Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Finnast steingerðir ammonítar hér við land?

Leifur A. Símonarson

Ammonítar eða ammonshorn er undirflokkur sælindýra af flokki kolkrabba. Þeir eru með klefaskipta, oft kuðungslaga, ytri skel. Ammonítar voru sunddýr og flestar tegundirnar með mikla landfræðilega útbreiðslu. Ammonítar þróuðust hratt og mikið var um nýmyndun og útdauða tegunda, einkum á miðlífsöld. Þeir eru því víða mikilvægir einkennissteingervingar.

Það verður að teljast mjög ólíklegt að ammonítar finnist í jarðlögum á Íslandi. Ammonítar dóu út á mörkum krítar- og tertíertímabila fyrir um 65 milljón árum, en elstu jarðlög á Íslandi eru hins vegar 15-16 milljón ára gömul og því miklu yngri. Ammonítar voru því löngu útdauðir þegar elstu jarðlög hér á landi mynduðust.

Þegar haft er í huga að Ísland er að mestu leyti myndað við eldvirkni í tengslum við landrek á Mið-Atlantshafshryggnum eru afar litlar líkur á því að gömul jarðlög með ammonítum leynist einhvers staðar undir landinu. Ef svo væri gætu setklumpar, til dæmis úr sandsteini, með ammonítum hugsanlega borist upp í yfirborðslög með bergkviku í eldgosum. Slíkir hnyðlingar með steingervingum eru þekktir, til dæmis í Surtsey, Heimaey og víða í Mýrdalnum. Þessir steingervingar eru þó allir frekar ungir jarðsögulega séð og varla eldri en 3,5 milljón ára.

Hins vegar er ekki unnt að útiloka að setklumpar með ammonítum berist út í sundið milli Grænlands og Íslands og jafnvel langleiðina til Íslands, til dæmis með hafís. Þar hafa áhafnir íslenskra fiskiskipa fundið allstór setstykki með samlokuskeljum, sem eru um 260 milljón ára. Þessi setbrot eru líklega komin frá svæði norðan við Scoresbysund á Austur-Grænlandi.

Eins og áður sagði dóu ammonítar út á mörkum krítar- og tertíer-tímabila fyrir um 65 milljón árum. Fyrir tveimur árum fundust í Stevns Klint í Danmörku leifar af ammónítum í jarðlögum rétt ofan við þessi mörk og eru þeir ekki taldir ættaðir úr eldri jarðlögum, það er að segja fluttir til úr setlögum frá krítartímabili sem voru að rofna niður þegar þessi yngri lög voru að myndast. Ef þetta mat manna er rétt má leiða að því líkur að þarna sé um að ræða yngstu ammóníta sem fundist hafa.



Mynd: Artistes des Bijouy: Fossil Collection: Discover the wonders of past times

Höfundur

prófessor í steingervingafræði við HÍ

Útgáfudagur

8.11.2001

Spyrjandi

Haraldur Ólafsson

Tilvísun

Leifur A. Símonarson. „Finnast steingerðir ammonítar hér við land?“ Vísindavefurinn, 8. nóvember 2001. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1941.

Leifur A. Símonarson. (2001, 8. nóvember). Finnast steingerðir ammonítar hér við land? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1941

Leifur A. Símonarson. „Finnast steingerðir ammonítar hér við land?“ Vísindavefurinn. 8. nóv. 2001. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1941>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Finnast steingerðir ammonítar hér við land?
Ammonítar eða ammonshorn er undirflokkur sælindýra af flokki kolkrabba. Þeir eru með klefaskipta, oft kuðungslaga, ytri skel. Ammonítar voru sunddýr og flestar tegundirnar með mikla landfræðilega útbreiðslu. Ammonítar þróuðust hratt og mikið var um nýmyndun og útdauða tegunda, einkum á miðlífsöld. Þeir eru því víða mikilvægir einkennissteingervingar.

Það verður að teljast mjög ólíklegt að ammonítar finnist í jarðlögum á Íslandi. Ammonítar dóu út á mörkum krítar- og tertíertímabila fyrir um 65 milljón árum, en elstu jarðlög á Íslandi eru hins vegar 15-16 milljón ára gömul og því miklu yngri. Ammonítar voru því löngu útdauðir þegar elstu jarðlög hér á landi mynduðust.

Þegar haft er í huga að Ísland er að mestu leyti myndað við eldvirkni í tengslum við landrek á Mið-Atlantshafshryggnum eru afar litlar líkur á því að gömul jarðlög með ammonítum leynist einhvers staðar undir landinu. Ef svo væri gætu setklumpar, til dæmis úr sandsteini, með ammonítum hugsanlega borist upp í yfirborðslög með bergkviku í eldgosum. Slíkir hnyðlingar með steingervingum eru þekktir, til dæmis í Surtsey, Heimaey og víða í Mýrdalnum. Þessir steingervingar eru þó allir frekar ungir jarðsögulega séð og varla eldri en 3,5 milljón ára.

Hins vegar er ekki unnt að útiloka að setklumpar með ammonítum berist út í sundið milli Grænlands og Íslands og jafnvel langleiðina til Íslands, til dæmis með hafís. Þar hafa áhafnir íslenskra fiskiskipa fundið allstór setstykki með samlokuskeljum, sem eru um 260 milljón ára. Þessi setbrot eru líklega komin frá svæði norðan við Scoresbysund á Austur-Grænlandi.

Eins og áður sagði dóu ammonítar út á mörkum krítar- og tertíer-tímabila fyrir um 65 milljón árum. Fyrir tveimur árum fundust í Stevns Klint í Danmörku leifar af ammónítum í jarðlögum rétt ofan við þessi mörk og eru þeir ekki taldir ættaðir úr eldri jarðlögum, það er að segja fluttir til úr setlögum frá krítartímabili sem voru að rofna niður þegar þessi yngri lög voru að myndast. Ef þetta mat manna er rétt má leiða að því líkur að þarna sé um að ræða yngstu ammóníta sem fundist hafa.



Mynd: Artistes des Bijouy: Fossil Collection: Discover the wonders of past times

...