Sólin Sólin Rís 10:19 • sest 17:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:12 • Sest 13:43 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:52 • Síðdegis: 18:09 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 12:11 • Síðdegis: 24:13 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:19 • sest 17:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:12 • Sest 13:43 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:52 • Síðdegis: 18:09 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 12:11 • Síðdegis: 24:13 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju er ekki flóð og fjara alltaf á sama tíma?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Þetta er fyrst og fremst vegna þess að það er tunglið en ekki sólin sem ræður mestu um dægursveiflu sjávarfallanna; meginbylgja sjávarfallanna fylgir tunglinu á sífelldu ferðalagi þess miðað við yfirborð jarðar. "Tunglhringurinn" er ekki 24 klukkustundir heldur 24 stundir og 50 mínútur og þess vegna færast flóð og fjara að meðaltali sem því nemur frá degi til dags. Færslan víkur þó oft talsvert frá þessu meðaltali vegna áhrifa frá öðrum þáttum en sjávarfallakröftum tunglsins.


Sjávarföll eru í rauninni yfirleitt tvisvar á hverjum "tunglhring", það er að segja tvisvar í hverri umferð tungls um jörð, miðað við yfirborð jarðar. Tunglið fer einn hring um jörð miðað við sól á 29,53 sólarhringum, í sömu stefnu og jörðin snýst um möndul. Á þeim tíma hefur sólin farið 29,53 umferðir um himininn en tunglið einni umferð minna, eða 28,53 umferðir. Hver umferð hefur því tekið
29,53 sólarhringa/28,53 = 1,035 sólarhringa = 1 sólarhring og 50,5 mínútur
sem kemur heim við fyrrgreinda færslu sjávarfallanna frá degi til dags.

Við minnum hér á svar sama höfundar við spurningunum Hvers vegna gætir sjávarfalla tvisvar á sólarhring? og Af hverju er seinna flóðið stærra en það fyrra á sólahringnum á sumrin, en öfugt á veturna? Í þessum svörum og því sem sagt er hér á undan eru sjávarföllin rakin á tiltölulega einfaldan hátt til göngu tungls og sólar miðað við jörðina og til kraftanna frá þeim.

Það sem þar er sagt miðast allt við að heimshöfin væru tiltölulega einföld og hafbungan gæti hreyfst án verulegra hindrana frá austri til vesturs í sífellu. Þessu er vitaskuld ekki svo varið í reynd, heldur girða meginlönd fyrir slíkt. Þess vegna eru sjávarföll á hverjum stað um sig oft og tíðum talsvert flóknari en hér var lýst.

Í fyrsta lagi verður vatnið í hverju úthafi um sig fyrir mótstöðu frá botni og eyjum og hún veldur því að hafbungan fer fram úr tunglgöngunni þannig að háflóð er oft og tíðum áður en tungl er í hágöngu í suðri eða í lággöngu í norðri undir sjóndeildarhring hér á norðurhveli. Þetta er hliðstætt því sem verður í öðrum þvinguðum og deyfðum sveiflum sem svo eru kallaðar í eðlisfræði. Tímamunurinn sem um er að ræða nefnist hafnartími og er til dæmis mjög mismunandi eftir stöðum á Íslandi. Fráviki hafnartímans frá Reykjavík er lýst með sérstakri töflu í Almanaki Háskóla Íslands sem kemur út árlega. Nánar er fjallað um hafnartímann í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er hafnartími?

Í öðru lagi mótast sjávarfallabylgjurnar á hverju afmörkuðu hafsvæði af lögun þess og stærð. Til að skilja meginatriðin í þessu getum við tekið bandspotta, hengt í hann lóð, haldið í hinn endann og látið lóðið hanga en fært síðan efri endann fram og aftur ýmist hratt eða hægt, eða með mismunandi tíðni eins og það er kallað. Við sjáum þá að þessi búnaður, sem er auðvitað ekkert annað en pendúll, "svarar" áreitinu frá hreyfingu handarinnar mjög misjafnlega eftir tíðni hreyfingarinnar. Og ef við styttum eða lengjum pendúlinn þá breytist um leið tíðnin sem gefur mesta svörun.

