Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða mánaðar- og vikudaga, nákvæmlega, var Alþingi Íslendinga sett árin 999, 1000 og 1001?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Samkvæmt Íslendingabók Ara fróða var ákveðið á Alþingi árið áður en kristni var lögtekin, „að menn skyldi svo koma til alþingis, er tíu vikur væri af sumri, en þangað til komu viku fyrr.“ Þetta kemur heim við lögbókina Grágás, sem var auðvitað skráð eftir að þessi breyting var gerð. Í Þingskapaþætti hennar segir: „Goðar allir skulu koma til þings fimmta dag viku er tíu vikur eru af sumri, áður sól gangi af Þingvelli ...“ Fræðimenn hafa yfirleitt gengið út frá því að þá um kvöldið hafi þingið verið helgað og þar með formlega sett; það gera til dæmis Einar Arnórsson í Réttarsögu Alþingis og Jón Jóhannesson í Íslendinga sögu sinni. En daginn eftir var gengið til Lögbergs, þar sem lögsögumaður sagði upp þingsköp og önnur þingstörf hófust. Það kæmi því til greina að líta á föstudaginn sem upphafsdag þingsins, en hér á eftir geng ég samt út frá því að þingið teljist hefjast strax á fimmtudaginn.

Sumar hefst á fimmtudegi, svo að fimmti dagur viku, er tíu vikur eru af sumri, er fimmtudagurinn í elleftu viku sumars, fimmtudagurinn viku fyrr í upphafi tíundu viku.


Frá Þingvöllum.

Í lok kaflans um kristnitökuna segir Ari í Íslendingabók: „En Ólafur Tryggvason féll hið sama sumar ... Það var þremur tigum vetra hins annars hundraðs eftir dráp Eadmundar, en þúsundi eftir burð Krists að alþýðu tali.“ Þetta var talin örugg heimild um að kristni hefði verið lögtekin á Alþingi árið 1000, uns Ólafía Einarsdóttir færði rök að því í doktorsritgerð sinni, árið 1964, að þessi tímatalsfræði væri reist á því að Ólafur konungur hefði ekki fallið fyrr en í september, en áramót væru í upphafi þess mánaðar. Þá koma fall Ólafs og kristnitaka Íslendinga hvort á sitt árið, fall Ólafs á árið 1000, en kristnitakan á árið 999. Fleiri líkur leiðir Ólafía að því að Ari og samtímamenn hans hafi álitið að kristni hafi verið lögtekin á því ári sem við köllum 999 en ekki 1000 (um það má lesa á íslensku í Skírni árið 1967). Þó geta rök Ólafíu tæpast talist alveg örugg, og því verður hér nokkur óvissa um hvort fyrsta árið þegar Alþingi kom saman í upphafi elleftu viku, en ekki tíundu, var árið 999 eða 1000. Þess vegna verður óvissa um samkomudag þingsins árið 999.

Samkvæmt Réttarsögu Alþingis gat ellefta vika sumars byrjað á bilinu frá 18. til 24. júní, eftir því á hvaða mánaðardegi sumar byrjaði. Þá þurfum við að vita hvaða dag á þessu bili bar upp á fimmtudag á þeim árum sem um er að ræða. Til þess eru vísast til ólíkar aðferðir, en ég nota eilífðaralmanak (perpetual calendar) sem ég á í gamalli ensk-enskri orðabók (Webster’s New School and Office Dictionary frá 1963). Þar má slá því upp að árið 999 bar 22. júní upp á fimmtudag, árið 1000 20. júní (vikudagurinn færist um tvo daga því að árið 1000 var hlaupár í júlíönsku tímatali) og árið 1001 19. júní.

Það sem hér hefur verið rakið leiðir til þeirrar ályktunar að árið 1000 hafa menn komið til Alþingis 20. júní og árið 1001 19. júní. Um árið 999 verður að hafa fyrirvara: Ef kristni var lögtekin árið 1000, þá hafa menn komið til Alþingis viku fyrr þetta ár, 15. júní. Ef kristnitökuárið var 999, þá hafa menn komið til Alþingis 22. júní.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

3.5.2000

Spyrjandi

Hreiðar Ingi Þorsteinsson

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvaða mánaðar- og vikudaga, nákvæmlega, var Alþingi Íslendinga sett árin 999, 1000 og 1001?“ Vísindavefurinn, 3. maí 2000, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=390.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2000, 3. maí). Hvaða mánaðar- og vikudaga, nákvæmlega, var Alþingi Íslendinga sett árin 999, 1000 og 1001? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=390

