Ein leið til að kanna gagnsemi svefns er að athuga hvað gerist þegar sofið er of lítið. Svefnleysi hefur óæskileg áhrif á líkamsstarfsemi bæði manna og dýra. Vansvefta dýr verða veikburða og missa getuna til að stjórna líkamshita sínum. Efnaskipti verða hraðari svo dýrin þurfa að éta mun meira en áður, en þau horast samt niður. Að lokum deyja dýrin. Flest bendir því til þess að svefn sé dýrum afar mikilvægur – ef ekki lífsnauðsynlegur – eins og lesa má um í svarinu Hvers vegna, eftir milljóna ára þróun, þurfa flestar lífverur að sofa? eftir Jón Má Halldórsson. Af siðferðisástæðum hafa ekki verið gerðar rannsóknir á því hvort langvarandi svefnleysi dragi fólk að lokum til dauða. Rannsóknir á mönnum hafa samt leitt í ljós að fólk sem ekki fær að sofa verður slappt og sljótt og líkamshiti þess breytist. Athyglisvert er að svefnleysi hefur yfirleitt ekki mikil áhrif á getu manna til líkamlegrar vinnu. Sömuleiðis hefur komið í ljós að fólk sem hreyfir sig mikið þarf yfirleitt ekki á meiri svefni að halda en kyrrsetufólk. Ólíkt hugmyndum almennings virðist aðaltilgangur svefns því ekki endilega vera að hvíla líkamann; hann er hægt að hvíla með því að leggjast upp í sófa án þess að sofna. Flestir hallast fremur að því að svefns sé aðallega þörf til að endurnæra huga og heila.
- Af hverju ganga sumir í svefni? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur.
- Af hverju kippist fólk oft við þegar það er að sofna? eftir Valtý Stefánsson Thors.
- Breytist svefnþörf með aldri fólks? eftir Magnús Jóhannsson.
- Hvað er drómasýki? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur.
- Hvað er martröð og hvað orsakar hana? eftir Kristófer Þorleifsson.
- Hvers vegna er bókstafurinn z notaður til að tákna svefn í myndasögum? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson.
- Sofa fiskar? eftir Jón Má Halldórsson.
- Sofa hákarlar og hvalir? eftir Jón Má Halldórsson.
- Sofa skordýr? Ef svo er hversu marga klukkutíma á sólarhring? eftir Jón Má Halldórsson.
- Aldís Guðmundsdóttir og Jörgen Pind (2003). Almenn sálfræði: Hugur, heili, hátterni. Reykjavík: Mál og menning.
- Carlson, N. R. (2001). Physiology of behavior (7. útgáfa). Needham Heights, MA: Allyn and Bacon.
- Guerilla film fest. Úr myndinni Home Game.