Hin ýmsu hafsvæði jarðar eru hér eins og mismunandi pendúlar sem svara sama áreiti sjávarfallakraftanna með mismunandi hætti. Sums staðar gætir sjávarfalla lítið eins og til dæmis í Miðjarðarhafinu sem er afmarkað innhaf með veikri tengingu við úthafið um Gíbraltarsund. Annars staðar magnast fljóðbylgjan upp eins og sums staðar við strendur Bretlands eða við Fundy-flóa á austurströnd Norður-Ameríku þar sem sjávarföll eru mest í heimi.

Enn er þess að geta að á afmörkuðum hafsvæðum geta myndast svokallaðar stæðar bylgjur svipað og gerist í fiðlustreng eða orgelpípu. Við getum líka með lagni búið til slíkar bylgjur í baðkerinu heima hjá okkur. Í stæðum bylgjum er sveiflan engin á tilteknum stöðum sem kallast hnútar eða hnútapunktar en hún er í hámarki á öðrum stöðum sem nefnast bugpunktar. Hnútapunktar af þessu tagi eru til dæmis á tilteknum stöðum í Norður-Atlantshafinu, þar á meðal við Færeyjar. Þar eru breytingar á sjávarhæð litlar en á hinn bóginn verða þá sjávarfallastraumar miklir vegna þess að sjávarhæð er þá mjög breytileg eftir stað.

Hið flókna samspil áreitisins og aðstæðnanna veldur því einnig að þeir staðir eru til á jörðinni þar sem sjávarföll eru þrátt fyrir allt aðeins einu sinni á dag. Dæmi um þetta eru til að mynda við strendur Suður-Kína og Víetnam, og í Mexíkó-flóa.

Heimildir:

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

5.6.2000

Spyrjandi

Hlynur Ásgeirsson, fæddur 1982

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju er ekki flóð og fjara alltaf á sama tíma?“ Vísindavefurinn, 5. júní 2000, sótt 28. janúar 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=485.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 5. júní). Af hverju er ekki flóð og fjara alltaf á sama tíma? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=485

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju er ekki flóð og fjara alltaf á sama tíma?“ Vísindavefurinn. 5. jún. 2000. Vefsíða. 28. jan. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=485>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju er ekki flóð og fjara alltaf á sama tíma?
Þetta er fyrst og fremst vegna þess að það er tunglið en ekki sólin sem ræður mestu um dægursveiflu sjávarfallanna; meginbylgja sjávarfallanna fylgir tunglinu á sífelldu ferðalagi þess miðað við yfirborð jarðar. "Tunglhringurinn" er ekki 24 klukkustundir heldur 24 stundir og 50 mínútur og þess vegna færast flóð og fjara að meðaltali sem því nemur frá degi til dags. Færslan víkur þó oft talsvert frá þessu meðaltali vegna áhrifa frá öðrum þáttum en sjávarfallakröftum tunglsins.


Sjávarföll eru í rauninni yfirleitt tvisvar á hverjum "tunglhring", það er að segja tvisvar í hverri umferð tungls um jörð, miðað við yfirborð jarðar. Tunglið fer einn hring um jörð miðað við sól á 29,53 sólarhringum, í sömu stefnu og jörðin snýst um möndul. Á þeim tíma hefur sólin farið 29,53 umferðir um himininn en tunglið einni umferð minna, eða 28,53 umferðir. Hver umferð hefur því tekið
29,53 sólarhringa/28,53 = 1,035 sólarhringa = 1 sólarhring og 50,5 mínútur
sem kemur heim við fyrrgreinda færslu sjávarfallanna frá degi til dags.

