í fjölmörgum reynslusögum Evrópumanna, opinberum bréfum og skýrslum, ekki síst dönskum, hollenskum, enskum og frönskum og hafa þessar upplýsingar verið dregnar nokkuð fram hin seinni ár.

Á Íslandi hefur Tyrkjaránið skilið eftir sig mikinn arf í þjóðsögum, örnefnum, skáldskap og í daglegri rökræðu og vísunum. Erlendis er þessi atburður svo til óþekktur.

Heimildir og mynd:

  • Tyrkjaránið á Íslandi. 1906-1909. Reykjavík, Sögufélag.
  • Þorsteinn Helgason (handrit og stjórn), Hjálmtýr Heiðdal (umsjón), Guðmundur Bjartmarsson (myndataka). 2002. Tyrkjaránið. Heimildamynd fyrir sjónvarp í þrem hlutum. Framleiðandi: Seylan.
  • Steinunn Jóhannesdóttir. 2001. Reisubók Guðríðar Símonardóttur. Skáldsaga byggð á heimildum. Reykjavík, Mál og menning.
  • Myndin er fengin af Ferlir.is.

Höfundur

Þorsteinn Helgason

dósent í sagnfræði og kennslu samfélagsgreina við KHÍ

Útgáfudagur

28.3.2006

Spyrjandi

Árni Ingi Jóhannesson

Tilvísun

Þorsteinn Helgason. „Hvaða heimildir eru til um Tyrkjaránið?“ Vísindavefurinn, 28. mars 2006. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5738.

Þorsteinn Helgason. (2006, 28. mars). Hvaða heimildir eru til um Tyrkjaránið? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5738

Þorsteinn Helgason. „Hvaða heimildir eru til um Tyrkjaránið?“ Vísindavefurinn. 28. mar. 2006. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5738>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða heimildir eru til um Tyrkjaránið?
Tyrkjaránið er minnisstæður atburður sem átti sér stað sumarið 1627. Ránsmannaflokkar frá Norður-Afríku gerðu strandhögg í Grindavík, á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum, drápu um 50 manns en tóku hátt í 400 manns herfangi sem þeir seldu á þrælamörkuðum í heimahöfnum sínum. Um 50 manns voru keyptir aftur heim með lausnargjaldi en flestir dóu drottni sínum í Afríku.


Í Tyrkjaráninu árið 1627 gerðu ránsmenn frá Norður-Afríku strandhögg á Íslandi. Tréristan sýnir skip í sjóorustu á 16. öld. Hún er úr bókinni Saga norrænna þjóða eftir Svíann Olaus Magnus.

Tyrkjaránið er minnisstætt fyrir margra hluta sakir, meðal annars vegna þess að hér er um að ræða einu hernaðarárás sem gerð hefur verið á landið þar sem mannfall hefur orðið svo að heitið geti. En frumskilyrði fyrir því að það er í minnum haft er þó að mikið var skrifað um það fljótlega eftir að það gerðist og því er mikið um það vitað. Helstu íslensku ritin um ránið eru þessi:

  1. Rit Kláusar Eyjólfssonar mektarbónda og lögsögumanns í Austur-Landeyjum. Hann byggði rit sitt á frásögn þeirra sem komust af úr ráninu í Vestmanneyjum og á því sem hann sjálfur sá á vettvangi þar. Kláus skrifaði lýsingu sína strax eftir ránið og hún markast af skelfingu þeirra sem voru til frásagnar. Hann lýsti þó vígi séra Jóns Þorsteinssonar, annars tveggja presta í Eyjum, á yfirvegaðan hátt, sem helgisögu um píslarvott.
  2. Stutt frásögn skrifuð eftir skólapiltum frá Austurlandi sem voru í Skálholti veturinn eftir ránið.
  3. Lýsing (reisubók) séra Ólafs Egilssonar prests í Vestmannaeyjum en hann var hertekinn, færður með fjölskyldu sinni til Algeirsborgar (sem nú er höfuðborg Alsírs) en sleppt fljótlega. Hann var hvattur til að skrifa um reynslu sína og lýsti hann henni af yfirvegun og oft af nákvæmni, allt frá viðbúnaði við ránsmönnum í Vestmanneyjum til þess að honum var sleppt í Algeirsborg og hann fór þrautargöngu gegnum Evrópu til Kaupmannahafnar og loks til Íslands.
  4. Nokkur sendibréf Íslendinga frá Algeirsborg.
  5. Samantekt Björns Jónssonar frá Skarðsá sem var eins konar „hirðritari“ Þorláks Skúlasonar biskups á Hólum. Biskup bað hann að skrifa yfirlitssögu um ránið eftir þeim rituðu heimildum sem þá voru til. Sumt af því sem hann byggði á glataðist síðar.

Flest þessi rit gengu í handrituðum afskriftum manna á milli næstu aldir og breyttust nokkuð í meðförum þeirra. Frumritin eru ekki til en það getur verið merki um mikla notkun. Í byrjun 20. aldar tók Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður sig til og prentaði öll þau rit sem hann komst yfir um Tyrkjaránið og birti í bókinni Tyrkjaránið á Íslandi 1627. Þetta er biblía þeirra sem vilja kynna sér þetta mál í þaula.

Upplýsingar um aðdraganda Tyrkjaránsins og aðstæður allar í Alsír og Marokkó á dögum þess er að hafa í fjölmörgum reynslusögum Evrópumanna, opinberum bréfum og skýrslum, ekki síst dönskum, hollenskum, enskum og frönskum og hafa þessar upplýsingar verið dregnar nokkuð fram hin seinni ár.

Á Íslandi hefur Tyrkjaránið skilið eftir sig mikinn arf í þjóðsögum, örnefnum, skáldskap og í daglegri rökræðu og vísunum. Erlendis er þessi atburður svo til óþekktur.

Heimildir og mynd:

  • Tyrkjaránið á Íslandi. 1906-1909. Reykjavík, Sögufélag.
  • Þorsteinn Helgason (handrit og stjórn), Hjálmtýr Heiðdal (umsjón), Guðmundur Bjartmarsson (myndataka). 2002. Tyrkjaránið. Heimildamynd fyrir sjónvarp í þrem hlutum. Framleiðandi: Seylan.
  • Steinunn Jóhannesdóttir. 2001. Reisubók Guðríðar Símonardóttur. Skáldsaga byggð á heimildum. Reykjavík, Mál og menning.
  • Myndin er fengin af Ferlir.is.
...