Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getur fólk sem missir útlim enn fundið fyrir honum þótt hann vanti?

Heiða María Sigurðardóttir

Hægt er að finna fyrir útlim sem fólk hefur misst eða fæðst án og nefnist það að hafa vofuverk eða gerningaverk. Á ensku kallast útlimurinn sem er horfinn 'phantom limb' og á íslensku draugalimur. Draugalimur er nokkuð algengur þar sem um 70% fólks sem missir útlim finnur fyrir honum áfram. Algengast er að fólk finni til í draugalimnum en það getur einnig fundið fyrir hita, kulda, þrýstingi og kláða. Skynjunin getur jafnvel verið svo sterk að fólk reyni að grípa um hluti með draugahönd eða stíga í draugafót, án mikils árangurs að sjálfsögðu

Eitt sinn var talið að skýringin á draugalimum lægi í því að taugaendar í útlimastubbnum sendu enn frá sér skynboð rétt eins og útlimurinn væri til staðar. Til að lækna sársauka í draugalim reyndu menn því með ýmsum ráðum að koma í veg fyrir að þessi boð bærust heilanum, til að mynda með því að skera á taugarnar frá útlimastubbnum eða laska skyntaugabrautir í mænu eða heila. Þetta hafði hins vegar yfirleitt engin langtímaáhrif á sársaukaskynjun í draugalim sjúklingsins og því var farið að leita annarra hugsanlegra skýringa.

Nú er almennt talið að skýringuna á draugalimum megi finna í gerð heilans. Þessu til stuðnings má nefna að fólk sem fæðist án útlims getur fundið fyrir draugaútlim, nokkuð sem erfitt er að skýra með virkni tauga sem eitt sinn tengdust útlimnum því hann var jú aldrei til staðar. Einnig er áhugavert að þegar fólk missir útlim verður oft allvíðtæk enduruppbygging í heilanum. Því meiri sem þessi enduruppbygging er, þeim mun líklegra er að fólk finni fyrir einhverju í draugalimnum, svo sem sársauka.

Þegar boð hætta að berast frá tilteknum útlimum til skynsvæða heilans, fara þessi heilasvæði oft að svara skynboðum frá öðrum svæðum líkamans. Ef fólk missir til að mynda aðra höndina virðist handarskynsvæðið taka að einhverju leyti við hlutverki andlitsskynsvæðisins, en þessi tvö svæði eru aðliggjandi. Þegar kinn slíks sjúklings er snert finnur hann því fyrir snertingu við kinnina en getur á sama tíma fundist að draugaþumallinn sé snertur; snerting efri varar myndi sömuleiðis samtímis vekja upp skynjun um snertingu á draugavísifingri og svo framvegis. Meira að segja er dæmi um mann sem missti fótlegg en fann fyrir fullnægingu í draugafætinum þegar kynfæri hans voru örvuð. Þetta skýrist að öllum líkindum af því að skynsvæði fóta og kynfæra liggja hvort að öðru, og fótaskynsvæðið hefur því farið að taka við upplýsingum frá kynfærunum.

Að lokum má geta þess að „hreyfing“ draugaútlims getur haft áhrif á hreyfigetu samsvarandi eðlilegs útlims. Margir kannast við að erfitt er að gera eitthvað tvennt ólíkt með sitthvorri hendi, svo sem að klappa sér á koll með annarri hendinni en strjúka með hringhreyfingum á sér magann með hinni. Sjúklingur með draugahönd var látinn leysa svipað verkefni, eða að teikna línu með eðlilegu hendinni á meðan hann „gerði“ hringhreyfingar með fingri draugahandarinnar. Í ljós kom að sjúklingurinn truflaðist jafnmikið við þetta og annað fólk sem hafði raunverulegan fingur til að hreyfa. Ef fólk vill kynna sér þessa rannsókn frekar getur það lesið um hana í grein Elisabethar A. Franz og Vilayanurs Ramachandrans, Bimanual coupling in amputees with phantom limbs.

Að lokum má benda á skylt svar eftir Guðrúnu Kvaran og Þorstein Vilhjálmsson Hvað er draugaverkur? Er þetta fyrirbæri til eða er þetta bara kerlingasögur?

Heimildir og myndir

  • Aldís Guðmundsdóttir og Jörgen Pind (2003). Almenn sálfræði: Hugur, heili, hátterni. Reykjavík: Mál og menning.
  • Carlson, N. R. (2001). Physiology of behavior (7. útgáfa). Needham Heights, MA: Allyn and Bacon.
  • Goldstein, E. B. (2002). Sensation and perception. Pacific Grove, CA: Wadsworth.
  • Myndirnar eru af From Ramachandrans notebook. NOVA: Science programming on air and online. Þar er einnig að finna frekara lesefni um draugalimi.

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

15.8.2005

Spyrjandi

Kristján Arason, f. 1991

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Getur fólk sem missir útlim enn fundið fyrir honum þótt hann vanti?“ Vísindavefurinn, 15. ágúst 2005, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5198.