Við minnum hér á svar sama höfundar við spurningunum Hvers vegna gætir sjávarfalla tvisvar á sólarhring? og Af hverju er seinna flóðið stærra en það fyrra á sólahringnum á sumrin, en öfugt á veturna? Í þessum svörum og því sem sagt er hér á undan eru sjávarföllin rakin á tiltölulega einfaldan hátt til göngu tungls og sólar miðað við jörðina og til kraftanna frá þeim.

Það sem þar er sagt miðast allt við að heimshöfin væru tiltölulega einföld og hafbungan gæti hreyfst án verulegra hindrana frá austri til vesturs í sífellu. Þessu er vitaskuld ekki svo varið í reynd, heldur girða meginlönd fyrir slíkt. Þess vegna eru sjávarföll á hverjum stað um sig oft og tíðum talsvert flóknari en hér var lýst.

Í fyrsta lagi verður vatnið í hverju úthafi um sig fyrir mótstöðu frá botni og eyjum og hún veldur því að hafbungan fer fram úr tunglgöngunni þannig að háflóð er oft og tíðum áður en tungl er í hágöngu í suðri eða í lággöngu í norðri undir sjóndeildarhring hér á norðurhveli. Þetta er hliðstætt því sem verður í öðrum þvinguðum og deyfðum sveiflum sem svo eru kallaðar í eðlisfræði. Tímamunurinn sem um er að ræða nefnist hafnartími og er til dæmis mjög mismunandi eftir stöðum á Íslandi. Fráviki hafnartímans frá Reykjavík er lýst með sérstakri töflu í Almanaki Háskóla Íslands sem kemur út árlega. Nánar er fjallað um hafnartímann í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er hafnartími?

Í öðru lagi mótast sjávarfallabylgjurnar á hverju afmörkuðu hafsvæði af lögun þess og stærð. Til að skilja meginatriðin í þessu getum við tekið bandspotta, hengt í hann lóð, haldið í hinn endann og látið lóðið hanga en fært síðan efri endann fram og aftur ýmist hratt eða hægt, eða með mismunandi tíðni eins og það er kallað. Við sjáum þá að þessi búnaður, sem er auðvitað ekkert annað en pendúll, "svarar" áreitinu frá hreyfingu handarinnar mjög misjafnlega eftir tíðni hreyfingarinnar. Og ef við styttum eða lengjum pendúlinn þá breytist um leið tíðnin sem gefur mesta svörun.

Hin ýmsu hafsvæði jarðar eru hér eins og mismunandi pendúlar sem svara sama áreiti sjávarfallakraftanna með mismunandi hætti. Sums staðar gætir sjávarfalla lítið eins og til dæmis í Miðjarðarhafinu sem er afmarkað innhaf með veikri tengingu við úthafið um Gíbraltarsund. Annars staðar magnast fljóðbylgjan upp eins og sums staðar við strendur Bretlands eða við Fundy-flóa á austurströnd Norður-Ameríku þar sem sjávarföll eru mest í heimi.

Enn er þess að geta að á afmörkuðum hafsvæðum geta myndast svokallaðar stæðar bylgjur svipað og gerist í fiðlustreng eða orgelpípu. Við getum líka með lagni búið til slíkar bylgjur í baðkerinu heima hjá okkur. Í stæðum bylgjum er sveiflan engin á tilteknum stöðum sem kallast hnútar eða hnútapunktar en hún er í hámarki á öðrum stöðum sem nefnast bugpunktar. Hnútapunktar af þessu tagi eru til dæmis á tilteknum stöðum í Norður-Atlantshafinu, þar á meðal við Færeyjar. Þar eru breytingar á sjávarhæð litlar en á hinn bóginn verða þá sjávarfallastraumar miklir vegna þess að sjávarhæð er þá mjög breytileg eftir stað.

Hið flókna samspil áreitisins og aðstæðnanna veldur því einnig að þeir staðir eru til á jörðinni þar sem sjávarföll eru þrátt fyrir allt aðeins einu sinni á dag. Dæmi um þetta eru til að mynda við strendur Suður-Kína og Víetnam, og í Mexíkó-flóa.

Heimildir:...