Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju er seinna flóðið stærra en það fyrra á sólarhringnum á sumrin, en öfugt á veturna?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Þetta stafar í rauninni af möndulhalla jarðar. Á sumrin hallast norðurendi jarðmöndulsins í átt að sól en bæði sól og tungl eru í jarðbrautarsléttunni. Önnur sjávarfallabungan er þá á norðurhveli og hin á suðurhveli og sú fyrrnefnda veldur talsvert meira flóði hér en hin síðarnefnda.


Myndin er stílfærð en sýnir meginatriði þess sem þarf til að skilja það sem spurt er um. Afstaða sólar og tungls er eins og við stórstreymi um hásumar nema hvað tunglið gæti allt eins verið hægra megin við jörðina á myndinni. Fjólubláa sléttan á myndinni táknar jarðbrautarsléttuna sem sól og jörð fylgja og tunglið líka nokkurn veginn. Blái liturinn sýnir ýkta mynd af sjávarfallabungunum og við sjáum glöggt að önnur þeirra kemur greinilega fram hér en hin síður. Um hávetur snýr Norðurpóll jarðar frá sól og hærra flóðið verður þá að morgni. Á jafndægrum snýr möndullinn hornrétt á stefnuna til sólar og um leið til tungls á stórstreymi því að tunglið er þá á sömu línu og jörð og tungl. Munurinn á árdegis- og síðdegisflóði er þá miklu minni en um sólstöður.

Sjávarfallabylgjurnar eru tvær og vísa í gagnstæðar áttir en eru þó báðar í jarðbrautarsléttunni eins og sól og tungl. (Tunglið getur að vísu vikið 5° frá þessari sléttu en það skiptir engu meginmáli hér). Á sumrin er önnur bylgjan á norðurhveli en hin á suðurhveli. Hér í Norður-Atlantshafinu gætir annarrar því mikið en hinnar lítið. Sú öflugri er nálægt hámarki þegar við förum lengst í suður eða næst jarðabrautarsléttunni en það gerist einmitt á hádegi samkvæmt sólartíma sem er um kl. 13:30 hér í Reykjavík. Við þann tíma bætist svo almenn töf bylgjunnar, hafnartíminn, sem getið er í svari sama höfundar við spurningunni Af hverju er ekki flóð og fjara alltaf á sama tíma?

Á veturna snýst þetta við. Norðurenda mönduls hallar frá sól og við erum nær hápunkti bylgjunnar sem snýr frá sól, þannig að stærra flóðið verður yfirleitt á fyrri hluta sólarhringsins. Þess ber þó að geta að þessi lýsing er ekki alveg einhlít vegna þess að fleiri atriði hafa áhrif á sjávarföll.

Ef möndulhalli jarðar væri enginn mundi tunglið alltaf vera yfir miðbaug og sjávarfallabylgjan yrði mest þar en minni til beggja handa, til suðurs og norðurs. Báðar bylgjur tunglhringsins yrðu jafnstórar á hverjum stað allt árið.

Í töflum Almanaksins er flóðhæð aðeins sýnd við stórstreymi en hún kemur heim við það sem hér hefur verið sagt.

Heimildir:
  • Unnsteinn Stefánsson Haffræði II (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1994), 24. kafli, bls. 235-267.
  • Almanak fyrir Ísland, Reykjavík: Háskóli Íslands. Kemur út árlega.

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

5.6.2000

Spyrjandi

Lilja Gunnarsdóttir

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju er seinna flóðið stærra en það fyrra á sólarhringnum á sumrin, en öfugt á veturna?“ Vísindavefurinn, 5. júní 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=486.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 5. júní). Af hverju er seinna flóðið stærra en það fyrra á sólarhringnum á sumrin, en öfugt á veturna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=486

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju er seinna flóðið stærra en það fyrra á sólarhringnum á sumrin, en öfugt á veturna?“ Vísindavefurinn. 5. jún. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=486>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju er seinna flóðið stærra en það fyrra á sólarhringnum á sumrin, en öfugt á veturna?
Þetta stafar í rauninni af möndulhalla jarðar. Á sumrin hallast norðurendi jarðmöndulsins í átt að sól en bæði sól og tungl eru í jarðbrautarsléttunni. Önnur sjávarfallabungan er þá á norðurhveli og hin á suðurhveli og sú fyrrnefnda veldur talsvert meira flóði hér en hin síðarnefnda.


Myndin er stílfærð en sýnir meginatriði þess sem þarf til að skilja það sem spurt er um. Afstaða sólar og tungls er eins og við stórstreymi um hásumar nema hvað tunglið gæti allt eins verið hægra megin við jörðina á myndinni. Fjólubláa sléttan á myndinni táknar jarðbrautarsléttuna sem sól og jörð fylgja og tunglið líka nokkurn veginn. Blái liturinn sýnir ýkta mynd af sjávarfallabungunum og við sjáum glöggt að önnur þeirra kemur greinilega fram hér en hin síður. Um hávetur snýr Norðurpóll jarðar frá sól og hærra flóðið verður þá að morgni. Á jafndægrum snýr möndullinn hornrétt á stefnuna til sólar og um leið til tungls á stórstreymi því að tunglið er þá á sömu línu og jörð og tungl. Munurinn á árdegis- og síðdegisflóði er þá miklu minni en um sólstöður.

Sjávarfallabylgjurnar eru tvær og vísa í gagnstæðar áttir en eru þó báðar í jarðbrautarsléttunni eins og sól og tungl. (Tunglið getur að vísu vikið 5° frá þessari sléttu en það skiptir engu meginmáli hér). Á sumrin er önnur bylgjan á norðurhveli en hin á suðurhveli. Hér í Norður-Atlantshafinu gætir annarrar því mikið en hinnar lítið. Sú öflugri er nálægt hámarki þegar við förum lengst í suður eða næst jarðabrautarsléttunni en það gerist einmitt á hádegi samkvæmt sólartíma sem er um kl. 13:30 hér í Reykjavík. Við þann tíma bætist svo almenn töf bylgjunnar, hafnartíminn, sem getið er í svari sama höfundar við spurningunni Af hverju er ekki flóð og fjara alltaf á sama tíma?

Á veturna snýst þetta við. Norðurenda mönduls hallar frá sól og við erum nær hápunkti bylgjunnar sem snýr frá sól, þannig að stærra flóðið verður yfirleitt á fyrri hluta sólarhringsins. Þess ber þó að geta að þessi lýsing er ekki alveg einhlít vegna þess að fleiri atriði hafa áhrif á sjávarföll.

Ef möndulhalli jarðar væri enginn mundi tunglið alltaf vera yfir miðbaug og sjávarfallabylgjan yrði mest þar en minni til beggja handa, til suðurs og norðurs. Báðar bylgjur tunglhringsins yrðu jafnstórar á hverjum stað allt árið.

Í töflum Almanaksins er flóðhæð aðeins sýnd við stórstreymi en hún kemur heim við það sem hér hefur verið sagt.

Heimildir:
  • Unnsteinn Stefánsson Haffræði II (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1994), 24. kafli, bls. 235-267.
  • Almanak fyrir Ísland, Reykjavík: Háskóli Íslands. Kemur út árlega.
...