Flestir málvísindamenn telja að á bilinu 4000-5000 tungumál séu til í heiminum. Sumir fræðimenn telja þó að þau séu mun færri eða um 2000. Af þessum aragrúa tungumála eru 12 tungumál sem meira enn hundrað milljónir manna tala. Af þeim má nefna kínversku, ensku, arabísku, spænsku, rússnesku, frönsku og japönsku. Fjórðungur jarðarbúa eða hátt á annan milljarð manna tala einhverja kínverska mállýsku. Meginmállýskurnar eru fimm: madarínska, we, min, hakka og kantónska en svo mikill munur er á þeim að málnotendur þeirra skilja ekki hver annan. Þrátt fyrir það eru mállýskurnar ekki taldar sérstök tungumál heldur teljast þær allar til kínversku og er kínverska því langmest talaða tungumálið í heiminum. Allir læsir Kínverjar geta þó skilið hver annan því að þeir nota allir sama ritmálið eða orðskriftina, óháð því hvaða mállýsku þeir tala. Sjá svar Guðrúnar Kvaran við svipaðri spurningu
Á Nýju-Gíneu og eyjunum þar í kring í Kyrrahafinu norður af Ástralíu eru töluð flest tungumál í heiminum. Tæplega 5 milljónir manna búa á eyjunni og fræðimönnum telst til að íbúarnir tali um 800 tungumál. Einungis er búið að rannsaka örfá tungumál á þessu svæði vegna þess að margir þeirra sem tala tungumálin búa inni í regnskógunum sem þekja mestan hluta landsins, og mjög erfitt er að nálgast þá. Mjög mismunandi er hversu stór hópur manna talar hvert tungumál; í sumum tilvikum eru það nokkur hundruð en í öðrum einungis nokkrir tugir manna. Mörg mál sem hafa verið töluð í heiminum eru ekki lengur til. Til dæmis voru um 250 tungumál töluð í Ástralíu áður en hvíti maðurinn kom þangað fyrir nokkur hundruð árum. Nú er svo komið að 50 tungumál hafa alveg horfið í Ástralíu, um 70 tungumál eru töluð af nokkrum tugum manna en einungis fimm eru töluð af meira en þúsund mönnum. Mörg tungumál í heiminum hafa glatast og tungumálum fækkar stöðugt. Búast má við að 3000 tungumál verði útdauð á næstu öld.