Heiða María Sigurðardóttir. (2005, 15. ágúst). Getur fólk sem missir útlim enn fundið fyrir honum þótt hann vanti? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5198

Heiða María Sigurðardóttir. „Getur fólk sem missir útlim enn fundið fyrir honum þótt hann vanti?“ Vísindavefurinn. 15. ágú. 2005. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5198>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getur fólk sem missir útlim enn fundið fyrir honum þótt hann vanti?
Hægt er að finna fyrir útlim sem fólk hefur misst eða fæðst án og nefnist það að hafa vofuverk eða gerningaverk. Á ensku kallast útlimurinn sem er horfinn 'phantom limb' og á íslensku draugalimur. Draugalimur er nokkuð algengur þar sem um 70% fólks sem missir útlim finnur fyrir honum áfram. Algengast er að fólk finni til í draugalimnum en það getur einnig fundið fyrir hita, kulda, þrýstingi og kláða. Skynjunin getur jafnvel verið svo sterk að fólk reyni að grípa um hluti með draugahönd eða stíga í draugafót, án mikils árangurs að sjálfsögðu

Eitt sinn var talið að skýringin á draugalimum lægi í því að taugaendar í útlimastubbnum sendu enn frá sér skynboð rétt eins og útlimurinn væri til staðar. Til að lækna sársauka í draugalim reyndu menn því með ýmsum ráðum að koma í veg fyrir að þessi boð bærust heilanum, til að mynda með því að skera á taugarnar frá útlimastubbnum eða laska skyntaugabrautir í mænu eða heila. Þetta hafði hins vegar yfirleitt engin langtímaáhrif á sársaukaskynjun í draugalim sjúklingsins og því var farið að leita annarra hugsanlegra skýringa.

Nú er almennt talið að skýringuna á draugalimum megi finna í gerð heilans. Þessu til stuðnings má nefna að fólk sem fæðist án útlims getur fundið fyrir draugaútlim, nokkuð sem erfitt er að skýra með virkni tauga sem eitt sinn tengdust útlimnum því hann var jú aldrei til staðar. Einnig er áhugavert að þegar fólk missir útlim verður oft allvíðtæk enduruppbygging í heilanum. Því meiri sem þessi enduruppbygging er, þeim mun líklegra er að fólk finni fyrir einhverju í draugalimnum, svo sem sársauka.

Þegar boð hætta að berast frá tilteknum útlimum til skynsvæða heilans, fara þessi heilasvæði oft að svara skynboðum frá öðrum svæðum líkamans. Ef fólk missir til að mynda aðra höndina virðist handarskynsvæðið taka að einhverju leyti við hlutverki andlitsskynsvæðisins, en þessi tvö svæði eru aðliggjandi. Þegar kinn slíks sjúklings er snert finnur hann því fyrir snertingu við kinnina en getur á sama tíma fundist að draugaþumallinn sé snertur; snerting efri varar myndi sömuleiðis samtímis vekja upp skynjun um snertingu á draugavísifingri og svo framvegis. Meira að segja er dæmi um mann sem missti fótlegg en fann fyrir fullnægingu í draugafætinum þegar kynfæri hans voru örvuð. Þetta skýrist að öllum líkindum af því að skynsvæði fóta og kynfæra liggja hvort að öðru, og fótaskynsvæðið hefur því farið að taka við upplýsingum frá kynfærunum.

Að lokum má geta þess að „hreyfing“ draugaútlims getur haft áhrif á hreyfigetu samsvarandi eðlilegs útlims. Margir kannast við að erfitt er að gera eitthvað tvennt ólíkt með sitthvorri hendi, svo sem að klappa sér á koll með annarri hendinni en strjúka með hringhreyfingum á sér magann með hinni. Sjúklingur með draugahönd var látinn leysa svipað verkefni, eða að teikna línu með eðlilegu hendinni á meðan hann „gerði“ hringhreyfingar með fingri draugahandarinnar. Í ljós kom að sjúklingurinn truflaðist jafnmikið við þetta og annað fólk sem hafði raunverulegan fingur til að hreyfa. Ef fólk vill kynna sér þessa rannsókn frekar getur það lesið um hana í grein Elisabethar A. Franz og Vilayanurs Ramachandrans, Bimanual coupling in amputees with phantom limbs.

Að lokum má benda á skylt svar eftir Guðrúnu Kvaran og Þorstein Vilhjálmsson Hvað er draugaverkur? Er þetta fyrirbæri til eða er þetta bara kerlingasögur?

Heimildir og myndir

  • Aldís Guðmundsdóttir og Jörgen Pind (2003). Almenn sálfræði: Hugur, heili, hátterni. Reykjavík: Mál og menning.
  • Carlson, N. R. (2001). Physiology of behavior (7. útgáfa). Needham Heights, MA: Allyn and Bacon.
  • Goldstein, E. B. (2002). Sensation and perception. Pacific Grove, CA: Wadsworth.
  • Myndirnar eru af From Ramachandrans notebook. NOVA: Science programming on air and online. Þar er einnig að finna frekara lesefni um draugalimi.
...