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvaða mánaðar- og vikudaga, nákvæmlega, var Alþingi Íslendinga sett árin 999, 1000 og 1001?“ Vísindavefurinn. 3. maí. 2000. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=390>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða mánaðar- og vikudaga, nákvæmlega, var Alþingi Íslendinga sett árin 999, 1000 og 1001?
Samkvæmt Íslendingabók Ara fróða var ákveðið á Alþingi árið áður en kristni var lögtekin, „að menn skyldi svo koma til alþingis, er tíu vikur væri af sumri, en þangað til komu viku fyrr.“ Þetta kemur heim við lögbókina Grágás, sem var auðvitað skráð eftir að þessi breyting var gerð. Í Þingskapaþætti hennar segir: „Goðar allir skulu koma til þings fimmta dag viku er tíu vikur eru af sumri, áður sól gangi af Þingvelli ...“ Fræðimenn hafa yfirleitt gengið út frá því að þá um kvöldið hafi þingið verið helgað og þar með formlega sett; það gera til dæmis Einar Arnórsson í Réttarsögu Alþingis og Jón Jóhannesson í Íslendinga sögu sinni. En daginn eftir var gengið til Lögbergs, þar sem lögsögumaður sagði upp þingsköp og önnur þingstörf hófust. Það kæmi því til greina að líta á föstudaginn sem upphafsdag þingsins, en hér á eftir geng ég samt út frá því að þingið teljist hefjast strax á fimmtudaginn.

Sumar hefst á fimmtudegi, svo að fimmti dagur viku, er tíu vikur eru af sumri, er fimmtudagurinn í elleftu viku sumars, fimmtudagurinn viku fyrr í upphafi tíundu viku.


Frá Þingvöllum.

Í lok kaflans um kristnitökuna segir Ari í Íslendingabók: „En Ólafur Tryggvason féll hið sama sumar ... Það var þremur tigum vetra hins annars hundraðs eftir dráp Eadmundar, en þúsundi eftir burð Krists að alþýðu tali.“ Þetta var talin örugg heimild um að kristni hefði verið lögtekin á Alþingi árið 1000, uns Ólafía Einarsdóttir færði rök að því í doktorsritgerð sinni, árið 1964, að þessi tímatalsfræði væri reist á því að Ólafur konungur hefði ekki fallið fyrr en í september, en áramót væru í upphafi þess mánaðar. Þá koma fall Ólafs og kristnitaka Íslendinga hvort á sitt árið, fall Ólafs á árið 1000, en kristnitakan á árið 999. Fleiri líkur leiðir Ólafía að því að Ari og samtímamenn hans hafi álitið að kristni hafi verið lögtekin á því ári sem við köllum 999 en ekki 1000 (um það má lesa á íslensku í Skírni árið 1967). Þó geta rök Ólafíu tæpast talist alveg örugg, og því verður hér nokkur óvissa um hvort fyrsta árið þegar Alþingi kom saman í upphafi elleftu viku, en ekki tíundu, var árið 999 eða 1000. Þess vegna verður óvissa um samkomudag þingsins árið 999.

Samkvæmt Réttarsögu Alþingis gat ellefta vika sumars byrjað á bilinu frá 18. til 24. júní, eftir því á hvaða mánaðardegi sumar byrjaði. Þá þurfum við að vita hvaða dag á þessu bili bar upp á fimmtudag á þeim árum sem um er að ræða. Til þess eru vísast til ólíkar aðferðir, en ég nota eilífðaralmanak (perpetual calendar) sem ég á í gamalli ensk-enskri orðabók (Webster’s New School and Office Dictionary frá 1963). Þar má slá því upp að árið 999 bar 22. júní upp á fimmtudag, árið 1000 20. júní (vikudagurinn færist um tvo daga því að árið 1000 var hlaupár í júlíönsku tímatali) og árið 1001 19. júní.

Það sem hér hefur verið rakið leiðir til þeirrar ályktunar að árið 1000 hafa menn komið til Alþingis 20. júní og árið 1001 19. júní. Um árið 999 verður að hafa fyrirvara: Ef kristni var lögtekin árið 1000, þá hafa menn komið til Alþingis viku fyrr þetta ár, 15. júní. Ef kristnitökuárið var 999, þá hafa menn komið til Alþingis 22. júní.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...