Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Erfitt er að segja til um hvenær fyrst var farið að nota punkta og kommur í rituðu máli og upplýsingar um það efni virðast ekki liggja á lausu. Í ýmsum fornum textum, til dæmis hettitískum áletrunum og textum skrifuðum á sanskrít, eru oftast engin sýnileg merki. Í öðrum textum má sjá strik, oftast lóðrétt eða á ská, þar sem skipt er um efni. Greinarmerkjasetning virðist ekki hafa verið komin í fastar skorður þegar guðspjöllin voru rituð þótt merki til aðgreiningar finnist í hinum fornu handritum.
Í ritinu Early Icelandic Script (1965), sem sýnir texta frá 12. og 13. öld, má finna sýnishorn af elstu íslensku handritunum. Þar má sjá að punktar eru víðast notaðir í lok setninga og byrjað á stórum staf í næsta orði. Punktar eru í sumum handritum inni í setningum til að gera hlé á frásögninni líkt og nú er gert með notkun kommu. Í sumum handritum eru notuð greinaskil, í öðrum ekki. Í mörgum þeirra byrja nýir kaflar á mjög stórum upphafsstaf miðað við annað letur og er þá línan fyrir ofan ekki fyllt út til fulls.
Í þessu handriti má sjá stóran staf í upphaf kafla og nokkur greinarmerki.
Á 16. öld hófst prentun bóka. Fyrsta íslenska bókin, þýðing Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu, var prentuð í Hróarskeldu 1540. Greinarmerkjasetningin virðist hafa tekið mið af ritun handrita. Að jafnaði, en þó ekki alltaf, er punktur aðeins notaður við greinaskil þar sem ný lína hefst á eftir. Einnig er notað skástrik (/) sem kemur bæði í stað punkts og kommu.
Festa fór að komast á notkun greinarmerkja í lok 18. aldar. Í ritinu Lijtid Stafrofs Kver med Catechismo og Fleyru Smaa-Vegis frá 1776 eru reglur um „aðgreiningarmerki“, sem greinarmerki voru þá kölluð, til þess að gera lestur skýrari og áheyrilegri.
Rasmus Kristian Rask var danskur málfræðingur sem lét sig íslenskt mál og menningarlíf miklu skipta (sjá eftir Magnús Snædal). Rask gaf út Lestrarkver handa heldri manna börnum árið 1830, og birti þar reglur um greinarmerki. Þessar reglur urðu fyrirmyndir Halldórs Kr. Friðrikssonar í riti hans Íslenzkar rjettritunarreglur frá 1859, þó ekki óbreyttar. Halldór kenndi íslensku í um fimmtíu ár í Lærða skólanum og bók hans hefur átt allnokkurn þátt í að koma reglu á greinarmerkjasetningu. Þar er fjallað um kommu, sem hann kallar högg, semíkommu, sem hjá honum nefnist depilhögg, punkt, sem kallaður er depill, tvípunkt, sem Halldór kýs að kalla tvísting, spurningarmerki og upphrópunarmerki, sem nefnt er hjá honum köllunarmerki.
Þegar kom fram á 20. öld þótti margt í reglum Halldórs orðið úrelt. Freysteinn Gunnarsson skrifaði rækilegan kafla um greinarmerki í bók sinni Ágrip af setningarfræði og greinarmerkjafræði sem gefin var út 1925. Sú bók var lengi notuð en síðar tóku við reglur Björns Guðfinnssonar málfræðings. Þær voru notaðar í skólum til ársins 1974 en þá voru reglur um greinarmerkjasetningu gefnar út af menntamálaráðuneytinu.
Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd
Guðrún Kvaran. „Hvenær var upphaflega farið að nota punkta, kommur og greinaskil?“ Vísindavefurinn, 4. apríl 2007, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6579.
Guðrún Kvaran. (2007, 4. apríl). Hvenær var upphaflega farið að nota punkta, kommur og greinaskil? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6579
Guðrún Kvaran. „Hvenær var upphaflega farið að nota punkta, kommur og greinaskil?“ Vísindavefurinn. 4. apr. 2007. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6579>.